Morientes farinn til Valencia (uppfært)!

spiller_morientes1.jpg

Ja hérna. Hlutirnir gerast hratt. Liverpool hafa staðfest það að [Fernando Morientes er farinn til Valencia](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N152461060525-1824.htm). Þetta kemur sennilega í beinu framhaldi af því að hann var valinn “[vonbrigði ársins](http://www.kop.is/gamalt/2006/05/23/8.00.00/)” hér á Liverpool blogginu.

Þetta kom manni svo sem ekki mikið á óvart, en samt pínu því að á þriðjudaginn kom umboðsmaður Morientes fram og [sagði að hann væri ekki á leið frá Liverpool](http://www.kop.is/gamalt/2006/05/23/18.01.06/).

Það þarf svo sem ekki mikið að ræða um Morientes. Sama hvort menn séu ósammála því að selja hann núna eða ekki, þá hefur hann ollið **gríðarlegum vonbrigðum** síðan hann kom til okkar. Sjáið bara hvað [við vorum ánægðir þegar koma hans var tilkynn](http://www.kop.is/gamalt/2005/01/11/22.58.47/). Ég man að ég hringdi sérstaklega í vin minn til að tilkynna þetta, því ég var svo fáránlega spenntur. Ég hélt að Morientes yrði frábær fyrir okkur. En ferill hans hjá Liverpool hefur verið nánast stöðug vonbrigði.

Það var líka augljóst að Rafa hafði ekki lengir trú á honum og var hættur að hafa hann í byrjunarliðinu í stóru leikjunum.

Það er þó einn punktur, sem ég vil koma með og það er hlutur Rafa Benitez í þessu. AFTUR sýnir hann að hann er óhræddur við að viðurkenna mistök sín varðandi leikmenn. Í stað þess að gefa mönnum endalausa sjensa (a la Houllier), þá hikar Rafa ekki við að selja leikmenn, sem hann keypti – ALVEG SAMA hvort það séu Spánverjar eða ekki. Allar samsæriskenningar um að Spánverjar njóti forréttinda hljóta nú endanlega að falla um sjálfar sig.

Við óskum þó Morientes auðvitað velfarnaðar. Hann hefur ávallt sagt réttu hlutina í blaðaviðtölum og ekki kvartað. Og hann má eiga það að þrátt fyrir markaleysið, þá barðist hann alltaf fyrir liðið þegar hann fékk að spila. Ég er sannfærður um að þessi sala er það besta fyrir alla aðila, því ég tel (og vona) að Morientes eigi eftir að ná sér á strik í spænsku deildinni.


**Viðbót (Kristján Atli):** Ég verð að tjá mig aðeins um þetta, þar sem ég var að koma heim eftir langan dag fjarri tölvu og sá þetta því mjög seint.

Nando er farinn. Eins og sást í færslunni sem Einar vísar í hérna að ofan, þá var ég (og Einar líka) nánast yfir mig spenntur þegar Nando **loksins** kom til Liverpool. Hann átti að koma til okkar haustið 2004 en þá stöðvaði Hector Camacho, þjálfari Real Madríd, söluna. Tæpu hálfu ári síðar kom hann *loksins* og af því að þessi leikmaður var búinn að vera #1 á óskalista Rafa síðan hann tók við hjá Liverpool bættist það ofan á spenninginn sem fyrir var vegna afreka Morientes á sínum langa og gifturíka ferli, svoleiðis að maður hreinlega gerði ekki ráð fyrir því að honum gæti mistekist í enska boltanum. Svona góður leikmaður bara hlýtur að verða stórstjarna í Englandi líka, eins og hann var á Spáni, í Frakklandi, með landsliði sínu og í Evrópukeppnum. Ekki satt?

Ekki satt. Hafi þurft einhverja sönnun á því hversu erfitt það getur verið fyrir tekníska leikmenn frá meginlandinu að koma til Englands þá rak Morientes smiðshöggið á það með ströggli sínu hjá Liverpool. Hann var allur af vilja gerður; eins og Einar Örn sagði þá kvartaði hann aldrei, vann sína vinnu hljóðlega og lagði sig alltaf hundrað prósent fram í leikjum fyrir liðið. Slíkt er aðdáunarvert og má ekki gleymast, og er að mínu mati aðalástæðan fyrir því að ég mun hugsa hlýlega til Nando. Hann kom, honum gekk gott eitt til, hann reyndi sitt allra besta með hagsmuni liðsins fyrir brjósti, en það bara einfaldlega gekk ekki. Hann bara náði ekki að aðlagast enskri knattspyrnu.

Það er svo sem önnur ráðgáta hvers vegna sumir teknískir leikmenn frá meginlandinu slá í gegn í Englandi og aðrir ekki. Hvers vegna gátu Henry og Bergkamp fundið sig svona miklu betur í Lundúnum en á Ítalíu? Hvers vegna gat Luis García spjarað sig en Josemi ekki, þótt sá síðarnefndi ætti að henta betur á Englandi? Hvers vegna sló hinn litli Juninho í gegn á sínum tíma með Middlesbrough, en Gaizka Mendieta er aðeins skugginn af sjálfum sér fyrir sama lið? Hvers vegna meikaði Ruud van Nistelrooy það en ekki Mateja Kezman?

Þetta verður eflaust aldrei útskýrt. Hugarfar er stór hluti af þessu en Nando, eins og sumir hinna sem ég taldi til þarna, verður aldrei sakaður um að hafa skort viljann eða duginn til að standa sig. Hann gerði sitt besta, það bara var einfaldlega ekki nóg, og því var það langbest fyrir hann, Liverpool, og jú Valencia sem fá þarna hágæða mann fyrir spænsku deildina, að hann skyldi yfirgefa England.

Takk fyrir mig, Nando. Vonandi stríðirðu fyrrum félögum þínum í Real Madríd aðeins á næsta tímabili. 🙂

7 Comments

 1. Það er nú oftast þannig að þegar leikmenn skipta um lið þá er það sagt bull stuttu áður en félagaskiptin verða að veruleika :confused:

 2. jabadabado, þvílík gleðifrétt á þessum frábæra frídegi. Ég brosi allan hringinn af gleði.

  Eins og menn vita(eða ekki) þá hef ég viljað selja Morientes í 1 ár. Maður sá strax á fyrstu mánuðum hans hjá Liverpool að þetta myndi ekki ganga upp.

  Vonandi nær hann sér á strik hjá Valencia.

  þá er búið að rýma fyrir nýjum sóknarmanni. FRÁBÆRT.

  Kv
  Krizzi

 3. Vissulega leiðinlegar fréttir en fréttir sem voru nokkuð líklegar eftir hans tíma hjá bikarmeisturunum. Það er því ljóst að það VERÐUR keyptur sóknarmaður í sumar og jafnvel risa stórt nafn þar sem laun Morientes voru eflaust svimandi há. En ég er pottþéttur á því að Morientes á eftir að gera góða hluti hjá Valencia….skora 15+ mörk á næsta tímabili sem er dæmi um að hann fékk góða þjálfun :biggrin: Good luck, Morientes! Ég sé ekkert eftir að hafa fengið hann til LFC!

 4. Vonandi stendur hann sig með Valencia.

  Eru einhverjar fréttir um það hvað við fengum fyrir hann?

 5. Það er talað um 3 milljónir punda. En einnig hef ég lesið einhvers staðar að Liverpool sé að fara að borga hluta launa hans næstu tímabil. Getur verið að ég sé að bulla þar. Það var alla veganna rætt um það þegar talað var um að hann væri á leið til Real Betis.

 6. Set hérna inn það sama og ég setti inn á liverpool.is:

  Já, Nando farinn til Valencia, og tel ég þetta bestu lausnina fyrir alla aðila. Ég vona svo sannarlega að hann nái sínu gamla formi þar, ég ber mikla virðingu fyrir þessum leikmanni. Því miður gekk þetta ekki upp hjá honum hjá Liverpool FC, en hann hentaði bara enska boltanum engan veginn. Þetta sýnir að það er ekki alltaf það besta að kaupa stór nöfn.

  Mér finnst líka frábært að sjá það staðfest enn og aftur að Rafa viðurkennir fúslega þegar hann gerir mistök á leikmannamarkaðinum og leiðréttir þau strax. Hann hefur gert þetta nokkrum sinnum og skiptir þá engu máli hvort leikmaðurinn komi frá Spáni eða ekki, það er ekkert “uppáhalds” dæmi í gangi hjá honum.

  Fékk upplýsingar varðandi kaupverð á honum frá mjög traustum aðila. Það hefur ekki verið gefið upp, og kemur það að hluta til vegna þess að hluti af kaupverðinu eru greiðslur sem við áttum eftir að greiða fyrir Momo Sissoko. Hluti borgaður á borðið og svo hluti sem fer eftir frammistöðu Nando sjálfs hjá Valencia.

  Samtals þegar allt er talið þá gæti upphæðin endað í rúmum 5 milljónum punda (5,3 talaði þessi aðili um). Það tel ég bara vera ágætis díl ef ég á að segja alveg eins og er. Milljón pund minna en við keyptum hann á og tel ég það ekki stóra summu miðað við að hann ætti að hafa lækkað talsvert í verði miðað við að hann hefur ekki náð að sýna sitt besta og er búinn að detta út úr landsliðinu.

  Gangi þér vel Nando.

Gonzalez, Gonzalez …

25.maí