Er titilbaráttan búin áður en hún hófst?

Eftir frekar dapra leiki undanfarið – þar á meðal tap og jafntefli á heimavelli – eru margir sem heimta að láta reka Benítez, gefa Hyypiä og Sissoko frítt (sumir jafnvel allt liðið) og meira að segja eru sumir sem vilja fá José Mourinho í stað Benítez (úff)… er mönnum alvara með því?

Ég hef miklu frekar áhuga á því að skoða HVERS VEGNA liðið er að spila eins illa og raun ber vitni, af hverju liðið nýtir ekki færin sín (t.d. gegn Tottenham), hvað vantaði gegn Marseille og hvað veldur að við skorum ekki gegn Birmingham á heimavelli. Þetta er það sem dettur inní kálið á mér á þessari stundu.

Ýmsar kenningar eru í gangi hvers vegna illa hefur gengið undanfarið; t.d.að Pako sé farinn, Alonso sé meiddur, Agger sé meiddur, Gerrard og Carragher séu ekki að spila eftir sinni getu, Hyypiä sé of gamall, Sissoko geti ekki gefið boltann á samherja… og margt, margt fleira. Vel má vera að þetta séu ástæðurnar, hver veit?

Kannski er ástæðan afar einföld; liðið er að spila illa vegna þess að leikmennirnir eru að spila illa. Það gerist! Kannski hefði liðið skorað gegn Birmingham ef Torres hefði byrjað inná, kannski ekki. Við munum aldrei vita það en Rafa ákvað að byrja með hann á bekknum og það er ekki ákvörðun sem hann tekur “af því bara”.

Svona sé ég þetta:

Rafa horfir á heildarmyndina í stað þess að „fókusera” á aðeins einn leik. Hann er að leitast við að hafa liðið sem best undirbúið fyrir hvern leik, ávallt í toppformi. Stundum gengur það upp, stundum ekki. Fyrir mér tekur Rafa ákvarðanir sem eru oft á tíðum augljósar en einnig kemur fyrir að ég skil ekki hvað hann er að fara, ég sé enga lógík í ákvörðuninni. Kannski vegna þess að ég er ekkert sérstaklega að spá í næstu þrjá leiki hjá liðinu heldur er bara að spá í þeim leik sem ég er að horfa á akkúrat þá og þegar.
Svona ákvarðanir ræðum við í heitu pottunum og pirrum okkur yfir þeim en væri ekki betra ef við myndum reyna að skilja þær? Hvers vegna var Sissoko inná í þessum leik? Af hverju byrjaði Leto inná gegn Marseille? Er Aurelio tilbúinn slaginn? Eiga Torres og Gerrard að byrja inná í hverjum leik? Af hverju er ekki búið að kaupa fleiri leikmenn? Og svo framvegis.

Ég er á því að Liverpool-liðið í dag sé gott og hafi burði til þess að berjast um titilinn í ár. Við vissum öll að liðið myndi spila vonda leiki í ár og einnig að Gerrard/Torres/Alonso/Carragher/Reina myndu eiga einhverja slaka leiki. Svona er þetta bara og mun ávallt vera. Þeir sem halda því fram að það eigi að reka Rafa verða að koma með rökstuðning fyrir því. Spyrjið ykkur: er til betri stjóri í dag (fyrir Liverpool)? Er liðið betur sett með annan stjóra? Hvert er Rafa að fara með liðið? Er framþróun hjá liðinu?

Ég get ekki svarað öllum þeim spurningum sem ég er að kasta hérna fram en ég get komið með getgátur, leitast við að finna einhversskonar svar (til að ræða í heitu pottunum eða á barnum):

  • Gæti verið að liðið þurfi að slípast betur saman.
  • Framherjarnir ná betur saman.
  • Stilla saman strengina í nýrri taktík (4-4-2 í stað 4-5-1 í fyrra).
  • Að kantmennirnir nái að spila betur með bakvörðunum.

Þetta tekur tíma og við vissum það öll en það er bara erfitt að bíða, enda erum við búin að bíða LENGI.

Gæðin eru til staðar í liðinu, rétti þjálfarinn er við stjórnvölinn, bráðum kemur nýr og glæsilegur leikvangur og eigendurnir hafa fjármagn til að hjálpa liðinu að fá þá leikmenn sem vantar í púsluspilið. Það er klárt mál að bjartir tímar eru framundan fyrir Liverpool og eina sem ég get sagt í dag er að ÞOLINMÆÐI ER DYGGÐ!

25 Comments

  1. Ég vil að rafa sé gefið 5 ár eins og fergie var gefið 5 ár til að gera eitthvað með liðið

  2. “sumir sem vilja fá José Mourinho í stað Benítez (úff)… er mönnum alvara með því?”

    Aggi minn já. Þú getur vel talið það “úff” að ég vilji fá mann sem hefur unnið allt og kann að vinna ensku deildina. Ég er tilbúinn að gera HVAÐ SEM ER til að vinna ensku deildina. Þess vegna er ég tilbúinn að fá Móra.

    Það er alltaf hægt að tala um að gefa tíma og gefa tíma. En þegar við erum að tala um það ár eftir ár að við virðumst alltaf vera í sömu fjærlægð frá toppliðunum þá segi ég stopp. Framfarirnar virðast ekki vera neinar og liðið hreinlega að spila illa núna löngu eftir að Rafa tók við.

    Þess vegna vil ég gera breytingar núna – ÁÐUR en það er orðið of seint.

    “úff” er einnig afar áhugavert orð fyrir það að vilja fá stjóra til LFC sem hefur unnið ensku deildina. Kannski er það bara metnaðarleysi hjá mér Aggi???? Eða hvað?

  3. Ég vil að Rafa verði látin fara ef hann heldur áfram að spila svona fótbolta, það er: Geldan varnarbolta með bakvörð á kantinum. Fótbolti er ekki vinsæll af því að lið hafa náð árangri, fótbolti er vinsæll því að það er gaman að horfa á hann.
    Ég vil sjá liðið vinna, en ég vil ekki sjá liðið spila svona. Ég vil að liðið vinni, með stíl. Ekki með potmarki eftir útspark frá markmanni, eftir leik þar sem Liverpool spilar hugmyndasnauðan miðjuhnoðsbolta.
    Til þess að þetta gerist þarf að losa liðið við ákveðna farþega og fá alvöru spilara í staðinn. Kuyt, Pennant og Sissoko út. Mancini og Quaresma inn. Ég vil að liðið spili sóknarbolta, 4-3-3 a la Barcelona. Og ég vil að hlutlausir aðdáendur hlakki til að sjá liðið spila.

         Er það til of mikils mælst?
    
  4. Ég vill ekki missa Rafa, hver veit nema ef hann fer að það gerist það sama hja okkur og hjá Chelsea ? margir bestu leikmenn verða óánægður og vilja yfirgefa liðið. Veit nu ekki betur en Gerrard hafi aðalega skrifað undir nýjan samning utaf hann trúði á Rafa og vildi vinna með honum, og margir leikmanna hafi komið útaf Rafa. Allavega vill ég alsekki missa hann, enda snillingur, en einsog allir snillingur er hann sérvitur.

  5. Stb, ef Alex Ferguson myndi koma á morgun, myndirðu vilja sjá hann sem stjóra Liverpool? Maður einsog Mourinho, sem hefur ítrekað vanvirt aðdáendur okkar liðs, ætti aldrei nokkurn tímann erindi í að þjálfa Liverpool.

    Berðu svo saman liðið sem að Mourinho tók við og peningana sem hann eyddi og berðu það saman við Rafa. Og berðu svo saman árangur þeirra í Meistaradeild og enska boltanum, þá þarf að mínu mati að teygja sig ansi langt til að sýna fram á það að Mourinho sé á einhvern hátt betri þjálfari en Rafa.

  6. Að mínu mati er mun erfiðara að vinna ensku deildina en Meistaraseildina þannig að árangur Mourinho verður að teljast mun betri í heildina. Rafa hefur verið að eyða háum fjárhæðum í miðlungs leikmenn og vandræðagemsa Þegar möguleiki var að kaupa færri og mun betri leikmenn. Liðið nær aldrei að slípast saman ef það eru gerðar 5 breytingar á því á milli leikja leikmenn fá ekki sjálftaust ef þeir spila vel í einum leik og er svo hent út úr hópnum í þeim næsta skilaboðin eru þau að það skiptir ekki máli hvernig þú spilar. Við þurfum að hafa kanntmenn til þess að geta tengt við bakverðina. Það eru endalaust keyptir miðjumenn þar sem að við erum sterkastir fyrir. Þolinmæði er dyggð en ekki ótakmörkuð hef verið þolinmóður síðan 1990 og hef horft upp á hvert hneykslið á fætur öðru. Var bjartsýnn í haust en sú bjartsýni er horfinn að messtu, Það stefnir í það að við verðum að berjast um evrópusæti enn eitt tímabilið ekkert umfram það er í sjónmáli þrátt fyrir spænska (snillinginn)

  7. Ég er ekki endilega sammála því að Liverpool hafi gæðin sem þarf til að vinna deildina. Chelsea, United og Arsenal eru t.d. öll með mun öflugri hóp.
    Það sem er undirliggjandi ástæða fyrir slæmri spilamennsku liðsins er að Benítez leyfir liðinu einfaldlega ekki að spila alvöru fótbolta. M.a.s. þegar liðið spilar eins og Benítez vill að það spili þá er það engin hátíð að horfa á. Við getum keypt Eto’o og Drogba frammi en það mun ekki skila okkur mikið fleiri mörkum nema að restin af liðinu fari að skapa eitthvað fram á við fyrir framherjana að vinna úr.

  8. stb: Nei það er ekki metnaðarleysi en ég tel það einfaldlega rangt að ráða Mourinho eftir það sem undan er gengið sem og við verðum að vera raunsæir. Er líklegt að stjórn Liverpool muni nokkurn tímann vilja Mourinho? Það tel ég ekki. Þess vegna betra að einbeita okkur að því sem er raunhæft og líklegt.

    Kjartan: Ég er þér ósammála að Arsenal hafi meiri gæði í sínum leikmannahóp heldur en Liverpool. Við erum hins vegar ennþá eftir að fá jafn gott jafnvægi í hópinn eins og Man Utd er með.

    Ég er ekki að segja að hópurinn í dag sé endanlegur eða réttur. Einfaldlega að hann sé nógu góður (ef hann nær saman) til þess að vinna deidlina.

  9. Sælir félagar og góður þráður og góð umræða.
    Ég hefi tilhneigingu til að halda að hópurinn sé ekki nógu góður til að vinna Úrvalsdeildina eins og er. Ég tel menn eins og Pennant, Riise, Aurelio, Crouch, Voronin og Hyypia (má jafnvel ath. með Kuyt) eru í dag EKKI nógu góðir fyrir lið sem á að vinna þann titil. Aðrir eru það ekki heldur ENN sem komið er en verða það næstum örugglega; Leto, Leiva, Babel og Benayoun. Miðað við þetta þá getum við ekki náð takmarkinu.
    Hvað Benitez varðar (ekkert að marka hvað maður segir þegar maður missir sig eftir ógeðslegan tap-eða jafnteflisleik). Já hvað Benitez varðar þá verður hann að klára leiktíðina og hugsanlega að fá eina enn til að klára að þroska áðurtalda leikmenn til sigurs. Og hann verður að fara að fá kantara ef menn treysta ekki á Benyoun og Babel. Og ég er svo sem alveg sammála því að það væri gaman að sjá Babel frammi með Torres 🙂

  10. Sko, það er hægt að skilja hvaða vitleysu sem er ef maður bara vill það. Það er boðskapur þessarar greinar.

  11. “Ég er þér ósammála að Arsenal hafi meiri gæði í sínum leikmannahóp heldur en Liverpool. Við erum hins vegar ennþá eftir að fá jafn gott jafnvægi í hópinn eins og Man Utd er með.”

    Arsenal eru með gríðarleg gæði í sínum röðum þar sem allir geta spilað glimrandi fótbolta, Liverpool hefur þetta ekki að eins miklu leiti en verra er að þeir fá ekki útrás fyrir neina sköpunargáfu undir stífum leikstíl Benítez.

  12. Sko, í fyrsta lagi: Mourinho er frábær þjálfari og árangur hans talar sínu máli, jafnvel þótt sumir vilji meina að hann hafi fengið hjálp frá peningapokum Abramovich. Hins vegar er það alveg klárt mál að hann getur ALDREI tekið við Liverpool FC, einfaldlega vegna þess hvernig hann hegðaði sér í garð klúbbsins, Rafa Benítez, sumra leikmanna liðsins og loks stuðningsmannanna á sínum þremur árum með Chelsea. Eins og Einar Örn bendir á höfum við ekkert við svona mann að gera, eins og hann hefur hagað sér. Þótt hann sé frábær þjálfari.

    Í öðru lagi, þá ætla ég ekki að panikka yfir þessu ástandi liðsins. Ég var reiður á sunnudag eftir jafnteflið gegn Tottenham og slappa hrinu á milli landsleikjahléa (ég held ég hafi aldrei fagnað slíku hléi jafn mikið og nú) en það er ekki lausnin að reka eða selja einn né neinn á þessum tímapunkti. Ef það á að dæma menn út frá eingöngu síðustu leikjum liðsins væru Jamie Carragher og Steven Gerrard fyrstu menn á sölulista, þannig að allt tal um “getu” og “hæfileikaskort” manna er ekki við hæfi, að mínu mati. Liðið sem heild – þjálfarar, leikmenn og aðdáendur (þar sem stemningin á Anfield hefur ekki verið upp á marga fiska nýlega) – þarf að rífa sig upp úr þessari lægð og það mun gerast. Spurningin er bara hvort það gerist fljótt (helst í næsta leik, auðvitað) eða of seint, þegar liðið verður búið að missa af lestinni í deildinni og Evrópu þetta árið.

    Rafa verður dæmdur af sínum verkum. En sá tími er ekki núna. Þannig að ég er rólegur yfir þessu og ætla ekki að hlaupa upp til handa og fóta með sleggjudóma í garð eins né neins.

  13. Sælir allir !
    Liverpool hefur vanalega, alla vega síðustu 2 ár, byrjað leiktíðina illa og það má kenna hverju sem er… Við erum að byrja leiktíðina sem sagt núna (í okt)…. verðum svo til taplausir frá þessum tímapunkti (er sáttur við það… ef það er málið…) !

    Þessi afsökun að menn séu að komast inn í enska boltann eftir 1.-2. árið er að mínu mati léleg afsökun… Við erum að fá atvinnumenn til leiks við okkur og ef þeir geta ekkert í varaliðsleikjum þá eigum við að lána þá og fá aðra sem geta eitthvað… dæmi á móti er Man.City (menn virðast vera að brillera)

    Það má auðvitað kenna RAFA um… hann er jú sá sem velur liðið og stillir mönnum upp ! Það er ÞÓ leikmannsins að gera það sem honum ber og drullast til að standa fyrir sínu. Það er það sem er mest óþolandi við þetta og það er að leikmenn liðsins eru að gera í buxurnar, einsog endranær, á móti liðum sem við eigum auðveldlega að vinna… AUÐVELDLEGA ! Og okkar manna að drullast til að taka okkur saman í andlitinu og gera eitthvað í málinu… enn ekki að “já, ég er hér til að fá +50.000 pund í vikulaun… ddööö” !

    Róteringar og annað hefur ekkert með málið að gera… mátarstólparnir eru oftast í liðinu (einsog fram hefur jú komið) og þeir sem koma inn eru þeir sem hafa gert betur á æfingum enn hinir… það er þá aftur á móti spurning að velja þá sem minna hafa gert á æfingum og eru ferskari… maður bara spyr !

    Jújú, það má líta á það að við höfum ekki tapað leik í 8 leikjum og er það gott… við höfum hins vegar gert jafntefli við Chels$i (dómara ræfill)Portsmouth (eigum að vinna, sama hvað tautar og raular), Birmingham (sama hvað tautar og raular, sigur) og Tottenham (eigum að vinna, miðað við hvað þeir eru búnir að vera að gera)….. þarna eru 3 lið sem við eigum að vinna, sama hvað tautar og raular… við verðum ekki ENSKIR MEISTARAR ef við getum ekki drullast til að vinna þessi litlu lið….

    YNWA

  14. Eins og ég segi þá er ég tilbúinn að gera ALLT til að LFC vinni ensku deildina. Það er greinilega meira en margir vilja. Ef það þarf stjóra sem hefur “vanvirt” klúbbinn í fortíðinni til þess að LFC vinni titil þá tek ég hann. Ég vil það frekar en að Liverpool FC vinni ensku deildina en ekki.

    Mér finnst menn vera of miklir “prinsipp menn” hérna. Ég vil bara fokking titil á Englandi – sama hvað það kostar.

    Einar, Mourinho náði í óttblenda hluti með Porto á sínum tíma og vann Meistaradeildina með þeim. Við getum einnig borið það saman við lið Benitez.

    Eftir standa tveir hlutir.
    – Mourinho HEFUR og KANN að vinna premiuna.
    – Mourinho nær því BESTA út úr sínum leikmönnum, Lampard og Drogba sem dæmi (á meðan Benitez virðist ekki vera að ná því – “besti miðjumaður heims” Steven Gerrard er t.d. alltaf að spila undir getu finnst manni).

  15. Ég vil það frekar en að Liverpool FC vinni ensku deildina en ekki.

    Ég vil það frekar en að Liverpool FC vinni ekki ensku deildina.

  16. Hver er þessi Stb? Afhverju skrifar hann ekki undir alvöru nafni?

    Afhverju commentar hann bara þegar liðið gengur í gegnum lægðir?

    Og afhverju hann vill fá Móra á Anfield mun ég ALDREI skilja

    Ég skil þetta allt saman ekki 🙂

  17. DMK, ég skrifa bara undir nafni Stb þar sem e-r annar er að nota nafn mitt (Stefán). Ég skrifaði undir því áður fyrr.

    Af hverju commenta ég bara þegar liðið gengur i gegnum lægðir? Ég veit það ekki. Ég kannski sé ekki tilgang i því að skrifa “sammála” við alla þá fjölmörgu pistla hér sem ég er sammála. Þegar illa gengur læt ég í mér heyra og segi mína skoðun um að “þetta sé ekki nógu gott”. Ég bara set það miklar væntingar til klúbbsins að ég krefst sigurs og góðs árangurs – ef hann er ekki að koma og liðið hreinlega að leika illa þá læt ég í mér heyra.

    Ég kommenta nú af því ég tel þörf á breytingum. Kannski er bara best að láta ósköpin yfir sig dynja og sætta sig við það? Það má kannski líkja mér við konu sem er verið að nauðga – ég læt í mér heyra þegar ég sætti mig ekki við meira. (illa orðað kannski?).

  18. Er það virkilega Stb? Það er fátt sem ég óska mér heitar þegar kemur að mínum áhugamálum en að Liverpool vinni titilinn. En ég er ekki tilbúinn að gera allt til þess. Það er eitt sem mér hefur ávallt líkað við okkar félag og það er VIRÐING. Ég vil halda virðingunni, og það þýðir að Jose Motormouth er ekki velkominn í brúnna hjá okkur. Virðing er eitthvað sem ég met ekki til fjár og ekki í titlum. Virðingin er eitthvað sem hefur orðið til hjá þessu félagi til mjög langs tíma og átti meistari Shankly sinn hlut í að auka hana. Þú vilt sem sagt fórna slíku bara til að þú getir fagnað einum titli í vor. Nei takk fyrir. Er frekar til í að bíða 1 ár lengur ef það verður til þess að við höldum virðingunni OG vinnum titilinn.

    Svo skil ég ekki þetta þvaður með Jose. Ef Rafa hefði fengið 350 milljónir punda til að eyða í lið og keypt bunka af 20 milljón punda mönnum, þá FULLYRÐI ég það að hann hefði gert liðið að meisturum. Þetta er ekki spurning um að “kunna” að vinna deildina. Rafa hefur unnið deildarkeppni, og það sterkari deildarkeppni en Jose hafði unnið þegar þeir komu báðir til Englands. Þá “kunni” Jose það ekki á Englandi. Þetta er fáránleg röksemdarfærsla að mínum dómi að tala um að einhver “kunni að vinna premíuna”.

    Svo að Jose nái sínu besta út úr sínum leikmönnum 🙂 Það tók nú tíma með Drogba. Lampard var nú ekki í aðlögun þegar Jose kom. Nei, endalausir peningar og sterkur kjarni fyrir var eitthvað sem Jose fékk og það má hann eiga, hann kláraði dæmið. Rafa hefði líka klárað það við sömu aðstæður, er gjörsamlega handviss um það. Svo talar þú um Steven Gerrard og notar það til að sýna fram á að Jose hafi náð því besta út úr sínum mönnum og Rafa ekki. Þetta er tækifæris röksemdarfærsla dauðans. Ertu virkilega að reyna að halda því fram að Steven Gerrard hafi verið slakur allan tímann sem Rafa hefur verið með liðinu? Í alvöru ertu að reyna að halda því fram? Ertu líka að halda því fram að Drogba og Lampard hafi varla átt slakan dag hjá Chelsea undir Jose? Come on, þetta kallast að nota tækifærið og sparka fast í liggjandi mann.

    Þú kannski rifjar upp fyrir mér hvor er ennþá í starfi, Jose eða Rafa? Jose með sinn mergjaða sóknarbolta (kaldhæðni) og alla milljarðana á bakvið sig byrjaði þetta tímabil mun verr en Rafa, þrátt fyrir allt.

    Nei, Jose á ekkert erindi á Anfield og vona ég að við þurfum aldrei að horfa upp á andlit hans þar oftar. Ég er bara svo ánægður að hann skuli vera farinn úr enska boltanum og vil ég ekki hugsa þá hugsun til enda að hann komi aftur í hann, svo ég tali nú ekki um til LIVERPOOL FC. Aldrei, aldrei í lífinu takk fyrir. No Way Jose.

  19. SSteinn ég man nú eftir að eigendur þessarar síðu hafi ekki valið Gerrard besta leikmann LFC útaf einmitt nákvæmlega sömu ástæðu og ég nefndi áður. http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/05/31/17.32.05/

    Skoðaðu þetta. Þið tölduð hann einmitt vera “besta leikmann liðsins” eins og þið nefnið en hann kemst ekki í topp þrjá yfir þá sem spiluðu best 2006-2007!!! Það kalla ég að spila undir getu. Þetta er meira að segja staðreynd sem nær allir Liverpool menn taka undir.

    Síðan er ég ekki sammála um alla þessa “vanvirðingu” sem Mourinho á að hafa sýnt LFC. Jújú hann talar mikið en hann kann að vinna premíuna.

  20. Síðan er annað sem ég held, þetta er ekkert að bíða eitt ár lengur með Rafa og þá vinnst titilinn. Mér finnst við bara vera langt frá því að vera að stíga þetta skref. Mér finnst Rafa bara ekki rétti maðurinn í þetta og því vil ég breytingar. Liðið spilar ósannfærandi knattspyrnu, lykilmenn slakir og það leiðinlegasta er að liðið virkar áhugalaust. Það á ekki að gerast snemma tímabils (en þetta hefur reyndar lengi einkennt Liverpool undir stjórn Rafa, þ.e. í Premíunni).

  21. Lestu textann minn Stb. Það að halda því fram að Jose nái alltaf því besta fram í sínum leikmönnum en Rafa ekki, er bara þvaður. Allir þessir kallar geta verið misjafnir og dottið niður í formi. Höfum séð það með Gerrard undanfarið, og við höfum séð leikmenn hjá Chelsea undir stjórn Jose lenda í því sama. Jose hefur nú aldeilis náð því besta fram úr þeim Ballack og Sheva hingað til 🙂

    Held þú ættir aðeins að skoða það sem Jose hefur drullað yfir allt í kringum Liverpool í gegnum tíðina, en virðing virðist ekki skipta þig neinu máli, og því kannski erfitt fyrir þig að koma auga á þetta. Og enn og aftur, útskýrðu þetta fyrir mér með að “kunna að vinna premíuna”. Kunni Alex Ferguson það þegar hann kom til Man.Utd? Kunni Wenger það þegar hann kom til Arsenal? Kunni Mourinho það þegar hann kom til Chelsea? Held að svarið sé nei í öllum þessum tilvikum.

  22. Og munum líka að Arsene Wenger “kann að vinna deildina” á Englandi – en hefur hann gert það upp á síðkastið? Og fyrst Jose kann þetta allt svona vel, af hverju vann hann ekki síðasta titil? Ónei, hann er kannski búinn að gleyma því hvernig á að vinna?!? Þetta er svo fáránleg einföldun á málinu að ég trúi því eiginlega ekki að ég sé að svara þessu… :/

  23. Ég hef alltaf haft trú á Rafa og hef hana enn, þó svo að hún hafi nú beðið einhverja hnekki.

    Liðið í dag er farið að minna mig óþarflega mikið á liðið sem GH stýrði undir merkjum LFC á sínum síðustu tveimur leiktíðum á Englandi. Andleysi, miðjuhnoð, hæg sóknaruppbygging og hreinlega leiðinlegur fótbolti þar sem menn virðast vera að drepast úr leiðindum við að spila leikinn. Við þetta bætist síðan þessi ótrúlega vandræðalegi varnarleikur sem ég hef nokkrum sinnum nefnt.

    Porto (CL), Birmingham, Reading (bikar), Wigan, Marseille (CL) og nú loks Tottenham. Allir þessir leikir hafa verið ótrúlega lélegir af okkar hálfu og þó svo að Birmingham og Wigan hafi ekki sett á okkur mark þá þíðir það engan vegin að vörnin hafi verið góð. Varnarleikur liðsins er mér alveg jafnmikið áhyggjuefni og geld sóknargeta þess. Með réttu hefði leikurinn gegn Wigan átt að tapast.

    Reading í bikarnum vannst og Torres stóð sig vel en vörnin var einu orði sagt skelfileg eins og margir leikmenn liðsins, Torres undanskilinn.

    Ég ætla ekki að setja mig á háan hest og þykjast vita hvernig eigi að bæta úr þessu. En ég geri þá kröfu á stjóra LFC hverju sinni að hann nái árángri og láti liðið spila skemmtilegan fótbolta…

    …er það ósanngjörn krafa ?

  24. Rafa er sjéní og Liverpool mun vera í baráttunni…

    Góða helgi…

  25. Áfram strákar, það er hiti og stuð í þessu. Áfram Rafa!!! Niður með Rafa!!! Og svo allt þar á milli. Fínt ekki síst ef rökstuðningur fylgir!?!?
    En að fá Hósta Mótorkjaft á Anfield. Nei takk, aldrei í lífinu. Ég bara trúi því ekki að menn séu að meina það. Það hlýtur nað vera djók, plat, misheppnuð gamansemi, stríðni, ölvun, alvarlegt höfuðhögg …. eða guð veit hvað!!!!

    YNWA

(Alfonso) Alves orðaður við Liverpool

Gerrard á kantinn