HM: Tvær umferðir búnar! (uppfært)

Jæja, þá eru búnar tvær umferðir í öllum riðlum en Spánverjar sigruðu Túnis í kvöld með þremur mörkum gegn einu. Nú eru búnir 32 leikir, eða helmingur þeirra leikja sem verða spilaðir í mótinu, og það hafa alls verið skoruð 75 mörk. Þar af hafa Argentínumenn skorað átta. En allavega, á morgun hefst síðasta umferðin í riðlakeppninni og þá fer að ráðast hverjir mæta hverjum í 16-liða úrslitunum, sem hefjast á laugardaginn. Þegar við komum í útsláttarkeppnina breytist keppnin á dramatískan hátt; í stað þess að þurfa að safna stigum geta lið jafnvel hangið í vörn í 120 mínútur og unnið keppnina á vítaspyrnukeppnum og heppnismörkum, eins og Grikkir gerðu á EM fyrir tveimur árum.

Þannig að það er allt hægt í 16-liða úrslitunum og þar á eftir, það geta öll lið gert gloríur og þetta mót verður vonandi bara enn opnara og meira spennandi með hverri umferðinni sem líður. En engu að síður þá eru alltaf einhver lið sem skara framúr, þykja líklegri. Ég hef horft á 25 af 32 leikjum og fyrir vikið séð hvert lið einu sinni og flest liðin tvisvar, þannig að ég tel mig í ágætis stöðu til að meta hvernig liðin hafa spjarað sig á HM hingað til.

Sem sagt, eftir fyrstu tvær umferðir allra riðla eru þetta þau átta lið sem ég tel að ættu að fara í 8-liða úrslit, svo lengi sem þau dragast ekki saman eða gera einhvern skandal í síðustu umferð riðla sinna eða 16-liða úrslitunum. Þetta eru þau átta lið sem hafa heillað mig mest í keppninni hingað til, í réttri röð:


1. Argentína.
2. Spánn.
3. Brasilía.
4. Þýskaland.
5. England.
6. Holland.
7. Ítalía.
8. Portúgal/Suður-Kórea
.

Þetta er náttúrulega bara mitt mat. Ef við byrjum á toppnum, þá hafa engin lið spilað jafn vel og Argentínumenn og Spánverjar í þessari keppni. Eins og staðan er núna væri draumaúrslitaleikur á milli þeirra tveggja. Þar fyrir neðan koma svo Brasilía og England, tvö stórlið sem eru frábærlega mönnuð og á sigurbraut en virðast samt ekki hafa smollið í gírinn ennþá. Kannski kemur það í næstu leikjum. Þar á milli eru heimamenn, Þjóðverjar, sem þrátt fyrir að vera með ungt lið og að vissu leyti veikara en venjulega þá eru þeir öflugir á heimavelli. Þá koma Hollendingar, sem eru í uppáhaldi hjá mér persónulega, en þrátt fyrir að hafa unnið báða fyrstu leiki sína finnst mér eitthvað vanta uppá hjá þeim, eins og Englendingum og Brössum. Þá koma Ítalir sem voru frábærir í fyrsta leik sínum, og hefðu orðið ofar á þessum lista ef þeir hefðu ekki dottið niður í rugl og leiðindi gegn Bandaríkjamönnum. Síðasta sætið ákvað ég að láta Portúgal hafa en gef þó Suður-Kóreumönnum smá tilnefningu líka. Portúgal eru sterkir og ættu að fara langt en það má ekki afskrifa Kóreumenn, það er karakter í því liði og þeir verða erfiðir í ár.

Frakkar eru eina stórliðið sem vantar á þennan lista, en miðað við frammistöðu þeirra í fyrstu tveimur leikjunum vona ég eiginlega bara að þeir detti út í riðlakeppninni. Þeir eru leiðinlegir og andlausir og með slappan þjálfara. Á móti koma lið eins og Ekvador, Ghana, Króatía og Ástralía sem hafa heillað mig mjög til þessa og gætu hæglega slegið eitthvað af toppliðunum út í 16-liða úrslitum. Það má ekki afskrifa slík lið.

Svo eru það lið eins og Tékkland, Mexíkó og Svíþjóð sem hafa verið frábær í öðrum leiknum sínum til þessa en grútléleg í hinum. Þetta eru lið sem geta miklu betur en verða að girða sig í brók strax í næsta leik ef ekki á að fara illa.

Auðvitað eru fleiri lið ennþá í séns á að komast í 16-liða úrslitin en það yrði að teljast vægast sagt óvænt ef lið eins og Angóla eða Úkraína færu alla leið í 8-liða úrslitin. Liðin hér að ofan eru þau sem eiga að öllu eðlilegu að fara a.m.k. í 8-liða úrslit, og ef einhver geta slegið þá út þá eru það Ekvador, Ghana, Króatía eða Ástralía.

Á morgun er upphafið að endinum í riðlakeppninni. Þetta hefur verið frábær keppni til þessa; mikið um flott mörk, skemmtileg tilþrif og geðshræringar í hverjum einasta leik. Nú er potturinn að nálgast suðu, vonum að hann byrji að flæða yfir á morgun. Mikið ótrúlega elska ég HM-mánuð! 🙂


**Viðbót (EÖE)**: Kannski að bæta við smá um Spánar leikinn fyrir þá, sem sáu hann ekki.

Luis Garcia og Xabi byruðu báðir inná. Mér fannst þeir báðir vera með bestu leikmönnum Spánar í fyrri hálfleiknum. Xabi og Xavi voru sterkir saman á miðjunni (með slöppum Senna) og í framlínunni fannst mér vera mest ógnun af Villa og Garcia en minni af Torres (sem breyttist þó í seinni hálfleik).

Garcia lagði upp nokkur færi og var nokkuð nálægt því að skora. Hins vegar var honum skipt útaf í hálfleik fyrir Raúl. Aragones vildi hressa uppá sóknina og þar sem Torres er striker númer 1 og Villa hafði ógnað mikið, þá var það Garcia sem þurfti að víkja (Villa veik svo stuttu seinna fyrir Joaquin).

Xabi spilaði hins vegar allan leikinn og var mjög sterkur, en Cesc skyggði örlítið á hann í seinni hálfleiknum, þar sem hann var meira áberandi í sóknarhlutverkinu (sem er í raun ekki hlutverk Xabi fyrir spænska landsliðið).

En þeir geta allavegana báðir verið sáttir við sitt hlutskipti, Garcia og Alonso. Ég held að Aragones haldi sig við sama liðið áfram nema að hugsanlega komi Cesc inn fyrir Senna. Ég hef ekki trú á því að Luis Garcia missi sætið sitt.

3 Comments

  1. Heillaði England þig? Er ekki í lagi með þig? Þeir hafa spilað mjög neikvæðan og hugmyndasnauðan fótbolta hingað til. Þeir eru mestu vonbrigði mótsins að mínu mati, fyrir utan Frakkana.

  2. Kannski full sterklega tekið til orða hjá mér. Hef lengi haft dálæti á Eriksson sem þjálfara og Englendingar hafa gott lið, en þeir geta einfaldlega mikið meira. Rooney á þó sennilega eftir að fríska mikið upp á þetta hjá þeim og gæti náð vel saman með Crouch. Tek það þó fram að ég sá ekki leikinn á móti Svíþjóð.

Liverpool bjóða í Craig Bellamy

Blackburn samþykkja tilboðið í Bellamy (x3)