Fjögur Lið Eftir

“Við fórum kannski hægt af stað, en þær þjóðir sem voru að spila best í byrjun móts munu allar horfa á undanúrslitin í sjónvarpinu.”
Raymond Domenech, þjálfari Frakka

wc_semifinals.jpg

Michael Ballack. Francesco Totti. Luis Figo. Zinedine Zidane. Fjórar af stærstu og mestu hetjum evrópskrar knattspyrnu síðasta rúma áratuginn, og burtséð frá áliti manna á hverjum og einum þeirra þá er eitthvað svo rétt við það að einn þeirra muni hampa heimsmeistaratitlinum eftir viku. Jafnvel þótt Fabio Cannavaro sé fyrirliði Ítala, og ekki Totti, þá þekki ég nokkra Ítali sem munu láta eins og allt sé gott í heimi vorum ef Totti fær að halda á styttunni þungu áður en hans ferli lýkur.

Eins og Raymond Domenech sagði eftir frækinn sigur á núverandi heimsmeisturum Brasilíu í gær, þá skiptir ekki mestu máli að byrja vel heldur að enda vel. Við Liverpool-menn þekkjum þessi fræði; þegar okkar menn töpuðu fyrir Olympiakos og Mónakó á útivelli, og spiluðu frekar illa, þá grunaði engann að nokkrum mánuðum síðar myndi Steven Gerrard lyfta Evrópubikarnum í Istanbúl (besta dæmi sem ég þekki um karmískt réttlæti heimsins, það sem Þjóðverjar, Ítalir, Portúgalir og Frakkar láta sig nú dreyma um). Það skiptir öllu að enda keppnina vel.

Hverjir munu standa uppi sem sigurvegarar? Margir veðja á að heimamenn fari alla leið, úr því þeir gátu unnið Argentínu, og benda þar á hina klassísku seiglu sem virðist vera hluti af súrefninu í Þýskalandi. Aðrir segja að Frakkarnir séu líklegir, þar sem í þeirra röðum séu enn margir leikmenn sem hafa farið alla leið áður og vita hvað til þarf. Enn aðrir segja svo eflaust að Ítalir hljóti að vinna þetta, þar sem hið dramatíska “slys” Gianluca Pessotto fyrir tæpri viku síðan hafi þjappað hóp þeirra saman og myndað þéttari einhug en fyrr, á meðan síðasti hópurinn vill meina að Big Phil Scolari, landsliðsþjálfari Portúgala, einfaldlega geti ekki tapað leik í Heimsmeistarakeppni.

Allt góðar og gildar ástæður fyrir sigri á HM, og allt eru þetta góðir leiðtogar og vel hæfir til að leiða lið sín til sigurs í stærstu íþróttakeppni heims. En það er nú einu sinni svo í knattspyrnunni að ekkert er fyrirfram öruggt; það er eitt af því sem gerir hana svo skemmtilega. Og rétt eins og Þjóðverjar gátu unnið Argentínumenn, sem flestir héldu að væru að innbyrða þessa keppni frekar létt, þá gætu þeir tapað fyrir Ítölum einmitt þegar engir nema Ítalir trúa að þeir geti tapað á heimavelli. Og rétt eins og Zidane reis upp úr ösku eigin ferils eins og fönix og hóf sig hátt til flugs í gær gegn Brasilíumönnum (besta frammistaða eins leikmanns í keppninni, ekki spurning) gæti Figo fellt hann á eigin bragði nú þegar allir halda að Frakkar séu ósigrandi.

Fyrir mótið var ég næsta viss um að Brasilíumenn yrðu ekki stöðvaðir. Í raun trúði ég því enn ekki að þeir gætu tapað fyrr en svona kortér var eftir í leik þeirra gegn Frökkunum. Í upphafi móts hugsaði ég fyrst með mér að kannski væri tími Spánverjanna loks kominn (hversu vitlaus getur maður verið?) og svo að Argentínumenn væru of góðir til að vinna þetta ekki. Nú síðast í gærmorgun fann ég svo innilega á mér að Englendingar gætu farið alla leið að ég var hreinlega steinhissa að sjá þá tapa fyrir Portúgölum.

Í dag finnst mér Zinedine Zidane vera langbesti leikmaður sem ég hef verið svo heppinn að sjá spila á minni ævi, Þjóðverjar vera sannarlega ósigrandi á heimavelli og algjörlega ómögulegt að hugsa til þess að Chelsea vinni ekki Englandsmeistaratitilinn á næstu leiktíð. En ég hef verið viss um margt í knattspyrnu áður, og jafnharðan verið minntur á að ekkert er fyrirfram öruggt. Þannig að ég býst við að vera leiðréttur; fyrst í undanúrslitum Heimsmeistarakeppninnar og svo vonandi í vetur líka. 🙂

Hvað halda menn? Hverjir verða Heimsmeistarar í knattspyrnu árið 2006? Skráið ykkar skoðun hér í dag, svo þið getið sagt “I told you so” við okkur hina eftir viku.

17 Comments

  1. Alveg sammála þér Kristján. Alltof oft hef ég verið minntur á að ég hef bara ekki hundsvit á knattspyrnu. Í það minnsta er ekki mikið um spádómsgáfur í mínum kolli.

    Á HM 2002 lýsti ég því yfir við alla sem vildu hlusta að Argentína, Ítalía og Frakkland væru einu liðin sem ættu séns í sigurinn – Önnur lið gætu gleymt þessu. Því held ég að það sé rétt hjá mér að vera ekkert að reyna að spá um framhaldið. Það er hvort eð er ómögulegt.

    Frakkar eru mínir menn. Ég hef fylgst náið með þessar kynslóð þeirra , þeirri sem nú er að hverfa af vellinum. Ég var líka í Frakklandi sumarið 2000 þegar þeir sigruðu Ítala í dramatískum leik í úrslitum EM. Það var ógleymanlegt að upplifa þá stemmningu og Frakkar ásamt Englendingum eru mín lið.

    ALLEZ LES BLEUS!!!

  2. Ég spái Ítölum titlinum. 1982 þegar þeir unnu keppnina síðast þá var allt í rugli heimafyrir eins og er núna. Síðan held ég líka að málið með Pessotto þjappi þeim enn frekar saman.

    Forza Italia :blush:

  3. Ég er einn þeirra sem á greinilega ekki að halda með neinum liðum því það er nánast undantekningarlaust að þau klikka 🙁 Ég var að vonast til að Spánn myndi taka þetta og síðan heldur maður alltaf með Englendingunum. Þetta er að sjálfsögðu smitað af þeirri staðreynd að maður heldur alltaf með Poolurum. Síðan var Mexico með skemmtilegt lið en að Ítalía sé komið svona langt finnst mér miður.
    Annað mál – er ekki kominn tími til að FÍFA taki á því sem hefur skemmt keppnina stórlega þ.e. þennan leikaraskap og dómgæslu. Held reyndar ef menn hættu þessum leikaraskap að þá yrði dómgæslan auðveldari. Er ekki kominn tími til að setja menn í bann eftir á fyrir leikaraskap?
    Ótrúlega gott dæmið sem var tekið hérna á síðunni með Henry. Hann gagnrýndi leikaraskap þvílíkt eftir úrslitin í Meistardeildinni en varð sér síðan til þvílíkar skammar með sinn leikaraskap – í bann fyrir svona rugl!

  4. Ég ætla að tippa á að Ítalía og Frakkland mætist í úrslitum, Ítalir ná að stöðvar Þjóðverja með sínum ótrúlega öfluga og árangursríka leikstíl (ekki skemmtilegasta leið til að spila fótbolta, en er ekki öllum skítsama ef það skilar árangri???) og svo held ég að loksins verði hið ömurlega lið Portúgals stöðvað af Zidane og félögum. Í úrslitunum vinna svo Frakkar !!!!

  5. Ég vona innilega að það verði Þjóðverjar, algjört snilldarlið og ekki annað hægt en að dáðst af þeim. Ég spáði þeim sigri á HM fyrir mót og stend enn við það.

    Áfram Þjóðverjar!!!

  6. Leiðinlegasta HM í 16 ár. Uppfull af skelfilegum dómurum og varnarsinnuðum liðum sem eru þjálfuð af hræddum litlum músum. Enginn er búinn að skora þrennu, enginn leikmaður hefur staðið uppúr fyrir frumkvæði og tækni í sóknarleik og spurning hvort liðin ættu ekki bara að sleppa 120 mínútunum og fara beint í vítaspyrnukeppni.

    Stærsta taktíska málið árin 2004-2006 er kerfið 4-5-1 þar sem hafsentar ráða ríkjum á miðjunni, Makalele, Viera, Emerson, Sissoko, Gilberto. Leikmenn sem langar að spila eins og Platini, Maradona, Francescoli, Laudrup, Zico fá yfir sig stimpil sem óáreiðanlegir af handboltaþjálfurum eins og Gaupa í sjónvarpinu og er skipt út af af þjálfurum sem hafa UEFA Pro gráðu í að drepa niður frumkvæði.

    Luis Garcia, Ronaldinho, Henry, Gerrard, Cesc Fabregas, Totti ofl ofl eru hlekkjaðir við varnarskyldur og ofmannaðar miðjur og er alltaf kennt um allt sem fer úrskeiðis.

    Jogo Bonito my ass!

  7. Ég spái Þjóðverjum titlinum. Þeir hafa verið að spila jafnbesta boltann, og sama þótt menn tali um að toppa á réttum tíma, þá hafa Þjóðverjar hreinlega ekki klikkað – eða er það? Hafa þeir átt slæman leik?

    Hins vegar er ekkert öruggt í þessum heimi, og spurning um að leikararnir í Portúgal fari alla leið? Mín spá er samt sem áður þessi:

    1. Þýskaland, 2. Frakkland, 3. Ítalía, 4. Portúgal.

    Var það ekki BT sem bauð upp á endurgreiðslu á sjónvarpi ef einhver gæti giskað rétt á þrjú efstu liðin í keppninni? Ætli það séu margir enn sem eigi möguleika á þeirri endurgreiðslu? 🙂

  8. Bad boy Bellamy er byrjaður: Footballer Craig Bellamy charged. Er ásakaður um að hafa slegið 19 ára stelpu á næturklúbbi í Cardiff.

    Og Daði er búinn að vera að reykja krakk ef hann segir að þetta sé leiðinlegasta HM síðan 1990. Það eru flestir sammála um að þetta sé skemmtilegasta HM síðan 1982 á Spáni. Ótrúlegt en satt þá eru Þjóðverjar samt með skemmtilegasta liðið af þeim fjórum liðum sem eftir eru.

  9. Raggi, þetta gerðist í mars.

    Annars, þá finnst mér að lið ættu að borga mér stórar fjárhæðir fyrir að halda EKKI með þeim. Af leikjunum í 16 og 8 liða úrslitum hafa liðin, sem ég hef haldið með, tapað í 11 leikjum af 12.

    Mér er nokk sama hverjir vinna. Ætli það sé ekki bara skást að Ítalía vinni þetta. Spái þeim sigri.

  10. veit einhver um link frá átökunum eftir vítakeppnina hjá Argentínu og portugal. líka um rauða spjaldið hans rooney´s? hef ekki séð þetta.

  11. Frakkar taka þetta. Djöfull sem Portúgalirnir eru leiðinlegir…
    Frakklandi – Þýskaland í úrslitaleik.

  12. Ég veit ekki á hvaða HM Raggi hefur horft á en m.a.s. á Ítalíu mótinu voru flest lið að spila með tvo framherja. Þetta er búið að vera gerilsneytt mót. Bendi á Euro 2000 í samanburði.

    Svo á að fara að banna leikmönnum að sparka bolta útfyrir þó að einhver liggi. Dómarinn á einn að leyfa það að stöðva leikinn. Það er sóðalegt að sjá hversu margir leikmenn eru farnir að misnota þessa háttvísireglu.

  13. Veit einhver um link frá átökunum eftir vítakeppnina hjá Argentínu og portugal. – já það væri gaman að skoða þetta. Það var fáránlega lítið fjallað um þetta af Sýnarmönnum.

    Blackburn var að kaupa Jason Roberts. Ég verð að viðurkenna að ég hreyfst af þeim leikmanni þegar hann pakkaði Sol Campbell saman. Eru Blackburn menn ekki bara að gera geðv. díl. Losa sig við Bellamy og kaupa Roberts?

    Af hverju finnst mér svo að Benites sé að reyna að fá nýjan hægri bakvörð? Það eru eintómir hægri bakkarar orðaðir við okkur þessa dagana.

    Áfram Liverpool!

Trabelsi og Pennant á leiðinni?

Deportivo á eftir Barragan