Jan Kromkamp á förum?

Jæja, einn leikur eftir af deildarkeppninni, og það þýðir að slúðurtímabilið er að fara á fullt. Fyrir utan slúður um að við séum að kaupa Ludovic Giuly og/eða Craig Bellamy, sem eru tvær háværustu sögurnar þessa dagana, er þó ein sem vekur athygli mína.

Sú saga gengur nefnilega fjöllunum hærra í Bítlaborginni þessa dagana að hinn hollenski **Jan Kromkamp** sé á förum frá Liverpool. Sögurnar benda í ýmsar áttir; sumir segja að hann verði notaður sem gjaldmiðill upp í Dirk Kuyt, aðrir að hann verði seldur til Ajax fyrir 3m punda. Að mínu mati er hið fyrra bara rugl, þar sem það hefur lengi verið talin aðalástæða þess að Kuyt vilji helst koma til Liverpool í sumar að hann og Kromkamp eru víst perluvinir. Finnst því ólíklegt að þeir myndu samþykkja að fara í sitt hvora áttina með þessum hætti.

Hitt er þó í þessu máli að þetta virðist stafa af því sem markvörðurinn Pepe Reina skrifaði í leikjaprógrammið fyrir undanúrslitaleikinn í FA bikarnum gegn Chelsea. Þá var hann að skrifa um hópinn og nýju leikmennina sérstaklega, og hafði þessi orð um Kromkamp:

>”I know him less than the others, he is a quiet and shy person, but he is doing well and improving all the time. He’s more comfortable now than he was at Villareal. We just need to give him a little bit more time. When he’s on the coach he loves to talk on his phone – he’s always on the phone”

Lesist: Kromkamp er ekki að gera sitt til að falla inn í hópinn og kynnast samherjum sínum, sem er jú einmitt ástæðan fyrir því að Josemi var seldur frá liðinu.

Ég er ekki viss um að ég vilji missa Kromkamp. Mér finnst hann hafa aðlagast enskri knattspyrnu fljótt og er núna fullfær um að keppa á fullu við Steve Finnan um hægri bakvarðarstöðuna, auk þess sem hann getur leyst af á hægri kantinum þegar við lendum í vandræðum. Fótboltalega séð hefur hann verið miklu stöðugri en Josemi var og býður upp á meira. Þá er hann ungur og verður í eldlínunni með Hollendingum á HM í sumar, sem gæti gefið honum enn meira sjálfstraust fyrir næsta tímabil. Að lokum verð ég að viðurkenna að vinskapur hans við Dirk Kuyt sakar ekki, ég væri frekar til í að sjá þá báða á Anfield í haust en að sjá þá með öðrum liðum. 😉

Samt er ómögulegt að spá hvað Rafa er að hugsa. Slúðrið er bara það – *slúður* – og því ber að taka með fyrirvara. Ef þetta reynist rétt þá grætur maður kannski ekki yfir þeim missi, og ef hann á í virkilegum vandræðum með að aðlagast lífinu og liðinu utan vallar skil ég fyllilega ef Rafa lætur hann fara. En fótboltalega séð vill ég endilega halda honum, og kannski hefur Reina rétt fyrir sér; kannski þarf hann bara aðeins meiri tíma.

Nú, ef að vandamálið er að hann nái ekki að aðlagast liðinu, er þá ekki kjörráð að kaupa bara besta vin hans til liðsins? 🙂

7 Comments

  1. ég get nú kannski ekki bakkað það sem þú skrifar að “það hefur lengi verið talin aðalástæða þess að Kuyt vilji helst koma til Liverpool í sumar að hann og Kromkamp eru víst perluvinir”.

    kromkamp er nú ekki búinn að vera púllari nema í nokkra mánuði…

    mér fannst athyglisvert þegar ég sá nafn hans í upphitunarhóp hollands fyrir HM, þar sem van basten var búinn að vera að bauna á hann fyrir lélegar ákvarðanir. vonandi að hann fari með til þýskalands…

  2. Mér finnst það algjörlega glórulaust að láta Kromkamp fara. Hann kemur inn til liðsins á miðju tímabili og er að keppa við Steve Finnan, sem er að leika sitt besta tímabil og er sennilega einn af 2-3 sterkustu hægri bakvörðunum í enska boltanum.

    Já, hann hefur ekki náð að vinna sér fast sæti í liðinu, en það væri samt ósanngjarnt að segja að hann hefði “floppað” á þessu fyrsta tímabili. Ég myndi vilja sjá hann fá allavegana eitt heilt tímabil með Liverpool. Ef hann hefur ekki náð að vinna sér fast sæti eftir það, *þá fyrst* má láta hann fara.

    Hins vegar er athyglisvert að sjá hvað Rafa hefur í huga ef að Kromkamp fer. Hefur Rafa orðið það mikla trú á [Antonio Barragan](http://www.liverpoolfc.tv/team/squad/barragan/) að hann telji að hann geti verið “cover” fyrir Finnan strax?

  3. Fyrir þá sem skilja ensku ekkert rosalega vel þýðir coach í þessu tilfelli rúta en ekki þjálfari 🙂

    Svolítið skrítið að Kromkamp sé alltaf í símanum meðan hann er að hossast ofaná herra Benitez 🙂

    Ég verð að segja eins og er að Kromkamp er ekki búinn að spila marga leiki á tímabilinu en er samt kominn með 3 mörk sem Liverpool hefur fengið á sig sem skrifast að öllu eða mestu leiti á hann, þ.á.m. sigurmark Man Utd gegn Liverpool á síðustu sekúndunum.

  4. Ekki hef ég orðið var við þessi 3 mörk sem eiga að vera honum að kenna þrátt fyrir að hafa horft á nánast alla leiki liðsins í vetur. Gegn United var það svæðisvörnin sem var að klikka – kannski því Kromkamp var nýr í henni – en mér finnst hart að kenna honum þar um.

    Mér líst einkar vel á kauða og vona að hann verði áfram og að þeir Finnan eigi eftir að há harða baráttu um byrjunarliðssætið á næstu leiktíð.

    Ef það er satt sem þið segið að Kromkamp og Kuyt séu góðir vinir vona ég sannarlega að það hafi einhver áhrif og sá síðarnefndi endi hjá Liverpool með Kromkamp. Þá hættir hann kannski að vera alltaf í símanum. Kannski var hann alltaf að spjalla við Kuyt í símann! :laugh:

  5. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að halda honum í það minnsta í eitt tímabil í viðbót. Hann á skilið alvöru tækifæri þ.e. undirbúningstímabil og heilt keppnistímabil. Ef hann á ennþá í erfiðleikum með enska boltann og/eða að aðlagast hópnum þá má láta hann fara fyrir rétt upphæð.

    Hvað varðar Barragan þá virðist hann dafna vel hjá LFC og stendur sig vel með varaliðinu. Ekki væri vitlaust að lána hann á næsta ári og láta hann spila í næst efstu deild á fullu í heilt tímabil.

  6. Já mér finnst nú þolinmæðin orðin svoldið stutt ef nýjustu mennirnir eru á leiðinni í burtu. Hef enga trú á að Liverpool sé að breytast í einhverja umferðarmiðstöð þar sem maður veit ekkert hverjir eru að koma eða fara. Þannig lið virka aldrei, það er stöðugleikinn sem blífur

  7. það er örugglega hægt að kaupa einhvern ódýrari vin með Kuyt sem er ekki á einhverjum þúsundum punda á viku hjá Liv. ef það er allt í einu orðið málið með Kromkamp.

    Aftur á móti er ég alveg sammála að strákurinn á að sjálfsögðu að fá heillt tímabil til að aðlagast sem best og kynnast strákunum í liðinu, erfitt að koma svona inn í hópinn á miðju sísoni, tala nú ekki um að Guðinn Fowler kom inn í hópinn á svipuðum tíma. Ekki auðvelt að reyna að fanga athygli liðsfélaganna á meðan. En sé ástæðan að hann sé hreinlega óánægður og með heimþrá, þá á hann náttúrulega ekkert erindi í Liverpool borg.

Guðjohnsen?

Baráttan um 2. sætið