Meistaradeildin: riðlakeppnin búin!

Jæja, í kvöld lauk riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir árið 2006. Þrátt fyrir smá hræðslukast héngu bæði Man U og Arsenal inni í keppninni þannig að það verða fjögur ensk lið í hópi þeirra sextán bestu eftir áramót. Okkar menn eru þar á meðal og það er ekki úr vegi að kíkja á hvaða lið þetta eru og hverjir mögulegir mótherjar okkar manna eru.

1. SÆTI:
Chelsea – Bayern München – Liverpool – Valencia
Lyon – Man Utd – Arsenal – AC Milan

2. SÆTI:
Barcelona – Internazionale – PSV – Roma
Real Madríd – Celtic – FC Porto – Lille

Við getum ekki mætt PSV úr seinni grúppunni en þar sem hin ensku liðin þrjú unnu líka öll sína riðla eru þetta sjö mögulegir andstæðingar sem við erum að horfa til. Það eru nokkrir hlutir sem vekja athygli við úrslit riðlakeppninnar í ár:

1. Það er nánast ekkert sem kemur á óvart, aldrei þessu vant. Celtic fer áfram á kostnað Benfica í F-riðli og Lyon enda sinn riðil fyrir ofan Real Madrid, en að öðru leyti fór þetta nákvæmlega eins og líklegast þótti í öllum riðlum.

2. Real Madríd og Barcelona eru bæði í seinni grúppunni. Ég veit ekki með ykkur, en ég vil helst af öllu forðast þessi tvö lið, því þótt það séu öll lið sterk á þessu stigi keppninnar held ég að við getum verið sammála um að þetta séu einu liðin, auk kannski Internazionale, sem myndu teljast sigurstranglegri gegn Liverpool í 16-liða úrslitum.

3. Öll fjögur ensku liðin vinna sína riðla. Hvað er langt síðan það gerðist síðast? Þegar maður horfir á Úrvalsdeildina, þar sem tvö lið eru að skilja sig frá meðalmennskunni, er engu líkara en að enski boltinn sé ekki jafn sterkur og menn vilja vera láta, en svo horfir maður á velgengni ensku liðanna í bæði Meistaradeildinni og Evrópukeppni félagsliða. Hvort er hið sanna?

4. Fyrir utan Celtic (Skotland), PSV (Holland), Bayern München (Þýskaland) og Porto (Portúgal) eru þetta heil tólf lið frá fjórum löndum; fjögur frá Englandi, þrjú frá Ítalíu og Spáni og tvö frá Frakklandi. Þegar maður horfir á þær tölur er auðvelt að skilja hvaðan Michel Platini er að koma í gagnrýni sinni á einhæfni Meistaradeildarinnar, en um leið er ekki hægt að flýja þá staðreynd að þetta er einfaldlega sterkasti hugsanlegi hópur þátttakenda í Meistaradeildinni í ár. Hvort viljum við, bestu liðin eða fjölbreyttasta úrval þjóða í 16-liða úrslitum?

5. Ég persónulega vona að við fáum Lille, því þeir gætu verið auðveldasta liðið í seinni hópnum vegna reynsluleysis síns í Meistaradeild (við sögðum þó það sama um Benfica í fyrra, nota bene) en ég get ekki neitað þeirri staðreynd að ef við drögumst gegn Barcelona yrði það draumaviðureign fyrir mig, sem er heitur stuðningsmaður beggja liða. Enda ef það gerist þá fer ég á báða helvítis leikina!

Hvað finnst mönnum? Er Meistaradeildin í ár of einhæf og fyrirsjáanleg? Er enska knattspyrnan virkilega svona sterk? Hverjir eru draumaandstæðingar lesenda bloggsins?

20 Comments

  1. Persónulega myndi ég vilja fá Lille í 16 liða úrslitum eða þá Celtic. Hugsa að við ættum að geta sparkað þeim úr keppninni auðveldar en öðrum, þó það verði kannski ekki auðvelt!

    Meistaradeildin finnst mér ekki of einhæf, jú, auðvitað eru mörg lið frá sama landinu en þetta eru einfaldlega bestu liðin í Evrópu í dag! Það myndi ekki bæta keppnina að mínu mati ef liðunum yrði fækkað í 3 frá hverju landi og fleiri lið frá minni löndum bætast við. Það yrðu náttúrulega stórslys ef lið sem eins og TNS kæmust eitthvað áfram úr fyrstu eða annarri umferð.

    Enska knattspyrnan er orðin mjög sterk en það er líka út af þar er mikið af peningum og á aðeins eftir að aukast. Hvort að það sé skref í rétta átt að fækka liðum þaðan í stórmótum efast ég um. En hins vegar veit ég að hvaða lið sem við fáum þá verður þetta spennandi keppni héðan í frá og núna er að duga eða drepast!

  2. segi það sama og þú með Barca… það væri draumur að fá “hitt” uppáhaldsliðið…

    þetta er fyrirsjáanlegt því að bestu liðin eru að vinna sína leiki, það er ekki hægt að kall það einhæft eða leiðinlegt…
    þetta er líka ástæðan fyrir því að mér finnst oftast skemmtilegra að horfa á EM en HM… það er ekki jafn mikið af lélegum liðum…

  3. Einhvern veginn finn ég á mér að við fáum Roma eða Porto.
    Mér líst ekki á að fá Celtic en það yrði frábært að fá Barcelona eða Lille af mismunandi ástæðum.

  4. Við getum unnið öll þessi lið en við getum líka tapað fyrir þeim öllum…

    Barcelona: Væri meira en lítið til í að fá þá. Gaman að sjá okkar menn kljást við besta félagslið í heimi. Eina liðið sem ég myndi ekkert verða fúll yfir því að detta úr keppni fyrir.

    Internazionale: Þessir leikir yrðu rosalegir. Vil samt helst sleppa við þá þar sem einn af mínum bestu vinum myndi ekki láta mig í friði ef Inter myndi vinna, enda gallharður stuðningsmaður Ítalíumeistaranna, sem og Man U.

    Roma: Við eigum góðar minningar frá Róm. Liverpool var ekki talið sigurstranglegri aðilinn fyrir leikinn í UEFA keppninni fyrir fimm árum, en væri sigurstranglegri í dag. Eru með fullt af skemmtilegum leikmönnum og væri gaman að eiga við þá.

    Real Madríd: Lið sem ég elska að hata. Mig langar mest af öllum til að Liverpool slái Real Madrid út. Eru með frábært lið og frábæran stjóra… yrðu gríðarlega erfiðir leikir.

    Celtic: Ég nenni eiginlega ekki í “Baráttuna um Bretland” svo ég taki forskot á klysjuna sem enska pressan mun slá upp. Eru erfiðir við að eiga, sýndu hvers þeir eru megnugir gegn Man U.

    FC Porto: Mér lýst eiginlega ekkert á að fara til Portúgals. Ég veit ekki hvort að það er bara Benfica frá því í fyrra eða hvað, en ég vil alls ekki fá Porto. Hef slæma tilfinningu fyrir þessu liði…!

    Lille: “Smáliðið” Lille fer að öllum líkindum ekki lengra en í 16. liða úrslitin. Væri gott að mæta þeim af því þeir eru með lakasta liðið sem við getum mætt en ég er alveg til í að fara erfiðari leiðina að titlinum 🙂

  5. Hvort værum við til að hafa Real Madrid, Valencia, Roma, Inter, Liverpool, Man Utd, Arsenal í keppninni eða Lokamotiv Moskva, FH, Gautaborg, Beitar Jerusalem, Olympiakos, Sparta Prague og Austria Vín?

    Ég myndi velja fyrri kostinn, er ekki að horfa á meistaradeildina til að auglýsa knattspyrnu í ýmsum evrópulöndum heldur til að horfa á gæðalið spila góðan fótbolta. Platini og hans frönsku hrokagikkir félagar hans ættu því að loka munninum því eina skiptið sem Frakkar kvarta er eitthvað sem entar þeim ekki.

    Ósammála ykkur um að mæta Lille eða Celtic. Ég vill spila strax við Barca, Real, Inter eða Roma. Liverpool gengur oftast betur gegn svona liðum frekar en Lille og Porto. Ég spái því og vona að við mætum Barcelona strax.

  6. Þess má til gamans geta að drátturinn fer fram 15/12 sem er föstudagur.

    Leikirnar verða 20/21.02.2007 & 06/07.03.2007

    Vil fá Inter, ástæðan er einföld: Leikur er aðeins sýndur beint í sænsku sjónvarpi ef þeirra eigin landi er að spila. Þeir elska Zlatan og bókað að sá leikur væri sýndur. Eru m.a. að fara nefna lest eftir honum. Sé þetta fyrir mér á klakanum, “Ég ætla fara taka Eið”, í merkingunni ég ætla taka strætó.

  7. Frábær pistill, og frábært að sjá hversu vel við Púllarar komum úr riðlakeppninni. Varðandi möguleika á að komast áfram myndi ég vilja fá Lille … en annars tek ég undir orð Kristjáns Atla: minn draumaleikur yrði Liverpool-Barcelona 🙂 Og enn meira er ég sammála um orð Einars, þar sem ég myndi sannarlega fara á Liverpool-Barcelona úrslitaleikinn!! :biggrin:

    Varðandi einhæfni og áhyggjur Platinis… þá veit ég ekki hverju væri hægt að breyta til að gera þetta að jafnari eða skemmtilegri keppni. Ekki finnst mér rétt að refsa einu landi þó svo að þeirra félagslið séu áberandi betri. Þetta byrjar jafnt í byrjun og á endanum er riðlakeppnin og svo 16 liða úrslit. Eins sanngjarnt og það getur verið – að mínum dómi. Þetta árið virkar England sem sterkasta landið yfir heildina, þar sem fjögur liðin þeirra unnu öll sína riðla – Liverpool samt með besta árangurinn (13 stig og sex mörk í plús, betra markahlutfall en Chelsea 🙂 )

  8. Vona að við fáum Celtic, en finnst einhvernveginn að það verði ítalskur réttur á borðum í fyrstu umferð, Inter eða Roma segi ég 😯

  9. Vonandi losnum við aðeins lengur við Barca, R.Madrid, Inter og Roma.

    Að mæta Celtic, Porto eða Lille væri líklega skásti kosturinn og eiga heimaleikinn fyrst heima. Vinna þar 2-0 og klára seinni úti með hörkunni 1-1.

    Celtic eru ágætir sem og Porto og Lille en þetta eru samt öll lið sem við eigum að klára. FCK yfirspilaði í gær Celtic frá fyrstu mínútu og var pínlegt að sjá þetta lið sem vann svo góðan sigur á Man U stuttu áður.

    Við verðum að komast sem lengt í CL og FA Cup til að “redda” þessu tímabili, ekki erum við að veita Man U og Chelsea samkeppni í deildinni.

  10. Við fáum ekki heimaleikinn fyrst. Þar sem við lentum í efsta sæti þá fáum við útileikinn fyrst.

  11. Enda er mun betra að byrja úti, reyna að ná sem hagstæðustu úrslitum þar og eiga svo heimaleikinn fyrir framan brjálaða stuðningsmenn á Evrópukvöldi á Anfield.

  12. Skiptir engu máli hverja Liverpool fær eða hvenær.

    Fyrir tveimur árum þurfti fór liðið í gegnum Bayer Leverkusern, Juventus, Chelsea og AC Milan.

    Í fyrra komst það ekki í gegnum Benfica.

    Allt spurning um hugarfar.

    Bring on Barcelona!

  13. Skiptir engu máli hverja Liverpool fær eða hvenær.

    Í hittífyrra fór liðið í gegnum Bayer Leverkusern, Juventus, Chelsea og AC Milan.

    Í fyrra komst liðið ekki í gegnum Benfica.

    Allt spurning um hugarfar!

    Bring on Barcelona!

    Og Liverpool – Manchester United í Aþenu í maí.

  14. Daði, maður ýtir einu sinni á “Staðfesta,” telur svo upp að tuttugu og þá er þetta komið. Það eru bara þið óþolinmóðu sem lendið í vandræðum. 😉

    Annars er ég sammála þér með dráttinn. Það skiptir meira máli að liðið nái að leika sinn leik og rífi upp stemninguna, en að fá lakara lið. Lélegur leikur gegn Lille eða góður leikur gegn Barcelona?

  15. Ég spái því að drátturinn verði svona: Arsenal – Inter M, Bayern M – Roma, Chelsea – Celtic, Liverpool – Barcelona, Lyon – Porto, Man U – Lille, Milan – Real M og Valencia – PSV. Inter, Bayern, Chelsea, Barcelona, Lyon, Man U, Milan og Valencia komast svo áfram, hana þá getur maður sparað sér áskrift á Sýn fram í mars 🙂

  16. Hmmmm ..Ég hef eiginlega enga draumaandstæðinga. Eftir skellinn í fyrra gegn Benfica þá veit maður að það skiptir eiginlega engu máli hverjum við mætum á þessu stigi. Eigum við bara ekki að segja að ósk Krisjáns Atla og draumtúlkun hans rætist og við mætum Barcelona!!!! :rolleyes: 😯 Og ég hafi rangt fyrir mér í draumráðningum!!!!

    Ég er ekkert inn í þessu með ummæli Platinis. En ef til vill er það umdeilanlegt hvort fjögur lið úr EPL sé of mikið??!!! Ég veit bara ekki hvernig þetta er metið hjá þeim til að hafa vitræna skoðun á þessu.

Ronaldo

Sevilla ætla að halda í Alves