PSV á morgun

Jæja, þá er komið að Meistaradeildinni á ný. Það fer alltaf fiðringur um mann þegar kemur að þessum leikjum, það er einhvern veginn allt öðruvísi stemmning í kringum þá. Kvöldleikir, í miðri viku og hvort sem maður er á pöbbnum hérna heima, eða á sjálfum vellinum, þá eru Evrópukvöldin einfaldlega miklu stemmningsmeiri heldur en hinir almennu deildarleikir. Það er einhverskonar sjarmi yfir þeim. Það er afar jákvætt að mínum dómi að nú sé komið að þessari keppni á ný, og ennþá jákvæðara er að við skulum vera að spila á heimavelli.

PSV Eindhoven frá Hollandi koma í heimsókn í fyrsta skipti í alvöru leik á Anfield. Það var spilaður góðgerðarleikur við þá árið 1996 á Anfield, en annars er eina alvöru viðureign þessara tveggja liða, sú sem fór fram á þeirra heimavelli þann 12. september síðast liðinn. Þá skildu liðin jöfn 0-0. Bæði lið hafa þegar tryggt sæti sitt í 16 liða úrslitunum, og því er þessi leikur hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum, þ.e.a.s. það lið sem sigrar leikinn, vinnur riðilinn. Það er bara klárt mál. Það er svo annað mál hvort það skipti höfuð máli að sigra hann. Ég vil meina það, og þá er það ekki vegna þeirra andstæðinga sem menn geta hugsanlega fengið í 16 liða úrslitunum, heldur er það vegna sálfræði hlutans og þann sem snýr að sjálfstrausti liðsins, sem ég tel það mikilvægt að sigra riðilinn. Miðað við stöðu riðlanna í dag (og þeirra úrslita sem gætu litið dagsins ljós), þá gætum við mætt liðum eins og Barcelona, Inter, Roma, Real Madrid, Lille, Celtic eða Arsenal ef við vinnum riðilinn. En liðum eins og Chelsea, Bayern Munchen, Valencia, Manchester United, Lyon, CSKA Moskva eða Milan ef við lendum í öðru sæti. Í mínum huga er þetta ekki stóra málið, allt verða þetta gríðarlega erfið lið við að eiga. Það er því fyrst og fremst spilað um heiðurinn annað kvöld.

PSV er besta lið Hollands um þessar mundir, og hefur reyndar verið það undanfarin ár. Þeir hafa stundum misst lykilmenn frá sér, en hafa alltaf komið mjög sterkir tilbaka. Þeir eru svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin. Í þeirra liði er meðal annars “félagi” vor sem hefur verið nær dauða en lífi úr heimþrá, Jan Kromkamp. Stuðningsmenn Liverpool hugsa honum eflaust þegjandi þörfina fyrir óþarfa gaspur undanfarið. Annars er lið PSV með skeinuhætta framherja (aðdáandi pabba heitir annar þeirra) og svo er Cocu allt í öllu á miðjunni hjá þeim. Annars skilst mér að liðið hjá þeim hafi verið svona í síðasta leik:

Gomes

Kromkamp-Alex-Trindade-Salcido

Afellay-Cocu-Simons-Culina

Kone-Farfan

Það má svo alveg búast við því að sjá andlit eins og Michael Reiziger, Edison Mendez, Mika Väyrynen eða Patrick Kluivert kom inn í liðið eða inná sem varamenn. Það er allavega ljóst að þetta verður engin skemmtiganga í garðinum.

Þá að okkar mönnum. Luis Garcia og Aurelio eru sagðir tæpir fyrir leikinn, en engar nýjar fréttir eru af öðrum meiðslum. Ég hef mikla trú á að við sjáum mjög svipað lið og stillt var upp gegn Boro um síðustu helgi. Ég held að Rafa hreyfi ekki við vörninni, Stevie G fæ enn eitt tækifærið til að rífa sig upp úr lægð sinni og verður inni á miðjunni. Svo fá þeir aftur tækifæri á köntunum þeir Pennant og Gonzalez. Mín tilfinning er sú að aðeins framlínan sé spurningamerki. Hann gæti svo sem komið okkur aftur á óvart með því að breyta akkúrat engu. Ég ætla hér og nú að tippa á það. Ég var mikið að velta fyrir mér Bellamy vs. Crouch, en þar sem Rafa hefur opinberlega verið að hvetja Bellamy í fjölmiðlum og við að spila heima í ofan á lag, þá ætla ég að giska á óbreytt byrjunarlið.

Reina

Finnan-Carra-Agger-Riise

Pennant-Gerrard-Xabi-Gonzalez

Kuyt-Bellamy

Var reyndar mikið að læðast að mér sá grunur að Warnock myndi hugsanlega byrja inná í stað Riise, en ég held mig við upphaflega planið.

Nú er tækifærið fyrir þessa kappa okkar að sýna okkur hvað í þeim býr. Evrópukvöld á Anfield, þar sem þeir geta tryggt sér sigur í riðlinum fyrir síðasta leikinn. Hvað er betra, og ef ekki nú, hvenær þá. Ég hreinlega heimta að sjá okkar menn í góðu stuði og að netmöskvar verði þandir. Er ekkert að sjá fram á stórsigur, eða markaregn, bara sannfærandi frammistöðu sem hægt er að fara með í farteskinu inn í næstu helgi.

Liverpool 3 – PSV 1
Kuyt, Gerrard og Bellamy með mörkin

Koma svo…

7 Comments

  1. Við vinnum þetta örugglega og sýnum snilldarleik. Það bara hlýtur að koma að því.

    Gerrard skorar fyrsta markið, svo Crouch (sem byrjar inná) og svo Kuyt.

    🙂

  2. Rífum okkur upp úr skítnum með glæsibrag – springum út á heimavelli og vinnum 5:0 (Kuyt með þrennu, Crouch með eitt og Agger það fimmta) – þið heyrðuð þessa spá hér fyrst!

    en just in case… ef hún reynist röng, þá mun ég neita þessu fram í rauðan dauðann! 🙂

  3. Ég er fullviss um að Crouchy byrjar inná, en held að það verði á kostnað Kuyt frekar en Bellamy. Kuyt hefur spilað helling að undanförnu og það er mikil jólatörn framundan, þannig að hann verður hvíldur á morgun. García kemur inn sem varamaður og setur eitt líka.

    Ég vonast eftir sigri okkar manna, en þetta verður spennandi leikur.

  4. Já við vinnum þennan leik ekki spurning, líka það að M.united hafi tapað í gær gefur okkur SMÁ auka orku ekki satt !!!!

    AVANTI LIVERPOOL

  5. ég er nokkuð sammála þér með byrjunarliðið. væri samt ekki hissa að sjá Zenden með Gerrard á miðjunni eða jafnvel Zenden með Alonso á miðjunni og Gerrard hvíldur..

  6. Ég hef ekki hugmynd um byrjunarliðið en það væri svo sem ekki vitlaust að halda sama liðinu og byrjaði gegn Boro um síðustu helgi.

    Hins tel ég næsta víst að við munum “rótbursta” PSV í þessum leik 3-1 þar sem við sjáum PSV skora fyrsta markið á fyrsta korterinu.

    Okkar menn koma tilbaka strax í fyrri hálfleik og skorar Kuyt fyrir framan sína landsmenn jöfnunarmarkið okkar. 1-1 í hálfleik.

    Við byrjum af krafti í þeim síðari og skorum snemma og er þar af verki fyrirliðinn okkar Gerrard með marki úr þrumufleyg. Það verður síðann hinn netti og fagri Crouch sem lokar leiknum 3-1.

Speedy

Byrjunarliðið gegn PSV!