Snýr Gonzalez aftur til Spánar?

Chris Bascombe hjá Liverpool Echo skrifar í dag að það sé möguleiki á því að Mark Gonzalez verði seldur aftur til Spánar í sumar, eftir aðeins eitt tímabil hjá Liverpool. Hann heldur því fram að Real Betis sé meðal þeirra liða sem hafi áhuga og að Rafa Benítez sé að íhuga hvort hann á að selja strákinn eða gefa honum annað tímabil til að sanna sig.

Persónulega þá myndi ég vilja sjá Gonzalez fá annað tímabil, enda er hann ungur og hlýtur að hafa lært ansi mikið á þessu erfiða, fyrsta tímabili. Það er óhætt að segja að hann hafi aldrei fundið sig, ekki í einum einasta leik, í vetur og spilamennska hans hefur verið mikil vonbrigði, sérstaklega eftir að menn biðu í heilt ár eftir að fá atvinnuleyfi fyrir hann. Það sýnir sig best, eins og Bascombe segir í grein sinni, að líklega mun Gonzalez ekki einu sinni komast á bekkinn gegn AC Milan í næstu viku heldur verður Harry Kewell frekar þar inni. Maður myndi ekki gráta það ef hann færi, slík var frammistaða hans í vetur, en ég væri samt alveg til í að gefa honum annað tímabil til að sýna sig. En Rafa ræður þessu og það sem verður, verður.

Þá langar mig að benda ykkur á góðan 45-mínútna þátt um Meistaradeildina og úrslitaleikinn í næstu viku. Hjá heimasíðu Times getið þið nálgast svokallað ‘Podcast’ þar sem þeir Gabriele Marcotti og Guillem Balague ræða um stóra leikinn í næstu viku. Sérstaklega er áhugavert að hlusta á símaviðtöl þeirra við Jamie Carragher og Pepe Reina, sem er spurður mikið út í vítakeppnir á ferli sínum, og svo einkaviðtal Balague við Rafa Benítez. Þá rökræða þeir líka mjög áhugaverða spurningu; er Rafa Benítez ítalskur þjálfari og Carlo Ancelotti spænskur þjálfari? Mæli með þessu, þið getið bæði sótt þáttinn beint á mp3-formi og í sem ‘Podcast’ í gegnum iTunes. Kíkið á þetta.

7 Comments

  1. Já. En það er samt full ástæða til að mæla með þessum þætti. Guillem Balague gefur m.a. í skyn að ef Xabi Alonso verði ekki í byrjunarliðinu í næstu viku muni hann hugsa sig alvarlega um framtíð sína hjá Liverpool. Ekki missa af þessari umræðu.

  2. Já ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með Speedy… Hann hefur alls ekki staðið undir væntingum þrátt fyrir næg tækifæri. Aðlögunarafsökunin er ekki alveg algild, alltaf.

    Ætli þetta fari ekki líka eftir því hvort vinstri kantmennirnir sem Rafa er með á listanum sínum séu á lausu og svona….

  3. Benitez gefur það líka í skyn í viðtalinu við Balague að Sissoko verði ekki með vegna meiðsla.

  4. ég myndi allavega ekki grenja hann Gonzalez ef hann færi,…. léglegur miðlungsleikmaður á ferð engann veginn í liverpool classa, hann getur engan veginn krossað né skotið.

  5. Óli hann getur skotið, við sáum það þegar hann spilaði á Spáni í láni, meðan hann beið atvinnuleyfis.

    Vissulega hefur ekki mikið sést til hans, en tvennt sem verður að athuga í leiðinni; hann hefur ekki fengið mörg tækifæri, en þá spyr maður sig einmitt hvort hann sé nokkuð nógu góður til að komast í liðið, og svo hvort að þegar hann fær tækifæri hvort sterkasta liðið sé inná í þau skipti … man það ekki nógu vel. Væri til í að gefa honum einn sjens enn = eitt tímabil.

  6. Gonzalez mörg tækifæri ? Bollocks. Hann hefur byrjað inná í 20 leikjum og komið inná í 16 leikjum. Ég tel það vera meir en nóg af tækifærum. Hann hefur nákvæmlega ekkert sýnt í þessum nema það að hann er stundum fljótur. Lítið meir.

Lítið að frétta

Upphitun #1: Fyrir tveimur árum …