Ferðin til Aþenu

Þegar ljóst var að Liverpool FC var á leiðinni í úrslitaleikinn í Istanbul árið 2005, þá sagði maður við sjálfan sig að þessu mætti maður ekki missa af. 20 ár liðin frá því að við fórum í slíkan leik síðast og það gætu vel orðið 20 ár í þann næsta. Maður tók því engan séns og skellti sér á svæðið. Ef einhver hefði sagt mér það þá að ég gæti tekið 0-ið aftan af þessari tölu, þá hefði ég varla trúað viðkomandi. En það var engu að síður staðreynd því við vorum aftur í úrslitum á þessu ári og nú var það Aþena.

Maður gerði sér í rauninni engan greiða með því að fara til Istanbul (ef hægt er að orða það þannig) að því leiti að maður varð eiginlega viðþolslaus um að komast aftur í slíka skemmtun. Málið í Istanbul var nefnilega að leikurinn var hreinn og beinn bónus. Stemmningin í kringum hann var svo rosaleg að hún ein og sér var ein stærsta upplifun sem maður hefur lent í. Ferlið hjá mér að þessu sinni var reyndar afar frábrugðið. Ég var með miða á leikinn allan tímann, því félagi minn var búinn að afgreiða það mál strax. Það var tvennt sem stóð í vegi fyrir því að ég kæmist. Ég var á sama tíma við vinnu erlendis og átti afar erfitt með að komast frá og svo var það að redda flugi. Þetta var líka samhangandi, því þegar ég sá fram á að geta losnað úr vinnu í smá tíma og ég þurfti því að redda flugi þannig að ég gæti ekki farið fyrr til Grikklands fyrr en seinnipart þriðjudags og þurfti að vera mættur aftur til Aarhus í Danmörku á fimmtudagskvöldi. Ég fann bara ekki flug.

Það fór því þannig að viku fyrir leikinn hélt ég til vinnu í Danmörku, með miða kláran en ferðin orðin fjarlægur draumur. Á laugardegi fyrir leikinn þá fékk ég sms frá félaga mínum sem spurði hvar ég væri staddur. Ég svaraði því til að ég væri í Köben. Mér til mikillar furðu þá var hann einmitt staddur þar og var á leiðinni á leikinn. Við hittumst því seinna um daginn og ræddum mikið leikinn. Ég sagði honum frá raunum mínum og að ég þurfti líklega að sleppa þessu núna, en hvað haldið þið. Haldið þið ekki að dýrið segist eiga auka flugmiða frá Köben til Aþenu í beinu leiguflugi, farið út á þriðjudegi og tilbaka á hádegi á fimmtudegi.

Þetta var eiginlega of gott til að vera satt, en satt varð það engu að síður. Þannig var nefnilega mál með vexti að upphaflega bókaði hann sig frá Frankfurt til Aþenu, svo breyttust aðstæður en hann gat ekki fengið miðann endurgreiddan. Það eina sem ég þurfti að gera var að koma honum frá Köben til Frankfurt á mánudeginum og málið var dautt. Lítið mál og skyndilega var ég á leiðinni á minn annan úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á tveimur árum. Ekki meira um það, vildi bara segja frá því hvernig þetta allt vildi til því það var engu líkara en ég hreinlega ætti að fara.

Þá var komið að ferðinni sjálfri. Það er frá mörgu að segja, sumu frábæru og öðru hræðilegu. Best að rekja þetta í eins stuttu máli og hægt er. Áður en ég byrja þá er best að koma því að, að Grikkir fá ekki háa einkunn þegar kemur að skipulagi, því það var varla til staðar. Það breytti þó engu um það að Liverpool-menn náðu almennt að skemmta sér gríðarlega vel fyrir leikinn.

Við lentum á flugvellinum og það fyrsta sem við sáum voru mikill fjöldi fólks með skilti á sér þar sem verið var að biðja um miða á leikinn. Á sumum spjöldunum voru skráðar upphæðir sem menn voru tilbúnir að borga og á sumum voru menn tilbúnir að skipta á gistingu + peninga. Það var allavega ljóst strax þarna á flugvellinum að mikill fjöldi fólks var komið til Aþenu án miða. Svo tók við smá bið af því að einn ferðafélaginn fékk ekki töskuna sína, hún fór víst aftur til Danmerkur. Við vorum sóttir á völlinn af einum sem var hálfur íslendingur og búsettur á staðnum. Við tók klukkutíma akstur upp á hótel. Það var heitt og umferðin var skelfileg. Eitthvað yrði sagt á Íslandinu góða ef þetta væri svipað hérna. Jæja, en upp á hótel var komið og var okkur sagt fyrirfram að við hefðum fengið bara nokkuð gott hótel í góðu hverfi. Orðum það þannig að ég vil ekki sjá slæmu hótelin eða slæmu hverfin. Það góða var að við vorum með frábært útsýni yfir ströndina. En hver er svo sem mikið uppi á hóteli í svona ferðum? Það átti einmitt eftir að koma á daginn, þannig að þetta skipti nú ansi hreint takmörkuðu máli.

Við vorum ekki lengi að henda töskunum okkar inn og drífa okkur niður í bæ. Leigubíll og svo stefnan tekin á að hitta hina félagana sem voru sumir búnir að vera frá því á laugardeginum. Það gekk nú vel að komast þangað og finna þá. Þeir voru búnir að koma sér fyrir á litlu torgi fyrir utan matsölustað og þjóruðu bjór sem mest þeir máttu. Þarna voru allir snillingarnir, Siggi Hjalt & Hjördís, Andrew, Olly, Pete Sampara, Joel, Kristmann, Hermann, Lúlli, Palli, Steinar og fleiri. Stuðið var byrjað og það var ekkert um að villast. Það leið ekki á löngu fyrr en allt var komið á fulla ferð. Klukkan orðin 21:00 að staðartíma, torgið fullt af Liverpool-mönnum og söngurinn fór á fullt. Rafa Benítez lagið (La Bamba) var þarna sungið án pásu í einar 30 mínútur og það skilaði sér í að efsta lagið á nokkrum borðum var hreinlega farinn af eftir glasa- og flöskuslátt. Allt torgið var á útopnu og samt vorum við ekki á aðaltorginu þar sem allur fjöldinn var. Þetta torg átti eftir að verða sá staður sem maður eyddi mestum tíma á í þessari ferð. Hótelherbergið notaði ég í c.a. 6 tíma. Mér reiknast til að ég hafi verið þar c.a. 18 tíma í heildina og alltaf fyrir utan sama veitingastaðinn. Enda vorum við vinsælir þar með eindæmum af þeim sem ráku staðinn. Ársveltan á einum og hálfum degi giska ég á.

Við kíktum reyndar svo Syntagma Square á eftir þar sem allur fjöldinn var. Þar var auðvitað sungið út í eitt fram á rauða nótt. Það má eiginlega segja að þetta hafi verið Istanbul all over again. Fólk alls staðar, fánar alls staðar, allt rautt. Þarna var hið eiginlega Rauða Haf komið á ný. Félagar mínir sem ég deildi hótelherbergi með fóru upp á hótel aðeins á undan, sem gerði það að verkum að ég hreinlega nennti ekki að taka bíl þangað og fór því með Sigga Hjalt niður í íbúð sem hann var með afnot af. Eftir nokkra ískalda þar, var ákveðið að leggja sig til hvílu og safna orku fyrir aðal daginn. Enn voru ekki allir komnir til Aþenu sem voru á leið á leikinn. Fjórir komu um nóttina og voru minna sofnir en aðrir (ekki það að þessir aðrir hafi verið mikið sofnir, enda notar maður svona ferðir ekki í svefn). 10:00 morguninn eftir var svo haldið af stað á ný í miðbæinn. Liverpool-stuðningsmenn bregðast ekki þegar kemur að stemmningu. Það var hægt að gefa út fokheldisvottorð á miðbæinn. Ekki sökum þess að hann væri neitt illa farinn, heldur var stemmningin alveg fokheld. Heyrði einmitt aðeins í Kristjáni Atla og lýsti þessu fyrir honum.

Síðan var haldið af stað á völlinn. Það eina sem ég get hrósað skipulaginu í Aþenu var að það var auðvelt að komast til og frá vellinum, þ.e. frá miðbænum og að Ólympíusvæðinu. Ein lest og ekki svo langt ferðalag. Þegar þangað var komið þá sá maður yfir allt svæðið, komum okkur upp á brú sem var þarna við völlinn og ólíkt Istanbul, þá var hægt að kaupa sér að borða og drekka þarna fyrir utan. Það fór einn í það að kaupa einn kassa af öli, og þrátt fyrir að vera ekki mjög kaldur, þá rann hann bara nokkuð ljúflega niður. Við vorum ekkert að flýta okkur inn á völlinn, því við vorum alveg við hliðið inn á hann og sáum fram á að komast hratt þar í gegn. Þegar um klukkutími var í að leikar hæfust þá ákváðum við nú samt að fara að koma okkur inn á svæðið. Sem betur fer biðum við ekki lengur með það, því það sem tók við var ekki góð lífsreynsla. Í fyrsta lagi þá var búið að loka aðgangi niður af brúnni og þá leið inn á völlinn. Við þurftum að gjöra svo vel að labba góða vegalengd yfir að hinum endanum á Ólympíuþorpinu. Gott og vel, vorum ekki kát með það en létum okkur nú hafa það. Hönd í buxnavasanum þar sem dauðahaldi var haldið á miðanum. Mikið um gripdeildir á þeim og því sýndi maður ekki neinum að maður væri í rauninni með miða. Við komum að fyrsta staðnum þar sem verið var að hleypa inn á völlinn (að við héldum). Þar var múgur og margmenni í einni stöppu og löggæslulið þar fyrir aftan með skildi fyrir framan sig og það virtust bara örfáir komast inn í einu. Við vorum í þessari kássu í drykklanga stund (vorum samt ekki með neina drykki).

Loksins komumst við nú þarna í gegn og við þurftum ekki einu sinni að sýna miðana okkar. Skrítið fannst manni, en maður var sáttur að vera kominn í gegn. En Adam var ekki lengi í Paradís. Nokkrum tugum metrum seinna kom annar flöskuháls. Annað “tékk”. Þar var enn meiri kássa af fólki og enn meiri troðningur. Þetta var ferlegt. Skipulagt Caos fékk þarna algjörlega nýja merkingu. Við komumst þarna að því að Tyrkir eru snillingar í skipulagningu við hliðina á Grikkjum. Þvílík hörmung. Jæja, hvað um það. Við komumst í gegn á endanum, ekki tékkað á miða en bara leitað á manni. Hermenn/lögregluþjónar í bunka vís, bara að búa til flöskuhálsa, ekkert miðatékk eða neitt. Alveg hreint óskiljanlegt fyrirkomulag. Já, í gegn komumst við. En eins og áður, ekki langt. Annar tálmi og sama vitleysan aftur. Fólkið var orðið frekar pirrað, en ekki eins og á sumum stöðum sem maður heyrði um eftirá.

Við urðum ekki varir við táragasið, en engu að síður voru sumir þarna í kring orðnir þrekaðir eftir allan troðninginn sem öryggisgæslan bjó hreinlega til. Þetta var endalaus gangur tilbaka inni í þessu Ólympíuþorpi, sem var engu að síður virkilega flott að sjá. Völlurinn var samt ennþá langt í burtu. Sami völlur og við stóðum nánast við hliðina á þegar við vorum uppi á brúnni. Aðeins 10 mínútur í leik og við ennþá ekki komin inn. Loksins vorum við komin að vellinum. Eitt tékk í viðbót og þá var rétt kíkt á miðann hjá manni. Maður bjóst við tíma í að fara í gegnum “hliðið” eða það sem Bretarnir kalla Turnstiles. En viti menn, það var ekkert slíkt. Ég var með miða í Liverpool-endanum, meðal hard core stuðningsmanna liðsins. Gate númer 1 var minn staður til að fara inn á völlinn. Þegar að því var komið þá var bara búið að loka því. Stálgrindarhlið orðið læst og þar fyrir innan voru slatti af Liverpool-mönnum sem voru að reyna að koma Grikkjunum í skilning um það að fyrir utan voru félagar sem áttu sæti við hliðina á þeim. Nei, inn fóru þeir ekki. Þeir virðast hafa bara lokað hliðinu einn, tveir og bingó og engu skeytt um hvort inn væru komnir menn með rétta miða eða ekki. Það var EKKERT miðatékk þarna. Hvernig í andsk… gátu þeir vitað hvort menn væru að fara inn á réttum stöðum. Þeir höfðu einfaldlega ekki hugmynd um það. Á þessum tímapunkti var farinn að læðast að manni sá grunur að maður kæmist ekki á leikinn. Þeir voru ekkert að fara að opna hliðið aftur. Ég horfði bara á miðann minn, númerið á hliðinu og sætinu mínu og svo upp á læst hliðið. Hvern fjárann átti maður að gera?

Svo hrópar allt í einu einn í hópnum (um 50 manna hópur stóð þarna fyrir utan að reyna að komast inn) yfir hópinn og bendir mönnum á að það sé ennþá opið í hliðinu við hliðina, þ.e.a.s. hlið 3. Við hlupum öll þangað yfir og viti menn, enginn að tékka á miðum við fórum bara inn. Að sjálfsögðu var allt fullt þar og við heyrðum hreinlega hliðið lokast á eftir okkur. Inn var maður kominn og nú var bara að finna sér stað til að horfa á leikinn. Gerum langa sögu stutta, ég náði besta staðnum (miðað við aðstæður). Við endann á stiganum inn í stúkuna, þar var handrið og ég kom mér þar fyrir og stóð og horfði á leikinn til enda.

Það þarf ekki að fara mörgum sögum um leikinn sem slíkan. Í hálfleik fékk maður You’ll Never Walk Alone, eins og í Istanbul, og það bara 1-0 undir. Söngurinn var þó ekki jafn kraftmikill og þá, og ég er pottþéttur á því að það var vegna þess að margir voru hreinlega sjokkeraðir eftir allar hrakningarnar við að komast inn á völlinn. Sumir í stúkunni fyrir neðan voru með rauð og tárvot augu eftir að hafa lent í táragas árás. Það var með hreinum ólíkindum hvernig löggæslan og skipulagið var þarna. En jæja, leikurinn tapaðist og ég verð að viðurkenna það að ég var ekki nærrum því jafn “down” yfir því eins og ég hélt ég myndi verða. Ég var búinn að leggja mitt af mörkum, syngja mig hásan, klappa fyrir liðinu í leikslok og búinn að upplifa ótrúlega tíma. Maður var búinn að sjá þá hampa bikarnum fyrir 2 árum síðan, þannig að ég var ekki jafn svekktur eins og ég hefði verið hefðum við tapað í Istanbul.

Leikurinn búinn og haldið var af stað út af vellinum. Viti menn, byrjar ekki sama bullið á ný. Lögreglumenn að mynda teppur og hleypa mönnum í gegn í hollum. Þvílíka bullið. Menn voru mígandi alls staðar, því engin salerni voru inni á vellinum sjálfum, engar veitingar og ekki neitt. Menn þorðu heldur ekki af sínum stað, því þá var það óvíst hvort menn kæmust aftur til að horfa á leikinn. En hvað um það, við komumst í burtu fyrir rest, upp í stappfulla lestina og var maður virkilega feginn að þurfa ekki að klessa andlitinu upp að einhverjum skildi hjá lögreglumönnum, eða bara á annað borð að sjá fleiri slíka. Alveg yfirdrifið nóg komið af því.

Maður var nú ekkert samt í rífandi stemmningu þegar maður kom á torgið okkar úr lestinni. Stemmningin var ekkert til að hrópa húrra yfir. Maður heyrði í einum og einum syngja: “It’s only on loan, It’s only on loooaaaan, In Russiaaaaaa, we’ll bring it back home”. Við settumst því bara á barinn okkar og sötruðum öl, ræddum aðeins þessa upplifun, leikinn og daginn og veginn. C.a. klukkutíma seinna förum við að heyra kröftugan söng hljóma í götunni við hliðina á torginu. Þarna var að byrja ein skemmtilegasta og ánægjulegasta fótbolta lífsreynsla sem ég hef lent í. Við vorum ekkert mikið að hugsa um þetta svona í byrjun, en svo varð maður forvitinn og við skelltum okkur þarna yfir nokkrir. Við löbbuðum eina 30 metra inn í götuna og hún var gjörsamlega stútfull af stuðningsmönnum Liverpool. Stemmningin var rosaleg. Maður spurði sig hreinlega hvort þeir hafi ekki séð leikinn. Hann tapaðist for crying out loud. Nei, þetta var kröftugasti söngur sem ég heyrði í ferðinni. Liverpoolmenn uppi á borðum og stólum og allt snarbrjálað í söng. Það var sungið fyrir Milan. Það komu Milan stuðningsmenn í röðum og löbbuðu í gegnum þvöguna og þeir áttu ekki orð. Það var sungið fyrir þá, klappað fyrir þeim og þeir göptu bara. Við heyrðum c.a. 200 sinnum þetta kvöld á bjagaðri Ítölsk-ensku: “Best supporters in the World”. Nokkrir þeirra komu upp á borð með öllum hinum, fengu annað slagið að henda inn Milan söngvum og í restina (þegar ég náði loksins að slíta mig í burtu, ekki að menn hafi verið að hætta) þá voru Liverpool-mennirnir búnir að læra 2-3 af helstu Milan-söngvunum og sungu þá hástöfum annað slagið. Þetta var hreint út sagt ÓTRÚLEGT. Eins og það er ógleymanlegt það sem gerðist við að reyna að komast inn á völlinn, þá var þetta hinn endinn á skalanum. Maður var sem sagt búinn að upplifa hæstu og lægstu punkta á nokkrum klukkutímum. Þetta setti sem sagt punktinn yfir i-ið og gerir það að verkum að í minningunni þá verður þetta frábær ferð.

Loksins nýtti ég mér hótelherbergið, rétt til að ná góðum svefni fyrir heimferðina (ef það er hægt að kalla það heimferð að fljúga til Köben). Enn og aftur komu svo skipulagshæfileikar Grikkja í ljós þegar á flugvöllinn var komið. Við vorum reyndar í seinna fallinum og upplifðum ekki þá caos sem var búin að vera þar um nóttina og um morguninn. Engu að síður þá vita þeir ekki hvað upplýsingagjöf er. Ekki hugmynd um það. Við fengum gate closed einu sinni á okkar vél, drifum okkur af stað, en viti menn. Ekkert að gerast og þá voru ennþá c.a. 2 tímar í að vélin myndi loksins fara. En allt gekk þetta að lokum og maður endaði á réttum stað og á réttum tíma. Ótrúleg lífsreynsla að baki og þó tekur maður ekki sterkt til orða.

Ég get ekki klárað þessa sögu án þess að drulla yfir fyrirbæri sem kallast UEFA. Það er líklega vond lykt í höfuðstöðvum þeirra, því þeir gerðu svo langt upp á bak að það hálfa væri nóg. Það vantaði ekki mikið uppá að þarna hefðu gerst hrikalegir atburðir. Hvernig væri fyrir þessa menn að velja leikvang fyrir stærsta leik ársins í fótbolta, sem er fær um að halda slíkan viðburð? Hvernig væri að þeir væru ekki hvatamenn fyrir því að annað eins svartamarkaðsbrask á miðum eigi sér stað? Halda þeir virkilega að 2/3 af fólki sem ferðast á svona leik séu “fótboltaunnendur” sem eru hlutlausir? Halda menn virkilega að það sé nóg að útbúa miða sem hvaða Photoshoppari sem er getur gert í tölvunni sinni heima? Halda menn virkilega að það gangi að ekkert miðatékk að viti sé á svona viðburði? Hvað þarf til að menn átti sig á svona hlutum? Annað Heysel? Annað Hillsborough? Nei, UEFA fær einn risastóran mínus í kladdann. Það eina sem þeir gátu gert var að sjá um að styrktaraðilar þeirra gátu komið í sínum jakkafötum óáreittir. Það er talið að um 9.000 sæti hafi verið auð vegna auglýsingaskilta sem koma þurfti fyrir. Út af hverju? Jú, af því að þessi völlur er einfaldlega ekki knattspyrnuvöllur.

Hinn stóra mínusinn fá svo Grikkir fyrir skipulagningu. Það var farið með fólk eins og dýr þarna. Það skipti engu máli hvort um var að ræða fullorðna karlmenn, konur eða börn. Það er algjör lágmarkskrafa að þegar velja á staðsetningu á svona stórum viðburðum, þá þurfa þarlendir skipuleggjendur að vera í stakk búnir til að takast á við hann. Það var fjarri lagi í Aþenu, hvort sem um er að ræða leikinn sjálfan, leikvanginn eða flugvöllinn.

Það er nú samt best að enda þetta á góðu nótunum. Ferðin var í heild sinni frábær. Hún mun ávallt lifa í minningunni. Lið skipað leikmönnum Liverpool FC tapaði gegn AC Milan, en stuðningsmenn Liverpool FC unnu algjöran stórsigur. Það stendur uppúr í mínum huga.

YNWA
SSteinn

21 Comments

 1. Ef þeir hafa stats um þessi mál er hægt að skoða þetta í því samhengi (sem þeir klárlega gera).

 2. Ein alveg óskyld spurning sem væntanlega eingöngu þeir sem voru í Istanbul geta svarað :

  Maður hefur séð vítið sem Shevchenko klúðraði í vítakeppninni endalaust, en mig langar að vita hvert skotið sem hann skaut eftir að Dudek varði fór, rataði boltinn í markið?

 3. Það var mjög góð grein í Guardian um daginn þar sem blaðamaður sem hafði setið í bíl útá flugvöllinn í Aþenu með UEFA starfsmanni fékk að heyra allt um William Gaillard og hversu mikill endalaus bjáni sá maður er. Ekki víst í miklu áliti hjá starfsmönnum þar.
  Einnig fékk hann að heyra hversu svakalega illa Grikkirnir hefðu staðið sig. Miðaeftirlitið var í rusli og Grikkirnir hefðu verið að æsa upp lögguna með sögum af enskum hooligans frá því á áttunda áratugnum.
  Gaillard segir
  ‘What other set of fans steal tickets from their fellow supporters or out of the hands of children? We know what happened in Athens, and Liverpool fans were the cause of most of the trouble there.”
  Er hann með sannanir fyrir því að miðum hafi verið stolið af börnum. Er hann með dæmi, nöfn og lögregluskýrslur?
  Og hann lætur líta út fyrir að þetta sé einstakt, ég var á úrslitaleik Juventus og Real Madrid “98 og þá var kastað í mig dóti af Juventus aðdáendum sem olli því að ég missti næstum því sjónina og þurfti að gangast undir aðgerð á auga.
  Mér finnst skítalykt af þessum Gaillard. Svona lagað gerðist ekki í Tyrklandi, ekki á öðrum leikjum Liverpool í CL og ekki í 38 leikjum í PL. Þetta gerðist í Aþenu og hefði verið ekkert mál að koma í veg fyrir með góðu skipulagi.
  Guð minn góður ef ManUtd hefði unnið Milan í undanúrslitum, hversu illa hefðu Grikkir tekið á móti Englendingunum.
  Ég held að það sé engin tilviljun að þessi maður birti þessa skýrslu núna og hlaupi í blöðin. Hann er að reyna að fría sig ábyrgð á því að hafa kúkað upp á bak.

 4. Þessi maður er einfaldlega rakinn hálfviti, sorry to say so en það er bara þannig.

  Hvað gerðist í Aþenu? Lentu fylkingar Liverpool og Milan stuðningsmanna saman? Nei, þvert á móti, þvílík virðing og gott á milli þeirra. Nei, það var UEFA og skipulagningin sem var í molum. Skammist ykkar UEFA.

 5. Nonni – hann skaut í markið eftir að Dudek varði. Á meðan Dudek hleypur úr markinu fagnandi er Sheva að þrykkja í boltann. Sennilega ánægjulegasta “mark” sem ég hef séð Sheva skora. 🙂

  Steini – frábær ferðasaga, virkilega athyglisvert að lesa um allt ruglið sem var í gangi þarna frá þér. Hef lesið enskar frásagnir af táragasi og slíku en ég beið eftir þinni hlið málsins. Það að fólk hafi komist inn með órifna miða er svo sjokkerandi að það er ótrúlegt.

  Hvað UEFA varðar hef ég eftirfarandi að segja:

  1. Það eru til vellir úti um alla Evrópu sem eru nógu stórir til að hýsa leiki með þessari eftirspurn. Það er ekki afsakanlegt að velja lítinn völl sem er hvort eð er ekki hentugur fyrir knattspyrnuleiki undir stærsta leik ársins! Þú myndir aldrei hafa þennan leik á Laugardalsvellinum, sama hversu sterkir Ísland væru í pólitíkinni innan UEFA, því ættu Grikkir að komast upp með það?

  2. Þessi skýrsla frá Gaillard þar sem hann og aðrir hjá UEFA drulla yfir áhangendur Liverpool er í besta falli virðingarlaus og skítlegur snepill, og í versta falli árás á orðspor ekki bara heils fótboltaklúbbs heldur allrar ensku knattspyrnuþjóðarinnar. Að hugsa sér að Platini skuli vera að biðla til Liverpool og hinna sautján klúbbanna í G14 um að leggja niður samtök sín og vinna með UEFA, þegar hann hagar sér af slíku skeytingarleysi í garð tveggja af þessum átján klúbbum og aðdáenda þeirra og svarar svo fyrir gildar ásakanir í garð UEFA með hreinu og beinu skítkasti. Þetta er ótrúlegt.

  3. UEFA eru ekki hættir í ruglinu, þeir eru rétt að byrja. Leikvangur úrslitaleiksins á næsta ári? MOSKVA, ein spilltasta þjóð Evrópu þar sem mönnum finnst m.a. fullkomlega ásættanlegt að senda lögregluna út á götur til að berja á samkynhneigðum sem eru í Gay Rights-göngu. Það þarf ekki snilling til að spá fyrir um frekari vandræði í úrslitaleiknum eftir ár. Það liggur við að maður voni að Liverpool verði ekki í úrslitunum að ári, bara til að geta sagt: “Sko! VERSTU aðdáendur EVRÓPU voru hvergi nærri í ár … og þið voruð SAMT í RUGLINU!”

  4. Aðeins sá sem hefur aldrei farið á knattspyrnuleik í Englandi eða Ítalíu myndi reyna að halda því fram að tveir/þriðju áhorfenda úrslitaleiks Meistaradeildarinnar milli AC Milan og Liverpool yrðu hlutlausir áhorfendur. ‘Nuff said.

 6. Vel mælt SSteinn. Núna eru allar heimasíður með fyrirsögnina: Reds fans labelled Europe’s worst !! Ekki gott mál.

  Mikilvægt að heyra hvað hinn almenni stuðningsmaður upplifði og klárt mál að UEFA er að ýta skömminni yfir á Liverpool.

  Á næsta ári er úrslitaleikurinn í Moskvu, Luzhniki Stadium og 2008-09 er leikurinn háður á Stadio Olimpico í Róm. Hentar mér ágætlega að flúgja til Rómar.

 7. Aggi, er næsti úrslitaleikur á eftir Moskvu haldinn í Róm? Á heimavelli hinna stórgóðu og prúðu áhangenda AS Roma og Lazio?

  Já, UEFA hafa rétt fyrir sér. Þetta getur ekki verið annað en Liverpool-mönnum að kenna … ekki kemur mögulega til greina að þeir séu bara að velja svona glataða leikvanga hjá liðum með vafasama sögu. Neibbs, “them thievin’ Scousers” er málið!

 8. Það virðist einnig vera lenska hjá UEFA að hafa úrslitaleikinn á velli sem er með hlaupabraut, vilja þeir minnka stemninguna eða hvað?

 9. Þetta er mjög stórt mál. Kannski gera sér ekki allir grein fyrir því hversu stórt.
  Þarna er talsmaður UEFA að benda í áttina að best skipulögðu deild í heimi á meðan UEFA sleppir sí og æ liðum á Ítalíu, Frakklandi og A-Evrópu fyrir bókstaflega morð, mútur og óskipulag.
  Echo kallar á að hann segi af sér. Hvernig væri að Liverpool menn á Íslandi myndu taka sig saman um að krefjast afsögn mannsins með bréfi til UEFA?

  Þetta er ótækt og á ekki að líðast.

 10. Já KAR nákv.

  Þá vonar væntanlega UEFA að hvorki Roma né eitthvert enskt lið komist í úrslitinn því það verður allt CRAZY þar!!! Ruglaðar bullur!

 11. Þessi byrjun á greininni segir allt sem segja þarf um þetta mál

  It’s the Liverpool fans’ fault, says Uefa. And it is. They want to go to the match and Uefa does not want them in the ground. European football’s ruling body wants its showpiece game to belong to the advertisers, the corporate guests and the people who generate the megabucks that are bloating the game.

  So, the real fans, those most committed to being present for a game, are the least likely to get a ticket. It’s a recipe for disaster.

  Sjá hér

 12. Má líka bæta við þessari hræðilegu hræsni að hrósa Liverpool aðdáendum og verðlauna þá, en þegar UEFA skítur uppá bak, þá er það allt í einu Liverpool aðdáendum að kenna og þeir orðnir þeir “verstu” í Evrópu.

  Fávitar!

 13. Já, og Steini frábær ferðasaga. Ég hélt að ég myndi aldrei lesa grein þar sem skipulagi í Istanbúl er nánast hrósað. 🙂

 14. Takk fyrir það.

  Já Einar Örn, Tyrkir eru snillingar í skipulagningu við hliðina á frændum sínum Grikkjum. Svei mér þá, ef Liverpool skyldi komast í úrslitin á næsta ári í Moskvu, þá mun ég halda mér heima, no matter what. Þetta fyrirbæri sem kallar sig UEFA er einn stór brandari og þessi talsmaður þeirra er fáránlegri en upplýsingaráðherra Íraka á sínum tíma. Það var þó allavega hægt að hlægja að vitleysunni í honum.

  Eitt eru ólæti, þegar fylkingum liðanna lendir saman. Þarna var ekkert um slíkt að ræða, heldur total caos þegar kom að því að komast á völlinn. Þótt skipulagið í Tyrklandi hafi verið hörmung, þá voru líf og limir þó ekki í hættu þar. Í Grikklandi var stórhætta á slíku og í rauninni bara einskær heppni að ekki um stórslys væri að ræða.

Juve búnir að bjóða í Momo?

Carra og Gerrard skrifa undir samning