Wigan á útivelli á morgun!

heskey_wigan.jpgÁ morgun skella okkar menn sér í stutt ferðalag yfir til Wigan þar sem þeir mæta liði Paul Jewell á JJB Stadium. Þessi lið hafa aðeins mæst fjórum sinnum í sögu klúbbanna og Wigan-menn hafa aldrei unnið. Í fyrra mættust þessi lið í fyrsta sinn í efstu deild Englands, en nýliðar Wigan voru vafalítið spútniklið síðasta tímabils og héldu sér örugglega í deildinni þrátt fyrir hrakspár. Engu að síður fórum við með sigur af hólmi í báðum viðureignunum gegn þeim, unnum 3-0 sigur á Anfield fyrir réttu ári þar sem Peter Crouch skoraði fyrstu tvö mörk sín fyrir félagið, og svo 1-0 á útivelli í naumum leik þar sem mislukkað skot Sami Hyypiä skildi liðin að.

Um Wigan-liðið er margt hægt að segja hvað varðar okkur Púllarana. Framkvæmdarstjórinn þeirra, Paul Jewell, er uppalinn Púllari og Scouser inn við beinið og hefur unnið algjört kraftaverk með Wigan-liðið. Hann var þjálfari í varaliði Liverpool á níunda áratugnum sigursæla og margir – þar á meðal ég – sjá hann fyrir sér sem líklegan arftaka Rafa Benítez þegar stjórnartíð þess spænska lýkur. Það verður þó vonandi ekki strax, en ef Rafa verður í heil tíu ár í viðbót við stjórnina myndi ég samt vilja sjá Jewell koma til greina að þeim tíma loknum, að því gefnu að hans ferill fari á þá leið sem hann hefur verið hingað til. Jewell er einn efnilegasti stjórinn í bransanum í dag, svo einfalt er það.

Þá skartar Wigan-liðið nokkrum fyrrverandi leikmönnum Liverpool. Í fyrra léku þar menn á borð við David Thompson – fyrrum Púllari – og Jimmy Bullard. Þeir yfirgáfu félagið í sumar – Thompson til Portsmouth, Bullard til Fulham en er meiddur út tímabilið – en í þeirra stað fékk félagið til sín nokkra leikmenn, svo sem Adolfo Valencia að láni frá Villareal, Denny Landzaat frá Hollandi, Kevin Kilbane frá Everton, Svetoslav Todorov frá Portsmouth og svo fyrrum Liverpool-mennina Emile Heskey og Chris Kirkland.

Sá síðari hefur verið að mestu meiðslalaus það sem af er tímabili, aldrei þessu vant, og staðið sig vel í marki Wigan, enda hefur vörn þeirra verið að fá á sig fá mörk í undanförnum leikjum og liðið verið að klifra upp töfluna. Frammi hefur Heskey svo þegar fundið sig betur en hann gerði á tveimur árum hjá Birmingham og hefur myndað öflugt sóknarpar með Henri Camara, en þeir tveir eru vafalaust þeir leikmenn sem við þurfum að passa okkur helst á á morgun.

Wigan-liðið mun stilla upp nálægt því sínu sterkasta liði, en eini vafinn er hvort enski unglingalandsliðsmaðurinn Leighton Baines getur leikið í vinstri bakverðinum, en hann á í vandræðum með meiðsli. Þá er Arjen De Zeeuw, fyrirliði liðsins, tæpur en talið líklegt að hann nái sér fyrir leikinn. Þess utan eru vængmennirnir Valencia og Gary Teale fjarri góðu gamni, annars hefur Jewell úr fullum hópi að velja.

Hjá okkar mönnum er allt við sama heygarðshornið. Xabi Alonso og Craig Bellamy koma væntanlega aftur inn í hópinn, en sá fyrrnefndi sennilega aðeins á bekkinn, sem þýðir að Jamie Carragher heldur væntanlega áfram í stöðu miðjumanns við hlið fyrirliðans Steven Gerrard. Það er eitthvað sem segir mér að Rafa Benítez muni setja Craig Bellamy beint inn í byrjunarliðið, en hann hlýtur að iða í skinninu að fá að spila eftir að hafa lokið réttarhaldaraunum sínum á miðvikudag. Spurningin er bara hvort Rafa lætur annan hvorn kantmanninn víkja fyrir honum eða annan hvorn framherjann.

Á endanum held ég að Rafa muni nota tækifærið og hvíla Peter Crouch á morgun. Liðið hefur verið að leika nokkuð marga leiki undanfarið og framundan er brjálaðasta törn vetrarins, desembermánuður, sem og ferðalag til Tyrklands í næstu viku. Crouch er okkar heitasti maður í Meistaradeildinni og þótt við megum við því að tapa gegn Galatasaray held ég að Rafa muni hvíla hann, bæði til að hafa hann ferskan gegn Tyrkjunum og til að koma Bellamy að á morgun.

Jermaine Pennant ætla ég að nefna sérstaklega, en hann hefur verið slappur að undanförnu. Ég á þó ekki von á öðru en að Rafa leyfi honum að byrja áfram inná, bæði af því að hann hefur ekki marga aðra kosti í stöðunni sökum meiðsla og einnig af því að Pennant þarf nauðsynlega á því að halda, sjálfstraustins vegna. Ég vona að einn af þessum dögum eigi hann góðan leik og brjóti af sér hlekki sjálfstraustsins, en maður verður vissulega þreyttari á því að bíða með hverjum leiknum sem líður. Vonandi nær hann þó að sýna sitt rétta andlit á morgun, en fjarvera Leighton Baines í vinstri bakverði Wigan gæti veitt honum óvænta hjálp í þeim efnum.

Ég spái því að liðið á morgun verði sem hér segir:

Reina

Finnan – Hyypiä – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Carragher – Luis García

Bellamy – Kuyt

BEKKUR: Dudek, Palletta, Alonso, Fowler, Crouch.

Ég verð að viðurkenna að ég er eilítið hrifinn af þessu Wigan-liði. Þeir eru spútniklið, staðsett nálægt Liverpool-borg og tengsl þessara tveggja liða, eins og kom fram fyrr í þessari upphitun, eru umtalsverð. Þeir spila skemmtilegan fótbolta og ólíkt mörgum öðrum liðum hafa þeir nálgast flesta heimaleiki gegn stærri liðunum með það að markmiði að sækja til sigurs, þannig að við getum búist við opnum og spennandi leik á morgun.

MÍN SPÁ: Varnir beggja liða hafa verið sterkar en Wigan-mönnum hefur gengið öllu betur að skora á heimavelli en Liverpool á útivelli. Á móti kemur að Baines mun væntanlega ekki leika sem veikir vörn Wigan umtalsvert, á meðan mér finnst okkar menn vera aðeins einu útimarki frá því að opna einhvers konar dyr hvað varðar markaskorun fjarri Anfield. Ég vona það allavega.

Ég ætla því að spá markaleik á morgun. Þetta verður opinn og skemmtilegur leikur þar sem ég sé annað liðið fyrir mér vinna svona 2-1 eða 3-2 sigur. Jafntefli er þó alveg möguleiki líka, en ég held bara að okkar menn muni selja sig dýrt á morgun í leit að sigri, eftir jafnteflið gegn Portsmouth, og það muni annað hvort takast eða fara illa.

Ég ætla að vera bjartsýnn og spá okkar mönnum 2-1 sigri gegn Wigan á JJB Stadium á morgun. Þessi spá mín veltur þó algjörlega á því að okkar menn skori fyrsta markið, og helst snemma, en ef Wigan-menn skora á undan gæti morgundagurinn orðið erfiður. En ég spái sigri og held að Bellamy muni skora eftir góðan undirbúning Jermaine Pennant! Jájá, af hverju ekki? 🙂

Áfram Liverpool!

20 Comments

  1. “Ég vona að einn af þessum dögum eigi hann góðan leik og brjóti af sér hlekki sjálfstraustsins.„

    Já það getur verið sligandi andskoti þetta helvítis sjálfstraust. Má ég þá frekar biðja almennilega lítið sjálfsmat og alla þá hamingju sem því fylgir. :biggrin:

  2. Vill bara leiðrétta undarlega villu, hann heitir ekki Matt Bullard heldur að sjálfsögðu Jimmy Bullard

  3. :rolleyes: Þetta er að mörgu leyti athygliverður leikur. Og eitt er víst að hann verður erfiður. Wigan er sterkt lið með mikinn karakter en það vantar tilfinnanlega í okkar lið. Sjálfstraustið er í lágmarki og markaskorun líka. Auðvitað vonar maður og trúir að nú muni það loksins koma sem beðið hefur verið eftir í allan vetur að okkar menn fari að skora. En til þess þarf að stilla menn þannig af að benites sýni einusinni traust á liðinu og láti það spila bullandi sóknarbolta. Við sáum hvernig liðið kom eftir teboðið hjá benites í leikhléinu í síðasta leik. Algerlega rúnir sjálfstrausti og andstæðingarnir nánast yfirspiluðu okkar menn fyrsta hálftímann í seinni hálfleik. Svoleiðis mótívering er ekki í lagi. Stjórinn verður að hafa þrekið og þorið til að geta peppað menn upp til sigurs. Annars er þetta vonlaust jafnt heima sem heiman. Ég hefi ekki frið dult með þá skoðun mína að rafael benites hafi ekki það sem þarf til að stjórna liði í enska boltanum. Vonandi rekur hann mig á gat með þessa skoðun mína. Það hefur ekki gerst ennþá og því miður sé ég engin merki þess að það sé að gerast. Vonandi hefi ég rangt fyrir mér og í þeirri von spáin ég 1 – 2 sigri okkar. :tongue:

  4. Sigtryggur, en dugar þér ekki að Benitez hafi það sem til þarf til að stýra liði til árangurs í Meistaradeild? Hvaða kröfur eru þetta með að ná árangri í deild og Evrópu? Vilja menn bara vinna heima út af því að við unnum Meistaradeildina í fyrra? Barcelona náði árangri á báðum vígstöðvum í vor, en það er ekki eins og það sé sjálfgefið.

    Hvort er það sem stuðningsmennirnir vilja frekar? Vera eins og Chelsea, vinna heima tvö ár í röð en geta ekkert í Evrópu, eða vera eins og Liverpool, öll stórlið í evrópu skíthrædd við okkur en því miður ekki meðalliðin í ensku deildinni.

    Jújú, auðvitað viljum við vera bestir bæði í Evrópu og heima, segir sig sjálft. En hvað viljiði sjá frekar; árangur heima fyrir eða í Evrópu? Og ef það er tvöfalt sem þið viljið, hvora leiðina eigum við að fara þangað; byggja upp deildarlið sem svo vinnur Meistarakeppnina eða byggja upp Meistaradeildarlið sem svo vinnur dolluna heima fyrir?

    Verða ManUtd sáttir við að vinna deildina ef þeir komast ekki uppúr sínum riðli? Haldiði að Abramovich dugi ef Mourinho tekur þriðja titilinn heima fyrir ef hann vinnur ekki þann stóra?

  5. Við bara vinnum þennann leik “PUNKTUR”

    Avanti LIVERPOOOOOOOOL

  6. Maður er nú alltaf að eltast við toppliðin. Hví spila Chelsea ekki?

  7. Smá pælingar um liðið OKKAR LIV.Endilega pælið líka. Reina góður.Finnan altaf traustur.Hyypia traustur en?.Agger fínn á eftir að leika meira.Rise getur verið góður en dettur svo niður.Pennand ekki náð sér á strik getur verið pirraður stundum.Gerrard.Carr.Alonso góðir. Gonsales ??.Luis góður og slæmur ??.Kuyt ?duglegur en þarf að skjóta meira.Crouch góður en smá óheppinn .Fowler þarf að spila meira er markaskorari.Bellamy ?lagast kanski eftir réttarhöldin

  8. Ég hef mikla trú á hjarta Liverpool í þessum leik. Vonbrigðin voru gífurleg síðast og botninum er náð. Leiðin er upp á við – hjartað ræður för á morgun og við vinnum 3:1, mögulega 4:1, þar sem Bellamy skorar tvö og Kuyt og Agger sitt markið hvor (fari leikurinn þrjú eitt, þá sleppir Agger því að skora).

    Áfram Liverpool!

  9. Seðill…

    Ég, eins og flestir Liverpool stuðningsmenn (trúi ég amk.) vil fyrst og fremst vinna deildina heima. Hver man ekki eftir gullmolanum sem Shankly skildi eftir sig; ,,Cups are all well and good, but it is the league that is the bread and butter of Liverpool FC.”

    Punktur.

  10. Ég skil ekki almennilega fólk sem vill vinna deildina umfram aðrar keppnir. Haldiði virkilega að það sé til sá Chelsea eða Man U aðdáandi, sem myndi ekki vilja skipta á einum enskum titli og bikarnum okkar frá Istanbúl?

    Meistaradeildin er númer 1, deildin 2, enski bikarinn 3.

    Ef við værum hins vegar dottnir útúr riðlinum í Meistaradeildinni og efstir í ensku núna þá myndi ég auðvitað segja eitthvað allt annað 🙂

    Nei, í alvöru talað – svona myndi ég raða þessu. Gleðin við að vinna stærsta úrslitaleik félagsliða er bara svo stórkostleg. Það er enginn slíkur hápunktur á deildartímabili.

  11. chelsea með 1/2 fermeter fyrir bikarana sína liverpool með heilan hektara við erum bestir

  12. Verð að vera ósammála þér Einar, deildin er klárlega númer eitt hjá mér. Þú þarft til dæmis ekki að mæta öllum bestu liðunum til að ná langt í Meistaradeildinni, ekki það að ég sé að gera lítið úr afreki okkar eða þessari stórkostlegu keppni.

    Fyrir mér er það stöðugleiki sem einkennir bestu liðin. Bestu liðin hrasa ekki þegar neyðin er mest, þau standa sig. Það er Liverpool ekki að gera um þessar mundir, því miður, en það er staðreynd.

    Kannski hugsaði maður öðruvísi ef við hefðum ekki unnið í Istanbúl, eða Liverpool hefði orðið enskur meistari á undanförnum árum, ég veit ekki. Að slá öllum erkifjendum okkar ref fyrir rass, það væri alveg málið!

    Gaman væri samt að sjá hvaða skoðun aðrir hafa á þessu? 🙂

  13. Mér finnst eiginlega ekki hægt að bera saman Meistaradeildina og Úrvalsdeildina ensku. Þetta eru eins og tveir ólíkir heimar:

    1. England. Hér er spilað um sigur í deildarkeppnum og svo tvær bikarkeppnir, auk minni bikara. FA bikarkeppnin er Englendingunum kær þar sem hún er elsta keppni í heimi, en það er engin spurning að það er ekki til meiri heiður á Englandi en sá að vinna Úrvalsdeildina eða efstu deildina, að vera bestur yfir 38-leikja tímabil sem spannar níu mánuði.

    2. Evrópa. Hér komst efstu liðin í efstu deildum allrar álfunnar að; fjögur efstu ensku liðin fara í Meistaradeildina og svo fjögur næstu í Evrópukeppni félagsliða. Meistaradeildin er því vafalaust hærra skrifuð, en Liverpool hefur eitt enskra liða unnið sigur í Evrópukeppnum á þessum áratug – félagsliða árið 2001 og Meistaradeildina árið 2005.

    Sem sagt, við getum rifist eins og við viljum við Chelsea-menn en það er erfitt að komast að niðurstöðu. Meistaradeildin er á stærri skala, stærsta félagsliðakeppni í heiminum og sú sem vekur mesta eftirtekt, og því er það bikar #1 í heimi félagsliða á hverju ári. En að sama skapi leggja Englendingar skiljanlega meiri virðingu að fótum Úrvalsdeildarinnar, en þar spila ensku liðin innbyrðis yfir níu mánuði og aðeins besta liðið hverju sinni getur sigrað.

    Þannig að þótt Chelsea hafi unnið tvo slíka og Arsenal einnig á þessum áratug, og United þrjá, hefur Liverpool eitt liða unnið Evrópukeppnir á þessum sama áratug. Ef litið er á bikarkeppnirnar í Englandi er Liverpool á svipuðum stalli og Arsenal og United fyrir þennan áratug en þau tvö ásamt Chelsea standa okkur framar í Úrvalsdeildinni, á meðan þau öfunda okkur öll þrjú í Evrópu.

    Sem Púllari er hins vegar augljóst mál að það sem okkur vantar er Úrvalsdeildin, og því leggjum við mesta áherslu á hana. Við höfum sannað getu okkar á þessum áratug og undir stjórn Rafa í bikarkeppnunum og Evrópukeppnunum, en enn á liðið eftir að fullkomna sigurgöngu áratugarins með því að vinna Úrvalsdeildina. Ef við hefðum unnið Úrvalsdeildina og bikarkeppnirnar nokkrum sinnum en aldrei Evrópu – eins og Arsene Wenger hefur t.d. gert fyrir Arsenal – myndum við vafalítið vilja leggja áherslu á Meistaradeildina á næstu vetrum, en hjá okkur er það bara öfugt farið og því eðlilegt að við leggjum mest kapp á Úrvalsdeildina.

  14. Kirkland má ekkert spila er það nokkuð?

    Salan til wigan gengur ekkert í gegn 1/1 þannig að hann er en í láni frá okkur

  15. já og trausti chelsea-newcastle var frestað því newcastle voru að spila í uefa cup á fimmtudagin og ef hann yrði leikinn í dag þá hefðu newcastle fengið einn dag í frí og chelsea eiga leik í meistaradeildini á þriðjudaginn og ef hann yrði þá leikin á morgun fengu þeir bara einn dag

  16. Mig minnir að ég hafi lesið viðtal við Gerrard einhvers staðar að hann þráði ekkert heitar en að vinna ensku úrvalsdeildina með Liverpool.

    Persónulega finnst mér allir titlar góðir 🙂 en meistaradeildin er samt sem áður sá stærsti! Ég er 35 ára og sem krakki og unglingur upplifði ég glæsilegt tímabil Liverpool. Sú gloría, sá tími, er það sem ég þrái svo að upplifa í ensku deildinni aftur. Ef ég ætti að velja, þá myndi ég persónulega fremur kjósa að vinna ensku deildina í ár, heldur en meistaradeildina … bara út af þessari nostalgíu minni. Við höfum sannað okkur í Evrópu, og það kæmi mér í alvöru ekki á óvart ef við myndum vinna meistaradeildina í ár (alla vega komast langt), en heimavið … í ensku deildinni … þar er gullni kaleikurinn –

Samningaviðræður við Reina

Byrjunarliðið gegn Wigan