Daniel Alvés biður um sölu!

alves_asks_transfer.jpg Dagurinn í dag á HM í knattspyrnu olli smávægilegum vonbrigðum, verð ég að viðurkenna. Í fyrsta leiknum vann S-Kórea 2-1 sigur á Tógó sem voru þó yfir 1-0 í hálfleik, og í sanngirni var ekkert sem benti til þess að Kóreumenn gætu náð stigi eða stigum úr þessum leik fyrr en Tógó-menn misstu einn leikmann útaf með rautt spjald. Eftir það gengu Kóreumenn á lagið og lönduðu mikilvægum sigri.

Í öðrum leik dagsins gerðu Frakkar og Svisslendingar svo bitlaust, markalaust og hundleiðinlegt jafntefli í mjög slöppum leik. Svisslendingarnir eru sennilega sáttir við þau úrslit og gætu sigrað í riðlinum, en Frakkar eru í vondum málum verð ég að segja. Þeir fóru í gegnum síðustu Heimsmeistarakeppni án þess að skora mark og urðu neðstir í sínum riðli, og ef þeir taka sig ekki saman í andlitinu fyrir næsta leik verður það aftur niðurstaðan í ár. Það er hreint ótrúlegt að sjá hvernig lið sem skartar Henry, Zidane, Wiltord, Ribery, Vieira, Saha, Trézeguet, Malouda og fleiri álíka sóknarmönnum getur verið svona ótrúlega bitlaust. Ótrúlegt alveg hreint.

Í síðasta leiknum unnu Brasilíumenn svo nauman 1-0 sigur á Króötum, en það var glæsiskot Kaká á 40. mínútu sem skildi liðin að. Brassarnir voru góðir í þessum leik en meira þarf til ef þeir ætla sér alla leið í þessari keppni, á meðan Króatar komu ár sinni vel fyrir borð í þessum leik og voru síst lakari aðilinn. Þeir munu fara langt í þessari keppni líka ef þeir spila áfram svona vel. Að lokum fer ég fram á það að Robinho fái að byrja inná hjá Brasilíumönnum í næsta leik fyrir hinn ótrúlega slaka Ronaldo, sem hreyfði varla á sér rassgatið þær tæpu 70 mínútur sem hann hékk inná vellinum. Robinho gerði meira síðustu 20 mínúturnar en Ronaldo hefði gert í tíu leikjum með þessari frammistöðu. Eða eins og Arnar Björnsson sagði: “Brassar eru líflegri núna, enda eru þeir ekki lengur einum manni færri.”


Það sem mér finnst mest spennandi við daginn eru samt þessar fréttir hér: DANIEL ALVES BIÐUR SEVILLA UM AÐ FÁ AÐ FARA TIL LIVERPOOL!

Jább. Þið lásuð rétt. Alves er búinn að gera upp hug sinn og það er stórliðið í Bítlaborginni sem á hug hans allan. Hann langar að sjá Lennon safnið, hann langar að sigla niður Mersey með kærustunni, hann langar frekar að spila með en á móti Momo Sissoko (ljái honum hver sem vill) og síðast en örugglega ekki síst, hann langar til að vinna með Rafael Benítez. 🙂

>”We don’t want to sell him but when a player wants to leave you can’t force him to stay. He has told us he likes Liverpool’s offer though he isn’t pressuring us. They have come back to us with a new offer but we have rejected it.”

Sagan segir að Liverpool hafi síðast boðið 8m punda en Sevilla séu enn að bíða eftir 12m punda tilboði, þannig að það ber ekki mikið í milli og maður hlýtur að vera vongóður um að samkomulag náist um verð fljótlega. Og miðað við yfirlýsingu Alves í þessu máli þá ætti ekki að vera mikið mál að semja um kaup og kjör við hann, þannig að ég er bara nokkuð vongóður um að þessi sala verði frágengin á næstu dögum. 🙂

Já, og svona rétt í lokin langar mig til að óska Eiði Smára til hamingju með að vera loksins kominn í alvöru lið. Nú er þungu fargi af okkur hinum létt, þar sem við getum nú loksins farið að óska Eiði Smára **alls góðs** á sínum ferli auk þess sem manni er endanlega frjálst að hata Chelsea af 100% afli. Góðar fréttir! 🙂

8 Comments

  1. Frakkarnir eru bara allir orðnir allt of gamlir og saddir og heimskulegt að setja ekki Trezeguet inná. Sjáið liðið: Zidane, Thuram, Sagnol, Henry Viera, Barthez, Gallas, Makelele ásamt fleirum…að mínu mati allir orðnir mettir af því að hafa unnið titla í gegnum árin. Vantar einhverja unga ferska gaura þarna inná sem eru þarna því þeim finnst gaman að spila fótbolta

  2. Tad var nu ekkert yfir Makelele ad kvarta i tessum leik. Sennilega besti madur vallarins, Gallas er nu ekki nema tuttugu og eitthvad og vornin spiladi ekki illa…

    Siggi

  3. Ég vona að Alves sé á leiðinni til okkar og hlakka til að sjá staðfestar fregnir. Einnig er ég ánægður að sjá Eið Smára fara til almennilegs liðs!

    Mér finnst hins vegar slæmt að sjá strax að Robinho muni ekki byrja inn á í stað Ronaldos í næsta leik Brassanna – hversu lengi eiga menn að fá að “spila sig í form”?? Í allan vetur hefur hann verið dapur og ekki er bara meiðslum um að kenna. Var það ekki hann sem ýjaði að því að fara frá Real Madrid vegna þess að hann væri ekki nógu “elskaður” þar?? Og segir það ekki ansi margt að áhorfendur hafi hálfpúað á hann þegar hann fór út af? Og segir það ekki líka ansi margt um styrk Brassanna að hafa klárað sterkt lið Króatanna, með 10 manns á 70 mínútum og ekki á fullum krafti?

    Fyrir mér er það stoltið sem skiptir svo miklu máli, og það var 1000 sinnum miklu meira líf í Robinho á fyrstu mínútunni eftir að hann kom inn á heldur en 70 mínútna leikkafli Ronaldos. Hvar er stoltið hans Ronaldos? Að vera fulltrúi síns lands?? Og þó svo ég taki út Ronaldo hér, þá á þetta auðvitað við um alla. Ég “heimta” stolt og gleði og spilamennsku frá öllum leikmönnum á HM – en satt best að segja er Ronaldo eini maðurinn sem ég hef séð sem sannarlega sýndi ekki neinn einasta áhuga!!

  4. Góðar fréttir með Alves. Er nú ekki bara málið að punga út fyrir honum það sem hann kostar.

    Svo verð ég nú að segja að það að Eiður Smári sé að fara að spila fyrir Barcelona eru stórtíðindi fyrir okkur Íslendinga. Real Madrid hefur verið mitt lið á Spáni en nú neyðist ég til að halda með Barcelona. Hefði reyndar viljað fá Eið til Liverpool en maður getur ekki fengið allt – við erum jú búnir að fá …….. ekkert.

    Svakalega held ég að Benites sé óánægður með gang mála.

    Djö. voru Frakkarnir slakir. Fáránleg taktík að mínu mat sem þeir spila.

    Áfram Liverpool!

  5. Gleðilegast í þessu Eiðs Smára máli er að núna verður umfjöllun um enska boltan vonandi aðeins hlutlægari í íslenskum fjölmiðlum. :rolleyes:

Tógó?

HM: Spánverjar í banastuði!