England ekki með á EM

Jæja, ég er nú ekki aðdáandi Englands (held ávallt með Hollandi á stórmótum) en það vilja eflaust margir spjalla um Englands og Íslandsleikina í kvöld. England tapaði allavegana fyrir Króatíu 3-2 á Wembley og verður því ekki með á EM næsta sumar. Steven Gerrard, Scott Carson og Peter Crouch fá því langt sumarfrí.

Scott Carson fékk á sig algjört aulamark í kvöld og enska pressan mun sennileg gera hann að blóraböggli fyrir tapið, sem og auðvitað Steve McClaren. Carson fékk á sig skot af löngu færi, sem skoppaði á hálum vellinum rétt fyrir framan hann og í netið. Það er alveg ljóst að kaupverð Aston Villa á Carson hefur eitthvað lækkað í kvöld. En fyrst og fremst verður það að teljast fáránlegt af Steve McClaren að skipta um markmann í mikilvægasta leik ársins á rennblautum Wembley vellinum.

Peter Crouch (sem mér fannst vera besti leikmaður Englands í leiknum) skoraði frábært jöfnunarmark Englands 2-2 og leit á tímabili út fyrir að hann yrði hetja liðsins, en Króatar skoruðu þriðja markið með langskoti. Guðjón Guðmundsson fór mikinn í að halda því fram að Carson hafi verið um að kenna fyrir markið, en það var í mínum huga **augljóst** að Micah Richards á sökina á markinu því hann víkur sér undan skotinu. Hann byrjar á að blokka útsýni fyrir Carson og þegar boltinn kemur að honum, þá snýr hann sér til hliðar og þá hefur Carson ekki nægan tíma til að bregðast við.

En hvað svo sem manni finnst um England, þá verður það leiðinlegt að hafa þá ekki með á EM. Ekkert lið frá Bretlandseyjum nær á EM, sem er nokkuð magnað.

Að lokum, þá verð ég að minnast á það hversu óbærilegt það getur verið að horfa á leik með lýsingu Guðjóns Guðmundssonar. Hann verður hreinlega að gera sér grein fyrir því að hann er *lýsandi* en ekki *gagnrýnandi*. Hann á að segja hvað er að gerast, en ekki segja okkur skoðun sína á hverri einustu sendingu.

77 Comments

  1. Fyrsta stórmótið síðan HM ´94 í Bandaríkjunum sem England tekur ekki þátt í. Ég hefði nú frekar viljað sjá enska á EM heldur en Rússa en þetta þýðir þá í staðinn að okkar menn í liðinu fá góða hvíld næsta sumar. Það er náttúrulega jákvætt.

    Aumingja Scott Carson 🙁

  2. Ok, góður markvörður hefði tekið þetta skot í lokin. Scott Carson er ekki góður markvörður, það sjá það allir nema þrír fjórir Liverpool-menn sem er meir að segja ástæðulaust þar sem drengurinn er enginn Liverpool-maður. Nú verður þetta Gerrard-Lampard ævintýri á ensku miðjunni líka að taka enda, hrein hörmung. Þó hann spili með viðbjóðslegasta liði evrópu fann ég ekkert lítið til með Wayne Rooney þegar hann sat þarna á bekknum.

  3. Flott að sjá enska detta út. Er hreint ekki sammála þér um Gaupa, þar fer á ferð algjör yfirburðamaður á sínu sviði á Íslandi síðan Bjarni Fel fór að láta minna fyrir sér fara.

  4. Sammála þér með Gaupa. Gagnrýnir aðeins of mikið en að sjálfsögðu á hann að vera hlutlausi maðurinn sem segir hvað er að gerast.
    Persónulega hlakka ég ekki til EM án Englendinga. En svona er þetta, þeim sjálfum að kenna. Ef þeir vinna ekki Króata eða Rússa eiga þeir ekki heima á EM.

  5. Sýn heldur áfram að fara í taugarnar á mér. Hef alltaf verið með Sýn Extra enda verið áskrifandi að Sýn lengi en í kvöld dettur Extra út af. Helv.. viðvaningar að vinna hjá þessu ömurlega fyrirtæki.

    En mjög sáttur, með að England komst ekki áfram því þá fá Gerrard og Crouch sumarfrí loksins.

  6. Endilega ekki spara yfirlýsingarnar, Elías.

    Og varðandi Gaupa, þá er það ekki bara gagnrýnin, heldur líka lofið – einsog t.d. á Beckham. Lýsandi á að segja mér hvað er að gerast í leiknum (t.d. hvaða Króatar eru með boltann) – ég skal sjá um að gera það upp við mig hvort að menn séu að spila vel eða illa.

  7. Sælir félagar
    Scott Carson sýndi í kvöld að hann nær varla máli enn sem komið er. Hann stóð ekki undir því trausti sem honum var sýnt og ekkert meira um það að segja. Hitt er gleðiefni að McClaren er vonandi út úr myndinni sem landsliðsþjálfari Englands enda hefur maður sem velur sér Wery Terrible sem aðstoðarmann örugglega öllum heillum horfinn í knattspyrnu.
    Nú getur maður heils hugar haldið með Frakklandi sem hafa verið mitt annað lið í Evrópu á eftir Englendingum.

    Það er nú þannig.

  8. Þessi undankeppni er söguleg – og ég held að það að ekkert lið af Bretlandseyjum komst áfram muni þýða það að það verður alger uppskurður gerður á uppbyggingu enskra landsliða og jafnvel ensku deildina.
    Byrjunarlið enskra í kvöld:
    Markmaður sem er varamarkmaður Liverpool. Vörnin. Leikmaður ManCity, Portsmouth Everton og varamaður hjá Chelsea. Á miðjunni leikmaður Aston Villa, fyrirliði Liverpool og þrír Chelseamenn, þar af einn fastamaður og svo frammi “rotation” senter.
    Menn mega svo auðvitað tala um Rooney og Ferdinand en staðreyndin er sú að það eru einfaldlega fáir almennilegir enskir leikmenn að koma upp.
    Auðvitað verður Liverpool eins og hin stórliðin að skoða það hvort þeir eru að gera rétt. Við yrðum ekki endilega glöð ef í t.d. FH eða Val væru 1-2 Íslendingar í leikmannahóp.
    Bestu liðin á Spáni eru að skila leikmönnum hægri vinstri í spænska landsliðið, eins á Ítalíu, mun meira í Frakklandi en Englandi og nær algerlega í Þýskalandi.
    Þessar þjóðir verða með á næsta ári og þess vegna held ég að þessi úrslit í kvöld skipti okkur Liverpoolmenn máli. Eina sem verður undarlegt í þessu er að enska knattspyrnusambandið (FA) ræður ekki almennilega yfir Premier League og því er það flókið dæmi að setja reglur um útlendinga, eins og t.d. eru á Spáni og Ítalíu.
    Ég hef eins og menn sjá röflað yfir því að fá ekki að sjá Jack Hobbs spila, en því miður sé ég nú ekki marga aðra enska í unglingastarfinu fyrr en eftir 4-5 ár og ég viðurkenni alveg að mér finnst það ekki nógu skemmtilegt. Auðvitað er gaman af góðum leikmönnum eins og Torres, Reina, Agger, Alonso, Benayoun og Babel, en uppáhaldsliðið mitt hjá Liverpool hafði einn leikmann í liðinu sem ekki var Breti, Danann Jan Mölby.
    En EM næsta ár verður ekki samt án Englands og ég viðurkenni alveg að ég er ekkert spenntur fyrir þessari keppni í Austurríki og Sviss, spái því að Ítalía og Þýskaland leiki úrslitaleik sem endar í vító eftir 0-0 jafntefli.
    Því miður.
    Ætla ekki að tala um Ísland, varð fyrir vonbrigðum um margt, eiginlega allt nema Elmar, Ragnar Sig og Grétar Steins.

  9. Þetta kvöld fór eiginlega nákvæmlega eins og ég bjóst við. Byrjum á byrjuninni:

    1. Scott Carson er stórefnilegur markvörður sem hefur alla burði til að gera landsliðsstöðuna hjá Englendingum að sinni eigin. Til þess þarf hann tvennt; hann þarf tíma og hann þarf að nýta þann tíma til að spila reglulega með liði í fremstu röð. Þennan tíma mun hann ekki fá hjá Liverpool og því verður hann ekki einn af „okkar mönnum“ eftir janúarmánuð næstkomandi. Engu að síður hika ég ekki við að styðja þá skoðun mína að Carson er framtíðarmarkvörður enska landsliðsins.

    2. HINS VEGAR gat hvaða fjárhirðir og ruslakarl sem er útí bæ séð það að það kann ekki góðri lukku að stýra að leyfa Carson að spila sinn fyrsta keppnisleik fyrir England undir þeim kringumstæðum sem mættu honum í kvöld. Auðvitað gat McClaren ekki séð rigninguna fyrir og að því eina leyti er hann undanskilinn gagnrýni, en ef hann ætlaði að taka Robinson út úr liðinu á þessari ögurstundu átti hann að sjálfsögðu að setja reyndari markvörðinn, hinn þrautseiga David James, inn í liðið. Þótt Carson sé fullorðinn maður sem verði að bera ábyrgð á eigin skelfingarmistökum í fyrsta markinu getur maður ekki annað en horft á manninn á hliðarlínunni sem er meira en tvöfalt eldri en hann, var byrjaður að þjálfa þegar Carson var enn í bleyju, og hefði átt að vita betur.

    3. Undankeppni EM telur tólf leiki; sex á heimavelli og sex á útivelli. Flest lið spila nokkra æfingaleiki áður en undankeppnin hefst og svo aðra tvo-þrjá inn á milli leikja yfir þá fimmtán mánuði sem undankeppnin tekur. Landsliðsþjálfari sem er að skipta um aðalmarkvörð, prófa nýja liðsuppstillingu og nýja leikaðferð í síðasta leik undankeppninnar hefur augljóslega ekki hugmynd um hvað hann er að gera. Slíkar gjörðir lykta illilega af bæði skipulagsleysi og skorti á yfirsjón, hvort tveggja skýrar vísbendingar um það að umræddur þjálfari sé ekki starfi sínu vaxinn. Steve McClaren mun aldrei stjórna enska landsliðinu í öðrum leik, það er bara ekki séns.

    4. Svona eins og til að fullkomna sinn eigin gamanleik, þá sneri ég mér að föður mínum þegar Króatar bjuggust til að taka miðju eftir að Crouch jafnaði metin í síðari hálfleik. Þar sem við sátum við tækið heima og horfðum á McClaren og einn aðstoðarþjálfara hans standa á hliðarlínunni og æpa og benda með miklum látum á sína menn að bakka í vörn og halda þessari stöðu hafði ég á orði við föður minn að þótt ég væri ekki landsliðsþjálfari Englendinga sæi ég skýrt og greinilega að þetta væri ekki góð hugmynd. Króatar höfðu verið betur spilandi liðið, meira með boltann og valdið vörn Englendinga meiri usla heldur en öfugt í þessum leik. Hvernig í ósköpunum maður sem fær borgaðar sex milljónir punda yfir tvö ár til að stjórna enska landsliðinu gat ekki fattað að það væri slæm hugmynd að hleypa Króötum aðeins nær vítateig andstæðinganna bara skil ég ekki.

    5. Englendingar þurftu á þessu tapi að halda. Ég sagði það í pistlinum fyrir kvöldið og ég segi það aftur; þessi úrslit eru skelfileg fyrir enska landsliðið til skamms tíma litið, en ef rétt er haldið á spilunum gætu þau orðið eitt það besta sem hefur komið fyrir þar á bæ í langan tíma. Ef menn hefðu slefað inn í úrslit EM á grútlélegu jafntefli og getuleysi Rússa hefði ekkert breyst; þeir hefðu dottið út í riðlum eða 8-liða úrslitum mótsins næsta sumar og ráðið einhvern eins og Alan Curbishley eða Sam Allardyce sem næsta landsliðsþjálfara. Þökk sé tapinu í kvöld neyðast enskir hins vegar til að horfa á eigin nafla næstu tíu mánuðina og ég trúi því að eftir slíka naflaskoðun verði landslið þeirra miklu sterkara fyrir vikið.

    Nú skulum við ímynda okkur sem snöggvast að ég sé sérlegur ráðgjafi yfirmanna enska knattspyrnusambandsins. Þeir eru nýbúnir að taka hina augljósu ákvörðun um að reka Steve McClaren, sem heldur að hann komist upp með hvað sem er, og koma til mín og spyrja ráða. Ég gef þeim eftirfarandi ráð:

    Hringið tvö símtöl. Í báðum símtölum skal það sama koma fram; þú ert annar tveggja þjálfara sem eru þeir einu í heiminum sem koma til greina sem næsti þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu. Við erum reiðubúnir að bíða alveg fram á næsta sumar eftir þér ef þú bara kemur. Við erum með óútfyllta ávísun; það hafa allir sitt verð, nefndu þitt og við fyllum ávísunina út. Sá ykkar sem er fyrri til að ganga til liðs við okkur verður ráðinn.

    Þessi tvö símtöl skulu stíluð á José Mourinho og Fabio Capello. Þar með lýkur minni ráðgjöf, takk fyrir.

    Eins og einhver sagði einhvern tímann: „Ef þú vilt fá meðalmennsku ræðurðu ágætan þjálfara. Ef þú vilt ná árangri sættirðu þig ekki við neitt minna en þá bestu. Steve McClaren, Alan Curbishley, Sam Allardyce og Martin O’Neill eru ágætir. Fabio Capello er sá besti.“

  10. Ef Mourinho verður ráðinn þjálfari enska landsliðsins mun Liverpoolbúum sem styðja landsliðið sitt fækka til muna. Þeir eru ca. 5 núna en mun fækka niður í 1 eða 2.

    Persónulega er mér nokk sama um enska landsliðið, en ég óska engum þess að fá hrokafyllsta, óheiðarlegasta og leiðinlegasta mann heims sem þjálfara. Bara svona af prinsippástæðum.

  11. Ég tek undir það með þér Liverpoolbúi og maður skilur vel af hverju. Rétt eins og að ef Wenger eða Ferguson yrðu ráðnir myndu Chelsea-aðdáendur eiga erfiðara með að styðja landsliðið, rétt eins og aðdáendur United, Chelsea og Arsenal þætti skrýtið að eiga skyndilega að styðja Benítez sem landsliðsþjálfara.

    Málið er bara að landslið eru og verða að vera yfir kappsemi félagsliðanna hafin. Ef leikmenn frá erkifjendum eins og Gerrard og Lescott, Ferdinand og Richards eða (einhver ímyndaður, enskur Arsenal-leikmaður) og Ashley Cole geta spilað saman fyrir landsliðið verða menn að geta stutt landsliðið sitt líka. Ég er harður FH-ingur en það hefur aldrei hindrað mig í að styðja landslið Íslands að sjá nokkra Valsara og KR-inga í liðinu.

    Ég er svo sem enginn stuðningsmaður Englands en fyrir mér er þetta algjör no-brainer … ef menn vilja vera vinsælir ráða þeir einhvern eins og Martin O’Neill eða Alan Curbishley, sem öllum er vel við og ýta ekki við neinum. Ef menn hins vegar vilja vera sigursælir ráða þeir einhvern eins og Mourinho eða Capello, jafnvel þótt það þýði að liðið verði óvinsælla en ella í Manchester- og Liverpool-borgum í tíð Mourinho.

  12. Þú segir nokkuð Kristján. Málið er að mér hefur fundist fólk almennt bera talsvert mikið meiri virðingu fyrir Ferguson og Wenger heldur en Mourinho, a.m.k. hér í Liverpool. Mönnum finnst Wenger, og þó sérstaklega Ferguson óþolandi, sem þeir vissulega eru, en bera þó virðingu fyrir þeim sem góðum þjálfurum. Mourinho er hinsvegar einfaldlega of óþolandi leiðinlegur og mikill hrokafábjáni til að fólk geti séð í gegnum fingur sér með hann. Það má alls ekki vanmeta hversu mikið maðurinn er hataður af öllum nema örfáum Chelsea mönnum. Ég neita að trúa því að ekki séu til jafngóðir þjálfarar og hann sem eru ekki handhafar titilsins “mest óþolandi einstaklingur mannkynssögunnar”. En eins og ég sagði þá er mér, eins og meirihluta þeirra sem búa í þessari borg, nokk sama um þetta blessaða enska landslið.

  13. það sama má segja um hödda magg, sem velur sér alltaf einn mann fyrir hvern leik sem hann lýsir og rakkar hann niður og gagnrýnir allt í leik eftirfarandi manns.. [ritskoðað – KAR]

  14. Jæja hvað getur maður sagt… þessi úrslit koma manni ekki í opna skjöldu. Enska liðið er einfaldlega slakt og afar illa stjórnað. McClaren verður rekinn og tekur við Birmingham (verði þeim að góðu). Ég held að enska pressan sjái núna að Sven-Göran var ekki svo alslæmur.

    Hvað varðar DK – IS þá var óhugnanlega kalt á vellinum og svo virtist vera einnig hjá “strákunum okkar”. Klaufalegt fyrsta markið þegar boltinn dettur fyrir Bendtner, lítið hægt að gera við því. Annað markið á fyrirliðinn skuldlaust og týpískt að fá þriðja markið og þar með afgerandi tap staðreynd. Eftir stendur að liðið var skárra en undanfarið og vonandi mögulegt fyrir Ólaf að byggja upp lið og leikkerfi sem getur skilað einhverjum stigum í kassann.

  15. Hneisan í dag var að láta Scott Carson í markið. Bara fyrir það ætti Maclaren að fjúka. Þetta er þvílíkt mikilvægur leikur. Og ef það hefðu verið einhverjar heilar skrúfur í hausnum á Maclaren þá hefði hann getað getið sér til að þess að væri ekki nokkur einasti séns að Robinson hefði klúðrað leik tvisvar í röð á móti Króatíu.

    Og úr þvi hann þurfti að henda Robinson úr liðinu…. af hverju í heitasta .. fékk ekki James að taka ábyrgðina????

    Annars eiga Englendingar bara engan veginn skilið að fara áfram. Svo einfalt er það. Þetta landslið er bara ekki að gera sig. Svo einfalt er það.

    Sammála KAR að Mhúhúino væri fínn kostur fyrir þetta landslið. Eitt er víst að hann myndi svo sannarlega hrista upp í þessu. Svo mikið er víst. Annars held ég að FA hafi ekki efni á honum!!!!!!!!

  16. Skemmtilegt hvað þið eruð allir klárir á því núna að Carson hafi ekki átt að vera í markinu. Enginn gat fundið að þessari ákvörðun um daginn og aðallega talað um að þetta myndi nú hækka verðmiðann á stráknum.

  17. Ég hef alltaf verið Þýskalands aðdáandi og því oftast nokk sama um enska landsliðið. En þar sem áhugi minn á landsleikjum hefur dvínað all hressilega stóð ég mig að því að hreinlega halda með Englandi í kvöld, sagði við einn scouser félaga minn í stöðunni 1-2 “don´t worry Crouch will finish this” og var því ansi hróðugur þegar hann jafnaði nokkrum mín síðar!!!!

    En í þessari stöðu gerðu enskir sín mestu mistök með því að hreinlega hætta, þeir voru með gott momentum í gangi og í staðin fyrir að halda því áfram hreinlega skiptu þeir niður um tvo gíra og ætluðu að halda. Liðið var hreint fáránlega óöruggt á boltann (mest allann leikinn) miðað við það vera á heimavelli, troðfullum Wembley btw.

    Eins verð ég nú að segja að enskir aðdáendur fá ekki neitt rosalega einkunn hjá mér í kvöld eða undanfarið, alls ekki nógu góð eining og ég er ekki frá því að éir hefðu átt að hafa þessa stóru og mikilvægi leiki á Anfield, St. James´s eða Old Trafford þar sem liðið er líklegra til að fá öflugari stuðning………og auðvitað vegna þess að Wembley var eins og karföflugarður eftir þá HEIMSKULEGU ákvörðun að leyfa AMERÍSKAN FÓTBOLTA……………JÁ AMERÍSKAN á honum stuttu fyrir mjög stóran leik hjá landsliðinu.

    Mínar kenningar fyrir þessu gengi:
    Vörn og mark: Það er þarna sem enskir tapa þessu, þeir hafa lent í ákveðnum meiðsllavandræðum, vörnin er allt of oft skipuð mönnum sem þekkjast ekki nógu vel með markvörð á bak við sig sem er ein stór taugahrúga og gerir ekkert nema skapa óöryggi út í vörnina.

    • Í leiknum í kvöld var náttulega ótrúlegt fyrir það fyrsta að hann hendir út ómeiddum markverði sem hann hefur haldið tryggð við fram til þessa, og í stað þess að setja gamlan og góðan reynslubolta sem hefur verið í fínu formi undanfarið í liðið setur hann 22 ára markvörð í sinn fyrsta alvöru leik!!!!
    • Vörnina skipa menn sem hafa ekki spilað mikið saman, miðverðirnir eru reyndar báðir góðir en hafa alls ekki leikið nógu mikið saman, W.Bridge er varla í liðinu í sínu félagsliði og Lescott hefur ekki spilað mikið með þessum þremur.
      Þeir þekkjast ekki og ná enganvegin nógu vel saman, og ofan á það hafa þeir taugaveiklaðan markvörð á bak við sig (sem er kannski taugaveiklaður vegna óöruggrar varnar)

    Mikið rosalega hlítur Mclaren að hafa saknað þess að hafa Carrager uppá að hlaupa, mann sem á hjartanu einu og sér hefði átt að vera MIKIÐ oftar hugsaður sem byrjunarliðs miðvörður (fyrir utan að hann er þræl góður líka)
    Niðurstaða: það var of mikið fyrir endla að missa Rio, Terry, G.Neville og Cole í þessum leik, lái þeim það hver sem vill.

    • Miðjan: Það sem enskum vantar alveg rosalega er tíu árum yngri (og enskur) Didi Hamann, eða einhvern sem langar til að vinna við það að verja vörnina. Barry, Hargraves eða Carrick gætu leyst þessa stöðu en Lampard og Gerrard eiga alls ekki að deila með sér miðjunni, það skilur eftir allt of mikið rými milli miðju og varnar.
    • Á könntunum eiga þeir fullt af mönnum, SWP og Cole t.d. En ég er þó á því að miðað við úrvalið sem England á af frábærum miðjumönnum að Gerrard eigi að vera í free role út frá hægri kannti eins og hann var hjá Liverpool, þó það hafi verið umdeilt í huga margra.

    • Sóknin. Það er náttulega ekki hægt að vera mikið óheppnari en Owen (dettur samt einn ástrali í hug) sem ætti að mynda massa sóknarpar með Rooney eða Crouch en fyrir utan þessa er ekkert um of auðugan garð að gresja. Defoe, Bent og Johnson hafa ekki heillað mann mikið. Walcott gæti komið þarna inn mjög fljótlega.

    En England er allavega ekki að fara á EM, ég kenni um þremur þáttum,
    1. skipulagsleysi, Mclaren fann aldrei rétta kerfið og ég er sammála KAR að mörgu leiti með þá kenningu að Mclaren er góður þjálfari og líklega þægilegur, en hann er ekki frábær. (Mind you, ég held ekki með Englandi, en ef ég gerði það þá myndi ég ekki vilja sjá Mourinho og það bara af prinsipp ástæðum).
    2. óöruggum varnarleik, þ.e GK, DL, DR, DC, DC og DM náðu ekki saman og það náðist enginn almennileg blanda sem skapaði góða hryggsúlu. (ofan á það bættist að það var oftast líka einhvað um meiðsl á miðjunni og í sókninni til að skapa trausta hryggsúlu).
    3. óheppni með meiðsli, þeir hafa nú lent í þó nokkrum slatta af meiðslum hjá lykilmönnum.

    Svo getur það líka hrjáð þá að þessir menn eru að koma inn í liðið úr mörgum félagsliðum og margir þeirra eru ekki einu sinni í byrjunarliðinu í sínum liðum.

    En það jákvæða við þetta alltsaman er þó auðvitað það að ÞESSU FOKKINGS LANDSLEIKJAHLÉI ER LOKIÐ 🙂

  18. Ég er svo hjartanlega sammála þér Einar með hann Gaupa. Fréttamenn, hvort sem það eru íþróttafréttamenn eða aðrir fréttamenn, þá er það skilyrði, og hvort það er hreinlega ekki bundið í lög einhversstaðar, að þeir skuli gæta fyllsta hlutleysis. Það er með ólíkindum hvernig hann getur hagað sér. T.d. þegar að landslið okkar Íslendinga, hvort sem það er í handbolta eða fótbolta, gengur illa þá á hann það til að koma með pistla í fréttum um hversu lélegir hinn eða þessi þjálfarinn er og lýsir sínum persónulegu skoðunum á hlutunum. Þótt að lýsendur Sýnar dansi stundum óþægilega mikið á línunni, þegar þeir eru að lýsa, þá er hann vanalega löngu kominn yfir hana. Hann á að lýsa því sem fyrir augu ber því það er “fréttinn”. Ekki hans skoðun. (þetta er kannski illa orðað komment, en maðurinn fer bara svo illilega í taugarnar á mér fyrir vond vinnubrögð. Arnar Björns og Höddi Magg eru snillingar samanborið við hann).

  19. …eitt enn varðandi leikinn í kvöld….það má auðvitað ekki gleyma því að það var akkurat enginn pressa á Króötum fyrir leikinn og það sást vel í muninum á liðunum, snemmbúið grísamark hjálpaði ekkert til….fyrir utan að Króatar eru líka bara alveg drullu góðir í fótbolta. 🙂

    Varðandi lýsendur á sýn þá fannst mér Tómas Ingi klárlega leiðinlegastur í kvöld….

    ….og hann var ekki einu sinni á skjánum.

  20. Baldvin :

    Þú sakar Gaupa um hlutdrægni og lofar síðan Hörð Magnússon? Á maður að taka þig alvarlega? Gaurinn sér ekki sólina fyrir enska landsliðinu (nóg er að benda á frammistöðu hans á HM ’06) svo ekki sé minnst á Liverpool. Með Arnar þá veit ég hreinlega ekki hvað segja skal, það er einsog maðurinn sé farinn að kalka langt fyrir aldur fram.

  21. Babu: Hann er ekki fréttamaður og hefur leyfi til þess að vera leiðinlegasti maður í heimi. 🙂

  22. Ég sagði: Arnar Björns og Höddi Magg eru snillingar samanborið við hann.
    Ég sagði aldrei að Höddi væri hlutlaus. Hann er það ekki. En hann er hátíð miðað við Gaupa. Og mér finnst í raun skömm að þessir menn skuli fái að bera titilinn fréttamenn. Til hvers eru þeir að fá alla þessa “meðhjálpara” í settið til sín? Eru það ekki “sérfræðingarnir” í settinu sem eiga að segja sína skoðun? Ekki fréttamennirnir?

  23. Þú varst að kvarta yfir hlutdrægni Gaupa og talaðir um það sem mikinn löst, sem er nú ósköp saklaus við hliðina á Herði, það er það sem ég er að benda á. Ég fer ekkert ofan að því að Gaupi er ljósárum á undan kollegum sínum, hvort sem um er að ræða á 365 eða RÚV. Það er nú heldur ekki erfitt, úrvalið er ekki glæsilegt.

    Geturðu útskýrt fyrir mér hvað þér finnst Hörður og Arnar hafa fram yfir Gaupa?

  24. Ég sem fótboltaaðdáandi er feginn að England datt út í gærkvöldi því þetta lið er akkúrat ekkert nema 11 einstaklingar og þjálfari sem í raun ætti að banna alfarið frá knattspyrnu! Vandamál enska landsliðsins liggja ekki í því hvort Robinson, Carson eða James hefði átt að vera í markinu. Þetta liggur alfarið í þjálfaranum og hugarfari leikmanna.

    Ég var að hlusta á Bilic, þjálfara Króatíu, á sky sports síðunni og mér finnst þetta viðtal við hann þar vera eitt af þeim betri viðtölum sem mðaur getur fengið við þjálfara eftir leik. Hann segir hreint út: “Wake up, England” þar sem þeir duttu ekki út í gærkvöldi heldur vegna frammistöðu sinnar í allri keppninni. Það er svo hárrétt hjá honum og hefur í raun loðað við þetta enska lið að þeir eru að detta inn í keppnir á síðustu 1-2 leikjum sem á ekki að vera issue hjá liði með svona sterka leikmenn. Sem betur fer gerðist það núna að þeir duttu út og töpuðu sanngjarnt fyrir betra liði í kvöld.

    Króatía er miklu meira lið en England þótt þeir hafi ekki nöfnin en þar vita menn hvaða stöðum þeir gegna og það er hægt að treysta á leikmenn sem spila fyrir þeirra hönd. En McClaren gerði þó einn góðan hlut áður en hann verður rekinn á eftir og það er að hvíla okkur frá ensla landsliðinu yfir eins og eitt stórmót. Þótt ég sé Liverpool aðdáandi er ekki þar með sagt að ég haldi með enska landsliðinu. Good riddance.

  25. “það var í mínum huga augljóst að Micah Richards á sökina á markinu því hann víkur sér undan skotinu”

    Þetta hlýtur náttúrulega að vera eitthvað djók hjá þér Einar.

    –> Hérna <– má sjá markið, og Micah Richards gerði ekkert rangt. Ef hann hefði ákveðið að vaða í Kranjcar kannski, en Kranjcar fær boltann semi-mitt á milli miðju og vítateigs, reynir ekkki að taka Richards á, heldur cuttar aðeins að miðju og skýtur. Skotið er af það mikilli fjarlægð, og ekki einu sinni fast, að það ætti ekki að vera mikið mál að leyfa mönnum að skjóta af þessu færi.

    Hins vegar sammála þér með Gaupa. Versta við hann er líka, ef maður er kannski að vinna eitthvað eða læra og með leikinn í gangi, og eiginilega bara að hlusta á leik sem hann lýsir, þá virðast liðin vera að eiga dauðafæri hvað eftir annað. Maðurinn öskrar “og STEVEN GERRARD SKÝTUR… en það er langt yfir”. Svo er það náttúrulega annað mál og meira, sem er viðloðandi marga lýsendur á Íslandi, ekki bara hann Gaupa vin okkar, að mér finnst skárra að hafa menn sem hafa reynslu af fótbolta sem eru að lýsa. Höddi Magg og Gummi Ben eru t.a.m. langbestu lýsendurnir á Sýn þessa dagana, og þ.a.l. á landinu.

    Og varðandi þessar hypothetical pælingar um Mourinho sem landsliðsþjálfara, þá yrði öllum stuðningsmönnum landsliðsins sama hver væri að þjálfa þá ef þeir myndu vinna eitthvað. Pressan yrði kannski meiri á Mourinho heldur en önnur nöfn (pressan þó alltaf mikil), en ef hann myndi skila titli á stórmóti þá yrði hann dýrlingur.

  26. Englendingar áttu bara ekki skilið að komast áfram. Svo einfalt er það bara. Kannski er þetta ágætis spark í rassinn fyrir enska landsliðið.

  27. Auðvitað á þjálfarinn sök á markinu Carson var taugahrúga allann leikinn og átti klárlega 2 mörk skuldlaust. Englendingar töpuðu bara verðskuldað og eiga því ekkert erindi í úrslitin.

  28. Létt ábending í morgunsárið:

    Englendingar eru íhaldssamasta þjóð í heimi, Gareth Southgate var mörg ár með áskrift að landsliðinu, líka Darren Anderton og margir fleiri, án þess að eiga þar nokkurt erindi, John Major var lengi forsætisráðherra, leigubílarnir líta eins út og fyrir fjörtíu árum og þannig mætti lengi telja. Ég spái því þess vegna að McClaren verði áfram þjálfari landsliðsins.

  29. Englands verður saknað en þeir áttu ekki góðan dag í gær.
    Mér fannst Gerrard og Peter skila sínu.
    Þrátt fyrir það þá verður að horfast í augu við það að Króatar höfðu
    þegar tryggt sér sæti og þurftu ekki að sigra þennan leik.
    Þeir voru bara miklu betri.. Það segir margt.

    McClaren hefur ekkert gert sem þjáfari og ég skil ekki afhverju hann var vallinn sem Landsliðsþjálfari?

    Ástand Wembley kom vest fyrir Englendingana og maður spyr sig hvort að þeir hefðu ekki átt að gera eitthvað varðandi það?

  30. Jæja, þá er búið að reka Second Choice Steve. Nú geta umræðurnar um eftirmann hans hafist fyrir alvöru.

    Ég veðja á að Fabio Capello verði boðið starfið. Ég heyrði í þættinum 606 Live á BBC í gær að hann á víst að hafa sagt við ítalska fjölmiðla eftir tapleik Englendinga í gær að hann væri reiðubúinn að taka við enska landsliðinu.

  31. Það munaði ekki miklu að ég hefði reynst sannspár um 2:2 jafntefli, en Króatar unnu, og það á Wembley, og þrátt fyrir að vera búnir að tryggja sér sæti … kallar maður þetta ekki metnað?

    Beckham sagði hins vegar rétt: að þetta er liðinu að kenna og þeir þurfa að sparka í afturendann á sér og hífa sig upp, koma sterkir til baka eftir svona Euro-fjarveru sjokk. Ég hef alltaf haft smátaugar til liðsins, en hafði akkúrat ekkert álit á Steve sem þjálfara. Fabio væri frábær kostur fyrir Englendinga, og Mourinho yrði ekki slæmur heldur. Þeir kunna á fjölmiðlana betur og eru ekki meðalmennskumenn eins og Steve.

    Tek hjartanlega undir með kommenti KAR (#9) og fréttirnar eru góðar … Steve rekinn, Fabio áhugasamur … allt að gerast?

  32. Af hverju hefur enginn talað um Lippi? Að mínu mati mun betri kostur en bæði Motormouth og Cappello að því leiti að hann hefur sýnt að hann getur líka stýrt landsliði á árangursríkan hátt og er líka á lausu.

  33. Þetta hlýtur náttúrulega að vera eitthvað djók hjá þér Einar.

    Halldór, lestu færsluna hjá mér. Ég er að tala um þriðja markið!

  34. Ósköp er samt ástandið aumt í Englandi ef að ekki er til hæfur Englendingur til að taka við landsliðinu, fáir leikmenn sem koma upp og engir þjálfarar. Ég hef samt þá skoðun að alvöru knattspyrnuþjóðir ráða ekki útlendinga sem þjálfara. Sama hvað Spánverjum gengur illa og þjóðverjum síðustu ár þá myndu þessar þjóðir aldrei hugsa um að ráða útlending sem þjálfara. Hvað þá Ítalir og Frakkar og svo er reyndar um flestar aðrar þjóðir. Auðvitað eiga Tjallarnir að ráða Tjalla og reyna halda einhverju stolti. Þeir eru nú þokkalega stór knattspyrnuþjóð og fyrir neðan þeirra virðingu að þurfa á útlendingum að halda. Martin O’Neill, Harry Redknapp, Steve Coppell eða Paul Jewell væru skástu nöfnin.

  35. Frekar leiðinlegt að England detti út því maður fylgist alltaf með enska boltanum en hvernig mátti annað vera. Liðið er búið að spila vondan bolta undanfarið með hugmyndasnauðan og leiðinlegan þjálfara. Kannski er þetta eitt af náttúrulögmálunum, það þarf að hreinsa til ef ekki með góðu þá með illu. Enska knattspyrnusambandið er heiladautt að velja svona þjálfara og því þarf einhver annar að taka þessa ákvörðun fyrir þá, sumsé náttúran sjálf. En dýrt er það að vera ekki með. Og sárt fyrir frægu fyrirsæturnar í enska boltanum.

  36. Ég skil ekki hvernig er hægt að segja að enska landsliðsins verði saknað á EM. Það mun enginn sakna enska landsliðsins á stórmóti enda er það all-leiðinlegt lið á að horfa; hins vegar skapar fjöldi áhorfenda sem liðið tekur með sér á þessi mót skemmtilega stemmingu á leikina (þó kannski ekki á borgirnar í kringum leikina reyndar). Ástæðan fyrir að að England kemst ekki á EM er einfaldlega að leikmennirnir eru ekki nógu góðir; Króatar voru tæknilega mun fágaðri en Englendingarnir í gærkvöld og nánast annað hvert landslið í Evrópu er orðið það. Englendingar þurfa að fara í barna- og unglingastarf sitt alveg ofan í grunninn og breyta fílósófíunni þar til þess að geta náð árangri í framtíðinni.

    Svo er þetta Lampard/Gerrard saman á miðjunni orðið mjög þreytt. Ég persónulega þoli ekki Lampard en Gerrard er búinn að vera grútlélegur þarna fyrir þá líka, sama hvort Lampard er við hliðina á honum eða ekki.

  37. Ég spái Króötum alveg í undanúrslit á EM. Rússar hljóta að dýrka Króata núna og sé það fyrir mér að Rússar gefi Króötum frítt gas í nokkur ár.

    Englendingar áttu samt ekki skilið að komast á EM í ár og sakna ég þeirra ekki þar sem margar góðar þjóðir verða þar. Spái Króötum, Tékkum, Spánverjum og Þjóverjum í undanúrslit.

    PS: Gerrard, Carson og Crouch. Til hamingju með komandi sumarfrí hjá ykkur. Verði ykkur að því, McLaren afþakkar blóm og kransa.

  38. Var ég einn um það að verða alveg meira en nett pirraður í markinu hans Crouch að Beckham fékk allt hrósið fyrir það mark? ok Beckham sendi boltann inní teig jibbí fucking jei Crouch tekur hann á kassann og skorar, fyrir mér er það markaskorarinn sem á að fá hrósið ekki einhver gaur sem rétt meikar það í Ameríska boltanum

  39. Steve McClaren er hinn engilsaxneski Eyjólfur Sverrisson… 😉

    Þægur þjónn, trúður, sem vissi aldrei sitt besta lið og var stöðugt að gera tilraunir fram á síðustu stundu. Báðir þurftu að treysta á fyrirliða sem voru of mikil celeb fyrir liðið. Lélegur liðsandi og mikið basl með varnarleik, leikmenn einbeitingarlausir og gerandi hrúgu af einstaklingsmistökum útum allan völl. Tæknilegt level hræðilega lágt í báðum liðum.
    Hvorugur þálfari með getu né reynslu í svona erfitt verkefni.

    Því miður eru Englendingar of hrokafullir til að ná í bráð góðu fótboltalandsliði. Bara of mikil einstaklings og keppnishyggja í öllu þjóðfélaginu. Það hefur líka eitthvað illa farið úrskeiðis í yngri flokka starfi á Englandi undanfarna áratugi. Enskir leikmenn dagsins í dag kunna ekki undirstöðuatriði í fótbolta:
    Mótttöku, staðsetningar, taktík, boltatækni o.sfrv.

    Það þýðir auk þess ekki að tala um að Owen, Terry, Ferdinand, Rooney o.fl. hafi vantað í gær. Allir þessir leikmenn voru heilir í upphafi riðlakeppninnar þegar England var líka í miklu ströggli. Staðreyndin er bara sú að enskir leikmenn eru ofmetnir. Punktur.
    Ég er meira segja til í að skrifa undir að Steven Gerrard sé pínu ofmetinn. Í gær var hann stöðugt reynandi sínar 30m stungusendingar í leik þar sem liðinu dugði jafntefli, liðið tapaði boltanum óþarflega oft og náði aldrei að róa sinn leik. Gerrard er bara ekki með fótboltaheila í að stjórna sóknarleik nokkurs liðs og er oft takandi vitlausar ákvarðanir og hlaupandi útúr stöðu sem og fleiri.

    Varðandi þjálfarastöðuna verða Englendingar að fá hæfan mann og helst stórt nafn sem þorir að standa uppí hárinu á þessari útúrheimsku ensku götupressu. Ég myndi segja að stærsti óvinur enska landsliðsins eru fjölmiðlarnir sem lofsyngja meðlmennsku og tæta liðið í sig þess á milli.

  40. Ég er sammála Arnóri með að þessi útúrheimska götupressa á Englandi á alveg sinn þátt því því að skapa neikvæða stemmingu í kringum liðið, stemmingin hjá þeim er orðin það slæm að enskir púa bara á liðið þegar illa gengur í staðin fyrir að hvetja þá áfram og styðja við bakið á þeim, svo hafa oft og iðulega einhverjir leikmenn verið teknir fyrir í leikjum og þannig sett á þá ennþá meiri óþarfa pressa.

    England á án nokkurs vafa alveg nógu sterkan hóp og rúmlega það til að eiga erindi á stórmót eins og EM (og HM) en þá vantar alveg svakalega mann sem hefur stórt undir sér og þorir að stjórna þessum köllum ásamt því að geta leitt hjá sér pressuna. Sven Göran gat það reyndar að mörgu leiti og var dæmi um stórt nafn eins og verið er að kalla á núna.

  41. Hver einasti leikmaður hlýtur að fá milljarð frá einhverjum rússneskum mafíósa miðað við hvernig þeir létu, var eins og þeir væru að berjast fyrir lífi sínu.

  42. Þetta var góð grein og margt til í þessu, sé t.d. ekki tilganginn í að halda öllum Englendinum á Englandi, það virðist bara eins og á undanförnum árum hafi Englendingar staðið í stað á meðan aðrar þjóðir halda áfram. Þetta er orðin frekar þjóðarþrjóska en þjóðarstolt.

  43. Ég skil þig ekki alveg Einar? Viltu að Gaupi segi þér hver er með boltann og hvert hann gefur hann? Heldur þú að Andy Gray geri þetta svona? Það sér hvert mannsbarn hvert boltinn fer. Allt í góðu að segja frá því svo sem en mér finnst ekkert að menn ræði almennt um leikinn, veikleika liðanna og annað.
    Mega lýsendur ekki segja t.d. að Carson hafi átt að taka skotið í fyrsta markinu? Miðað við það sem þú sagðir þá á hann að lýsa, ekki gagnrýna!
    Auðvitað segir Gaupi að Carson hafi átt að taka þetta og að Campbell og Lescott hafi verið úti að skíta í öðru markinu. Lýsendur eiga að hafa vit á knattspyrnu og auðvitað ræða þeir um þessa hluti. Annað þætti mér óeðlilegt.
    Ég ætlast til að menn sem lýsa knattspyrnuleikjum hafi lágmarks kunnáttu á leiknum og segi eitthvað meira en “Gerrard gefur til vinstri, fær hann aftur frá Richards og gefur svo til hægri”.
    Vá! Þvílík skemmtan.

  44. Heldur þú að Andy Gray geri þetta svona

    Nei, endar er Andy Gray ekki lýsandi, hann er “color commentator”. Hann er alltaf með lýsanda með sér, sem að lýsir því sem er að gerast í leiknum og svo kemur Andy með sína skoðun.

    Svoleiðis á það að vera. Sýn er samt því miður oft bara með einn að lýsa og þá blanda menn sínum skoðunum alltof mikið inní sjálfa lýsinguna.

    Það sér hvert mannsbarn hvert boltinn fer

    Já, en hvert mannsbarn þekkir ekki leikmenn Króatíu í sjón. Lýsendur Sýnar eiga hins vegar að undirbúa sig og þekkja leikmennina fyrir leikinn. Það er hluti af þjónustunni.

    Mega lýsendur ekki segja t.d. að Carson hafi átt að taka skotið í fyrsta markinu? Miðað við það sem þú sagðir þá á hann að lýsa, ekki gagnrýna!

    Það er munur á því að segja skoðun sína öðru hvoru á svona atuburðum, en þegar menn eru öskrandi “gargandi snilld” einsog það sé lögmætt lýsingarorð yfir hluti, þá eru þeir komnir út fyrir sitt hlutverk. Ef þér fannst gaman að heyra þennan lofsöng um David Beckham í gær, þá er það bara þitt mál. Mín skoðun á lýsendum er sú, sem ég hef sett fram.

    Og þetta fyrirkomulag um tvo í settinu, annan að lýsa og hinn (yfirleitt fyrrverandi leikmaður eða þjálfari) að gefa skoðanir sínar, virkar langbest og er við lýði alls staðar þar sem ég hef horft á íþróttaútsendingar utan Íslands, til dæmis á NFL, NBA, MLB og í enska boltanum erlendis.

  45. En varðandi Gumma Ben. Nú er hann lýsir en jafnframt leikmaður með mikinn skilning á leiknum. Þætti þér óþægilegt ef hann myndi blanda skoðunum sínum inn í lýsinguna. Hvað varnarmenn Englendinga t.d. í gær hefðu mátt gera betur og fleira í þeim dúr?

    Málið er bara að það er bullandi fordómar í garð lýsenda hér á landi. Sumir eru slæmir og aðrir eru ágætir. En það virðist oft vera nóg að tala ensku svo menn ljómi af gleði.

    Ég treysti lýsendum hér heima til þess að fræða mig um leikinn enda margir með ágætis skilning á leiknum, ég ætla í það minnsta að trúa því. Guðmundi Benediktssyni treysti ég fullkomlega að rýna í leikinn án þess að ég fái fyrir hjartað. Veit ekki aftur á móti hvort þú myndir höndla það þar sem hann er nú jú einu sinni Íslendingur og talar íslensku.

  46. “Málið er bara að það er bullandi fordómar í garð lýsenda hér á landi. Sumir eru slæmir og aðrir eru ágætir. En það virðist oft vera nóg að tala ensku svo menn ljómi af gleði.”

    Hvaða kjaftæði er þetta? Af hverju má ALDREI setja útá íþrótafréttamenn, án þess að maður sé sakaður um fordóma eða eitthvað annað kjaftæði? Hvar eru fordómarnir í mér? Dæmdi ég Gaupa áður en ég heyrði í honum eða vegna þess að hann er Víkingur eða Íslendingur? Nei, ég er að dæma hann núna eftir að hafa hlustað á hann lýsa leikjum í mörg ár. Það kallast ekki fordómar, heldur gagnrýni.

    “Veit ekki aftur á móti hvort þú myndir höndla það þar sem hann er nú jú einu sinni Íslendingur og talar íslensku.”

    Hvaða djöfulsins kjaftæði er þetta líka?

    Var ég að segja að allir íslenskir lýsendur væru slæmir? Hef ég einhvern tímann haldið því fram? Er gagnrýni á Gaupa sama og gagnrýni á ALLA íslenska lýsendur?

  47. Sammála EÖE í þessu máli það má aldrei segja neitt um íslensku lýsendurna án þess að maður sé með einhverja fordóma gagnvart þeim.
    Andy Gray var tekinn sem dæmi enda er hann mjög skemmtilegur og “með”-lýsandi af guðs náð og reynslubolti þegar kemur að því að spila fótbolta, síðan er hann eins hlutlaus og hann getur verið, sem mér persónulega finnst vanta hjá íslensku lýsurunum eða hvernig sem það er í fleirtölu 🙂 þeir eiga það til að missa sig þegar þeir eru að lýsa sökum þess að ákveðinn leikmaður eða ákveðið lið er að spila og kemur því ekki með hlutlausa sýn á málið.
    Gott dæmi um það var í Eng-Kró í gær þar sem Liverpool dvergurinn Peter Crouch skoraði glæsilegt mark, en afþví David Beckham hafði snert boltann tvisvar og síðan gefið hann inní á Crouch var hann hetjan í markinu. Þetta eru ekkert fordómar, heldur gagnrýni um hvað mætti gera betur.

  48. Eru menn í alvöru að dúkka upp á Andy Gray? Hvað hefur hann til brunns að bera? Ég er alveg sammála Grolsa í því að miklir fordómar eru í garð íslenskra lýsenda. Margir þeirra eru slæmir en að halda að þeir séu verri en kollegar þeirra erlendis er mikill miskilningur. Svo hlýtur það að vera í lagi Einar Örn að ‘color’ gaurinn sé sá hinn sami og lýsi leiknum? Þó það sé þannig oftast ytra þá þarf það ekki að vera eitthvað skilyrði. Varla er það Gaupa eða einhverjum öðrum lýsanda að kenna ef Sýn tímir ekki að borga einhverjum “sérfræðingi” ?

  49. Og Anton, Andy Gray hlutlaus? Er þetta eitthvað grín? Maðurinn gjörsamlega fyrirlítur Liverpool og það skín í gegn í hverjum einasta leik sem hann lýsir með Liverpool.

  50. Finnur: “Margir þeirra eru slæmir en að halda að þeir séu verri en kollegar þeirra erlendis er mikill miskilningur.”

    Finnur, þetta er náttúrulega bara brandari. Það að halda því fram að Þorsteinn Gunnarsson og Andy Gray séu í sama klassa við að lýsa knattspyrnuleik er náttúrulega bara firra. Hvernig er hægt að halda svona fram? Hefur viðkomandi aldrei séð hlustað á knattspyrnulýsingu? Þegar maður heyrir enska þuli tala þá er maður að hlusta á sérfræðinga. Þegar maður heyrir íslenska þuli tala þá heyrir maður í áhugamönnum.

    Þetta minnir mig á það þegar Höddi Magg hélt því á sínum tíma (þegar Skjár 1 var svo hræðilegur að sýna leiki með enskum þulum) að þessir þulir væru hreinlega ekkert betri en hann og fleiri. (Man eftir að hafa hlegið í vikur á eftir.) Ekki hef ég heyrt enskan þul öskra heilan leik til að vela vankunnáttu sína. Og ekki hef ég heyrt enskan þul babla út úr sér bröndurum allan tíman til að fela það að hann veit ekkert um liðin inni á vellinum.

    Get real. Hlustið á þetta. Það er svo mikill klassa munur þarna á.

  51. Það er þín skoðun Stb, báðir eru þeir arfaslakir.

    Hefurðu hlustað á John Motson, Gordon McQueen, Warren Barton og fleiri? Endilega segðu mér hvað þeir hafa fram yfir þá íslensku. Segðu mér einnig hvað þeir Rick Sutcliffe, Joe Morgan og Tim McCarver gera betur en þeir íslensku. Það að tala ensku virðist jafngilda að þessir menn séu einhver goð. Hlægilegt alveg hreint.

  52. Einar, ég skil hvað þú ert að fara hérna en ég get ekki alveg tekið undir með þér. Það fer vissulega í taugarnar á mér þegar lýsendur ganga of langt í að segja skoðanir sínar í lýsingu. Ég verð til dæmis alltaf brjálaður þegar einhver lýsandinn þarf endilega að koma því að í hvert sinn sem Momo Sissoko er með boltann að hann sé ekki besti sendingarmaðurinn. Gummi Ben er sérstaklega góður í þessu. Annað gott dæmi er þegar menn lýsa leikjum með Chelsea og tala endalaust um það hvað Drogba er mikill svindlari og leikari. Ég er ekki Chelsea-aðdáandi, og ég er á þeirri skoðun að Drogba eigi það til að ganga of langt í leikaraskap, en ef hann er ekki að gera það í umræddum leik á lýsandi að láta öll ummæli um slíkt vera.

    Hins vegar finnst mér allt í lagi að lýsendur „liti“ leiki með skoðunum. Þú tekur dæmi um amerískar íþróttir eins og NFL, NBA og MLB um lýsingar þar sem einn lýsir og annar svokallaður sérfræðingur gefur álit á framvindu mála. En þá spyr ég þig, hvort er það lýsandinn eða sérfræðingsgesturinn sem öskrar “Holy macro!” eða “I love this game!” í hvert sinn sem leikmaður á ofsatroðslu í NBA? Hvort er það þulurinn eða gesturinn sem missir sig þegar leikstjórnandi í NFL-leik fer í loftið með boltann og einhver grípur langa sendingu hans inní endasvæðinu? Hver er það sem öskrar “Going… going… gone… what a hit!” þegar hafnaboltakappi slær heimahögg?

    Andy Gray er Everton-maður en hann gjörsamlega tapaði sér af kæti þegar Gerrard skoraði markið gegn Olympiakos fyrir þremur árum. Þá féllu þau fleygu orð hjá Gray, “Take a bow son! … Take! A! Bow!” Og hvað með suður-ameríska þulinn sem er orðinn frægur á YouTube fyrir að byrja að syngja lög um leikmennina sem skora mörk um leið og þau eru skoruð?

    Beckham átti frábæra sendingu á Crouch sem tók hann frábærlega niður og skoraði. Gaupi átti að mínu mati alveg fullan rétt á því að missa sig yfir snilldinni, alveg eins og hann átti rétt á því að hneykslast steinhissa á markinu sem Carson fékk á sig í upphafi leiks. Ef ég vildi hlutlausa, tilfinningasneydda og hlédræga lýsingu myndi ég horfa á beinar útsendingar af skák.

  53. Hver einasti leikmaður hlýtur að fá milljarð frá einhverjum rússneskum mafíósa miðað við hvernig þeir létu, var eins og þeir væru að berjast fyrir lífi sínu.

    Ég býst við að ef framgangur Englendinga hefði oltið á að Króatar næðu úrslitum í síðasta leik þrátt fyrir að vera komnir áfram og þeir hefðu gert jafntefli eða tapað þá hefðu þeir líka verið á mútum frá mafíósum sigh

  54. Strákar, ensku áhorfendurnir púuðu hátt á þjóðsöng Króata, þvílík roknaheimska og skortur á klassa.
    Engin furða að Króatar lögðu sig 120% fram.

    Ef þið viljið bera saman íslenska og enska þuli hlustið þá á FM 94.3 á laugardögum. Þulirnir á BBC eru svo góðir að þó þú sért að hlusta á útvarp veistu meira um leikinn en að horfa á hann í sjónvarpi með íslenskum þulum.
    Gæðamunurinn er það rosalega mikill.

  55. “Endilega segðu mér hvað þeir hafa fram yfir þá íslensku.”

    Finnur, þeir vita um hvað knattspyrna snýst. Það er ekki flóknara en það.

    Annars orðar Arnór þetta ansi vel.

  56. Einmitt, þú ert að tala um eitthvað sem þú hefur ekki hundsvit á. Hefurðu í alvöru hlustað eitthvað á ‘spekingana’ á BBC, ITV, Setanta og SKY svo ekki sé minnst á þá í Ameríku? Svo virðist ekki vera því þú forðar þér undan spurninginni. Þegar allt kemur til alls vita þeir hvorki meira né minna en ‘spekingarnir’ á Íslandi. Það er mergur málsins.

  57. “Hefurðu í alvöru hlustað eitthvað á ’spekingana’ á BBC, ITV, Setanta og SKY svo ekki sé minnst á þá í Ameríku?”

    Já.

  58. Og segðu mér þá hverjir þeirra eru góðir. Ég skal gefa þér Clive Tyldesley, Martin Tyler og hugsanlega Jon Miller.

    Það er þvílíkur haugur af lélegum gaurum þarna úti, en þér finnst þeir allir svona frábærir?

    Ég skal hins vegar taka undir með Arnóri að BBC eru svona mest ‘professional’ en það þýðir ekki að þeir séu lausir við vitleysinga.

  59. Lýsendurnir á Sýn eru bara lélegir og að mínu mati græðir maður ekkert á lýsingu þeirra á leiknum. Aftur á móti er frábært að horfa á leiki t.d. á BBC og Sky, sérstaklega BBC. Þar hafa lýsendurnir verulega mikið vit á fótbolta, eru ekki ÖSKRANDI sí og æ, og eru oftast frekar hlutlausir í garð liða/leikmanna (miðað við Sýn). Einnig get ég nefnt lýsendur Eurosport sem frábæra. Eru reyndar ekki með mikið af fótbolta. En þegar fótbolti er sýndur, sem og aðrar íþróttir (t.d. Tennis) þá fer ekki á milli mála að þessir menn kunna að lýsa íþróttum.

  60. Hefurðu hlustað á Jonathan Pierce Atwood? Þar færðu öskur að hætti Valtarans.

  61. Finnur, ég man ekkert hvað nákvæmlega hver er. Það er bara þannig að undantekningarlaust þegar maður hlustar á enskan þul þá fær maður meiri fróðleik og visku en ef maður horfir t.d. á Sýn. Þannig að nöfn eru í raun óþörf.

    Á bresku stöðunum er losað sig við menn sem eru ekki nógu góðir, þess vegna eru þetta flottir þulir trough out. Á sýn er alls ekki eins mikil eftirspurn og hvað þá eins mikil eftirspurn góðra manna. Það sést t.d. þegar menn eins og Þorsteinn Gunnarsson og fleiri fá að lýsa leik eftir leik. Það eru greinilega ekki nógu góðir menn í boði.

  62. Verð að viðurkenna að ég er ekki með öll nöfn lýsenda hjá BBC, Sky og Eurosport. En mín reynsla er sú að lýsendurnir á þessum sjónvarpsstöðum eru hreinlega svo langt fyrir ofan þá íslensku í gæðum að það er eins og að bera saman hvítt og svart eða hlusta á Dauða-rokk eða klassík 🙂

  63. Það er einmitt það sem ég hélt, þið vitið ekki hverjir eru hvað þarna.

  64. Ó, Finnur, ég hneigi mig fyrir yfirburðaþekkingu þinni á breskum sjónvarpsmönnum. Það að við þekkjum ekki nöfnin á þeim gerir okkur auðvitað óhæfa til þess að segja persónulega skoðun okkar á þulunum.

  65. Upp til hópa eru enskir þulir “nietzscheanskir” yfirburðamenn miðað við þá íslensku. Ég hef samt alltaf fyrirgefið Gaupa þótt hann segi eitthvað sem mér finnst asnalegt eftir að ég las þetta á fótbolti.net: Gaupi að lýsa KR leik: “Olga með boltann og gerir mjög vel en hún hefur oft verið kölluð hin íslenski Gerd Muller”.

  66. Einar :

    Ef menn prófa að hlusta á þessa gæja oftar en 1x í manuði og fara að þekkja inn á þá, þá sjá menn að þeir hafa ekkert umfram þá íslensku.

  67. Ég er bara ekki sammála þér um það, Finnur – og hlusta ég þó oftar en 1x í mánuði á enska lýsendur.

    Reyndar fannst mér t.d. lýsingin í dag hjá Gumma Ben vera mjög fín, en ég stend við það sem ég sagði um lýsingu Gaupa.

Landsleikir í dag: EM 2008

Heimkomur og pælingar um Newcastle-leikinn (uppfært)