Er launaþak lausnin?

Menn hafa mismiklar áhyggjur af því hvort það sé fákeppni enska boltanum. Að það sé ómögulegt að brjótast í gegnum múrinn sem hinir “fjóru stóru” eru, það er að segja Liverpool, Chelsea, Manchester United og Arsenal. Önnur lið séu einungis að berjast um UEFA sæti og að falla ekki.Oft er horft til Bandaríkjanna og sagt að þar sé kerfið til fyrirmyndar þar sem um launaþak sé að ræða og nýliðaval sem skilar því að bestu leikmennirnir dreifast á liðin í stað þess að hrúgast allir í örfá lið.

Menn vilja líka meina að tilkoma Úrvalsdeildarinnar hafi líka haft slæm áhrif í þessa átt. Að nú sé ómögulegt fyrir lið eins og Nottingham Forest, Aston Villa og Derby að vinna deildina. En hvað segja tölurnar.


Frá árinu 1978-1992 urðu eftirfarandi lið Englandsmeistarar:

Liverpool (8)

Leeds (1)

Arsenal (2)

Aston Villa (1)

Nott. Forest (1)

Everton (2)

Frá árinu 1993-2007

Manchester United (9)

Blackburn (1)

Arsenal (3)

Chelsea (2)

Á þeim fimmtán árum eftir að úrvalsdeildin var byrjaði hafa fjögur lið unnið hana. Fimmtán árin á undan unnu sex lið deildina. Þetta er kannski ekki svo mikill munur en skoðum þennan lista aðeins betur. Eina liðið sem er á báðum er Arsenal sem vann deildina 1989 og 1991 og svo aftur 1998, 2002 og 2004. Á báðum listum eru lið sem bera höfuð og herðar yfir önnur, Liverpool og Manchester Utd.

En United er ekki á fyrri listanum og Liverpool ekki á seinni listanum sem er athyglisvert. Chelsea var ekki á þessum lista fyrr en árið 2005. Blackburn, Everton og Aston Villa eru í dag það sem við myndum kalla miðlungslið sem vonast eftir UEFA sæti en Leeds er eins langt frá því að vinna ensku úrvalsdeildina í dag og Fram og HK.

Þegar Abramovich keypti Chelsea, réði Mourinho og fór að sanka að sér leikmönnum óttuðust allir að Chelsea yrði ósigrandi, ógnvekjandi lið sem ynni titla í krafti peninganna eingöngu. En sem betur fer er fótboltinn flóknari en það.

Síðan 2004 hafa Chelsea unnið tvo meistaratitla og einn bikar. Það er nú ekki ógnvekjandi miðað við að Liverpool hefur á meðan unnið Evrópubikarinn, bikar og komist í úrslit í meistaradeild. United vann síðan deildina nokkuð örugglega í fyrra en það var í fyrsta sinn síðan 2003. Það vor sáu menn ekki fyrir að yfirburðum þeirra myndi linna. Hver gleymir síðan hinu ósigraða, óstöðvandi Arsenal liði árið 2004 sem átti að bera höfuð og herðar yfir aðra næstu árin?

Þetta getur allt breyst á einni nóttu. Abramovic gæti selt Chelsea á morgun og hvað þá? Hvað gerist þegar Ferguson hættir, eða Wenger? Eða Benitez? Fyrir nokkrum árum hefði Newcastle getað gert jafn mikið tilkall til þess að vera eitt af fjórum stærstu liðunum í deildinni og Chelsea.

Launaþak verður aldrei tekið upp í Englandi einu á meðan Evrópukeppnin er enn við lýði. Það yrðu allir að taka upp launaþak og það þarf ekki nema eina deild til að skera sig úr og þá er hugtakið dautt. Þá fyrst yrði grundvöllur fyrir G14 deild bestu liða Evrópu sem yrði óháð UEFA og sérsamböndum. Einnig þarf að huga að samkeppni við MLS og jafnvel fleiri deildir. Launahæsti leikmaður í heimi spilar með LA Galaxy..

En skoðum aðeins hvaða áhrif launaþakið í NBA hefur haft. Síðan 1993 hafa þessi lið orðið meistarar í NBA.

Chicago Bulls (4)

Houston Rockets (2)

San Antonio Spurs (4)

LA Lakers (3)

Miami Heat (1)

Detroit Pistons (1)

Á þessum fimmtán árum hafa Chicago, LA Lakers og San Antonio deilt með sér ellefu af titlunum sem voru í boði. Ekki er hægt að segja að “lýðræðið” hafi gengið umtalsvert betur þarna heldur en í Úrvalsdeildinni. Fimmtán árin þar á undan voru þessi lið meistarar.

Seattle Supersonics (1)

Boston Celtics (3)

LA Lakers (5)

Philadelphia 76´rs (1)

Washington Bullets (1)

Detroit Pistons (2)

Chicago Bulls (2)

Aftur eru það þrjú lið sem deila NBA titlinum 10 sinnum á milli sín. Chicago, Lakers og Celtics. Það má eiginlega segja á þessum 28 árum hafi valdajafnvægið færst meira til í Englandi heldur en í NBA.

Gallar við launaþak eru líka þó nokkrir. Miami Heat á auðveldara með að laða að sér leikmenn þar sem “local” skattar eru mun lægri en t.d. í New York og Boston. Í Evrópu borga leikmenn minni skatta á Spáni heldur en t.d. í Frakklandi og Þýskalandi og Mónakó hefur haldið velli í frönsku deildinni vegna þess að þeir þurfa að borga sínum leikmönnum minna en þau lið sem þeir eru að keppa við.

Völd leikmanna verða gífurleg enda er talað um “franchise players” í Bandarískum íþróttum. Það er eina stórstjarnan sem á að byggja allt í kringum til margra ára. Shaq var slíkur hjá Lakers, Jordan hjá Bulls, Brett Favre hjá Packers og Dan Marino hjá Miami Dolphins. Allt liðið gengur útá þennan eina leikmann, sama hvort um markaðssetningu eða leikstíl er að ræða. Og ef þeir eru ekki ánægðir þá fara þeir bara og skilja alla eftir til að byggja upp á nýtt. Það var alltaf vitað að Shaq myndi enda í Hollywood og þangað kom hann sér sem fyrst. Og þar sem launaþakið er við lýði verða alltaf til ein til tvær stórstjörnur í hverju sem taka til sín mestan peninginn og þá þarf að rótera öðrum á milli liða eftir því sem hentar. T.d. er það þekkt fyrirbæri í NFL að leikstjórnandinn gefur “litlu leikmönnunum” gjafir í lok tímabils fyrir að hafa staðið sig vel í staðinn fyrir að liðið borgi þeim bónus.

Í öllum Bandarísku deildunum eru launin líka aukaatriði miðað við auglýsingasamninga sem kemur best fram í því að umboðsmenn mega aðeins krefjast 2% af launum umbjóðenda sinna en allt að 50% af auglýsingasamningum. Fyrir lið sem eru staðsett í Chicago, Boston og Los Angeles er mun meira af möguleikum heldur en í Minneappolis eða Toronto að bjóða leikmönnum sínum “eitthvað auka” í formi auglýsinga, kvikmynda eða í því að koma fram á viðburðum fyrir borgun. Þannig að launaþak gæti jafnvel gert liðum frá London mjög gott en komið sér mjög illa fyrir Liverpool, hvað þá Bolton. Þetta gerir það líka að verkum að umboðsmenn verða jafnvel enn harðsvíraðri heldur en við höfum ennþá séð í Evrópu þar sem þeir græða oft fúlgur á félagsskiptum, og eitthvað smá á launum leikmanna sinna. Í öllum Bandarískum bíómyndum á borð við Jerry Maguire er íþróttamaðurinn aldrei að biðja umbann sinn um að redda sér hærri launum heldur alltaf samning við Nike og Gatorade.

Ímyndið ykkur svo að launaþak væri á Englandi og Steve Gerrard væri með 250.000 pund á viku og liðið yrði að losa sig við Jaimie Carragher vegna þess að þeir hefðu ekki efni á að mæta launakröfum hans til að geta haldið þokkalega góðu liði. Carragher færi því til Wigan þar sem hann væri með 180.000 pund og svona myndi þetta halda áfram. Nema auðvitað að Liverpool borgaði Carragher 50.000 pund á viku en reddaði honum 5 milljón punda auglýsingasamning….þá væru þeir samt undir launaþakinu og til hvers er það þá?

Það er athyglisvert við úrslit fyrstu umferða í deildinni að það eru komin mjög sterk miðlungslið. Manchester City lítur vel út, það verður örugglega erfitt að sigra Newcastle og Aston Villa og Portsmouth og Tottenham eru óútreiknanleg. Væntanlega munu þau sterkustu síga framúr eftir því sem líður á mótið en hver hefði trúað því að United væri í þeirri stöðu sem þeir eru í dag? Á pappír er svo umdeilanlegt hvort Arsenal eða Tottenham séu með betri leikmannahópa í dag. Allavegana er enginn Berbatov í Arsenal.

Þarna virðast peningarnir sem dreifast á liðin vera að hafa mikil áhrif. Leikmenn sem hefðu áður farið til Roma, Marseille, Monaco eða Porto eru að fara til Newcastle, Porstmouth og Man. City. Þau lið hafa einfaldlega rýmri fjárráð og geta boðið upp á meira spennandi umhverfi, sjálfa úrvalsdeildina.

Og svo er það algjör misskilningur að enska deildin hafi alltaf verið svo jöfn að fullt af liðum gætu unnið hana. Sigrar Derby og Nottingham Forest á sínum tíma þóttu óvæntir og bera vott um mikla snilld Brian Clough. Everton var eitt af stórliðunum á níunda áratugnum og ekkert óvænt við þeirra sigra, og var ekki Blackburn “Chelsea” síðasta áratugar? Þess fyrir utan hafa flestir titlar undanfarin 30-40 ár endað í Liverpool, Manchester eða hjá Arsenal.

5 Comments

  1. Ég sá einhverstaðar skemmtilega tillögu hvernig mætti út færa þetta:
    Í þessari tillögu mattu liðin eyða eins miklu og þau vildu í leikmanna kaup og laun en það var gerð krafa um að liðið skilaði hagnaði. Þarna gætu menn eins og Abramovic og The Egg ekki eytt í leikmanna kaup án þess að það skilaði sig aftur. Ég veit svo sem ekki hvað þetta mundi gera fyrir deildina og litlu liðin en mér finnst þessi hugmynd ekki verri en launaþak.

  2. Þetta er ágætis hugmynd.

    Ég held samt að liðinn muna alltaf finna einhver göt og þá held ég að það munn koma meira að 3 aðilinn sé að borga hluta af laununum(en það verður ekki gefið upp). Þannig að það má sjá hagnað á liðinu.

    Þetta er auðvita allt annað kerfi en í USA, því þar eru háskólalið og svo fær neðsta liðið að velja sér besta háskólaleikmaninn og svo koll af kolli.

    Þessu verður ekki breytt út af því að það eru komin of miklir penningar í spilin hjá þessu stóru liðum og væri það ekki sangjart gangvart þeim sem hafa eytt svo rosalega mikið í þetta að það ægi að koma reglur til þess að hinn liðinn fá að vera með.

  3. Þessi umræða hefur komið hér áður og hef ég komið með svipuð röksemdir gegn því og ég mun gera hér. Í Bandaríkjunum er launaþak til staðar og hefur það komið á jafnari aðstöðumun milli liðinna. Það hefur ekki talið æskilegt að eitt lið geti keypt alla bestu leikmenn deildanna, ef það á mesta peninganna. Það hefur talið eyðileggja meira fyrir íþróttinnar sem heild að þannig fyrirkomulag sé við lýði. En einn stór hluti gerir íþróttirnar í Bandaríkjunum frábrugðnum enska boltanum. Það er sú staðreynd að aðeins er keppt i einu landi um einn titil, svo sem að vera NBA meistari.

    Í enska boltanum eru tvær keppnir staðar auk bikarkeppna. Í fyrsta lagi er það að liðin keppa um að vera Englands meistari auk þess að bestu lið fyrri ára keppa í Evrópukeppninni um mismunandi bikara eftir hvað um ræðir. Þetta flækir málin all verulega. Ef launþak er til staðar í Englandi er þá ekki erfiðara fyrir ensku liðinn að keppa við hin liðin í Evrópu? Jú að öllu óbreyttu. Mætti þá gera undantekningar fyrir þau lið sem keppa í Evrópu? Það yrði erfitt. Hvað á þá að banna liðin að keppa við önnur lið á sanngjörnum hætti. Mega spænsk lið kaupa eins marga og góða leikmenn en ekki ensku? Gengur ekki. Launaþak í enska boltanum er fjarstæðukennd hugmynd meðan lið keppa um leið í Evrópu. Ef hægt væri að koma á sameiginlegum reglum um öll liðin í Evrópu þá væri þetta mögulegt en þangað til er þetta bull og á að afskrifa. Það þýðir ekki að gera þennan samanburð hann er ekki sambærilegur meðan lið keppa um leið í Evrópu

  4. Virkilega góð grein Daði og margt í henni þar sem við erum algjörlega sammála. Skrifaði einmitt svar við kommentum undir greininni er fjallaði um launahæstu leikmennina og ég er algjörlega á því að launaþak er ekki möguleiki og er jafnframt á því að það komi ekki til með að gera neitt til að bæta þessa frábæru íþrótt sem fótboltinn er.

  5. Það sem vantar algerlega í þennan samanburð er nýliðaval, endurnýjun í liðunum fer fram í gegnum það. Að auki er hægt að fara langt yfir launaþakið eftir ákveðinni forskrift, t.d. hafa Knicks verið nánast 100% yfir þakinu til fjölda ára, þá þurfa þeir að borga dollar í luxury tax fyrir hvern dollar sem þeir eru yfir þakinu sem útdeilist á þau lið sem eru undir þakinu.

    Ég held að allt tal um launaþak sé bull og vitleysa, miklu frekar ætti að fara fram á að liðin séu rekin með hagnaði yfir t.d. 5 síðustu ár. Þannig mætti hugsa sér tap eitt árið sem svo væri unnið upp næstu 4.

Paletta seldur

Toulouse á morgun