Spekingar spjalla um markaskorun framherja Liverpool (uppfært)

Eru engin takmörk fyrir vitleysunni sem vellur uppúr íslenskum knattspyrnu lýsendum?

Í lýsingu við Fulham og Man U leikinn áðan þá fór Guðmundur Torfa mikinn við að þylja upp markaskorun toppliðanna fjögurra. Hann minntist á að á lista yfir **ELLEFU** [markahæstu menn Úrvalsdeildarinnar](http://uk.sports.yahoo.com/football/fapremiership/scorer.html) væri enginn Liverpool maður, en á listanum væru tveir Chelsea menn, tveir Man U menn og tveir Arsenal menn.

Sagði Guðmundur þetta lýsandi dæmi um það að **FRAMHERJAR** Liverpool væru ekki að standa sig og að það væri hugsanlega ástæða fyrir að Liverpool væri ekki í toppbaráttunni. Þetta er alveg makalaust.

Fyrir það fyrsta, þá er það furðulegt að telja upp **ellefu** markahæstu mennina. Hver ætli sé í tólfta sæti? Jú, Dirk Kuyt framherji Liverpool sem hefur skorað 9 mörk eða einu marki færra en Wayne Rooney og Thierry Henry.

En hverjir eru þessir tveir leikmenn hjá Chelsea og Man U sem sýna okkur hversu betur þessi lið standa sig í **framherjamálum**? Jú, markahæstur hjá Man U er **kantmaðurinn** Cristiano Ronaldo og næstmarkahæstur hjá Chelsea er **miðjumaðurinn** Frank Lampard. Arsenal er því eina liðið sem státar af tveim framherjum á þessum topp 11 lista. Ef við skoðum topp 13 yfir markahæstu menn þá eru Chelsea, Man U og Liverpool með 1 framherja og Arsenal með tvo: van Persie og Henry.

Ef við skoðum heildarskor **framherjanna** þá lítur þetta svona út:

**Arsenal**
van Persie 11, Henry 10, Adebayor 6. Samtals 27 mörk

**Man U**
Rooney 10, Saha 8, Solskjær 6, Larsson 1. Samtals 25 mörk

**Liverpool**
Kuyt 9, Bellamy 7, Crouch 6, Fowler 1. Samtals 23 mörk.

**Chelsea**
Drogba 17, Shevchenko 3, Kalou 2. Samtals 22 mörk

Semsagt, framherjar Arsenal hafa skorað 27 mörk. Framherjar Man U hafa skorað 25 mörk, framherjar Liverpool 23 mörk en framherjar Chelsea 22 mörk. Liðið sem er í fjórða sæti hefur á að skipa marksæknustu framherjunum. Framherjar Liverpool hafa skorað tveim mörkum færra en framherjar toppliðsins.

Þannig að væntanlega hefði verið nær lagi að gagnrýna framherja Chelsea fyrir slælega frammistöðu. En hvað það kæmi lýsingu á leik Man U og Fulham við er ofar mínum skilningi.

En látum það ekki hindra menn í að blaðra vitleysu í næstu útsendingu. Þetta eru jú bara staðreyndir og þær skipta engu máli þegar að menn vilja gagnrýna Liverpool sama hvað það kostar.

**Uppfært (EÖE)**: Eftir umferð dagsins hafa framherjar Man U sem áður skorað 25 mörk, en framherjar Liverpool eru nú þeim jafnir með 25 mörk líka þar sem að Robbie Fowler skoraði tvö mörk í dag.

7 Comments

  1. Ég er sammála þessu, mér fannst þetta agalega vitlaust hjá honum þegar hann var að þvaðra um þetta. Við erum klárlega ekki að skora nóg en það þurfa ekki endilega að vera framherjarnir sem skora mörkin.

  2. Þetta er stundum eins og að slást við steyptan vegg, Einar. Það er alveg sama hvað maður rífst og skammast, þeim bara fjölgar þarna úti þessum svokölluðu “sérfræðingum” sem nenna ekki að vinna vinnuna sína.

    Hér held ég að vissu leyti að Gummi Torfa hafi ekki endilega gert þetta til að reyna viljandi að gagnrýna Liverpool. En það er í gangi ákveðin mýta um að framherjar Liverpool skori miklu minna en framherjar hinna þriggja stóru liðanna og Gummi Torfa hefur sennilega bara hagrætt tölfræðinni svo að hún hentaði þeirri mýtu. Þá gat hann komið gagnrýninni á Liverpool að.

    En það er rétt hjá þér. Hvort sem það er þetta með Gumma Torfa eða fullyrðingar Henry Birgis um kylfuhögg Riise þá eru svona óábyrg og óvönduð vinnubrögð ekkert annað en óþolandi.

  3. Eitt í viðbót um þetta í kjölfar þessa leiks.

    AF hverju fær Man U ekki á sig þann stimpil að vera eins manns lið? Ég veit ekki um neitt lið á Englandi, sem stólar svona gríðarlega á krafta eins leikmanns í sínum leik einsog Man U gera á Ronaldo. Hann er algjör yfirburðamaður í þessu liði.

  4. Einar fanst það svona óbeint vera sagt í lýsinguni áðan…. eftir að montrassinn ronaldó skorðai áðan.. vel gert hjá honum.. tók boltan frá miðju… og leik alveg inn í teig og skoraði,,, með snertingu í fullham leikmann.. (þulirnir sáu það vísu ekki, sem er óskiljanlegt…) en halti björn sagði víst “hvar væri man statt ef ekki niti við kröftum ronaldo” kanski ekki alveg orðrétt en nálægt því…

  5. Já, Kristján – þessi Ronaldo punktur tengist ekki lýsingunni, heldur bara umfjöllun almennt. Þetta Man U lið væri í algeru rugli án hans.

  6. Væri Liverpool ekki í algeru rusli án Steven Gerrard? Væri Chelsea ekki í algeru rusli án Didier Drogba? Væri Arsenal ekki í algeru rusli án Henry?

  7. Jú, vissulega væri Liverpool í vandræðum án Gerrard. En menn tönglast líka á því reglulega að Liverpool sé eins manns lið.

    Og ég vil halda því fram að Liverpool með Alonso og Momo á miðjunni eða Chelsea með Shevchenko frammi eða Arsenal með van Persie og Adebayor frammi væru í **miklu** betri málum en Man U án Ronaldo.

Sheff Utd á morgun!

Viðtal við Javier