Crouch og Sissoko á leið burt í janúar?

Það hrúgast hratt inn slúðrið í þessu síðasta landsleikjahléi ársins. Nú birtir The Daily Mail frétt þar sem því er haldið fram að Rafa sé búinn að missa þolinmæðina gagnvart Peter Crouch og sé reiðubúinn að selja hann fyrir lágmark 10m punda í janúar. Fréttin segir að Rafa telji Crouch hafa vaxið í sjálfsálitinu eftir að hann sló í gegn með enska landsliðinu í fyrra og það hafi komið niður á hugarfari hans sem leikmaður Liverpool, og því hafi Rafa sett forráðamönnum klúbbsins það verkefni að selja Crouch hæstbjóðanda í janúar.

Rafa er ekki sá eini sem er nóg boðið, því samkvæmt fréttinni gæti Momo Sissoko einnig verið á leiðinni í burtu frá Liverpool. Fréttin heldur því fram að Sissoko hafi misboðið þau fáu tækifæri sem hann hefur fengið hjá liðinu í upphafi leiktíðar og heimtað neyðarviðræður við Rafa, þar sem hann muni annað hvort fá þau svör sem hann vill (sem væru: „þú ferð strax inn í liðið og verður þar fastamaður til eilífðarnóns“) ellegar muni hann heimta tafarlausa sölu frá félaginu.

Ég hef tvennt um þetta að segja:

Í fyrsta lagi er rétt að minna á að þetta flokkast enn sem komið er bara undir *slúður*, enda bara frétt frá einu blaði sem gæti verið sönn, en gæti líka allt eins verið tómur uppspuni til að reyna að selja fleiri eintök í gúrkutíð þeirri sem jafnan fylgir landsleikjahléum. Þannig að taka ber þessum „fréttum“ með fyrirvara.

Í öðru lagi, þá verð ég að viðurkenna að salan á þessum tveimur leikmönnum væri mér minna áhyggjuefni nú heldur en fyrir ári síðan. Fyrir ári síðan vorum við með gamlan Fowler, misjafnan Bellamy og nýsleiktan Kuyt í framlínuhópi liðsins og því var Crouch – sem var heitasti enski framherjinn um þær mundir – nánast ómissandi fyrir tímabilið framundan. Nú, ári síðar hafa Torres og Voronin komið í stað Bellamy og Fowler, og báðir komið sterkir inn í liðið og skorað slatta nú þegar, auk þess sem Kuyt hefur verið hér árinu lengur og aðlagast vel, þótt hann hafi leikið illa í síðustu leikjum. Við erum einfaldlega miklu betur mannaðir frammi núna og salan á Crouch myndi einfaldlega opna á tækifæri til að taka þann pening sem fyrir hann fengist, sem og mögulega peninginn fyrir sölu á Sissoko *og* aukainnlegg frá Gillett & Hicks, og kaupa jafnvel enn betri framherja en þá sem fyrir eru (að Torres undanskildum, auðvitað, enda jafningjar hans teljandi á fingrum annarrar handar).

Hvað Sissoko varðar er það sama uppi á teningnum. Fyrir ári síðan deildi hann tveimur miðjuplássum með Gerrard og Alonso en síðan þá hafa bæði Mascherano og Lucas bæst við og báðir komið sterkir inn. Mascherano er klárlega framar en Sissoko í goggunarröðinni þessa dagana og ég er ekki á því eftir undanfarna daga að Rafa sé jafnvel farinn að velja Lucas fram yfir malíska skriðdrekann. Þannig að ef Sissoko færi í janúar sé ég ekki einu sinni brýna þörf á að kaupa neinn í staðinn, þar sem Lucas myndi einfaldlega fylla hans skarð í hópnum.

Ég yrði sem sagt sáttur við hvora útkomuna sem er; ef þeir verða kyrrir er ég sáttur því mér líkar vel við báða þessa leikmenn og það sem þeir færa liðinu, en ef þeir fara finnst mér það langt því frá það versta sem getur gerst. Ef þeir fara spái ég því að Harry Redknapp hjá Portsmouth bæti Sissoko í afríkuskotna útlendingahersveit sína og að Newcastle muni borga uppsett verð fyrir Crouch. Á meðan aðrir myndu bjóða 8-10 millur í hann sé ég eyðsluseggina fyrir norðan fyrir mér vera nógu vitlausa til að borga fimmtán …

… en þetta eru auðvitað allt getgátur. Við sjáum til í janúar. 🙂

40 Comments

  1. Já ég væri persónulega MIKIÐ til í að fá Sissoko burt í janúar, að mínu mati eru Gerrard, Alonso, Mascherano og Lucas allir fremri kostur í liðið og ef að það kemur fínt boð í hann þá vonast ég eftir að Rafa taki því 😉

    Hins vegar vill ég ekki Crouch burt! Frekar að selja Riise eða gefa Hyypia og leyfa Insúa að fá sénsa og kaupa svo Ezekiel Garay í janúar/sumar glugganum 😉

    Áfram Liverpool

  2. Crouch til Newcastle í skiptum fyrir Obafemi Martins (sem er oftar en ekki varamaður þar á bæ) og út með Sissoko og nota peninginn sem fæst þar til þess að kaupa miðvörð

  3. Ekki Crouch,maðurinn lífgar upp á alla þá leiki sem hann spilar.Bara að sjá þennann slána taka skæri og sóla mann og annann er bara sér skemmtun út af fyrir sig.Og svo bara er hann hrikalega góður í að taka á móti bpltanum með kassanum og halda honum og skilar honum ALLTAF vel frá sér.Og hvenær hefur það verið slæmt að leikmaður fái mikið egóbúst á meðan það er ekki að bitna á liðinnu,EN aftur á móti ef að Rafa finnsit hann lýta of stórt á sig (hann er nú samt asskoti stór) miða við þessa frétt og það er farið að hafa áhrif á alla í kringum hann,þá bara burt með hann núna óssköp einfalt…Síðann er það ekki skrítið að Crouch hafi feingið smá egóbúst eftir alla þá útreið sem enskir aðdáendur sýndu honum í byrjun landsliðsferilinn hanns,púað á hann í hvert skipti en hvað gerist hann bara tók sig á og varð tekinn í dýrlingatölu,……
    Ég elska Crouch,finnst hann ómissandi skemmtikraftur

  4. Já held að Garay yrði frábær viðbót við liðið. Ungur og góður frekar en efnilegur.
    Er sammála með Sissoko burt og ef Bene ætlar að kaupa einhvern almennilegan framherja í janúar þá lýst mér alveg á að henda Crouch. Ættum nú að getað fiskað 5-8 millur fyrir Croucha litla.

  5. Ég vil halda Crouch, finnst hann vera vanmetinn. Ef við þurfum að losa okkur við framherja þá mætti Kuyt vera fyrstu í burtu.

  6. Mistök að selja Peter Crouch. Sammála didi um Crouch. Ef við fáum 10 millur plús fyrir Sissoko þá selja hann vitanlega þar sem við erum mjög vel mannaðir í hans stöðu. Líst vel á Garay, á víst að vera aukaspyrnusnillingur og ætti þar af leiðandi að kunna að gefa boltann úr vörninni.

  7. Fyrst og síðast tel ég þetta bull. Því til rökstuðnings ætla ég að koma með nokkra punkta.

    Sissoko skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning í sumar. Hann er 22 ára. Hann kom til Liverpool vegna Rafael Benitez, útaf hverju ætti hann ekki að vilja vinna með honum áfram? Hann vissi að honum myndi mæta samkeppni, ég meina þegar hann kom voru hérna Gerrard, Hamann og Alonso. Í raun hefur hans prógress verið framar væntingum. Ekki gleyma því heldur að hann spilar ekki sömu stöðu og Alonso, Lucas og Gerrard þrátt fyrir að þeir séu allir miðjumenn. Hinsvegar hefur að mínu viti fengið aukna ábyrgð í Liverpool liðinu á þessari leiktíð. Hann er meira látin dúlla sér með boltan og spilar framar á vellinum. Tekur meiri þátt í spilinu. Þetta er klárlega ekki hans besta staða og veldur því að við missum oft boltan á erfiðustu stöðum. Þetta segir mér að Rafa ætli sér að halda áfram að vinna með þennan leikmann. Það kæmi mér á óvart að Benitez væri að fórna sér í slíka tilraunamennsku ef hann ætlaði sér að síðan að selja manninn.

    Crouch er búin að vera vinsælt slúðurblaðafóður lengi. Alveg frá því hann kom til Liverpool. Hann sker sig úr =>Umfjöllun um hann selur. Í dag virðist Crouch t.d. vera mun heitari en Kuyt, og ef þú spyrð mig þá hefur Crouch sýnt mun meira í Liverpool peysunni í Kuyt (og Voronin). Auk þess er hann enskur. Og á tíma þegar annar hver maður tengdur enskum fótbolta er byrjaður að kenna offjölgun útlendinga í enska boltanum um slakt gengi enska landsliðsins og slúðurblöðin er farin að grafa upp gamla félaga í NF röflandi um nauðsyn þess að stöðva þessa þróun, hugsa ég að Benitez ætti að hafa sig hægan við selja einn af fáum enskra leikmanna í liði Liverpool.

    En fyrst og fremst held ég að þeir tveir verði ekki seldir vegna þess hversu mikla elda þeir hafa gengið í gegnum í rauðu peysunni. Báðir hafa þeir verið vinsæl target andstæðinga okkar, þeir eru asnalegir – annar er grindhoraður risi sem getur ekki skallað boltann. Hinn er svört hlaupatík með gleraugu (múslimi þar að auki) sem getur ekki með nokkru móti gefið boltann. Þeir hafa báðir gengið í gegnum djúpar lægðir. Crouch þurfti 18 leiki til að skora og var hataðasti knattspyrnumaður Englands en steig upp og varð einskonar költhetja, Sissoko kom til okkar 19 ára, vann sætið af Istanbul hetujunni Hamann, missti loks sjónina, en reif sig upp og er að ganga í gegnum erfitt tímabil aftur núna – og hann mun rífa sig upp.

    Í gegnum allt þetta höfum við Liverpool-stuðningsmenn staðið með þeim. Þess vegna segi ég fyrir mína parta að manni þykir örlítið meira vænt um þá en flesta aðra leikmenn Liverpool. En það eru ekki bara við sem höfum staðið með þeim. Rafa Benitez hefur gert það einnig. Finnst hann hefur staðið með þeim í gegnum allt þetta, útaf hverju ætti hann að selja þá nú?

    P.S. Ekki gleyma því heldur að báðir þessir leikmenn (þrátt fyrir ýmsar takmarkanir óneitanlega) eru algjörlega einstakir hvor á sinn hátt.

    Þrátt fyrir að Mascherano o.fl. séu betri í að koma boltanum frá sér þá veit ég ekki um neinn jafnoka Sissoko í að drepa sóknir andstæðinganna.

    Og hvern haldiði að andstæðingar okkar(sérstaklega í Evrópukeppnum) óttist helst Kuyt, Voronin eða Crouch? Ég leyfi mér að efast um að nokkur annar sóknarmaður laði að sér jafnmarga varnarmenn og opni þar með meira pláss fyrir hina og Crouch.

  8. Varðandi Sissoko. Bætum því líka inn í jöfnuna sem allir vita að hann er svolítið langt niðri þessa dagana. Sjálfstraustið ekki alveg upp á það besta þessa dagana. Er maður með lítið sjálfstraust líklegur til að labba upp að stjóranum og krefjast aukins spilatíma? Skv. minni hundalógík ætti sá maður að vera ólíklegastur til þess af öllum. Frekar myndi maður trúa slíka upp á menn með ofvaxið egó.

  9. Ég hef stundum gaman af slúðri og þetta slúður flokkast undir “áhugavert” hjá mér. Tek heilshugar undir með pælingum Kristjáns – þ.e. ég yrði ekkert hrikalega ósáttur ef þeir færu eða yrðu áfram. Þetta er ekki hjartans mál fyrir mig í hvora áttina sem er.

    Þó svo að ég skilji þessa umræðu með enska landsliðsmenn og takmörkun á erlendum mönnum í liðum … þá finnst mér fótboltasamfélagið vera að opnast meira og meira síðustu ár, og deildir orðnar meira spennandi og skemmtilegri fyrir vikið. Ég myndi t.d. aldrei kenna stöðu mála í ensku deildinni núna um slæmt gengi enska landsliðsins. Hvað eru t.d. margir í brasilíska landsliðinu sem spila í Brasilíu – er ekki meirihlutinn á mála hjá liðum í Evrópu?

    Ég skil punkta Kristins mjög vel, en ég myndi ekki gráta ef Crouch yrði látinn fara. Ég held hins vegar að hann fari ekki. Eru það ekki líka orð að sönnu hjá Wenger og Benitez að fara fyrst og fremst eftir hæfileikum, þegar valið er í lið? Eða finnst fólki enski boltinn í dag ekki skemmtilegri en hann var fyrir nokkrum árum síðan?

    Já, það er gaman að slúðri. Fær mann stundum til að hugsa …

  10. held að það yrðu ekki margir sem mundu grenja það ef sissoko færi…… en las í einhverju slúðri að liverpool mundu fá 20 mills í janúar, 10-13 fyrir crouch, 5-8 fyrir sissoko og einhverjar 7-10 fyrir carson. sem gerir 42- 51mills, kaupa fyrir það lahm, Robinio og Sergio Ramos. Það er gaman að láta hugan reyka en þetta gerist nú bara ekki. við lifum víst ekki í manager.
    En það er gaman að sjá hverir koma í janúar, nokkrir mjög góðir hafa komið í janúar s.s Agger, macherano, arbeloa.
    Ég treysti Benitez að kaupa góða menn víst að hann hefur fjármagið til þess.

  11. Ég er alveg sammála Dodda varðandi enska boltann og erlendu leikmennina. Dettur ekki í hug að taka undir með þeim vitleysingum sem heimta takmarkanir á erlenda leikmenn.

    En þessar raddir virðast vera orðnar ansi háværar (of háværar). Og ef þessar óánægjuraddir fá sínu fram þá eykur það vægi og verðmæti Crouch ansi mikið.

  12. Út
    Peter má fara ef við getum fengið betri og sterkari skalla mann.
    Sissoko má fara ef Mascherano verður áfram og Alonso verður heill.
    Annars vil maður hafa svona menn á bekknum.

    Inn
    Michael “Wonderboy” Owen. puntkur hann er akúrat sóknarmann sem okkur vantar með Torres frami.

    Það sem mér finnst vanta er einhvern sem getur hjálpað Gerrard með upp spilið, sem getur farið upp vinstri kantinn og það væri ekki verra að hann hefði smá “karekter”.

    Annars vil maður fara sjá einhverja talenta koma upp úr unglingastarfi Liverpool ef Gerrard er bara ekki sá síðasti sem kom upp sem eitthvað er varið í. Hér áður komu þeir upp í kippum Macca, Fowler, Owen og Carra.

  13. Mikið rosalega vona ég að þetta sé satt.

    Ef LFC ætlar aftur að vera meðal þeirra bestu þá er ekki hægt að hafa svona menn innanborðs. Þeir eru hreinlega ekki nógu góðir fyrir stórlið. Það slæma er hins vegar að þeir eru bara tveir margra sem ekki eru nógu góðir.

  14. Sissoko er búinn að vera mjög slakur í síðustu leikjum sem hann hefur spilað en samt sem áður hef ég svo mikla trú á honum að ég hefði helst vilja halda honum. Gríðarlega erfitt að sækja gegn honum hef ég trú á og örugglega eitthvað sem andstæðingar hata að hafa á móti sér inn á miðjunni. Svo annað mál með þegar við höfum boltann! Nóg búið að ræða það.
    Crouch hefur spilað miklu betur í Liverpool búningi heldur en ég átti von á þegar hann var keyptur og við þyrftum að halda honum. Nú getur maður auðvitað bara tjáð sig út frá spilamennskunni en örugglega er margt í gangi á bakvið tjöldin sem við gerum okkur ekki grein fyrir (samskipti við Rafa, aðra leikmenn, o.s.frv.). Hef orðið, eins og margir, fyrir sárum vonbrigðum með Kuyt, sérstaklega hvað varðar markaskorun. Þarf að fara sanna sig sem framherji sem allra fyrst – höfum fullt af duglegum miðjumönnum til að tuddast og hlaupa.
    Svo bara einn punktur sem Doddi minntist á: Það er ekki hægt að bera saman brasilísku deildina og þá ensku. Hugmyndin um fækkun útlendinga í ensku deildinni sprettur upp vegna þess að þörf er á fleiri tækifærum fyrir unga, enska leikmenn – meirihluti þeirra leikmanna sem spila í Evrópu í dag byrjuðu í brasilísku deildinni (Kaka, Ronaldinho, o.s.frv) og ég held nú að þar fái þeir ungu að blómstra, a.m.k. veit ég ekki um marga erlenda leikmenn í þeirri deild.
    Í þeirri ensku dælast erlendir leikmenn inn í deildina, sem hlýtur að hafa áhrif á framgang ungra, enskra knattspyrnumanna.

  15. Sissoko var ætlað að leysa Hamann af sínum tíma. Málið er bara hann hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans. Hann hefur ekki tekið miklum framförum frá því hann kom fyrst til liðsins og þá hefur tilkoma Mascherano gert það að verkum að Sissoko er ekki jafn mikilvægur og hann var. Í nútíma fótbolta verða menn að geta gert meira en að verjast og vinna bolta. Menn verða líka að geta sótt og á það við um leikmenn í öllum stöðum. Tel að Sissoko myndi jafnframt plumma sig betur í öðru liði en Liverpool, væri sjálfsagt fínn í lið eins og Everton, Birmingham eða Bolton sem leggja litla áherslu á að spil milli manna, heldur frekar kick and hope.

  16. Ef Liverpool fær um 20 milljónir punda fyrir báða þessa menn þá er eiginlega ekki spurning um að selja þá. Ég lít á hvorugan þessara leikmanna sem byrjunarliðsmenn og fyrir 20 milljónir punda er hægt að kaupa ansi hreint góða leikmenn, t.d. góða kantmenn sem sárlega vantar.

    Ég myndi sjá meira eftir Crouch en Sissoko má klárlega fara ef einhver er tilbúinn til að borga 8-9 milljónir punda fyrir hann!

  17. ég vill halda Crouch hann hefur komið eins og ferskur andblær í frekar máttlaust lið(undanfarið þ.e.a.s.) og vil ég halda honum enda skemmtilegur leikmaður sem gerir það sem sóknarmenn eiga að gera, skora mörk ekki hlaupa um eins og smalahundur í leit að boltanum. En ég vil Sissoko burt, ef liðið á að fara spila skemmtilegan bolta þá er maður eins og Sissoko algjörlega gagnslaus, vitum allir hvað hann getur gert t.d. á móti Barca í CL þar var hann með bestu mönnum en nema við ætlum að spila í sama flokki og önnur stórlið evrópu þurfum við bara sóknarsinnaðari miðjumann. Koma Lucas Leiva held ég að hafi verið sá vendipunktur sem gerði Sissoko óþarfan við erum með einn besta varnarsinnaða miðjumann í heiminum Mascherano, ungan og efnilegan Lucas, og síðast en ekki síst kóngana Gerrard og Alonso. Það sem þessir 4 hafa allir fram yfir Sissoko er getan til að stoppa sóknir og byrja síðan okkar sóknir með Sissoko virðist bara geta stoppað sóknir og ekki hafið þær. Selja hann bara til Ítalíu þar sem hann á best heima sá bolti gæti gert hann að einum af bestu miðjumönnum í heimi en það mun honum ekki takast í Liverpool.
    Bara mín skoðun, en það er jú tilgangurinn með þessu comment kerfi ekki satt?

  18. Tek undir með Einari Erni, það væri fásinna að mínum dómi að selja PC en halda í Kuyt, ef selja á einhvern framherja á annað borð. PC er búinn að sýna mun meira en DK so far á þessu tímabili þrátt fyrir mun færri spilmínútur.
    Undir öllum venjulegum kringumstæðum á Kuyt að vera framherji nr. 4 í þessu liði.

    Ég er ekki mesti Sissoko aðdáandi í heimi, þó hann hafi vissulega nokkuð til brunns að bera. Ég vil gefa honum færi á að vera til minnsta kosti tímabilsins 2008/2009, er sannfærður um að þá sjáum við mun öflugari leikmenn og Rafa búinn að fínpússa hann svo um munar.

  19. Þetta eru náttúrulega getgátur en réttlátar getgátur í ljósi þess hversu lítið/illa þeir félagar hafa spilað á þessu tímabili. Sissoko hefur átt vont tímabil og sjálfstraustið er lítið hins vegar tel ég ljóst að Sissoko fer ekkert fyrr en ljóst er hvort Mascherano verður eður ei.

    Hvað varðar Crouch þá hefur hann komið sterkt inn að undanförnu og sýnt loksins sitt rétta andlit á meðan Kuyt hefur verið dapur og ekki eins og hann á að sér næstum allt tímabilið. Hann berst vel og er afar duglegur en er hann nógu góður (sem framherji).

    Annað mál og kannski ótengt þessu þá tel ég einnig að það fari eftir því hvaða leikkerfi Rafa ætlar sér að spila mest með. Verður það áfram 4-4-2 eða 4-3-3 eða kannski 4-2-3-1 ? Við þurfum frekar á varnarsinnuðum miðjumanni að halda en 4 framherja ef við ætlum eingöngu að spila með einn framherja.

    Eins og staðan er í dag þá vantar okkur (kemur ekki á óvart) kantmenn og miðvörð/hægri bakvörð. Þetta hlýtur að vera forgangsverkefni Rafa númer 1, tvö og 3.

  20. kop.is

    fínt lén……

    Annars finnst mér það slá skökku við að selja striker sem er kallaður Pistol Pete..

  21. Ég á ekkert eftir að gráta það ef þeir verða seldir, en Crouch gefur rosalega möguleika frammi og er slæmt að missa hann. En varðandi Sissoko er mér sama, Gerrard, Xabi og Mascherano eru mörgum klössum fyrir ofan hann og svo er það Lucas sem á að vera eitthvað rosa efni og hefur komið vel út. Maður eins og Lucas þarf að fá að spila meira til að falla betur inn í þetta, tökum Anderson sem dæmi hjá united, hann var ekkert voðalega sannfærandi í upphafi tímabils og yfirleitt skipt snemma útaf, en í dag er hann að spila ótrúlega vel að mínu mati þrátt fyrir óþolandi röfl á köflum.

    Ef það er eitthvað sem vantar þá er það annar miðvörður og er Garay ágætis kostur ef hann er þá falur.

  22. Ég myndi reyndar sjá á eftir Crouch en ég myndi aftur á móti ekki missa neinn svefn yfir brottför Sissoko félaga míns.

    Lucas, Maschi, Xabi og Gerrard geta coverað þetta miðjusvæði auðveldlega. Nýta peninginn í að kaupa heimsklassa v. kant/bak.

  23. Mín skoðun er sú að Crouch sé 2 besti frammherji Liverpool, allavega finnst mér að við ættum fyrst að hugsa um að selja Kuyt heldur en Crouch, en ég treysti svo sem Rafa fullkomlega til að gera það rétta í stöðunni.

  24. Nú er verið að tengja Javi Martinez við Liverpool, og að hann sé á leiðinni inn í Janúar fyrir Sissoko, hvernig líst mönnum á það?

  25. Ég er til í að skipta Crouch fyrir MICHAEL JAMES OWEN (borga samt 2-3 millur í viðbót fyrir Owen) og svo selja sissoko og kaupa engan í staðin bara hafa mascharanio,gerrard,alonso og lucas á miðjunni.Og svo bara

                      ÁFRAM LIVERPOOL OG MICHAEL JAMES OWEN
    
  26. Dagur Funi, að fá hinn símeidda Owen heim aftur væru hrikaleg mistök hann á aldrei eftir að verða góður af þessum meiðslum sem eru endalaust að hrjá hann.

    Hann var T.D að fara útaf núna í vináttuleiknum í kvöld , Meiddur.

  27. Er ekki líka stjórn Liverpool búin að koma með nokkrar yfirlýsingar um að Owen verði ekki keyptur aftur á Anfield?

  28. Owen má ekki skjóta á markið núorðið án þess að meiðast greyjið…

  29. Þetta með að það eigi að selja Crouch er orðið frekar leiðinlegt. Mig minnir að Benítes sé tvisvar sinnum buin að koma fram í fréttum til þess að segja að hann fari ekki neitt.

  30. Ég vil sjá hvorugan leikmann seldan. Það yrðu mikil mistök. Crouch er náttúrulega bara snillingur og Sissoko ….jaaa það er bara einn Sissoko!!

    Megi breska pressann éta það sem úti frýs…

    Hvet alla til að lesa pistil Paul Tomkins á Liverpool.is… Það er með ólíkindum hvað maðurinn hittir alltaf naglann á höfuðið!!

  31. Fyrst þegar ég sá Gerrard spila fannst mér hann ekki neitt sérstakur(svona smá flækjufótur).En hvað er hann í dag,ætla ekki að ræða það.Ég er ekki hrifinn af Sissoko en mér finnst að hann megi fá lengri tíma og það sama gildir um Koyt og fl.Af hverju eiga stjórar að fá 4-5 ár til að sanna sig en leikmenn bara1-2 ár?Ég segi engin sala í jan en kannski einhver innkaup.Sammála Jóni H lesið pistilinn hans Paul Tomkins

  32. Sissoko má fara. Ef við fengjum 7 millj. + fyrir hann myndi ég segja ,,take the money and run”. Hann hefur aldrei heillað mig. Hefur alltof fáa kosti til að geta orðið alvöru vopn í Liverpool liðinu. Set hins vegar spurningarmerki við að Crouch fari. Af hverju ætti hann að fara frekar en Kuyt? Mér finnst Crouch miklu líklegri þegar hann er inná. Hann er ólíkur flestum sóknarmönnum en það er jafnframt hans helsti kostur. Ef hann verður seldur gerir maður heimtingu á að fá mjög öflugan sóknarmann í staðinn. Veit svo sem ekki hvað er í boði í janúar á ,,eðlilegu verði”. Ég vil sjá Torres og Crouch byrja saman og fá smá tíma saman sem framherjapar. Hef trú á að það gæti virkað.

Rafa á eftir Garay? (uppfært)

Ungliðarnir okkar (uppfært)