Er góður bissness að kaupa fótboltalið?

Nú berast fregnir af því að Pálmi Haraldsson og Jón Ásgeir Jóhannesson fari fyrir hóp sem vilji kaupa Newcastle. Þá væru allt í einu tvö þekkt úrvalsdeildarlið komin í hendur íslenskra auðjöfra. Maður sér strax fyrir sér fyrirsagnirnar þegar kexkökubarónninn mætir grænmetisgreifanum.

En er það góður bissness að kaupa fótboltalið?

Fyrstu viðbrögð virðast vera neikvæð enda margir brenndir eftir Stoke ævintýrið. En eins og ég hef rætt um undanfarið eru mikil tækifæri og miklir peningar í enska boltanum um þessar mundir. Og ef menn fara rétt að hlutunum þá getur fjárfestum hlotist ríkulegur ávöxtur…eða grænmeti eftir því hvaðan menn koma.

Það voru nokkur grundvallaratriði sem klikkuðu í Stoke ævintýrinu:

  • Stoke var engan veginn jafn sterkur klúbbur og West Ham og Newcastle. Hvorki hvað forna frægð varðar né tækifæri til framtíðar. Að auki hafa þeir verið fastir í neðri deildum um áratugabil og þaðan er gífurlega erfitt að komast.
  • Útávið virtist alltaf vera um “fjárfestingu” að ræða. Fótboltaaðdáendur eru með ofnæmi fyrir því að menn þéni peninga og “fjárfesti”…sérstaklega í klúbbnum sínum. Íslendingarnir eyddu aldrei þeirri tilfinningu.
  • Það voru mistök að ráða Guðjón Þórðarson. Hann þykir ef til vill framúrskarandi á Íslandi en í Englandi þótti hann of…enskur.
  • Allt í einu var bróðir eins stærsta fjárfestisins orðinn varamarkmaður hjá liðinu. Það hefði verið í lagi að fá einn til tvo frábæra íslendinga til liðsins en þegar Birkir Kristinsson, Stefán Þórðarson osfrv. voru komnir þótti Englendingum var orðið of mikið af meðalmönnum frá Íslandi í Stoke og það þótti vægast sagt skrýtið og Rökke/Wimbledon bragur af því. (Norðmaðurinn Kjell Inge Rökke keypti Wimbledon með það í huga að koma norskum leikmönnum að í úrvalsdeildinni og selja þá svo með gróða)

Þeir sem hafa gert vel í yfirtökum á enskum liðum, eins og Eggert og Björgólfur og Hicks og Gillett hafa aftur á móti gert eftirfarandi:

  • Þeir hafa tekið þátt af lífi og sál. Eggert mætir á alla leiki á Upton Park og lifir sig inn í leikinn. Hicks og Gillett hentu teikningunum af nýja Anfield og bjuggu til sínar eigin með aðdáendur að leiðarljósi.
  • Hicks og Gillett, eins og Eggert og Björgólfur hafa sýnt að þeir eru óhræddir við að opna veskið. Það líkar aðdáendum vel í staðinn fyrir að heyra stjórnarmenn kvarta yfir kostnaði.
  • Þeir hafa gert sér grein fyrir því að þegar um fótboltalið er að ræða er vænlegra að eyða meira í stórt og þekkt vörumerki heldur en að búa eitthvað til úr litlu liði.
  • Og þó að þeir séu útlenskir hafa þeir ekki hóað saman leikmönnum eða starfsfólki frá sínu eigin landi í liðið. Liverpool hefur sem betur fer ekki verið orðað við Freddy Adu og eini Íslendingurinn sem hefur verið orðaður við West Ham er Eiður Smári en það væru nú flestir ánægðir með hann í sínu liði.

Newcastle er góð fjárfesting að mörgu leiti. Þetta er eina liðið í stórri borg sem er með stórt “catchment area” sem er það sem Englendingar kalla svæðið sem lið geta sótt sér aðdáendur og unga leikmenn. Það er fornfrægt, er gífurlega þekkt vörumerki með auðþekkjanlegan búning og hefur getað laðað að sér stór nöfn í gegnum tíðina. Það hefur hins vegar verið ótrúlega illa rekið og hálfgerður Barcelona-stíll á því hvað varðar það að kaupa leikmenn í hrönnum útaf því að þeir eru stór nöfn frekar en í að pæla hvað þeir ætli að gera við þá. Þar má fremstan allan nefna Patrick Kluivert. Newcastle er líka óvenju virt í Englandi, og er eiginlega uppáhalds-annað lið margra. Það er vegna þess að þeir hafa enga stóra samkeppnisaðila nálægt sér ólíkt Arsenal og Chelsea og Liverpool og Manchester Utd. Þeir hafa líka átt marga skemmtilega leikmenn eins og Asprilla, Beardsley, Ginola sem hafa átt auðvelt með að heilla fólk. Svo eiga þeir flottan heimavöll sem er alltaf fullur upp í rjáfur og eldheita stuðningsmenn sem er örugglega hægt að selja bílfarma af allskonar Newcastle-dóti.

Það hefur einhvernveginn alltaf loðað við knattspyrnuna að hún sé slæm fjárfesting. En reynið að segja það við Martin Edwards sem erfði Manchester United eftir föður sinn, reyndi að selja klúbbinn á £10 milljónir árið 1988.

Já, segi og skrifa það £10 milljónir! Nokkrum árum seinna fékk hann £98 milljónir fyrir sinn snúð og svo keypti Malcolm Glazer klúbbinn á £800 milljónir árið 2005.

Einhvernveginn heldur maður að Björgólfur og Jón Ásgeir hafi nægt viðskiptavit og nógu djúpa vasa til að gera gott úr sínum fjárfestingum. Eins og hjá Magnúsi Kristinssyni gengur allt upp hjá þeim(nema kannski þegar Magnús keypti í Stoke).

Knattspyrnulið eru mjög viðkvæmur og fjárfrekur rekstur og því mikilvægt að hafa agaða stjórn á hlutunum. En þau eiga líka verðmætar eignir á borð við velli sem er auðvelt að veðsetja og leikmenn sem er hægt að selja. Þau hafa fæst nýtt þau tækifæri sem vörumerki þeirra fela í sér. Eins og ég sagði í síðasta pistli stefnir í að meirihluti verðmætustu og ríkustu félaga heims muni koma úr ensku úrvalsdeildinni. Það er mjög líklegt að Newcastle og West Ham verði þar á meðal og þá munu landar okkar væntanlega hlæja alla leið í bankann.

Sem þeir eiga örugglega líka sjálfir.

8 Comments

  1. “Það er vegna þess að þeir hafa enga stóra samkeppnisaðila nálægt sér ólíkt Arsenal og Chelsea og Liverpool og Manchester Utd.”

    Er þetta dulbúið skot á Sunderland og Roy Keane? 🙂

  2. Alan Shearer – Góður? Já. Skemmtilegur? Langt, langt frá því.

  3. Enginn Heinze..

    “The Premier League Board appointed panel have heard submissions of evidence from both parties and has ruled to dismiss the player’s case,” said a Premier League statement.

  4. jahh ég var að sjá þetta líka með Heinze, ég er svolítið ánægður, en aftur á móti er ég pínu fúll, því það hefði verið svolítill sigur að fá leikmann frá man u sem þeir vilja ekki selja til okkar…

  5. Ég held einsog ég hef sagt áður að það sé liðinu fyrir bestu að menn komin þarna inn til að gera liðið stöndugra. Það gengur ekki að treysta á menn, sem bara splæsa endalaust í leikmenn án þess að reksturinn geti staðið undir sér.

    Held að Íslendingarnir séu þannig. Þeir kannski eyða háum upphæðum fyrst, en svo eigi reksturinn smám saman að komast í jafnvægi.

  6. Meiriháttar pistill.
    En hvernig var Guðjón Þórðar “of enskur”? Man nú reyndar ekki betur en að hann hafi komið liðinu upp um deild og unnið hinn eftirsótta framrúðubikar 🙂

Frábær tilfinning

Heinze kemur ekki