Liverpool: væntingar fyrir tímabilið

Í dag er föstudagur og eftir þriggja mánaða tímabil þar sem föstudagur hefur enga sérstaka merkingu fyrir fótboltaáhugamönnum erum við aftur komin í gamla formið: í dag er föstudagur sem þýðir að á morgun er leikur í ensku Úrvalsdeildinni! Okkar menn heimsækja nýliða Sheffield United í fyrsta leik og það er ljóst á allri umfjöllun að til mikils er ætlast af okkar mönnum. Ég man hreinlega sjaldan eftir að hafa séð jafn háar eftirvæntingar hjá Liverpool, ekki einu sinni eftir að Houllier náði öðru sætinu vorið 2002 og keypti Diouf það sumarið. Ekki einu sinni þá bjuggust menn við jafn sterku liði og nú, en það á sér nokkrar ástæður:

1. Leikmannakaup. Rafa og Rick Parry hafa skotið ásum fram úr báðum ermum í sumar og er ljóst að á pappírnum er nákvæmlega ekki yfir neinu að kvarta varðandi kaupin í ár. Pennant, Bellamy og Gonzalez auka hraðann og breiddina í sókn liðsins á meðan Dirk Kuyt mun koma með góða samkeppni og (vonandi) hrúgu af mörkum í framlínuna, á meðan Agger og Paletta gefa okkur langþráða breidd í hjarta varnarinnar. Ef nýju leikmennirnir ná flestir að standa sig eitthvað nálægt því sem vænst er af þeim verður þetta virkilega góður vetur, en eins og alltaf getur brugðið til beggja vona.

2. Stöðugleiki liðsins á síðasta ári. Eins og hefur margoft komið fram þá höluðum við inn fleiri stigum en Chelsea frá því í októberbyrjun 2005 og fram á vorið í deildinni. Frá því að þeir sigruðu okkur 4-1 á Anfield í október náðum við í 75 stig úr 33 deildarleikjum, samanborið við 67 stig þeirra úr sama leikjafjölda. Slík tölfræði skiptir litlu þegar á heildina litið en hún sýnir okkur svart á hvítu að Liverpool-liðið er orðið stöðugt og öflugt í deildinni, þannig að við megum búast við að liðið spretti út úr startholunum á fyrstu vikum þessa tímabils.

3. Þriðja tímabilið hjá Rafa. Hann neitaði sjálfur að gefa sér einhvern tímaramma til að gera liðið að meistaraefnum þegar hann tók við fyrir tveimur árum, en það vissu allir að við vorum að horfa á lágmark þriggja tímabila bið. Fyrsta tímabilið fór í að vinna úr leifum hópsins sem Houllier skildi eftir sig, en það tímabil skilaði óvænt sigri í Meistaradeild. Á síðustu leiktíð fór Rafa svo að setja meira og meira af sínum brennimörkum á liðið og það sýndi sér í hraðri og jafnri þróun liðsins sem virtist stundum vera að stökkbreytast í hálfgert ferlíki fyrir augum manns. Í vor unnum við svo FA bikarkeppnina ensku. Nú er Rafa með hinn fullgerða hóp í höndunum, þar sem hver einasti maður er þar fyrir tilstuðlan Rafa og vegna þess að Rafa vill hafa viðkomandi þarna inni, ekki af því að það á eftir að finna staðgengla eða slíkt. Þetta er þriðja tímabilið og því það fyrsta þar sem við getum talist sannir áskorendur til Englandsmeistaratitilsins.

Spurningin er svo bara: Er það raunhæfur möguleiki að ætla liðinu að vinna Deildina í ár?

Mitt svar er eitthvað á þessa leið: Nei, en það er raunhæfur möguleiki að ætla liðinu að gera alvarlega atlögu að sigri í Deildinni.

Ég lít ennþá svo á að Chelsea séu með það dýran leikmannahóp og með það sterka leikmenn í öllum stöðum, sem flestar eru tvímannaðar, að þeir ættu að öllu eðlilegu að vinna titilinn aftur í vetur og sennilega næstu árin líka. Þetta eru einfaldlega staðreyndir sem öll hin liðin verða að horfast í augu við framvegis: það er óraunhæft að ætla liðum að geta boðið upp á jafn ríkulegan mannskap og sterka breidd og Chelsea geta, og ef svo ólíklega vildi til að þeir töpuðu tigninni í vetur þá myndi Abramovich sennilega svara því með því að eyða öðrum hundrað milljónum punda næsta sumar til að gera liðið enn betra. Chelsea-ferlíkið er komið til að vera, hvað sem tautar og raular, og raunsætt mat mun því alltaf þýða að þeir eru líklegastir.

Hins vegar geta hlutir farið úrskeiðis hjá þeim eins og öðrum. Nýir leikmenn geta tekið óvenju langan tíma að komast í takt v ið enska boltann, þeir geta lent í meiðslum og/eða einhverju drama innan liðsins og fleira í þeim dúr. Og það sem gerir þessa leiktíð spennandi, svona fyrirfram, er að maður sér vísi að slíkum vandamálum hjá liðinu núna. José Mourinho stendur frammi fyrir því að þurfa að fórna 4-3-3 kerfinu sínu fyrir 4-4-2 til að koma þeim Ballack og Schevchenko fyrir í liðinu, en nýtt leikkerfi skapar óvissu. Kannski virkar það ekkert jafn vel og 4-3-3?

Þá eru leikmenn eins og William Gallas, Wayne Bridge og Didier Drogba eins og handsprengjur í nestiskörfu; að öllu eðlilegu eru þeir meinlausir en maður veit aldrei hvenær pinninn hverfur og allt verður vitlaust. Í ár, umfram síðustu tímabil, býst ég hreinlega við að sjá einhverja prímadonnuna fara í fýlu hjá meisturunum. Mourinho á ærið verk fyrir höndum að halda þessu batteríi gangandi og vel smurðu.

En nóg um Chelsea. Ef þeir eru líklegir meistarar, hvar standa okkar menn þá? Erum við þá ekki bara að horfa uppá baráttuna um annað sætið og svo kannski bikartitla með? Eflaust, en það segir samt ekki alla söguna. Ef Chelsea setja annað stigamet og spila þéttar en nokkru sinni fyrr mun ég ekki örvænta. Ef Rafa getur bætt stigatölu liðsins þriðja árið í röð og skilað okkur öðru sætinu á eftir Chelsea verð ég að vissu leyti sáttur, svo lengi sem okkar menn hafa allavega látið Chelsea hafa fyrir því að halda titlinum.

Málið er nefnilega það að ef eitthvað fer úrskeiðis hjá Chelsea er það á ábyrgð okkar manna að tryggja að þeir séu klúbburinn sem nýti sér það. Og ég held að það sé fyllilega hægt; við erum ekki langt undan Chelsea hvað varðar gæði leikmannahóps og breidd og stöðugleikinn er kominn til að vera hjá okkar mönnum. Það er til gott máltæki sem segir að ef maður miðar á tunglið en drífur ekki gæti maður samt landað stjörnu. Það á vel við hér; ef okkar menn setja stefnuna á titilinn í ár (og sigur í öllum bikarkeppnum sem liðið tekur þátt í) þá mun ég ekki telja neina skömm í því að lenda í öðru sætinu, vitandi það að menn hafi gert sitt besta til að stöðva Chelsea og í það minnsta látið þá svitna aðeins.

Og hver veit? Kannski verður stjörnuhrap og við innbyrðum tunglið eftir allt saman. Venjulega er ég manna fyrstur til að biðja fólk um að stilla væntingum sínum í hóf þegar nýtt tímabil gengur í garð en í ár finnst mér liðið einfaldlega hafa unnið sér inn þann rétt að við gerum kröfur til þeirra. Þeir hafa gott af því að finna eftirvæntingarnar á herðum sínum, ef í þessum strákum blundar á annað borð meistaraeðlið þá bregðast þeir vel við pressunni og svara henni á réttan hátt.

**MÍN SPÁ:** Fyrsta eða annað sætið í deildinni, að mínu mati er ekkert annað ásættanlegt í vetur. Ég veit ekki hversu mikið hungur verður í bikarkeppnirnar ensku eftir að hafa farið í úrslit í þeim báðum á síðustu átján mánuðum, en ég er sannfærður um að við förum lengra í Meistaradeildinni en við gerðum á síðustu leiktíð. Ég spái því að okkar menn berjist við Chelsea um titilinn fram á síðasta leikdag (ætla ekki að spá því hvort liðið hefur það að endingu) og að við förum allavega í undanúrslitin í Meistaradeildinni.

En eins og Rafa segir jafnan byggist velgengnin upp á því að taka einn leik í einu. Róm var ekki byggð á einum degi og ef okkar menn ætla sér að vera með í baráttunni í maí 2007 þurfa þeir að vinna lið eins og Sheffield United á útivelli. Á morgun hefst veislan og ég vona svo sannarlega að okkar menn verði tilbúnir í slaginn. Reyndar er ég nokkuð viss um að svo verður, því ég treysti Rafa orðið algjörlega! 😉

16 Comments

  1. Ekki gleyma því að Liverpool eru líka tvímannaðir í hverri stöðu af gæðaleikmönnum. Við ættum alveg að geta farið fyrir ofan Chelsea sérstaklega þar sem leikkerfið þeirra er að breytast og væntingarnar sem eru á þeim munu buga þá.

    En liðið sem ég spái á morgun er:

    Reina
    Finnan Carra Hyypia Riise
    Pennant Alonso Gerrard Garcia
    Bellamy Crouch

    Subs:
    Dudek
    Agger
    Sissoko
    Gonzales
    Fowler

    Spá: 1-2 útisigur hjá okkar mönnum. Garcia og Bellamy með mörkin.

  2. Flottur pistill!

    Þú talar reyndar bara um Liverpool og Chelsea en ég held að baráttan verði ekki bara þeirra á milli. Ég býst við jafnri baráttu á toppi deildarinnar þar sem Liverpool, Chelsea, Arsenal og Man.Utd. eiga eftir að vera í þéttum pakka í fyrstu fjórum sætunum.

    En að sjálfsögðu vonast ég eftir 1. sætinu! :biggrin:

  3. Kaupin í sumar hafa gefið byr undir báða vængi og þá sérstaklega í ljósi samkeppni um stöður. Vinstri vænginn er hægt að manna topp leikmönnum með hraða og tækni, Gerrard getur komið aftur inn í sína stöðu eftir að Pennant kom og nú verða menn að vera á tánum í vörninni þar sem ungir og efnilegir jakar berja á dyr frægðarinnar. Í ljósi þessa þá tel ég mestu áhættuna fólgna í að kaupa Kuyt, einkum vegna þess að við höfum séð menn eins og Kezman koma úr hollensku deildinni og ekki ná árangri, en það sem Kuyt hefur fram yfir Kezman er styrkurinn, hann er líkari Nistelrooy og þar með líklegri til árangurs. Það verður líka að vera rakið að árangur næst ekki nema menn stigi upp í ábyrgðina og liðið verði ekki fyrir meiðslaáföllum, við höfum fengið að súpa af því seiðið í gegnum árin, en hópurinn er breiðari nú en áður og getur betur tekist á við slík áföll. The Rafalution, eins og það er kallað, er að skila sér og tel ég að liðið eigi eftir að vera í toppbaráttunni í vetur og menn eins og Gonzales og Bellamy eigi eftir að brillera. Leikurinn á morgun gefur okkur smjörþefinn að þvi sem koma skal og spá ég byrjunarliðinu svona:
    Reina,
    Finnan, Carrager, Hyypia, Riise – varnarlína
    Gerrard, Sissoko, Alonso – miðjan
    Pennant, Gonzales – kantar
    Bellamy – Frammi

    Spái ég 3 – 0 sigri Liverpool manna og Bellamy, Gerrard og Gonzales verða með mörkin.

    Í garð er að ganga nýtt tímabil sem vert verður að fylgjast með.

    Later,

    jong

  4. Ég myndi hiklaust segja að það væri raunhæfur möguleiki að vinna deildina í ár. Ég er alltaf með væntingar og mér finnst það eðlilegt, fyrir lið eins og Liverpool. Mér finnst líka mórallinn ekki vera að virka vel hjá Chelsea, á meðan mórallinn hjá Liverpool virðist í toppi. Manchester United og Arsenal eru spurningamerki, en þetta eru lið sem munu gera tilkall til titla líka. Mín spá í dag er þessi:

    1.-2. Liverpool
    1.-2. Chelsea
    3. Manchester United
    4. Arsenal

    og það mun muna færri stigum á 4. sætinu og toppnum heldur en hefur gert síðustu tvö ár.

    Eitt sem ég hef líka tekið eftir (kannski er einhver hlutdrægni í því og sú staðreynd að ég fylgist mest með Liverpool…), en það er að nýir leikmenn þessara toppliða hafa ekki alveg verið með sömu ástæður fyrir því að skipta um lið. Nú erum við með þrjá leikmenn hjá Liverpool (Kæt, Bellamy og Pennant) sem allir eru að segja að núna séu þeir komnir til draumaliðsins síns. Schevy og Ballack töluðu ekki með svona miklum ákafa um Chelsea t.d. – Schevy var í því að segja að það væru ekki peningarnir sem skiptu máli… en byggt á því sem maður er að sjá þessa dagana, þá virðist mesta hjartað vera í Liverpool. Er það ekki rosastór plús í þeirri andlegu baráttu sem er að hefjast, hvort sem hún skilar sér svo í titlum eða ekki? Ég er alla vega sáttur við kaupin og geri tilkall til allra titla … 🙂

  5. Eigum við ekki aðeins að slaka á með þessum væntingum okkar. Jú líðið er búið að bæta sig en við verðum að passa okkur á því að vera ekki með þessar ofurvæntingar og halda því fram hér og nú að Liverpool eigi næstum sömu möguleika og Chelsea að vina titilinn. Sjáum hvernig þetta gengur og verum með hóflegar væntingar og hver veit nema liðið komi okkur þá á óvart og kemur okkur í gott skap. Of miklar væntingar gerir okkur bara fúla þegar ekki nógu vel gengur þar sem mikill neikvæðni mun ríkja allt spjall hérna. Við eigum en í nokkuð landi með því að ná Chelsea og það eru aðeins þeir sem geta eyðilagt fyrir sjálfum sér.

  6. Glæsilegur pistill ad vanda fra Kristjani. Eg tel enda astædu til annars en ad vera verulega bjartsynn fyrir tetta timabil, vid hofum keypt vel inn og tetta er 3ja timabilid sem Rafa er vid stjorn. Hins vegar er tetta frekar spurning um hvort Chelsea kludrid tessu sjalfir og ta okkar ad vera klarir ad nyta okkur tad.

    Hins vegar held eg ad Man U verdi einnig sterkari i ar en i fyrra med Carrick og Hargreaves a midjunni.

    UUUUsssss hvad eg er spenntur fyrir leiknum a morgun.

  7. Gagn og gaman að lesa pistlinn. Auðvitað reynir maður innst inni að reyna að hemja bjartsýnina, en það er erfitt eftir svona sumarkaup eins og við höfum gert. Talandi um að Chelsea þurfi að klúðra þessu sjálfir, síðast þegar ég vissi þá byrja öll lið með 0 stig í deildinni. Þetta er alveg jafnt undir okkar mönnum komið eins og öðrum. Það hefur verið sýnt fram á að slæm byrjun okkar á síðasta tímabili hafði úrslitaáhrif er þetta varðar, ef við náum að lagfæra nokkra hluti, þá eigum við alveg fullan séns á að berjast um titilinn. Hvort það næst að landa honum eða ekki, er svo algjört óvissuatriði. Ég er þó á því að við höfum ekki átt jafn góðan séns í fleiri fleiri ár.

  8. Ég held að við ættum að stefna á betri árangur en síðasta tímabil…. 3ja sætið væri ásættanlegt, 2. sætið frábært.

    Ég sé ekki nokkuð lið skáka Chelsea á þessu tímabili og reikna með þeim sem öruggum meisturum.

    Nú kanski sárnar einhverjum en ég held að þó við séum búnir að vinna Chelsea í undanförnum útsláttarleikjum og jafnvel vinnum þá í deildinni í vetur þá eru þeir einfaldlega það þéttir að þeir tapa færri stigum.

    Að enda á undan Man Utd. og Arsenal og hirða 2. sætið væri stórt skref uppá við og móralskur sigur fyrir liðið.

  9. Það bendir allt til þess að þetta tímabil verði mun jafnara en síðustu tvö. Liverpool á góða möguleika ef þeir lenda ekki í þessari mánaðar lægð sem þeir virðast lenda í á hverju tímabili.

    Mín spá er sú að ef Gallas fer frá C$$$$$$ þá muni stöðuleiki þeirra ekki verða sá sami og síðustu tvö tímabil. Ástæðan er sú að Gallas getur leyst allar stöður í vörninni óaðfinnanlega og hefur gert þá síðustu tvö tímabil,t.d. eins og vinstri kantinn á því síðasta.

  10. En pælið í hvað Mourinho hefur breytt um stefnu. Í lok síðast tímabils sagði hann að allir þeir leikmenn sem væru óánægðir hjá Chelsea mættu alveg fara frá liðinu. Beindi hann þetta sérstaklega að Ricardo Carvalho sem var smá óánægður. En núna tekur hann það ekki í mál að selja Gallas frá liðinu þó hann sé óánægður. Humm hvað hefur eiginlega breyst hjá Chelsea?

  11. Til hamingju með gott sumar!

    Benitez er náttúrulega mjög klókur stjóri, og notaði fyrstu tvö tímabilin í að búa til mjög stabílt lið sem erfitt er að leika gegn. Kaupin í sumar voru öll frekar klók. Enginn risastjarna sem ruggar skútunni of mikið, en góð kaup í réttar stöður og um fram allt kannski réttar kringumstæður innan leikjanna sjálfra (ef þetta meikar eitthvað sens..).

    Ef Bellamy og Pennant “gamblið” gengur upp, sem ég held persónulega að verði, þá kemur Benitez út úr því sem mikill sigurvegari. Mín spá er sú að munurinn á Liverpool og Chelsea í vor verði 3-5 stig, hvort liðið verður hvar læt ég ósagt 😯

  12. Ég hugsa að Tottenham verði svolítið stabílli og þéttari en í fyrra, en verði á sama róli, þ.e.a.s. í baráttu um síðasta CL-sætið.

    Eftir að Carrick var seldur hefur mikið verið talað um Zokora komi “í hans stað”, en fólk gleymir því að Zokora var keyptur löngu áður en Carrick var seldur, og er talsvert öðruvísi leikmaður. Hann kemur þess vegna ekkert sem beint replacement, heldur verður leikskipulagið einfaldlega annað og öðruvísi en þegar Carrick var QB hjá okkur.

    Með leikmenn eins og Zokora, Jenas, Lennon, Defoe, Lee og Assou-Ekotto má því reikna með að tempóið verði talsvert hærra en síðustu ár, og það verður spennandi að sjá hvernig það skilar sér í stigum.

  13. LIVERPOOL ROCKAR FEITAST (y)
    😉 🙂 🙂 🙂 🙂 :biggrin: :biggrin2: :biggrin2:

Lána, selja, gefa?

Sheffield United á morgun