Bolton á morgun

_42384021_liv_bol_0506.gif
Á morgun tökum við á móti Bolton á Anfield eftir góðan útisigur á Tottenham í gær. Bolton vann Portsmouth á heimavelli 3-2 og er sem stendur í 3ja sæti deildarinnar, 2 stigum á undan okkur sem þýðir að með sigri komumst við upp fyrir þá og í 3ja sætið. Liðin í kringum okkur eiga eftirfarandi leiki:

1. janúar
Portsmouth – Tottenham og Newcastle – Man U .

2. janúar
Arsenal – Charlton og Aston Villa – Chelsea.
Þannig að það er vel raunhæft að við gætum komist 3 stigum nær Chelsea og Man U eftir leiki umferðarinnar.

En lítum á liðið okkar. Við erum búnir að spila fantavel í desember og ef frátalinn er slappur leikur gegn Blackburn þá erum við með 100% árangur í deildinni. Rafa hefur nánast notað sömu 16 leikmennina undanfarið og tel ég litla breytingu þar á. Hyypia fékk algjöra hvíld í gær gegn Tottenham og tel ég því líklegt að hann komi inní byrjunarliðið fyrir Agger. Bellamy fór út af í gær með smávægileg meiðsli aftan í lærinu og líklega byrjar þá Crouch í hans stað. Riise hlýtur að fara að fá hvíld og Pennant gæti hugsanlega byrjað.
En lítum á hvernig ég tel að Rafa byrji á morgun:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Aurelio

Pennant – Gerrard – Alonso – Luis García

Crouch – Kuyt

Á bekknum: Dudek, Agger, Riise, Gonzalez, Bellamy.

Skv. netmiðlum þá er talið líklegt að Big Sam byrji með sama lið og gegn Portsmouth eða:

Jaaskelainen

Hunt – Meite – Campo – Ben Haim

Davies – Faye – Nolan – Speed – Diouf

Anelka

Hvernig þessu liði er stillt upp eða með hvaða leikaðferð hef ég ekki hugmynd um.

Við spiluðum á Reebok Stadium 30. september og [töpuðum illa 0-2.](http://www.kop.is/gamalt/2006/09/30/13.54.39/) Kristján Atli var þá ekki að spara stóru orðin:

Í dag léku fjórtán leikmenn fyrir Liverpool. Í dag léku fjórtán leikmenn illa fyrir Liverpool. Enginn maður leiksins í dag, og ekki heldur neinn skúrkur. Rafa og leikmennirnir fá falleinkunn í dag og verða að taka sig á í næstu útileikjum til að þetta tímabil fari ekki bara í vitleysu. Dómarinn og aðstoðarmenn hans, hins vegar, ættu að skammast sín.

Ef við förum yfir leiki okkar gegn Bolton síðustu 3 tímabil þá höfum við unnið þá tvisvar sinnum 1-0 og einu sinni 3-1 á Anfield en aldrei á Reebok. Þannig að sagan og tölfræðin segir okkur að við vinnum á morgun og líklega þá 1-0. Bolton er lið sem er ekki þekkt til að fá mörg mörk á sig og spila afar varnarsinnað. Anelka er oftast einn frammi og ef hann fær ekki úr mikla að moða þá er hann fljótur að pirra sig á samherjum sínum. Ivan Campo hefur spilað afar vel á þessu tímabili sem og Jussi í markinu er ótrúlega góður markvörður. Góðkunningi okkar, Diouf, mun örugglega gera allt til að sanna sig á Anfield (ég hata þennan leikmann).

Ég tel að lykilatriðið hjá okkar mönnum sé að skora fyrst því í vetur höfum við aldrei náð að vinna leik þegar við lendum undir. Hins vegar vinnum við ávallt þegar við erum yfir í hálfleik. Ennfremur finnst mér liðið spila oftast betur þegar við leiðum. Það er eins og liðið nái að slappa af og þetta óþarfa stress sem hrjáir stundum liðið hverfi. Einnig er mikilvægt að loka vel á Anelka og Diouf ásamt því að Gerrard og Alonso þurfa að vera tilbúnir í slagsmál gegn þeim Nolan, Campo og Speed.

Ég spái okkur 1-0 sigur og að Crouch setji gott mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Þetta verður líklega ekki skemmtilegasti leikur vetrarins en mikilvæg 3 stig og setjumst í 3 sætið. Í framhaldinu geri ég þá kröfu að liðið fari ekki aftur niður fyrir það sæti.

Ein athugasemd

  1. Fín upphitun. Ég er sammála þér í því að þetta verður örugglega með lélegri knattspyrnuleikjum ársins, hvað varðar fallega knattspyrnu enda ekki mikið um dýrðir í spilamennsku Bolton-liðsins og menn verða að mæta þeim af sömu hörku til að geta náð árangri.

    Vonandi innbyrða okkar menn sigur, það er ofar öllu. Mér er sama hvernig liðið leikur, ég þigg annan 1-0 sigur og nauðvörn. Við bara verðum að vinna þetta hundleiðinlega helvítis Bolton-lið, það er ekkert annað lið þarna úti sem fer jafn mikið í taugarnar á mér og þeir.

    1-0 fyrir okkur og Igor Biscan skorar sigurmarkið á lokamínútunni. :blush:

Staðan í lok árs

Skoskur strákur á leiðinni?