Kewell sennilega með á HM

Liverpool hafa staðfest að Harry Kewell [hafi tognað á nára](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N152353060514-1526.htm) í leiknum gegn West Ham í gær, en að hann verði orðinn heill eftir 2-3 vikur og geti því spilað með Áströlum á HM í sumar.

Ég vorkenndi Kewell afskaplega mikið í gær. Hann hafði talað mikið um hversu spenntur hann væri fyrir því að ná að sanna sig í úrslitaleik, en hann fór meiddur af velli í deildarbikarnum gegn Chelsea og svo í Istanbúl. Núna var hann loksins búinn að ná sér á strik og hann var auðvitað algjörlega frábær gegn Chelsea í undanúrslitunum.

En Kewell meiddist gegn West Ham og þurfti að fara útaf rétt eftir hálfleik. Nokkrir aðdáendur og þeir, sem hafa sambönd innan liðsins hafa sagt að Kewell hafi verið algjörlega miður sín útaf þessu og hafi grátið eftir að hann fór niður göngin og inní klefa.

En það er vonandi að hann nái sér fyrir HM og komi ennþá sterkari til leiks á næsta tímabili. Framfarir Kewell hafa verið ánægjulegar og það hefur verið gaman, sérstaklega fyrir okkur sem hafa varið hann í gegnum alla mánuðina sem hann lék illa fyrir Liverpool.

6 Comments

  1. Leiðinlegt fyrir Kewell og vonandi á hann góða keppni í sumar fyrir Ástralíu. Hins vegar ef við fengjum topp tilboð í drenginn þá tel ég við ættum að hlusta á það.

    Kewell er loksins núna orðinn heill eftir nokkur ár í meiðslu hjá LFC. Ef Gonzalez er eins góður og af honum er látið þá er Kewell back up fyrir hann. Kewell er á háum launum og frekar injury prone.

    Hins myndi það einnig þýða að við yrðum að hafa back up í leikmanni sem væri þá að koma uppúr varaliðinu eða einhver ungur t.d. frá Spáni (sem Rafa virðist þekkja afar vel).

  2. Persónulega gæti mér ekki verið meira sama á hvaða launum Kewell er!

    Hann er búinn að bæta sig jafnt og þétt með hverjum leik í vetur og að selja hann núna væri algjört bull.

    Ég held líka varðandi Gonzales að við ættum bara að byrja á að leyfa honum að vinna sér sæti í liðinu áður en við ætlum honum eitthvað lykilhlutverk í liðinu. Hann þarf að byrja á að sanna sig.

    Ég held að Kewell eigi eftir að eiga frábært tímabil næsta vetur. Hann er frábær leikmaður.

  3. Sammála síðasta ræðumanni. Kewell er byrjunarliðsmaður hjá Liverpool og það er hlutverk Gonzales og Zenden að ná því sæti til sín. Tíminn verður að leiða í ljós hvort það mun takast en eftir stendur sú staðreynd að Kewell er byrjunarliðsmaður og þá á ekki að selja!

  4. Ég hef eiginlega aldrei skilið pointið hjá þeim sem gagnrýndu Kewell á sínum tíma. Hann var löngu búinn að sanna sig sem leikmaður í Englandi en þrálát meiðsli hans (sem hann gat engan veginn stjórnað sjálfur!) gerðu hann að mest hataðasta manni LFC að mati margra. Heimska aðdáenda á sér engin takmörk.

    Svo yrði það vissulega rugl að selja Kewell í sumar þótt Gonzales komi þar sem við þurfum að hafa samkeppni um stöður í liðinu. EF hann yrði seldur yrði það vegna ómótstæðilegs tilboðs eða vegna þess að Benitez vil losa um launin þar sem Kewell á víst að vera á mjög háum launum.

  5. Frábærar fréttir fyrir Ástrali, því hann er algjör lykilmaður í landsliði þeirra. Þeir gætu komið á óvart með alla sína menn heila. Auk þess verður mun skemmtilegra að horfa á HM ef Kewell er með t.d. Brasilía vs Ástralía.

    Hvaða bull er í þér Aggi, að selja Kewell og láta Gonzales taka við. Fyrir það fyrsta þá er Gonzales ekki kominn með atvinnuleyfi og ekki víst að hann fái það fyrir næsta tímabil. Auk þess á hann alveg eftir að aðlagast enska boltanum ef hann gerir það yfir höfuð. Ekki gleyma því að það aðlagast ekki allir enskri knattspyrnu (ala Morientes).

    Svo skil ég ekki afhverju á að selja Kewell núna þegar hann er að ná fyrra formi. Vissulega hafa meiðsli haft ahrif á framgöngu hans á LFC, en að selja hann er skref niður á við. Liverpool yrði að greiða yfir 10 millj punda til að fá leikmann í sama gæðaflokki, auk þess sem þeir eru ekki margir á því kaliberi.

    Ef LFC þarf að losa um launaþakið þá væri eðlilegra að láta Morientes fara. Hann hefur ekkert sínt á þessu eina og hálfa ári sem verðskuldar það að hann spili fyrir okkur á næsta tímabili. Svo heyrði ég að hann væri næst launahæsti leikmaður Liverpool í dag (á eftir Gerrard). Þarna erum við kominn með leikmann sem liðið má mun frekar við að missa.

    Í mínum huga var Kewell einn af lykilmönnum okkar á þessu tímabili. það er honum að þakka að við unnum C$$$$$$$ í undanúrslitum bikarsins og spiluðum því til úrslita. Kewell er einn af MJÖG fáum leikmönnum Liverpool í dag sem getur gert eitthvað óvænt, tekið menn á og skapað færi fyrir aðra í liðinu. Ekki gleyma því að Kewell tryggði okkur 1-0 sigur í nokkrum leikjum í vetur. Þannig leikmenn þurfum við og réttarar væri að fjölga þeim en fækka.

    Benites virðist vera ánægður með Kewell ef marka má ummæli hans í vetur (nokkur dæmi):

    “Við biðum eftir því að Kewell kæmi aftur og hann hefur gefið okkur ýmislegt nýtt í þeim leikjum sem hann hefur tekið þátt í. Hann getur tekið leikmenn á, hlaupið og skotið og náð fyrirgjöfum inní teiginn, og í hverri viku verður hann aðeins betri, sem er gott fyrir okkur”

    ” Harry æfir af miklum krafti á hverjum degi og það skilar sér í leikjunum. Meiðslin eru ekki að hrjá hann lengur og hann er nú farinn að spila eins og hann gerði áður en þau dundu yfir.?

    “Harry er mikilvægur leikmaður. Hann hefur átt við meiðsli að stríða og vandamál sem við vorum ósáttir við. En við studdum við bakið á honum og reyndum að efla sjálfstraust hans og hann hefur gefið okkur sendingar og ýmislegt annað. Það er gaman að sjá hann leggja hart að sér.”

    “Ég hef trú á honum af því að hann er duglegur. Hann tekur framförum í hverri viku.”

    Kveðja
    Krizzi

  6. Algjörlega sammála Krizza og þeim sem vilja ekki Kewell burt.

    Ég held að leikurinn á móti Chelsea segi allt sem segja þarf. Hann var langbesti maðurinn á vellinum þar sem samankomnir voru leikmenn sem eru langt frá því að vera aukvisar í fótbolta.

    Áfram Liverpool!

Djibril í franska hópnum

Er Luis García á förum frá Liverpool?