HM: 8-liða úrslitin hefjast á morgun!

Jæja, það er komið að því. Á morgun eru fyrri tveir leikirnir í 8-liða úrslitum HM í knattspyrnu og það verður sko rosaleg veisla fyrir fótboltaaðdáendur! Af því að maður er þegar kominn með fráhvarfseinkenni, eftir tveggja daga frí frá HM, þá ákvað ég að stytta mér biðina aðeins og spá í spilin fyrir leiki morgundagsins. Þannig að hér kemur mín spá:


ÞÝSKALAND – ARGENTÍNA: Þetta er að mínu mati stórleikur 8-liða úrslitanna, því þótt Brasilíumenn og Frakkar rifji upp úrslitaleikinn frá því fyrir átta árum þá eru þetta tvö sigurstranglegustu lið keppninnar að mínu mati. Ég hef rætt þetta við marga í vinnunni í dag og segi það sama við alla: það lið sem vinnur þennan leik er það lið sem ég tel að muni vinna HM. Ef Þjóðverjar geta unnið Argentínumenn þá geta þeir unnið öll hin liðin sem eftir eru, en ef Argentínumenn komast framhjá heimamönnum ættu þeir að fara alla leið í þessari keppni.

Þetta verður rosalegur leikur, ekki síst vegna þess að Klinsmann er búinn að lofa sóknarbolta. Þjóðverjarnir hafa verið frábærir fram á við í þessari keppni og því er ljóst að þeir munu byrja af hörku og reyna að nota múgæsing aðdáenda sinna á heimavelli til að skora snemma og kaffæra Argentínumennina. Ég held að lykillinn að sigri Argentínumanna felist í því að ná að lifa af svona fyrsta kortérið og vinna sig svo smám saman inn í leikinn. Ef Argentínumenn skora á undan gæti þýska blaðran sprungið en ef Þjóðverjar skora á undan gæti krafturinn í þeim orðið til þess að þeir geri út um þetta strax í fyrri hálfleik, eins og gerðist gegn Svíunum.

MÍN SPÁ: Markalaust í hálfleik eftir algjöra flugeldasýningu en Argentínumenn vinna 2-1 í seinni hálfleiknum. Taktísk snilli Pekerman og frábærir einstaklingar Argentínumanna munu skila þeim í mark á endanum og ég spái því að Hernan Crespo fari fram úr Miroslav Klose í keppninni um markakóngstignina með tvennu á morgun.


ÍTALÍA – ÚKRAÍNA: Þessi leikur ætti á pappírnum að vera öllu ójafnari en sá fyrri, enda er Úkraína spútniklið keppninnar og í raun það eina sem ætti ekki að vera þarna, að öllu eðlilegu. Ef Frakkar hefðu unnið sinn riðil hefðu þeir átt að vinna Úkraínu í 16-liða úrslitunum og Spánverjar að vinna Sviss og mæta Brössum, en þá værum við með öll átta liðin sem voru í efsta potti fyrir riðladráttinn hérna. En svo fór þó ekki og þegar Úkraínumenn eru annars vegar er ekki hægt að afskrifa þá. Fótbolti er skrýtin íþrótt og ég myndi ekki deyja úr áfalli ef Andryi Schevchenko reyndist vera maður dagsins á morgun. Hann þekkir allavega vel inná ítalskar varnir.

Ítalir eru í smávegis vandræðum með meiðsli og bönn, en Alessandro Nesta verður ekki með á morgun og Marco Materazzi, varaskeifa hans, er í leikbanni. Þannig að hin annars sterka ítalska vörn verður veik fyrir á morgun og það er ljóst að hinn frábæri Fabio Cannavaro, sem hefur verið einn af mönnum þessa móts hingað til fyrir mér, þarf að hafa sig allan við að stöðva Sheva. Hinum megin þá bara hlýtur að vera kominn tími á að Luca Toni og/eða Alberto Gilardino fari að skora mörk í þessari keppni. Þeir hafa vaðið í færum í öllum leikjum en verið dæmalaust klaufskir.

MÍN SPÁ: Ítalía vinnur þennan leik 2-1 eftir að Schevchenko kemur Úkraínumönnum óvænt yfir. Toni og Totti skora mörk Ítalanna, sá síðarnefndi með einu af mörkum keppninnar. Þið lásuð það hér fyrst! 😉

Átta liða úrslitin á morgun! Djöfull er maður orðinn spenntur! Þetta verður ROSALEGT!!

Ein athugasemd

  1. Argentína – Þýskaland : Þessi leikur hefur alla burði til að verða einn af leikjum mótsins. Er sammála um það að ef Argentínumenn halda hreinu fyrsta hálftímann eða svo verður útlitið bjartara. Hins vegar komu Mexíkóar þeim svolítið í opna skjöldu, Heinze átti í erfiðleikum – var ekki með sjálfum sér, og því er ég í miklum efa með þennan leik. Ég held aðeins meira með Argentínumönnunum en bæði lið hafa verið að spila svo góða knattspyrnu að ég verð ekki fúll yfir neinum úrslitum – svo lengi sem knattspyrnan verður góð á morgun. Til að vera ekki eins og KAR, þá spái ég 2:1 fyrir Þýskaland og Klose skorar öll þrjú mörkin!

    Ítalía – Úkraína : Ég sé ekki annað en ítalskan sigur. Shev hefur ekki verið að gera glimrandi hluti á mótinu og þó svo að hann þekki ítölsku deildina, þá tel ég ítalska liðið hreinlega of sterkt fyrir Úkraínu. 2:0 fyrir Ítalíu og Inzaghi skorar bæði.

Real Madrid er samansafn af hálfvitum (annar hluti)!

Lampard meiðist