Mánudagspælingar

lateregistration_bellamy.jpgTapið gegn Bolton á laugardag var sannarlega ömurlegt, en eftir að mér rann aðeins reiðin yfir helgina sat eitthvað annað en slæmar ákvarðanir dómaranna í mér. Eftir sat sú staðreynd að Bolton-menn komust yfir eftir um hálftíma leik, sem þýðir að okkar menn höfðu rúman klukkutíma í það heila til að jafna metin og hirða allavega stig úr þessum leik. Það tókst þó alls ekki þrátt fyrir linnulausa sókn en bitlaus tilþrif við vítateig Bolton-manna, og þess í stað innsigluðu þeir sigurinn úr nærri því einu almennilegu sókninni sinni í seinni hálfleik.

Lesist: þeir vörðust með ellefu mönnum og héldu hreinu af eljusemi, náðu þremur eða fjórum ágætis sóknum og skoruðu tvö mörk. Okkar menn voru miklu meira með boltann og í sóknarstöðu á vallarhelmingi andstæðinganna nær allan leikinn en náðu varla að skapa sér svo mikið sem eitt dauðafæri. Þannig að augljós spurning eftir helgina hlýtur að vera: **hvað veldur þessu bitleysi?**

Er það hin mjög svo gagnrýnda rótering Rafael Benítez á leikmönnum sínum? Að mínu mati ekki, alls ekki, þar sem þessi rótering hefur skilað bæði honum og mörgum öðrum þjálfurum árangri í gegnum tíðina og það er einfaldlega augljóst að öll þau lið sem ætla sér velgengni í fleiri en einni keppni þurfa á breidd og róteringu að halda. Þannig að ég hef ekkert út á hana að setja sem slíka.

Annað sem ég þverneita að gangrýna er sú ákvörðun Rafa að nota Steven Gerrard á kantinum. Liðið lék frábærlega á síðustu leiktíð með hann í stöðu hægri kantmanns og þá Sissoko og Alonso á miðjunni og þá fékk Rafa hrós fyrir að stabílísera liðið með þessum hætti. Það er því viss hræsni í því að ætla að gagnrýna það núna þegar illa gengur.

Eftir talsverða umhugsun og linnulausa umræðu um þennan leik í vinnunni í dag hef ég komist að ákveðinni niðurstöðu. Eftirfarandi eru að mínu mati fjórar ástæður fyrir því að okkar mönnum gengur illa á útivelli í Úrvalsdeildinni það sem af er tímabilsins:

1. Minniháttar atriði, en ég tel það samt skipta máli. Þótt Rafa sé að mínu mati alls ekki að gera vitlausa hluti í því að nota Gerrard á kantinum er hann að gera vitleysu með því að rúlla honum á milli staða í liðinu. Einn leikinn er hann hægri kantmaður, þann næsta miðjumaður og þann þriðja vinstri kantmaður. Gerrard hefur verið með slakari mönnum liðsins það sem af er tímabili og maður er hálfpartinn farinn að sakna ofurmennisins sem við vitum að hann er, en það á sér sennilega þær tvær ástæður að hann er frekar eftir sig eftir ofurlangt síðasta tímabil og krefjandi Heimsmeistarakeppni og það að hann hefur enga eina fasta stöðu í liðinu. Þetta þarf Rafa að mínu mati að laga, hann þarf að finna Gerrard eina stöðu og nota hann þar aðallega, hvort sem það er á kanti eða miðri miðju.

2. Hér á kannski enginn sök, en þetta er engu að síður ástæða. Í fyrra slógu þeir Pepe Reina og Momo Sissoko í gegn strax frá byrjun og voru einfaldlega frábærir allt tímabilið. En eins og oft vill verða þegar menn hefja annað tímabilið sitt gengur þeim erfiðlega að ná sömu hæðum í byrjun síns annars tímabils og þeir gerðu í byrjun þess fyrsta. Þótt Momo hafi langt því frá verið lélegur í haust hefur hann ekki verið jafn gersigrandi á miðjunni og við sáum hann vera á síðustu leiktíð, á meðan Pepe Reina virðist þjást af sjálfstraustsskorti þessa dagana. Maður er minnugur þess hve vel Jerzy Dudek lék á sinni fyrstu leiktíð og vonar innilega að Pepe endi ekki sem sama taugahrúgan og Jerzy, en tíminn einn mun leiða það í ljós. Vonandi hrista þeir þetta báðir af sér.

3. Rótering á vörninni. Það að breiddin skuli hafa aukist í miðri vörn okkar manna hefur fært liðinu bæði kosti og galla. Kostirnir eru þeir að við höfum úr meiri breidd að velja og því verða menn eins og Hyypiä og Carragher ferskari þegar líður á tímabilið. Gallarnir eru þeir að þótt Rafa hafi undantekningarlaust breytt liði sínu frá leik til leiks á síðustu leiktíð þá var varnarlínan nær alltaf sú sama: Finnan, Carragher, Hyypiä og Riise. Í haust hefur Rafa tekið upp á því að rótera varnarmönnunum meira en þeir eiga að venjast og það hefur skapað af sér óöryggi í vörninni, sem hefur slæm áhrif á Reina í markinu og hann á móti hefur slæm áhrif á varnarmennina fyrir framan sig með sínum skorti á sjálfstrausti. Þetta er vítahringur og að mínu mati er það mikilvægt að Rafa haldi sig við sömu fjóra varnarmennina í næstu leikjum á meðan liðið reynir að koma tímabilinu loksins á almennilegt flug.

4. Þetta er að mínu mati mikilvægasta atriðið. Í fyrra voru þeir Reina, Sissoko og Peter Crouch keyptir fyrst og fremst til að auka stöðugleika liðsins í erfiðum leikjum í deild og Evrópu. Þeir höfðu tafarlaust góð áhrif á liðið og ollu miklum stöðugleika, allir þrír hófu feril sinn með Liverpool af krafti. Í ár hafa þeir Mark Gonzalez, Craig Bellamy, Jermaine Pennant, Fabio Aurelio og Dirk Kuyt ekki náð að fara jafnvel af stað að mínu mati og það hefur haft áhrif. Gonzalez og Kuyt hafa skorað tvö mörk hvor þegar og Bellamy eitt, á meðan Pennant og Aurelio hafa átt tvær eða þrjár góðar frammistöður hvor en verið slappir þess á milli. Vandamálið er bara það að ólíkt leikmönnunum sem komu til liðsins fyrir ári hafa þessir nýju leikmenn í ár einungis getað spilað vel á Anfield hingað til. Auðvitað er jákvætt að þeir finni sig vel á heimavelli en til að liðið geti farið að spila af þeim styrk sem Rafa hefur í huga þurfa þessir leikmenn að ná sér á strik á útivelli líka. Kuyt og Bellamy hafa ekki enn náð að skapa hættu gegn liðum á útivelli á meðan Pennant, Aurelio og Gonzalez hafa nánast ekkert getað fjarri Anfield.

lateregistration_pennant.jpgHvað er til bragðs að taka í þessum málum? Að einhverju leyti vill ég meina að Rafa þurfi að taka erfiðar ákvarðanir, þótt ekki sé nema fyrst um sinn. Til að mynda vildi ég frekar vilja sjá Riise og Zenden spila í vinstri bakverði og kantmanni í næsta útileik en þá Aurelio og Gonzalez, um leið og ég vill frekar sjá Gerrard spila hægra megin en Pennant. Frammi þykir mér nánast glapræði að nota Crouch ekki frekar en annað hvort Bellamy eða Kuyt í erfiðum útileikjum á meðan þeir venjast því að spila fyrir Liverpool. Seinna meir, þegar lengra er liðið á tímabilið, er hægt að leyfa þeim að mjaka sér hægt inn í útileikjastemninguna hjá liðinu en ekki fyrr en skútan hefur verið rétt við. Maður gerir ekki við lekan bát með brotnum töppum og það að spila Kuyt og Bellamy fram yfir Crouch og Fowler, eða Pennant og Gonzalez fram yfir Gerrard og Zenden á útivelli þegar liðið er að tapa er ekki líklegt til árangurs.

Að öðru leyti þá snýst þetta vissulega um þolinmæði, eins illa og okkur Liverpool-aðdáendum er við það orð. Við höfum beðið lengi eftir alvöru titilbaráttu og eins og staðan er í dag bendir flest til að við þurfum að bíða aðeins lengur. En þó er ekki öll von úti. Hafa verður í huga að þótt þessir þrír útileikir hafi tapast er liðið þó þegar búið að spila á þremur af fimm erfiðustu útivöllum tímabilsins; Chelsea, Everton og Bolton. Það eru enn átta mánuðir eftir af deildarkeppninni, þrjátíu og einn leikur, og þar af eru aðeins tveir leikir, útileikirnir gegn Man U og Arsenal sem maður myndi telja líklegt að liðið tapi. Að öðru leyti en það eigum við þessi fimm erfiðustu lið eftir á heimavelli, sem og öll önnur lið bæði heima og úti. Ef við getum forðast töp gegn Arsenal og Man U á útivelli og hefnt okkar á Chelsea, Bolton og Everton með sigrum á heimavelli erum við ennþá á fullu skriði í toppbaráttunni.

Þetta eru bara sex stig. Og, þetta eru heil sex stig. Það fer alveg eftir því hvernig menn líta á þetta; sá sem sér hálftómt glas bölsótast yfir því að við skulum þegar vera farnir að elta Chelsea og Man U en sá sem sér hálffullt glas bendir á að flestir erfiðustu leikir vetrarins eru þegar að baki, á meðan hin þrjú stórliðin eiga – að einum leik undanskildum – enn eftir að mætast tvisvar hvort innbyrðis. Ég fell einhvers staðar á milli þessara tveggja fylkinga, reyni að hafa yfirsjón yfir bæði sjónarhornin og vera í senn pirraður yfir gengi liðsins hingað til en þó ekki laus við alla von.

Það á mikið vatn eftir að renna til sjávar í þessari deildarkeppni. Okkar menn hafa farið frekar illa af stað en lengi getur vont versnað – hver veit nema þetta sé bara rétt byrjunin á hræðilegu gengi fyrir áramót og tímabili vonbrigða? En á móti kemur að hver leikur er nýtt tækifæri til að snúa blaðinu við og byrja að draga á efstu liðin í deildinni. Liðið hefur byrjað illa og margt þarf að laga ef betur á að fara, en eins pirraður og ég er á upphafi tímabilsins í Úrvalsdeildinni hlakka ég til að sjá liðið takast á við mótlætið í næstu leikjum.

Hafið í huga texta lagsins sem við höfum öll sungið oftar en við höfum tölu á: At the end of the storm, there’s a golden sky … 😉

18 Comments

  1. Skemmtilegar vangaveltur Kristján Atli og get ég um margt tekið undir þær.

    Það er reyndar að mínu mati ákveðin þversögn í því að segja að rótering Rafa á leikmönnum sínum sé alls ekki ástæða misjafns gengis lisins í haust – og svo á móti að rótering á Gerrard sé ástæðan fyrir því off formi sem hann virðist vera í og að rótering á varnarleikmönnum sé ástæða slaks varnaleiks oft á tíðum.

    Ég tek undir að rótering á vörninni og Gerrard er ekki af hinu góða. Ég vil reyndar ganga svo langt að það sé einnig ástæðan fyrir stemmningsleysi í liðinu þegar það lendir undir. Ég tel einfaldlega að það sé forsenda þess að mönnum líði vel og að þeir finni til þeirrar samkenndar sem þarf til að menn virkilega berjist hver fyrir annann.

    En þetta er allt saman spurning um jafnvægi og auðvitað viljum við ekki að menn springi á löngu tímabili.

    Svo er líka liðið á réttri leið að mínu mati. Við erum að sækja mun meira en áður og skapa okkur fleiri færi. Varnarmennirnir okkar taka meiri þátt í sóknarleiknum en kannski er það ástæða þess að við fáum fleiri mörk. Ég hef samt fulla trú á að þetta jafnvægi náist og að liðið verði betra og betra þegar á líður.

    Vona bara innileg að við séum ekki búnir að missa af lestinni.

  2. Frábær pistill! Þó vaknar eins spurning hjá mér við hann sem enginn nema Benitez getur svarað. Hvað ætlar hann sér að gera við Robbie Fowler? Eins mikilvægur og hann nú var fyrir okkur á síðustu leiktíð þá fatta ég ekki afhverju hann fær ekki meiri séns. Ég persónulega þoli ekki Peter Crouch þó hann hafi nú nýtt sín tækifæri vel hingað til en verð að viðurkenna að ég er orðinn nokkuð áhyggjufullur að vita til þess að Robbie Fowler sé aðeins þessi backup player sem fær að spila ef einhver annar meiðist.Það má kannski segja að breiddin í framlínuni sé orðinn of mikil. En mikil breidd getur nú varla verið til neins annars en góðs. Væri ekki eina vitið ef ílla gengur að skora í næsta leik að setja hann inná eftir klukkutíma leik og vona að hann nýti færinn sín eins og hann er vanur??Áfram Liverpool.

  3. Frábær pistill! Þó vaknar eins spurning hjá mér við hann sem enginn nema Benitez getur svarað. Hvað ætlar hann sér að gera við Robbie Fowler? Eins mikilvægur og hann nú var fyrir okkur á síðustu leiktíð þá fatta ég ekki afhverju hann fær ekki meiri séns. Ég persónulega þoli ekki Peter Crouch þó hann hafi nú nýtt sín tækifæri vel hingað til en verð að viðurkenna að ég er orðinn nokkuð áhyggjufullur að vita til þess að Robbie Fowler sé aðeins þessi backup player sem fær að spila ef einhver annar meiðist.Það má kannski segja að breiddin í framlínuni sé orðinn of mikil. En mikil breidd getur nú varla verið til neins annars en góðs. Væri ekki eina vitið ef ílla gengur að skora í næsta leik að setja hann inná eftir klukkutíma leik og vona að hann nýti færinn sín eins og hann er vanur??Áfram Liverpool.

  4. Góður og mjöööög langur pistill gaman að þessu en það er rétt okkar menn voru ekki að standa sig nógu vel og áttu að minnstakosti að jafna eða bara 1 mark en léleg sókn var náttúrulega í ruglinu en við vorum á útivelli þannig við tökum þetta bara á Anfield.

  5. Góður og mjöööög langur pistill gaman að þessu en það er rétt okkar menn voru ekki að standa sig nógu vel og áttu að minnstakosti að jafna eða bara 1 mark en léleg sókn var náttúrulega í ruglinu en við vorum á útivelli þannig við tökum þetta bara á Anfield.

  6. Bitleysi er skrifað um. Þetta bitleysi hefur hrjáð LFC í MÖRG ár. Við höfum stjórnað leikjum (eins og við gerðum um helgina) en fengum ekki mörg færi til að klára dæmið (en nóg til að vinna leikinn og mun meira en Bolton).

    Það sem okkur skortir er meiri ógn frá köntunum og miðjunni. Við hendum alltaf Gerrard á annan hvorn kantinn og þar er hann ógnandi en í staðinn er tveimur varnarsinnuðum miðjumönnum skellt saman sem passar ekki. Alonso og Momo eru tveir leikmenn sem í raun eiga að bakka upp miðjuna en ekki að vera leikmenn sem sækja upp völlinn. Gerrard á að vera á miðjunni með Alonso við hliðna og Momo fyrir aftan þá, síðan tvo VIRKA kantmenn sem eru að VIRKA sóknarlega. Við bölvum alltaf Ronaldo hjá Scums en hann er bara hreint út sagt besti kantmaðurinn í heiminum í dag…PUNKTUR! Hann er diver, hann er vælari en hann er QUALITY! Þetta höfum við ekki! Pennant hefur að mínu mati EKKI sýnt neitt síðan hann kom. Jú, hann kemst annað slagið upp að endalínu og nær að senda boltann inn en hann er ekki að gera hluti eins og að taka menn á og að skapa fleiri færi eins og sannir kantmenn gera. Gonzalez er góður en hann er að venjast boltanum og mun taka tímabilið í það (nema það fari fyrir honum eins og stórvini mínum Morientes sem nú er að blómsra hjá Valencia).

    Við erum bitlausir þótt við stjórnum leikjum og það er bara mál sem Rafa VERÐUR að addressa! Þetta er bara ótr´lega pirrandi hlutur sem gengur ekki lengur. Við hefðum átt að vinna Everton svona 12-1 í leiknum fyrr á tímabilinu og núna Bolton alveg með 1-3 mörkum, en við fáum á okkur mörk og er refsað fyrir að stjórna leikjum….sem gerist ekki hjá Chelsea! Við vinnum ekki bikarinn á þessu tímabili né því næsta og næsta og næsta nema þetta verður lagað! PUNKTUR!

  7. En eitt annað….ég er VIRKILEGA ánægður hvað Kuyt er að koma sterkur inn hjá okkur! Að sjá baráttuna í kvikindinu er hrein unun! Þarna erum við komin með HROTTALEGA góðan sóknarmann sem á eftir að skila MIKLU í framtíðinni! Hafði aldrei séð hann áður en hann kom og var ekki viss en ég er viss núna! Það samt þýðir ekki að þótt við séum komin með tvo snögga frammmi og góða að við getum bara kýlt boltanum upp eins og oft hefur gerst….

  8. þakka fyrir mjög góðan pistil.Ættir að vera blaðamaður:)
    Var alveg eins og Kristján hrikalega pirraður en eftir að að maður fór að hugsa þetta þá rann aðeins af manni reiðinn.
    Númer eitt finnst mér liðið hafa verið mjög óheppið.Í öllum þremur leikjunum sem tapast hafa hefur liðið verið sterkari aðilinn.Mjög erfitt að spila á móti Bolton þegar þeir komast yfir.Reyna átti að verja skotið þó svo línuvörðurinn hafi gert skyssu.Chelsea átti varla færi …og Liverpool nýtti sín illa.
    Mjög sammála því sem þú sagðir um Gerrard.Vantar festu.Finnst hann mjög góður sem hægri miðjumaður.Ef ég væri Zenden,Gonzales eða Garcia myndi ég líta á það sem móðgun að láta Gerrard spila vinsri fyrir þá.Verður bara að velja á milli momo,alonso eða pennand að henda út og láta Gerrard vera á hægri eða á miðri miðjunni.Kanski væri gott að hvíla Gerrard alveg einn eða tvo leiki og hafa hann ekki á bekknum.T.d. í einhverjum útileiknum.Á móti “slakari”liðunum vil ég hafa alonso og Gerrard saman á miðjunni.
    Eins er ég sammála að ég er mjög hissa á að hann notar ekki Crouch meira.Sérstaklega þar sem hann er heitur þessa dagana.Einnig er hann mjög duglegur.Eins og Benitez sagði eitt sinn hann hleypur oft meira en Gerrard í leikjum.

    en þetta mun koma hjá okkur.Góðir hlutir gerast hægt.

    kv stefano

  9. Þakka þér fyrir frábæran pistil Kristján Atli..Ég set þig á sama bekk og Paul Tomkins sem Liverpool penni…Alveg magnaður.

    Ef þessir pistlar þínir væru á ensku og myndu birtast á Enskum Liverpool síðum..fengir þú mikið hrós fyrir…ekki nokkur vafi í mínum huga.

    YNWA….. 🙂

  10. Svona í byrjun tímabils finnst mér hreinlega að Benítez eigi að stilla upp svo til óbreyttu liði frá síðasta tímabili og mjaka nýju mönnunum svo einum og einum inn í einu.

    Þá er ég að tala um Reina, Finnan, Hyypia, Carra, Riise, Gerrard, Sissoko, Alonso, García, Crouch og Fowler.

    Ég meina, þetta var farið að ganga mjög vel undir lok síðasta tímabils. Fyrsta breytingin hefur eiginlega þegar átt sér stað, Agger inn í stað Hyypia. Síðan kæmi t.d. Kuyt smám saman inn í stað Fowlers, svo Bellamy í stað Crouch, Gonzalez í stað García o.s.frv. En bara ekki allir í einu!

    Svona umskipti eiga að gerast rólega. Það þarf ekki alltaf að hlaupa til og breyta því sem þegar er gott – og lið Liverpool í lok síðasta tímabils var gott.

  11. Iss, þetta var nú meiri Pollýönnu pistillinn! :rolleyes:

    Það er oft sem Liverpool virðist skorta stemmningu á útivöllum, mér finnst við tapa miðjubaráttunni alltof auðveldlega gegn líkamlega sterkum liðum. Með Gerrard, Alonso og Sissoko heila eigum við ekki að tapa miðjubaráttu gegn neinu liði…

    Ég hef lengi stungið uppá því að Liverpool spili 4-4-2 á heimavelli(gengur frábærlega þar) og síðan 3-5-2 á útivöllum gegn liðum eins og Bolton. Auka maður á miðjunni gæti vegið upp stemmningsleysið.
    Við höfum mjög fína miðverði í þetta kerfi og góða wing-backs(sérstalega vinstra meginn), með þessu gæti Gerrard,Alonso og Sissoko einnig allir spilað saman á miðjunni þar sem þeir eru bestir. Gerrard er alls enginn vinstri kantmaður – ágætur á hægri kant en bestur framarlega á miðjunni.

    Lið eins og Bolton sem spila með 1 frammi og reyna að bolast upp miðjuna á kröftunum einum saman myndu eiga mun erfiðara með það ef við hefðum fleiri menn á miðjunni til að loka á spil og pressum boltamanninn strax til að koma í veg fyrir háar sendingar.
    Við prófuðum þetta einu sinni í fyrra og það gekk frábærlega í mjög öruggum 3-1 útisigri gegn Newcastle. Maður er að sjá marga stuðningsmenn Liverpool stinga uppá þessu á erlendum spjallborðum, kannski leikmenn liðsins hafi nuðað í Rafa Benitez að prófa þetta gegn Newcastle í fyrra en Rafa vilji ekki sjá svona sóknarsinnað kerfi og þekki það ekki nógu vel.

    Til þess að geta spilað þetta 3-5-2 kerfi vel þarftu;
    1)þindarlausa sóknarbakverði sem geta líka varist. – Riise flottur vinstra megin og Finnan nógu góður á þeim hægri.
    2)miðjumenn með mjög mikla vinnslu og nákvæma sendingargetu – höfum það pottþétt.
    3)Góða miðverði sem passa saman – við eigum 3 mjög góða. Agger vinstra og Carragher hægra meginn við turninn Hyppia.
    4)Vinnusama sóknarmenn sem geta pressað vel á bakverði andstæðinganna en verið samt fyrstu menn inní teig – Bellamy og Kuyt smellpassa í það.

    = Við höfum þetta allt en auðvitað getum við samt ekki notað þetta kerfi alltaf t.d. gegn toppliðunum né þegar lykilmenn vantar. Gegn Bolton og Everton voru þó allir leikmenn til staðar og þetta eru 6 óþarfa töpuð stig í titilbaráttunni.

    Málið með ensku deildina er að þú verður að SÆKJA TIL SIGURS Á ÚTIVELLI ÆTLIR ÞÚ AÐ VERÐA MEISTARI! Ekki bara forðast tap…

    Lögmálin sem gilda um ensku deildina eru bara allt önnur en í evrópuboltanum, Benitez verður að fara átta sig á því. Sjálfstraust skiptir hrikalega miklu máli í þeirri ensku – gera andstæðingana skíthrædda við sókn síns liðs. Ég sá t.d. að Ian Dowie var á laugardag virkilega ánægður að hafa “staðið uppí hárinu” á Arsenal í 1-2 tapi logandi hræddur við þá. Sami þjálfari mun reyna að vinna gegn Liverpool þegar við komum í heimsókn þangað vegna þess að hann veit að Liverpool leyfir andstæðingunum alltaf að spila sinn bolta og Charlton muni fá sín færi í þeim leik, bara spurning um að nýta þau. Þetta segja þjálfarar liða fyrir heimaleiki gegn Liverpool – við eigum góðan séns! Það er bara sorgleg staðreynd í dag að Liverpool spilandi á útivelli skapar jafnvel ekki óhug í algjörum hæfileikalausum meðalskussaliðum eins og Bolton.

  12. Þarna kom loksins maður að mínu skapi – veltir hlutunum fyrir sér á málefnanlegan hátt og lýkur svo máli sínu á því að sjá jákvæðu hliðarnar í þessu.

    Mikið rosalega held ég að það sé erfitt að vera neikvæður stuðningsmaður…

  13. Fínn pistill og fínir punktar en ég er ekki viss um að þeir komist að rót vandans. Bitleysi liðsins finnst mér mikið til komið vegna bitleysi miðjunnar hjá okkur. Kantmennirnir eru að gera ágætis hluti, koma sér upp kantana, ná krossum fyrir og teygja á vörnum andstæðinganna. Það sem mér finnst hins vegar hafa vantað í alla leikina er sókn upp miðja miðjuna.

    Alonso hefur frábæra sendingargetu og splundrar oft vörnum andstæðinganna með sendingum upp í hornin en hann á það afar sjaldan til að vera kominn inn í vítateig til að reyna að skora sjálfur. Hann á í besta falli nokkur skot af 30+ metra færi. Alonso liggur sem sagt djúpur og á að dreifa spilinu og það er í fínu lagi að hafa einn svoleiðis miðjumann í liðinu en þá þarf hinn að vera tilbúinn í að taka hlaup í áttina að markinu og eins og liðið virðist spila þessa dagana á sá maður að vera sissoko, a.m.k. virðist hann oftast vera framar á vellinum en Alonso

    Sissoko, eins frábær og hann er varnarlega, er hins vegar alveg steingeldur sóknarlega. Þá leiki sem ég hef séð í haust hefur hann verið jafnlélegasti leikmaður liðsins. Hann vinnur vel aftur en þegar hann fær boltann í fæturna er ca. 50% líkur á að hann skili honum á samherja og yfirleitt þegar það tekst þá þarf sá samherji að senda boltann aftur í vörnina vegna; a)slakrar sendingar frá sissoko, eða b) slæmrar yfirsýnar sissoko sem sendir hann á eina samherjan á svæðinu sem er umkringdur andstæðingum. Boltameðferðin hans er skelfileg og skottæknin næstum verri þannig að einu notin sem ég sé fyrir honum er sem jarðýta aftast á miðjunni sem á að skýla vörninni.

    Liðið er sem sagt að spila með 2 djúpa miðjumenn og engan sem liggur framarlega og það gengur ekki fyrir lið sem vill spila sóknarbolta. Okkur vantar mann sem getur tekið hlaupin af miðjunni og inn í teiginn þannig að þegar kantmennirnir eru búnir að teygja á vörnum andstæðinganna og opna svæðin á miðjunni að þá sé einhver til staðar til að nýta sér þessi opnu svæði – það vantar jafnvægi milli miðju og kantspils og það er, að mínu mati allavega, helsta ástæaðan fyrir bitleysi liverpool liðsins í augnablikinu. Hvort sem menn vilja svo leysa það með því að fórna sissoko af miðjunni fyrir sóknarsinnaðri mann (zenden, gerrard eða garcia) eða fórna öðrum sóknarmanninum fyrir miðjumann sem liggur aðeins fyrir aftan hann eins og valencia spilaði með svo ágætum árangri mega menn svo deila um. Ég vil nota fyrri leiðina, allavega á meðan sissoko lærir að fara betur með boltann, ég sé bara engin not fyrir mann í liði eins og liverpool sem ekki getur sótt betur en 17 ára systir mín, sama hversu mikið hann gefur til liðsins varnarlega.

    Að lokum vil ég svo benda á grein af RAWK þar sem farið er mjög vel í einmitt þetta bitleysi liðsins

  14. Þetta eru flott skrif hjá þér Kristján, ég er þér sammála í flestu.

    Af þeim leikmönnum sem komu í sumar hefur aðeins einn þeirra styrkt liðið eða gefið því aukið jafnvægi, sá heitir Dirk Kuyt. Klárlega besti sóknarmaður Liverpool í dag. Aftur á móti eru Jermaine Pennant, Mark Gonzales og Fabio Aurelio allir slakari leikmenn en þeir sem fyrir voru í þeirra stöðum. Craig Bellamy er svo dálítið spurningamerki, ég held að hann þurfi bara þetta eina mark til að brjóta ísinn og þá komi þau í hrönnum. Persónulega finnst mér full mikil orku fara í tuð hjá honum.

    Varðandi vörnina þá er ekki gott að vera rótera of mikið í henni. Vissulega hafa meiðsli Carra (sem ekki hefur náð sér almennilega á strik eftir þau) og Riise haft áhrif. En með alla heila þá ættum við að halda okkur við sömu leikmenn leik eftir leik.

    Eitt sem gleymist í þessari umræðu er fjarvera Kewell. Síðasta vetur var hann ómetanlegur fyrir liðið, þetta er leikmaður sem getur ráðið úrslitum í leikjum. Hann kláraði til dæmis T’ham og Everton í deildinni síðasta vetur. Því miður höfum við of fáa slíka leikmenn í liðinu í dag. Kewell, Alonso, Sissoko, Gerrard var sterkasta miðjan á Englandi á síðasta tímabili.

    Áfram Liverpool

  15. Skemmtilegar pælingar og frábær skrif hérna hjá mönnum. Maður er mis sammála eins og vanalega, og er ég sérstaklega ósammála Arnari í hans greiningu.

    Ég er bara ekki á því að við höfum tapað neinni miðjubaráttu gegn liðum eins og Bolton. Síður en svo, við áttum miðjuna með húð og hári. Þeir sköpuðu sér akkúrat ekki neitt. Á venjulegum degi þá hefðu þeir aldrei verið nálægt því að skora mörk í leiknum því tækifærin voru svo fá. Tvennt gerðist (ekki miðjutap) og það var í fyrsta lagi fáránleg ákvörðun hjá línuverðinum, þegar ekkert var að gerast, bara útspark (og svo átti Reina að hafa þetta í þokkabót) og svo afspyrnu léleg dekkning í seinna markinu.

    Það að segja að við höfum farið í leikinn með því hugarfari að tapa ekki, finnst mér einnig fjarstæðukennt. Það var aðeins eitt lið á vellinum sem kom með því hugarfari að verjast, verjast og verjast og það voru ekki við. Vandamálið var að nýta þessa yfirburði til að komast í fleiri DAUÐAFÆRI og hætta að skjóta í þetta andsk… tréverk (eða öllu heldur málmverk).

    Mér finnst þetta því hreinlega röng greining á leik liðsins. Ég held einmitt að það væri frekar hægt að skrifa þennan slaka árangur á útivelli á það að við séum of sóknarsinnaðir. Mótherjarnir pakka í vörn og freista þess að ná marki úr skyndisókn. Allavega langt frá því að þetta sé komið frá því að við förum í þessa leiki með því hugarfari að verja 0-0.

  16. Það er hárrétt hjá þér SSteinn að Liverpool vinnur miðjubaráttuna í langflestum leikjum, t.d. gegn Bolton.
    Mörg lið eru hinsvegar farin að pakka í vörn og gefa Liverpool eftir miðjuna. Síðan þegar leikmenn okkar nálgast síðasta þriðjunginn mæta þeir þeim af hörku og treysta á skyndisóknir og langa bolta upp miðjuna. Lið vita líka að þau fá alltaf færi upp hægri kantinn enda eru Liverpool veikir varnarlega vinstra meginn, sérstaklega þegar Gerrard og Aurelio spilar. Menn eru stöðugt hlaupandi útúr stöðum til að styðja sóknarleikinn og þetta kunna miðlungslið t.d. Bolton og Everton að nýta sér. Skoðið seinna mark Bolton og 2 mörk Everton gegn okkur með þetta í huga.
    Einnig finnst mér sóknarleikurinn hjá Liverpool enn alltof evrópskur og stíliseraður fyrir ensku deildina. Við þurfum að gera varnir andstæðinganna virkilega skíthræddar við okkur og pressa almennilega, TAKA ÁHÆTTUR. Við erum með það miklu miklu betri hóp en þessi miðlungslið að við höfum alveg efni á því.

    Ein áhættan sem myndi gera sóknarleikinn virkilega fjölbreyttan, hættulegan og minna fyrirsjáanlegan er að fara í 3-5-2 á útivöllum. Við gætum sett allt á fullt fyrsta hálftímann og klárað þessa leiki fyrir hálfleik. Mér sýnist þó enginn hérna vilja ræða þá hugmynd nema ég. 😉

    Það er ekki hægt að kenna of miklum sóknarleik um þessi töp SSteinn, það er ójafnvægi í liðinu milli sóknar og varnar að kenna. Menn eru ekki að hreyfa sig nægilega og staðsetja sig stundum vitlaust og tapa þannig einn á einn návígjum gegn líkamlega sterkum andstæðingum. Finnan lætur t.d. Campo klifra yfir sig í seinna markinu og Alonso og Carragher gerðu líka slíkt gegn Everton sem varð að mörkum. Það þýðir ekki að treysta á að dómarar flauti aukaspyrnur þegar komið er ólöglega við okkar menn, það vita allir að miklu meira leyfist í ensku deildinni. Þetta er ekki evrópuboltinn – staðreynd sem Rafa þarf að fara átta sig á og mótivera okkar leikmenn betur uppí slagmálin.

    Það var ég sem benti fyrstur manna á hvað Liverpool saknar Harry Kewell hrikalega mikið í öðrum þræði hér Krizzi 🙂 Hann staðsetti sig iðulega rétt og gat bæði varist og sótt og var líka matchwinner í nokkrum leikjum. Pennant hinum megin hefur alls ekki þennan stöðugleika sem þarf til að Gerrard geti spilað og tekið sínar rispur af vinstri kanti. Enn meira ójafnvægi.

    Ég held þó að Rafa finni svör fljótlega – einhver leikmaður okkar mun stíga upp og eiga stórleiki sem mun auðvelda nýjum mönnum að fylkja sér um. Bara vonandi að við verðum ekki dottnir úr toppbaráttunni þá! :confused:

    Staðan er samt kannski ekki jafn svört og sumir vilja vera láta. Við erum búnir með flesta erfiðustu útileikina og ef við náum svipaðri 10 leikja sigurgöngu og í fyrra þá er allt mögulegt. Útileikinn gegn Man USA væri t.d. frábært að vinna, sá sigur gæti virkilega kveikt í okkar mönnum.

    Koma svo, ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!

  17. Sjá… Steve Mclaren ætlar að prófa 3-5-2 gegn Makedóníu.
    http://www.gras.is/content.aspx?n=15434&c=1

    Jafnvel passívasti þjálfarinn í boltanum áttar sig á því hversu góða miðverði hann er með og þorir að taka smá áhættu gegn hæfilega slöppum andstæðingi. :rolleyes:

    Hvenær áttar Rafa sig á því að hann þarf að taka áhættur til að vinna ensku deildina?

Joey er BARA SNILLINGUR

2005 versus 2006