Meiðsli, Stanley Park og útileikir

Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur: Helvítis landsleikjahlé! Það er gjörsamlega óþolandi að fá enga knattspyrnu í tvær heilar vikur þegar tímabilið er rétt að byrja …

En jæja, hvað um það, það er eitthvað lítið í fréttum í dag. Chris Bascombe hjá Liverpool Echo segir að Momo Sissoko verði væntanlega heill heilsu gegn Everton um helgina, á meðan þeir Jamie Carragher og Johnny Riise séu tæpir og verði þá væntanlega ekki með. Þá skýrir BBC-fréttastofan frá því í morgunsárið að einhver hreyfing sé á leikvangsmálum klúbbsins en ég á samt erfitt með að lesa úr þeirri frétt eitthvað skothelt. Satt best að segja á ég erfitt með að gera mér upp áhuga á byggingu Stanley Park-vallarins, þetta hefur tafist og tafist og seinkað og seinkað út í hið óendanlega og ég hreinlega nenni ekki að pæla í þessu fyrr en eitthvað stórt gerist. Sem hefur enn ekki gerst.

Annars var ég að skoða leikina sem eru framundan og – eins og flestir hafa eflaust tekið eftir – sá þá að næstu þrír leikir liðsins eru sennilega erfiðasta leikjahrina sem við munum fá í vetur:

* Everton á útivelli í Úrvalsdeild.

* PSV á útivelli í Meistaradeild.

* Chelsea á útivelli í Úrvalsdeild.

Það er ljóst að Rafa mun þurfa á öllum leikmannahópnum að halda til að leysa þessa þrjá leiki og við fáum því að sjá flesta ef ekki alla leikmennina spila þá. Grunnhugmyndin hlýtur að vera að leggja upp með að tapa ekki neinum af þessum þremur leikjum.

En þá er það spurningin sem ég vill spyrja ykkur, svona svo að við höfum eitthvað til að ræða um í þessari döpru viku sem er framundan: Hvað mynduð þið telja ásættanlega niðurstöðu úr þessum þremur leikjum?

Persónulega myndi ég vilja sjá sigur gegn Everton og jafntefli gegn PSV og Chelsea. Við gætum unnið PSV líka en ég efa að við sigrum Chelsea á Stamford Bridge, þótt maður viti auðvitað aldrei. Ef við töpum fyrir Chelsea verðum við á móti að ná sigri gegn Everton að mínu mati, en það kemur einfaldlega ekki til greina að tapa báðum þessum deildarleikjum. Ekki séns.

Þrjú jafntefli væru ekki nein afhroð, en ég vonast eftir að sjá sigur gegn Everton, jafntefli/sigur gegn PSV og jafntefli gegn Chelsea. Ef það gengur eftir verð ég meiriháttar ánægður eftir tvær vikur.

Hvað finnst ykkur?

16 Comments

  1. Ég myndi telja ekki bara ásættanlegt, heldur líka nauðsynlegt, fyrir lið sem ætlar sér meistarabaráttu að vera með rúm tvö stig að meðaltali í leik yfir tímabilið. Við erum með 4 stig núna eftir tvo leiki, sem þýðir að við ættum að stefna á sigur í báðum deildarleikjunum. 10 stig eftir 4 leiki væri því ásættanlegt í ljósi þessa.

  2. Ég vil auðvitað alltaf sigur og ekkert annað, en vissulega verður maður að gera sér grein fyrir því að það gengur ekki upp. Ég vil sigur á móti Everton, allt annað yrði ég í dálitlum vonbrigðum með. PSV á útivelli – jafntefli væri jú ásættanlegt en ég tel sigur alveg möguleika. Chelsea á útivelli – þar tel ég jafntefli ástættanlegast af þessum þremur leikjum. Við verðum í toppbaráttu við Chelsea í vetur og þá er auðvitað grundvallaratriði að fá fleiri stig en þeir. Í dag höfum við tapað færri stigum en þeir og ef við vinnum Everton á útivelli, þá myndi jafntefli gegn Chelsea enn halda okkur fyrir ofan þá – þ.e. færri stig töpuð alla vega. Sigur í öllum leikjum væri sem sagt prima, en raunhæft tel ég að tala um sigur, sigur/jafntefli og jafntefli.

  3. maður sættir sig aldrei við að tapa … en klárlega finnst mér að við eigum að vinna Everton, eigum að halda jöfnum leik við Chel$ki, spurning kannski hvoru megin sigurinn dettur og eigum að geta unnið PSV.

    Þannig að þetta er ekki spurning um hvað við getum heldur hvað við gerum. Vona að það sé komið að því að við sýnum almennilega hvað býr í liðinu með því að vinna alla þessa leiki bara!

    Að tapa fyrsta deildarleik í C.L er ekki gott fyrir sjálfstraustið í leikinn á móti Chel$ki.

  4. Sigur og ekkert annað en sigur kemur til greina gegn Everton. Að gera jafntefli við það lið, jafngildir tapi í mínum huga. Það eru akkúrat þessir leikir gegn litlu liðunum sem við verðum að vinna bæði heima og úti. Annað er bara slys.

    PSV eigum við líka að vinna, þrátt fyrir að á útivelli sé. Þeir eru ekki eins sterkir og oft áður, og við eigum alveg að geta farið þangað og sótt öll stigin eins og við höfum verið að gera gegn álíka liðum í Evrópu. Sigur þarna, engin spurning, raunhæft að mínum dómi.

    Svo er það enn einn helv. leikurinn við Chelsea. Held að maður myndi alveg sætta sig við jafntefli, allt nema tap. Held meira að segja að þetta sé góður tími til að mæta þeim, þ.e. svona snemma á tímabilinu. Ber þá von í brjósti að við getum átt álíka leik gegn þeim og í Samfélagsskildinum. Höfum verið að “match-a” þá í þessum bikarleikjum og nú er kominn tími til þess að færa það form yfir á deildina. Spáið í skilaboðunum sem við myndum senda út ef við myndum sýna deildinni fram á 2 tapleik Chelsea og deildin rétt að byrja. Bring it on.

    Sem sagt, lágmark tveir sigrar og eitt jafntefli. Kannski er maður full bjartsýnn, en ef við ætlum okkur eitthvað í vetur, þá þýðir ekkert minna í þessu. Hámarks bjartsýni eru hreinlega þrír sigrar, tap í einum af þessum leikjum er bara ekki ásættanlegt :biggrin:

  5. Sko…sigur á móti Everton…allt annað er þunglyndi og önuglyndi um óákveðinn tíma.

    Á móti PSV vil ég sjá okkar menn setja mark/mörk. Tap vonbrigði og setur óþarfa pressu á okkar menn. Jafntefli ásættanlegt. Sigur frábært og ég tel okkur hafa betra lið en PSV. Vonandi náum við að sýna það.

    Púfffff…Chelsea eina ferðina enn. Ég veit svei mér þá ekki. Það er eiginlega tími til kominn að við förum að bryðja þetta lið í salat i deildinni. Ef við ætlum að eiga möguleika í baráttunni í vetur um sigur í deilinni þá þurfum við hið minnsta jafntefli…tala nú ekki um, ef við förum að taka upp á því að tapa eða gera jafntefli við Everton.

  6. Mitt álit er að sigur gegn everton, jafntefli gegn psv og chelsea væri mjög ásættanlegt fyrir okkur poolara. En mikilvægast af öllu er að sleppa frá þessum 3 leikjum taplausir og meiðslalausir.

  7. Eru menn að sætta sig við jafntefli hérna? Við erum Liverpool sko!!!

    Sigur í öllum þrem leikjunum, allt annað er óásættanlegt!!! :biggrin:

  8. Að auki þá efast ég stórlega um að 2 stig að meðaltali í leik eins og Guðni E. Guðmundsson sagði dugi til meistaratitils, enda yrðu það færri stig en liðið fékk í fyrra.

    Deildin vannst á …
    05-06. 91 stig.
    04-05. 95 stig.
    03-04. 90 stig.
    02-03. 86 stig.
    01-02. 87 stig.
    00-01. 80 stig.
    99-00. 91 stig.
    98-99. 79 stig.
    97-98. 78 stig.
    96-97. 75 stig.
    95-96. 82 stig.
    94-95. 89 stig.
    93-94. 92 stig.
    92-93. 84 stig.

    Það hefur aðeins einu sinni gerst að lið með 2 stig að meðaltali í leik eða minna hefur unnið (ManU 96-97)

  9. Liverpool eru með hættulegt lið. Ef vörnin heldur að þá hef ég engar áhyggjur. Veltur kannski mikið á fyrsta leiknum af þessum þremur. Sigur þar gæti eflt liðið í heild á meðan ósigur þar gæti skemmt svolítið útfrá sér.

  10. Lítið í fréttum???!! Ertu að grínast!!

    Krókódílamaðurinn er dáinn! 😡 🙁

  11. Þér einfaldlega getur ekki verið alvara. Ætla ekki einu sinni að svara þessu, þar sem þú ert augljóslega að grínast … :rolleyes:

  12. Ef þú varst að svara mér Kristján, þá nei, ég er ekki að grínast. Ég yrði hundfúll með að ná ekki að vinna Chelsea. Mér er alveg sama hvað þessi lið heita, ef við vinnum ekki þá er ég hundfúll. Fyrirfram vil ég því þrjá sigurleiki og ekkert minna. Ég mun aldrei sætta mig fyrirfram við jafntefli eða tap, það er bara ekki minn hugsunargangur.

    Ef leikurinn síðan spilast þannig að við meigum prísa okkur sæla með jafntefli, þá tek ég það, en er samt hundfúll að við spiluðum ekki betur og náðum að vinna.

  13. Arnar Ó: Ég sagði að RÚM tvö stig að meðaltali í leik væru nauðsynleg til að geta verið með í baráttunni um titilinn… og því erum við að tala um sama hlutinn

Viðtal við Rafa

Chelsea “fjölskyldan”