Shevchenko á leið til Chelsea

Andriy Shevchenko er að öllum líkindum á leið til Chelsea vegna þess að þar fær hann margar, margar rúblur hann vill að sonur sinn [læri ensku](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/europe/5000208.stm).

Auk þess að vera fyndnasta útskýring á félagaskiptum í sögu mannkyns (AUÐVITAÐ hefur þetta ekkert með peninga að gera, ekki satt? ), þá eru þetta náttúrulega stórtíðindi fyrir enska knattspyrnu. Það er ekki beinlínis skemmtileg tilhugsun að ætla að fara að mæta Ballack og Schechenko á Stamford Bridge, en þetta sýnir bara að á endanum þá sigra peningarnir og allt tal um tryggð við félag (Shevchenko ætlaði sko aldrei að yfirgefa Milan) er oftast nær innihaldslaust þvaður.

En þetta sýnir það líka vel að þörfin fyrir að styrkja okkur hefur vaxið. Á meðan að Chelsea hefur (að öllum líkindum) tryggt sér Shevchenko og Ballack, þá er það eina sem hefur gerst varðandi Liverpool að Morientes er farinn. Jæja, það er vonandi að það fari eitthvað að gerast því þetta eru ekki beinlínis uppörvandi fréttir. Ef við kaupum Andy Johnson í sömu vikunni og Chelsea kaupir Shevchenko þá lokum við þessari síðu.

En fyrir Shevchenko, þá getum við svo sem komið því á framfæri að í Liverpool borg eru líka ágætis enskukennarar. Þá gæti hann líka spilað fyrir sama félag og gamla goðið hans, Ian Rush.

14 Comments

  1. Sjáum hvort ég hef þetta á hreinu …

    1. Kona Schevchenko er góð vinkona konu Abramovitch. **MÁLINU ÓTENGT!**
    2. Fyrir vikið *gæti* Schevchenko mögulega orðið, og verður líklegast, launahæsti leikmaður í heimi hjá Chelsea. **MÁLINU ÓTENGT!**
    3. Abramovitch hefur þau völd að geta tryggt Schevchenko hvað sem hann girnist í heimalandi sínu, Úkraínu. Hann yrði ‘made for life’ eins og mafíósarnir í Bandaríkjunum segja. **MÁLINU ÓTENGT!**
    4. Það eru til tungumálaskólar fyrir *bæði* úkraínsku og ensku á Ítalíu. Fjandinn hafi það, það er hægt að læra bæði þessi tungumál á internetinu, til þess þurfa menn aðeins að eiga kreditkort. **MÁLINU ÓTENGT!**

    Og Sheva ætlast til að við trúum þessu? :laugh:

    Annars er þetta að vissu leyti svartur dagur fyrir knattspyrnuna. Látum það vera að þeir hafi fengið Ballack, en Schevchenko er einn af fimm bestu knattspyrnumönnum í heiminum í dag, sama í hvaða stöðum menn spila og slíkt. Hann er einn af fimm bestu, punktur. Og Chelsea eru hér með loksins að sanna að þeir hafi nægt aðdráttarafl til að fá slíka knattspyrnumenn til sín.

    Það er mjög slæmt fyrir okkur hina. Mjög slæmt.

    Annars reynir maður að vera rólegur yfir svona fréttum og nálgast þetta á heimspekilegan hátt. Hvað deildina varðar þýðir þetta einfaldlega það sama og alltaf, að Chelsea verða með magnaða breidd af gæðaleikmönnum og munu skora 90+ stig í deildinni í vetur. Ef eitthvað lið ætlar að hirða titilinn af þeim verður téð lið að skora 90+ stig **og vinna a.m.k. eina innbyrðis viðureign við Chelsea**. Það hefur gerst áður og getur gerst aftur. Þannig að þetta veltur ennþá á því hvað okkar menn gera á markaðnum í sumar og svo hvað okkar menn gera yfir 38 leiki á næsta vetri.

    Og já, Andy Johnson gæti alveg skorað sigurmark fyrir Liverpool/Everton/Bolton/Wigan í leik gegn Chelsea þar sem Schevchenko skorar ekki. Lakari leikmenn en hann hafa skorað sigurmörk gegn AC Milan síðustu sjö árin …

    Það versta sem gæti komið út úr þessu væri ef að Chelsea verja titilinn og vinna svo Meistaradeildina að ári. Það myndi endanlega staðfesta þá sem stærsta klúbb í heimi, að vera þrefaldir deildarmeistarar á Englandi og meistarar Evrópu. Þá héldu þeim endanlega engin bönd, og Schevchenko yrði sennilega bara byrjunin á stærstu nöfnum heims sem myndu öll flykkjast til Chelsea (gleymum því ekki að þeir eru enn að reyna að næla í Roberto Carlos í sumar) …

    … jafnvel þótt þeir verði Englandsmeistarar í þriðja sinn næsta vetur *mega þeir ekki vinna Meistaradeildina* … á meðan þeir ekki vinna hana hafa þeir ekki endanlega staðfest stöðu sína sem toppklúbb, og þess vegna munu þeir halda áfram að styrkja sig svona á hverju ári þangað til það tekst. Mér er sama hvaða lið það verður sem stöðvar þá – ég skal jafnvel halda með Man U og Real Madríd gegn þeim í Evrópu – það bara verður einhver að gera það.

    Ef þessi kaup ganga í gegn held ég að við getum hætt að segja að næsta deildarkeppni verði spennandi. Hún verður miklu frekar *áhugaverð* en *spennandi* … þótt það sé alveg hægt að stöðva Chelsea eru litlar líkur á því. En það er hægt, og því verða okkar menn að reyna …

  2. Gonzales er víst kallaður hinn chileski Beckham vegna útlitsins. Á að refsa manninum fyrir að vera sjarmör? Þetta er allavegana vandamál, sem Man U menn lenda ekki í. 🙂

  3. >En þetta sýnir það líka vel að þörfin fyrir að styrkja okkur hefur vaxið. Á meðan að Chelsea hefur (að öllum líkindum) tryggt sér Shevchenko og Ballack, þá er það eina sem hefur gerst varðandi Liverpool að Morientes er farinn.

    Alveg rólegur á því félagi. Hvaða máli skiptir Chelsea ? Leyfum þeim bara að grafa sína gröf í friði, það tekur þá þetta 2-3 ár að grafa hana og þegar þeir eru komnir 6 fet undir getum við tekið við.

    Það þýðir ekkert að reyna að keppa við þá. Persónulega yrði ég yfir mig ánægður með annað sætið í deildinni á næsta tímabili og kanski eina dollu eða svo.

    kv/

  4. Á meðan ég fátæklingurinn tek mikið undir það að peningar sé rót hins illa, þá hefur það MARGOFT komið fram að þeir leysa ekki allan vanda. Það er EKKERT í spilunum sem segir það að Chelsea muni örugglega vinna titla á næsta ári. Ég bið ykkur um að kíkja á leikmannahóp Real Madrid þessu til stuðnings. Eða ætlar einhver að segja mér það að fyrir 2-3 árum hafi menn ekki verið smeykir við öll þessi nöfn sem Real voru að fá?

    Stærstu nöfn í heimi … geta þau spilað saman? Mér finnst persónulega þetta bara vera hið ágætasta mál. Ég hlakka til að mæta Chelsea (ég = lesist: Liverpool) á næsta keppnistímabili, ég hlakka til að sjá Chelsea klikka enn og aftur (fjórða árið í röð) á Evrópukeppninni … ég hlakka rosalega mikið til! Í dag er ég bara þokkalega ánægður með þá áherslu sem Chelsea er að fá, því með allt þetta egó og með alla þessa peninga, þá verða árekstrar … og ég fylgist glaður með – og poppkornið verður skammt undan.

    Við þurfum definitely súperframherja til okkar fyrir næsta síson, og kantmann … en mun virkilega Shevi shevi baby gera Chelsea svona rosalega ósigrandi?

    Ég veit alla vega að tímabil Chelsea í ár var lakara en árið áður, þrátt fyrir milljónaviðskipti í leikmenn

  5. munurinn á C$$$$$ og Real Madrid er þó sá að C$$$$ getur spilað vörn… R.M. hefur verið að skíta á sig undanfarið (þrátt fyrir sum stæðstu nöfn boltans) vegna þess að þeir eru með lélega vörn… og miðjumenn sem nenna ekki aftur fyrir miðju……

  6. Ég er sammála því að loka síðunni ef Andy Johnson verður keyptur. Ég neita bara alfarið að trúa því að það geti gerst.

    Schevchenko og Ballack er vissulega snjallir leikmenn, en þeir eiga eftir að laga sig að enska leiknum og ómögulegt að segja hvernig þeim kemur til með að vegna. Líklega eiga þeir eftir finna sig en það er ástæðulaust að geri í brækur við þessi kaup.

  7. Sammála Dodda. Vona að Chelsea fái líka Carlos. Þetta gerir það bara enn sætara að sigra þá! :tongue:

  8. **Innskot (Kristján Atli):** Ekki, ég endurtek EKKI, setja bara link strax inn í fyrstu línu ummæla. Eins og menn hafa margoft rekið sig á og/eða tekið eftir, þá fer útlit síðunnar alveg í fokk þegar þetta er gert. Ef þið þurfið að setja link beint inn án þess að HTML-forma hann, skrifið þá a.m.k. eins og eina setningu fyrst. Takk fyrir.

    **Ummæli:**

    Sjá frétt á fótbolti.net.

    Ef þetta segir okkur ekki að Jermaine Defoe sé búinn að skrifa undir samning við okkur bakvið tjöldin, eða þá að það sé alveg að klárast, þá veit ég ekki hvað.

  9. Þess má geta að það var ráðist að konu Shevchenko fyrir leik AC Milan og Lecce um daginn. Brjálaðir stuðningsmenn Milan voru þar að sök og veittust að henni… Sheva spilaði ekki þann leik og var ekki alveg sáttur, skiljanlega, eftir þetta.

  10. Já og þess má líka geta að Chelsea er að ganga frá kaupunum á Salomon Kalou frá Feyenoord. Hann er mjög góður, skilst mér. Svo eru þeir að selja Carlton Cole til Totteham…

    Ekki slæmt að fá Kalou fyrir Cole, og láta svo Crespo upp í Shevchenko til Milan, sem er nokkuð borðliggjandi að gerist sýnist mér.

  11. Blessaðir strákar 🙂

    Ég sé að þið eruð ekki hættir að væla yfir Abramovich og hans peningum.

    Má maðurinn ekki eyða peningunum sínum einsog hann vill?

  12. Blessaður, Chelsea-Maðurinn Nonni.

    Gaman að sjá þig aftur á síðunni. Við héldum að þú værir hættur að kommenta eftir að Liverpool slógu Chelsea útúr bikarnum.

Le Tallec vill fara en Garcia fer hvergi.

Frétt vikunnar: