Chelsea á morgun. (Uppfært)

liverpool-chelsea.gifÁ morgun mætum við José Mourinho og félögum í Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Brúnni. Þetta er fyrri leikurinn en sá síðari fer fram þann 1. maí næstkomandi á Anfield. Það þarf ekki að segja neinum það sem les þessa síðu reglulega hversu mikilvægur þessi leikur er, að öllu leyti. Sem og hversu ótrúlega oft við höfum spilað gegn Chelsea frá upphafi tímabilsins 2004-05 eða 13 sinnum í öllum keppnum. Hérna koma leikirnir:

Tímabilið 2004-05
3. október [0-1](http://www.kop.is/gamalt/2004/10/03/17.11.28/) tap á útivelli í deildinni.
1. janúar [0-1](http://www.kop.is/gamalt/2005/01/01/14.51.45/) tap á heimavelli í deildinni.
27. febrúar [2-3](http://www.kop.is/gamalt/2005/02/27/18.36.53/) tap í úrslitum deildarbikarsins á Millennium vellinum í Wales.
27. apríl [0-0](http://www.kop.is/gamalt/2005/04/27/21.06.18/) jafntefli á útivelli í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
5. maí [1-0](http://www.kop.is/gamalt/2005/05/03/21.08.45/) sigur á heimavelli í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

5 leikir, 1 sigur, 1 jafntefli og 3 töp. Markatalan 3-5.

Tímabilið 2005-06
28. september [0-0](http://www.kop.is/gamalt/2005/09/28/21.18.06/) jafntefli á heimavelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
2. október [1-4](http://www.kop.is/gamalt/2005/10/02/17.13.55/) tap á heimavelli í deildinni.
6. desember [0-0](http://www.kop.is/gamalt/2005/12/06/21.25.22/) jafntefli á útivelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
5. febrúar [0-2](http://www.kop.is/gamalt/2006/02/05/17.58.38/) tap á útivelli í deildinni.
22. apríl [2-1](http://www.kop.is/gamalt/2006/04/22/19.10.27/) sigur í undanúrslitum Ensku bikarkeppninnar á Old Trafford.

5 leikir, 1 sigur, 2 jafntefli og 2 töp. Markatalan 3-7.

Tímabilið 2006-2007
13. ágúst [2-1](http://www.kop.is/gamalt/2006/08/13/17.10.00/) sigur í leiknum um Góðgerðarskjöldinn á Millennium vellinum.
17.september [0-1]( http://www.kop.is/gamalt/2006/09/17/14.23.57/) tap á útivelli í deildinni.
20. janúar [2-0](http://www.kop.is/gamalt/2007/01/20/12.39.26/) sigur á heimavelli í deildinni.

3 leikir, 2 sigrar, ekkert jafntefli og 1 tap. Markatalan 4-3.

Við mætum síðan Chelsea núna tvisvar sinnum og þá höfum við ávallt mætt þeim 5 sinnum á tímabili, ótrúlegt. Þess má geta að við höfum mætt Man U og Arsenal á sama tíma 14 sinnum, Man U 6 sinnum og Arsenal 8 sinnum (þarf af 4 sinnum í ár). Heildarniðurstaðan út úr þessum 13 leikjum sem við höfum mætt Chelsea er ekkert alltof góð eða:

13 leikir, 4 sigrar, 3 jafntefli og 6 töp. Markatalan 10 – 15.

EN já það er alltaf gaman að geta sagt EN. Málið er að við höfum ekki tapað fyrir Chelsea í Meistaradeildinni í þau fjögur skipti sem liðin hafa mæst undanfarin 3 tímabil og það sem meira er þá hefur Chelsea ekki ennþá náð að skora gegn okkur í þessum fjórum leikjum eða í 360 mínútur. Athyglisvert og svo virðist sem Rafa hafi ágætis tak á José og co. í Meistaradeildinni. Sama verður ekki sagt um deildina en hún er ekki til umræðu hér og nú.

Við erum að spila uppá eina mögulega bikarinn í ár á meðan Chelsea er í harðri baráttu við Man U um enska meistaratitilinn sem og liðin mætast í úrslitum ensku bikarkeppninnar. Síðan er Man U að keppa í kvöld gegn Milan í hinum undanúrslitaleiknum í Meistaradeildinni. Hvort þetta hafi áhrif á liðin er erfitt að segja til um. Vissulega er meira álag og bæði liðinu spiluðu illa um helgina í deildinni. Sérstaklega fannst mér furðulegt að Chelsea náði ekki að nýta sér það að Man U gerði einungis jafntefli gegn Boro á laugardaginn í leik sínum gegn Newcastle á sunnudeginum. Eru þeir að gefa eftir? Mun þetta ár verða titlalaust?

Í síðustu 6 leikjum hefur Chelsea unnið 4 leiki og 2 jafntefli, markatalan er 10-4 Liverpool hefur á sama tíma unnið 5 og eitt jafntefli, markatalan er 10-1.

jose%20og%20rafa.jpgEn nóg um tölfræði í bili. Það er spennandi að sjá hvernig þeir “félagar” Rafa og José stilla upp sínum liðinum. Rafa er vanur að koma á óvart í sínu liðsvali í mikilvægum leikjum og ekki langt síðan Arbeloa byrjaði sinn fyrsta leik með Liverpool gegn Barcelona í vinstri bakverðinum. Einnig er mér ferskt í minni þegar Le Tallec byrjaði gegn Juventus á Anfield. Fyrir þessa tvo leiki hefði mér aldrei dottið þetta í hug en líklega er það ein af milljón öðrum ástæðum að ég er ekki og mun aldrei verða stjóri hjá Liverpool! Af þessum sökum kæmi mér ekkert á óvart að Rafa myndi gera eitthvað sem virðist í fyrstu undarlegt en oftar en ekki virkar það. Eftir sem áður þá eru þeir Kewell, Garcia og Aurelio frá vegna langvarandi meiðsla en aðrir eiga að vera klárir í slaginn. Þannig að eftir að hafa rætt við félaga mína hérna á blogginu þá er þetta alls ekki ólíkleg uppstilling á morgun:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise
Mascherano
Gerrard – Alonso – Sissoko – Pennant

Kuyt

BEKKUR: Dudek, Bellamy, Arbeloa, Hyypiä, Crouch, Zenden og Gonzalez.

Þarna verður Mascherano fyrir aftan miðjuna að vernda vörnina og tína upp það sem kemst í gegnum þá Alonso og Sissoko. Pennant og Gerrard munu væntanlega skiptast á köntum og Gerrard vera með svolítið frjálst spil en þá verk þeirra Sissoko og Mascherano að bakka hann upp. Ég set Kuyt uppá toppinn þar sem hann er gríðarlega vinnusamur og loksins setti tvö í sama leiknum um helgina. Með hann sem fremstan mann þá byrjar vörnin okkar framarlega sem og hann á eftir að djöflast í varnarmönnum Chelsea ENDALAUST. Crouch kemur síðan örugglega inná í seinni hálfleik til að fá ferskar fætur inná í stað Kuyt.

En hvernig kemur José “The Special One” Mourinho til með að stilla upp Chelsea? Það er ljóst að Essien mun ekki vera með vegna leikbanns, Carvalho og Robben eru víst meiddir og Ballack eitthvað tæpur þótt ég sé þess fullviss að hann spili þennan leik. Spurning hvort Cole byrjar inná eða Kalou? Ég skýt á Cole því ef hann er 90% klár þá er hann mun betri en hinn ungi Kalou sem og með mun meiri reynslu af leikjum sem þessum. Ólíkt Rafa þá er Mourinho oftar en ekki fyrirsjáanlegur í liðsvali sínu og kæmi mér á óvart ef liðið væri mikið öðruvísi en eftirfarandi:

Cech

Ferreira – Carvalho – Terry – A.Cole

Makalele – Mikel – Lampard

J.Cole – Drogba – Schevchenko

BEKKUR: Cudicini, Kalou, Wright-Phillips, Bridge, Boulahrouz, Diarra og

(Uppfært) Það er víst ljóst að Carvalho [verður með á morgun](http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/europe/6582695.stm) en Ballack er víst ekki með vegna ökklameiðsla sem hann hlaut gegn Newcastle um helgina. Síðan er gefið í skyn á öðrum vefmiðlum að Schevchenko gæti byrjað á bekknum (sem ég tel þó afar hæpið). Hins vegar gæti José því breytt yfir í 4-4-2 leikaðferðina og þá gæti liðið verið svona:

Cech

Ferreira – Carvalho – Terry – A.Cole

Kalou – Makalele – Lampard – J.Cole

Drogba – Schevchenko

Og ef Schevchenko er tæpur þá færi Wright-Phillips á kantinn og Kalou með Drogba fram. Auðvitað má vel vera að Mikel væri varnarsinnaður miðjumaður í stað Makalele en reynsla hans hlýtur að tryggja honum byrjunarliðssæti.

Í svona stórleikjum er ávallt erfitt að spá hvernig leikurinn þróast því það er gríðarlegt taugastríð sem á sér stað og mismunandi hvernig leikmenn bregðast við því. Ég held að fáir hafi td. séð það fyrir að Liverpool myndi ná að jafna gegn Milan í Istanbul um árið eftir að staðan var 3-0 í hálfleik. En allt er hægt og þess vegna getur allt gerst á morgun. EN miðað við fyrri viðureignir liðanna þá er ekki ólíklegt að þetta verði járn í járn og lítið um marktækifæri. Svona fyrirfram þá sé ég ekki skemmtilegasta knattspyrnuleik sögunnar fyrir mér og er slétt sama um það ef við náum hagstæðum úrslitum. Það yrði frábært að skora á Brúnni og myndi mark á útivelli fleyta okkur langt en ég sé fyrir mér frekar bragðdaufan leik þar sem bæði lið spila varfærnislega og leggja upp með að fá EKKI á sig mark.

Mín Spá: 0-0

Ég get ekki lýst því hversu spenntur ég er fyrir þessum leik en þangað til verður mér að nægja að horfa á Man U – Milan í kvöld. Ég hlakka svo til….

20 Comments

  1. Flott upphitun. Ég hef bara eitt um þetta að segja: CARRAGHER, we need you!

    Ef við eigum að eiga einhverja von um jafntefli eða sigur á morgun þurfa Carra og Agger að gjöra svo vel og stoppa tröllið í sókn Chelsea. Ef Drogba nær að leika lausum hala gæti hann slegið okkur út nánast einn síns liðs. Ég hef ekki áhyggjur af miðjuslagnum, okkar ofur-lineup þar hefur yfirburði gegn Lampard og Co og ég er bjartsýnn á að okkar menn nái marki á morgun. En ég er skíííííthræddur við helvítið hann Drogba.

    Carra vs. Drogba. Það er lykillinn að þessu einvígi. Kuyt, Crouch og Gerrard sjá um sitt, það er undir Legend komið að stoppa Fílabeinströllið.

    Fokk hvað ég er orðinn stressaður fyrir þetta. :confused: 🙂

  2. Ég set undir bjór að Carra stoppi Drogba.. fokk það, ef Drogba skorar í hvorugum leikjunum þá áttu inni Bjór hjá mér, ef þú drekkur ekki þá e-ð annað!

  3. Já Kristján það er rétt… Drogba er erfiður… og ljóst að Carragher og Agger munu fá nóg að gera til að halda honum niðri.

    Og þrátt fyrir að Schevchenko sé ekki búinn að eiga sitt besta tímabil í vetur þá þekkir hann þessa stöðu mæta vel og gæti verið lykillinn að velgengni Chelsea þegar svona langt er komið.

    Einver spenntur?…uuuuuuusssssssss

  4. Mjög líklegt er að Ballack keppi ekki eftir að hann fór útaf á móti Newcastle meiddur á rist eða ökkla sem að er ekkert nema gott:D

  5. Þetta verður 1-1 annað kvöld þar sem Riise skorar. 0-0 svo á Anfield og liverpool áfram á marki á útivelli.

    En hvað segja menn um mótherja í Aþenu ef liverpool kemst þangað. Hvora vilja menn fá.
    Veit ekki alveg hvort liðið ég myndi vilja fá sjálfur. :confused:

  6. Sem United maður er ég nú hálfmóðgaður ef þið eruð ekki með á hreinu með hverjum þið haldið í kvöld! 😯

    Haldið þið kannski að við verðum svona auðveldir mótherjar??

  7. Björn ef ég teldi Manu vera auðvelda mótherja myndi ég einmitt halda með þeim í kvöld 😉
    Eftir Roma leikinn var maður ekkert allt of spenntur að mæta þeim.

  8. Skiptir ekki neinu máli hverjum við mætum í úrslitaleiknum. Tökum þetta. Get samt einhverra hluta vegna ekki haldið með ManU

  9. Fín umfjöllun og lýst mér vel á uppstillinguna. Það er samt spurning hvort Rafa verði ekki aðeins varnarsinnaðri, þar sem við erum á útivelli. Spurning hvort Pennant (sem hefur sýnt frábæra takta undanfarið) þurfi að víkja fyrir Riise og þá fari Arbeola í vinstri bak. Maður veit ekki, en eitt er víst….Þetta verður rosalegt, ég er orðinn sveittur í höndunum og það eru 25 tímar í leik…úfff:)

  10. Af einhverri ástæðu hef ég sé ég mynd af 0-2 fyrir mér í allan dag þegar ég hugsa um leikinn!

    Þetta Liverpool lið er hætt að koma mér á óvart með einhverjum fáránlegum úrslitum þegar maður á síst von á og býst við erfiðum leik. Vona að þetta rætist og við höldum uppi sama hætti.

    kv ..

  11. Ég leyfi mér einfaldlega ekki hugsa svo langt að hafa skoðun á úrslitaleiknum. Núna er það Chelsea og eingöngu Chelsea.

    Siggi, ég hugsaði þetta og vel má vera að Rafa stilli upp Riise á vinstri kantinum og Arbeloa í bakverðinum en er það ekki kannski eitthvað sem José gerir ráð fyrir? Kannski sækjum við grimmt á Chelsea til að ná marki? Spurning!

    Björn: Ég held að það verði fullt af mörkum í kvöld í leiknum milli Man U og Milan. Bæði liðinu eru í meiðsla vandræðum með vörnina og sérstaklega Man U . Sé ekki fyrir mér Fletcher í vörninni eins og ég sá einhversstaðar rætt um. En ég held að Man U vinni leikinn 4-2. Spurning hvort það nægir á San Siro?

  12. Spái ósanngjörnum 2-1 sigri Chelsea.

    Síðan er ég 97,32% viss um að Milan tapar ekki á Old Trafford, enda eru þeir jafn sterkir á heima og útivelli.

    Held því miður fyrir okkur Liverpool-aðdáendur að það verði Chelsea og Milan sem spila til úrslita CL í ár.

  13. Frábær upphitun! Við höldum uppteknum hætti og fáum ekki á okkur mark á móti Chelsea í CL, spái samanlögðum 2-0 sigri okkar Liverpool manna. Sé ekki allveg á hvorn leikinn það skiptist kannski tveir 1-0 sigrar, held það bara! 0-1 fyrir Liverpool annaðkvöld !

  14. Jæja, þá er það ljóst að Carvalho verður allavega með á morgun hvort sem hann verður í byrjunarliði eða ekki. Góðar fréttir fyrir Chelsea a.m.k. held það hefði gefið okkur mjög gott “break” ef hann væri ekki í miðverðinum heldur essien, boulahrouz eða ferreira, allt frekar slakir leikmenn í þessari stöðu. Sérstaklega ef tekið er tillit til þess að þetta er STÓRleikur
    http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/europe/6582695.stm

  15. Ég er svo spenntur að ég get hvorki lesið þessa upphitun eða tjáð mig nokkuð um leikinn.

    Ég er frosinn af spenningi.

  16. Eg held að Benni lætur þá sækja grimt og freistar þess að ná marki strax 🙂 því eiga þeir ekki von á, og við vinnum 0-1

  17. Ég er að verða nokkuð spenntur fyrir þessu vægt til orða tekið.

  18. Ef spennan eykst mikið meira en orðið er, er hætta á að ég missi stjórn á hægðum mínum. Það yrði ekki gott, svona innan um samstarfsfólkið.

Fernando Torres – YNWA (uppfært)

Ó José!