Ítalía: eftirskjálftar gærdagsins

juventus-logo.jpgJæja, í gær féll dómurinn á Ítalíu og eins og Einar sagði frá reyndist það rétt að Juventus, Lazio og Fiorentina voru dæmd niður um deild og látin byrja næsta tímabil í stigamínus, á meðan AC Milan hélt sæti sínu í Serie A en byrjar næsta tímabil í 15-stiga mínus. Þar að auki voru dregin ákveðið mörg stig af öllum fjórum liðum fyrir síðustu tvö tímabil, og Juventus sviptir meistaratitlum sínum fyrir bæði þessi tímabil, þannig að eins furðulega og það hljómar þá eru það sem sagt Internazionale sem eru núverandi tvöfaldir Serie A-meistarar.

Þá var öllum fjórum liðum sparkað úr Evrópukeppnum og því verða það Internazionale og AS Roma sem fara beint í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vetur, á meðan Chievo Verona og Palermo fara í þriðju umferð umspilsins í ágúst.

Um Lazio og Fiorentina er ekki mikið að segja. Þau voru dæmd niður í B-deildina en gætu alveg komist beint upp, þar sem þessi sjö stig (Lazio) og tólf stig (Fiorentina) sem þau eru með í mínus eru alveg yfirstíganleg. Hjá þessum liðum er ekki mikið um stórstjörnur; Paolo Di Canio er þegar farinn frá Lazio til að spila með neðrideildarliði á Ítalíu (orðinn gamall kallinn) og svo er spurning hvað verður um Simone Inzaghi. Hjá Fiorentina er það helst Luca Toni, og sagan segir að hann sé þegar kominn í viðræður við Inter, á meðan rúmenska ungstirnið Valeri Bojinov var þegar búinn að skipta til Juventus í skiptum fyrir Adrian Mutu og Manuel Blasi.

Hvað Milan-liðið varðar efast ég um að þetta þýði að þeir missi marga leikmenn. Þetta er ríkur klúbbur og þótt þeir séu ekki í Evrópukeppni í vetur eru þeir líklegir til að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar í vetur að mínu mati, þrátt fyrir að þurfa að byrja með fimmtán stig í mínus. Það er hægt, og ef þeir halda mannskap sínum eru þeir líklegir til þess.

Juventus-liðið er hins vegar það sem verður verst úti í þessu. Þetta er eitt best mannaða knattspyrnulið í heiminum, og að vera dæmdir niður um deild, sviptir öllum titlum og möguleikanum á Evrópukeppni, og látnir byrja með 30 stig í mínus þýðir eftirfarandi: þeir verða a.m.k. tvö tímabil í Serie B nema þá að þeir eigi stórkostlegt tímabil í vetur, og fyrir vikið verða þeir allavega þrjú tímabil í burtu frá Meistaradeildinni. Næstu þrír vetur verða þeir ekki með í Meistaradeildinni. Það er svakalegt.

Eftir situr að þeir eru með ótrúlegan stjörnufans í sínu liði, og það eru leikmenn sem ekki er nokkur leið að ætla að sætti sig við að vera í neðrideildum í tvö tímabil og án Evrópukeppni í þrjú. Ég fór yfir leikmannalista Juve og þetta eru þeir leikmenn sem að mínu mati eru allt of góðir til að hljóta þessi örlög, og um leið hvað er líklegt að verði um þá:

GIANLUIGI BUFFON: Besti markvörður heims og þótt Real Madríd og Arsenal séu orðuð við hann finnst mér nánast öruggt að hann fari til AC Milan.
ROBERT KOVAC: Frábær, króatískur varnarmaður sem er kominn til ára sinna en á samt nóg eftir fyrir ítölsku deildina. Sé fyrir mér lið eins og Inter, Roma eða Sampdoria krækja í hann ódýrt.
LILIAN THURAM: Þessi goðsagnakenndi, franski varnarmaður er kominn til ára sinna og á ekki mörg ár eftir í efstu deildum Evrópu. Þá er hann víst mjög rótgróinn í Tórínó-borg, kennir víst í Háskólanum þar samhliða knattspyrnunni, þannig að það er spurning hvort hann vill færa sig um set til að fá 1-2 tímabil í viðbót í fremstu röð eða hvort hann klárar ferilinn með Juve í Serie B. Eða hreinlega leggur skóna á hilluna.
JONATHAN ZEBINA: Hér er athyglisverður leikmaður á ferðinni. Eins og lesendur þessarar síðu vita vorum við orðaðir við Zebina bæði síðasta sumar og nú aftur í janúar. Hann er 28 ára franskur varnarmaður sem getur spilað bæði í miðri vörn og hægri bakverði, og er nú skyndilega til sölu ódýrt. Ef það er einhver leikmaður Juventus sem er líklegur til að koma til Liverpool, þá er það hann.
FABIO CANNAVARO: Fyrirliði heimsmeistaranna, og frægðarsól hans hefur aldrei skinið jafn skært og nú eftir HM. Real Madríd þarfnast hans, Fabio Capello elskar hann, hann vill fara þangað. Ég þarf ekki að vera stærðfræðingur til að reikna þetta dæmi til enda.
PATRICK VIEIRA: Gamli, góði Paddý. Eins og Michael Owen, þá fór hann frá enska liðinu sínu til að vinna stærri titla en það hefur farið á versta mögulega veg. Kunnugir segja að Alex Ferguson hafi áhuga á að fá hann til United en líklegast þykir að Gérard Houllier hjá Lyon hreppi kappann, jafnvel ásamt David Trézeguet. Kemur í ljós, en það er pottþétt að hann fer frá Juve.
EMERSON: Þessi brasilíski miðjumaður gæti farið aftur til Roma en líklegast myndi mér þykja að hann endi hjá Real Madríd. Þetta er annar leikmaður sem Capello hefur dálæti á – hann tók hann með sér frá Roma til Juve á sínum tíma – og hann er akkúrrat svona harðhaus á miðjuna sem Real þarfnast.
PAVEL NEDVED: Chelsea eða Man U að mínu mati. Pottþétt. Hann er allt of góður til að vera í Serie B og ekki getur hann farið aftur til Lazio sem voru líka dæmdir niður. Finnst líklegt að hann noti tækifærið og skelli sér til Englands, en hann hefur daðrað við ensku stórliðin í nokkur ár núna.
MAURO CAMORANESI: Þetta er annar leikmaður sem hefur verið orðaður við okkur og ég útiloka það ekki að hann komi, og myndi fagna því ef það er á góðu, ódýru verði. Hann er 29 ára, argentínskur að uppruna og eins leikreyndur og þeir gerast, og yrði góð viðbót við hvaða lið sem hann velur sér á endanum. Eigum við ekki bara að vona að hann komi?
GIANLUCA ZAMBROTTA: Zambo getur spilað bakvörðinn bæði hægra og vinstra megin og er einn sá besti í heiminum í sinni stöðu, sem er aðallega vinstra megin. Finnst líklegt að hann fari til annars liðs eins og Inter eða Roma á Ítalíu, en ef Roberto Carlos er að yfirgefa Real Madríd til Chelsea skulum við ekki útiloka að Capello hringi í hann. Nú, ef Carlos verður kyrr hjá Real Madríd eru Chelsea ennþá að leita sér að heimsklassa vinstri bakverði …
ZLATAN IBRAHIMOVIC: Nei takk! Ég skal segja það aftur svo það skiljist: nei takk! Zlatan er sá leikmaður Juve sem er öruggast að muni yfirgefa liðið í sumar, en stóra spurningin er bara hvert hann fer. Ég vill ekki sjá egóistann og skaphundinn sem hann er hjá Liverpool og þótt hann sé einn sá hæfileikaríkasti í bransanum held ég að skapgerð hans muni takmarka valmöguleikana. Sé fyrir mér annað hvort Real Madríd eða Bayern München, gæti farið eftir því hvort þeirra tveggja liða Ruud Van Nistelrooy velur að fara til.
ALESSANDRO DEL PIERO: Prinsinn í Tórínó er ennþá einn besti leikmaður Ítalíu, en hann stendur frammi fyrir erfiðu vali. Hann var ekki fastamaður í liði Juve sl. tvö tímabil og því erfitt fyrir hann að halda að hann gæti orðið það hjá liði eins og Roma eða Inter. Spurningin fyrir hann er því, fer hann til liðs eins og Palermo eða Sampdoria þar sem hann gæti fengið að vera kóngur í 1-3 ár áður en hann hættir, eða heldur hann tryggð við Juventus og tryggir sér þar með sess sem einn allra dáðasti leikmaðurinn í langri sögu félagsins? Ég held hann verði kyrr.
DAVID TRÉZEGUET: Rafa er sagður hafa áhuga á honum og ég væri sko mikið meira en til í að sjá hann koma. Ferill hans talar sínu máli og ef hann er ódýrari kostur en Dirk Kuyt og/eða Darren Bent værum við óðir að reyna allavega ekki. Hins vegar segir slúðrið í Frakklandi mjög ákveðið að hann og Paddy Vieira fari saman til Lyon. Er ekki sannfærður um að Houllier hafi það mikið aðdráttarafl og mun halda í vonina þangað til annað kemur í ljós.
MARCELO ZALAYETA: Of góður fyrir Serie B, en of slappur til að finna sér annað stórlið utan Ítalíu. Mín spá: Roma eða Chievo Verona, þar sem hann getur spilað í Meistaradeildinni næstu árin.

Og þar með er því lokið. Þetta eru alls FJÓRTÁN stórstjörnur sem ég tel hjá Juventus og af þeim finnst mér bara líklegt að Del Piero og Thuram verði um kyrrt. Og jafnvel ekki þeir. Þannig að það er ljóst að hér hefur opnast hreint ótrúlegur tombólumarkaður sem meira og minna öll stórlið Evrópu hafa verið að bíða eftir, og munu reyna ákaft að færa sér í nyt.

Næstu dagar verða ákaflega athyglisverðir!

5 Comments

  1. pavel nedved sagði við tékkneska fjölmiðla að hann myndi spila með juve í eitt tímabil í viðbót áður en hann legði skóna á hilluna, óháð því hver niðurstaða dómsmálanna yrði.

  2. Sammála með zlatan, vil ekki sjá hann í mínu liði enda Liverpool með alltof stórt hjarta fyrir þennan egó-ista.

  3. Nú hafa öll liðin gefið það út að þau muni áfrýja niðurstöðu dómsins. Spurning hvort dómnum verði breitt, kannski mildaður.

    En EF hann stendur óbreittur þá er ljóst að margar stjörnur eiga eftir að yfirgefa þessi lið. Miðað við peningaskort Liverpool þá getum við útilokað nokkra leikmenn strax. L. Toni fer til Inter.

    Tek undir með Kristjáni, væri til í að sjá einhvern að eftirtöldum leikmönnum í Liverpoolbúningi í vetur, Zebina, Trézeguet, Camoranesi.

    Eru ekki allar líkur á því að Zambrotta endi hjá C$$$$$$. Hann er klárlega besti bakvörðurinn dag, og er ekki augljós stefna þeirra að kaupa alla bestu fótboltamenn í heiminum á rugl verðum.

    Annars er stærsta spurningin í dag hve margir leikmenn Juve enda hjá Real. Ég veðja á 3-4 leikmenn, Cannavaro, Emerson, Zambrotta (bara ef C$$$$$$ gerir ekki tilboð í hann) og hugsanlega sóknarmann.

  4. á meðan rúmenska ungstirnið Valeri Bojinov var þegar búinn að skipta til Juventus í skiptum fyrir Adrian Mutu og Manuel Blasi.

    Ég get ekki séð að Bojinov sé betur settur í Juve frekar en Fiorentina og sama gildir um Mutu og Blasi.

    Allir þessi leikmenn hljóta að hugsa sér til hreyfings… ég væri alveg til í að fá Bojinov.

Juventus, Fiorentina og Lazio niður um deild

L’pool 2 – Wrexham 0