Benítez og leikaðferðin

rafa_manofsteel.jpg Í dag komu tvær greinar sem báðar fjalla um Rafa og vinnubrögð hans sem þjálfara Liverpool. Ian Doyle skrifar í Daily Post að Rafa telji leikmenn sína vera komna mjög nálægt því að skilja til fulls hvers hann ætlast af þeim:

>”We still need to improve in some areas, but you see players with more game intelligence now. They are learning and they are understanding things better.

>How close are we to what I want? I’m not sure, but we’re closer to where I want us to be.”

Í kjölfarið birtist ítarleg grein/viðtal á opinbera vefnum um þjálfaraferil og vinnubrögð Rafa. Sú grein er frábær og ég mæli með að menn lesi hana í heild sinni, en hér kemur allavega einn punktur sem mér fannst frábær:

>”I always say the same thing. What is the difference between 4-3-3 and 4-5-1? Only whether you play the wingers deep or high. Then if you press the other team they will play deep, 4-5-1. And if you cannot press them because they are stronger than you, they’ll play 4-3-3. People talk about systems, but maybe they don’t know a lot about systems.

>At Valencia we played 4-2-3-1. And here, when we play our best football, we play 4-2-3-1. When we control the game, when we score goals, we play 4-2-3-1. What’s the difference? It depends on the second striker. If he goes back to defend, it’s 4-2-3-1. If he stays up, it’s 4-4-2. It’s the same. The system is only designed around numbers. The most important thing is what the players do.”

Þegar ég spái fyrir um byrjunarliðið í upphitunum er ég vanur að teikna það upp í 4-4-2 leikkerfinu, en það segir ekki alltaf alla söguna. Til dæmis hefði ég teiknað byrjunarliðið í síðasta leik gegn Everton upp sem 4-4-2, með Luis García sem framherja við hlið Peter Crouch, en það hefði verið langt því frá að vera rétt lýsing á því hvernig Rafa spilar. Ég ætla að nota byrjunarliðið úr Everton-leiknum sem dæmi um það hérna:

Eins og hann orðar það, þá getur 4-4-2 orðið að 4-5-1 eða jafnvel 4-2-3-1 í varnarleiknum, þar sem þessir tveir í miðju liðsins, þá væntanlega Xabi Alonso og Momo Sissoko, detta alveg niður að vörninni og vernda svæðið fyrir framan Carra og Sami, og þeir Gerrard, García og Kewell starfa fyrir framan þá sem miðjumennirnir.

Að sama skapi getur 4-4-2 orðið að 4-2-3-1 þegar við sækjum, þar sem Crouch plantar sér inná vítapunktinn og þeir García, Gerrard og Kewell sækja að vítateignum úr öllum áttum, bæði sem vængmenn (allir þrír fljótandi á milli kanta og hlaupandi inná miðjan teiginn til skiptis) og sem þessi klassíski seinni framherji sem vinnur í svæðunum í kringum stóra manninn (Crouch). Þar fyrir aftan væru Momo og Xabi fljótandi fyrir utan teiginn, hirðandi upp lausa bolta en um leið reiðubúnir að detta djúpt til að verjast skyndisóknum og þrýsta á þá leikmenn andstæðinganna sem ætla að bera boltann hratt upp. Þeim til hliðsjónar kæmu þá Riise og Finnan sem sókndjarfir bakverðir og aftast sætu Sami og Carra, u.þ.b. á miðlínunni, í pressukerfi Rafa.

Með öðrum orðum, 4-4-2 kerfið er bara nafn yfir það hvaða grunnstöður leikmenn hafa, en eins og Rafa hefur vanið okkar menn á að spila er sama hvort við teiknum þetta upp sem 4-5-1:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

García – SG – Momo – Xabi – Kewell

Crouch

Eða sem 4-3-3:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Momo – Xabi

García – Crouch – Kewell

Eða sem 4-4-2:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Momo – Xabi – Kewell

García – Crouch

Það einfaldlega skiptir ekki máli hvernig við teiknum þetta upp, því Rafa hefur innbyggt í mönnum getuna til að geta verið teygjanlegir, sveigjanlegir og færanlegir innan vallarins; það bara fer eftir því í hvaða vallarstöðu við erum. Föst leikatriði eru eitt sem er æft sér, svo eru vallarstöðurnar æfðar á allt annan hátt. Hvert hlutverk leikmanna sé þegar boltinn er á ákveðnum stöðum á vellinum er eitthvað sem Rafa eyðir mjög augljóslega miklum tíma í, það sést vel ef leikur liðsins er grandskoðaður.

Til dæmis gætum við sagt að liðið æfi það hvað Gerrard á að gera ef Luis García kemst með boltann upp að endamörkum, en menn eru líka látnir æfa það hvað Luis García á að gera ef Gerrard kemst með boltann upp að endamörkum. Þetta eru tveir ólíkir leikmenn með ólíka eiginleika og hlutverk þeirra því ekki það sama. Ég gæti til dæmis – og ég er hér algjörlega að giska út í loftið, en bara svo að þið sjáið dæmið fyrir ykkur – ímyndað mér að Gerrard ætti að bjóða sig í aðstoðina ef García kæmist með boltann upp að endamörkum, en ef Gerrard kæmist með hann upp að endamörkum ætti García að taka sér stöðu við markið og mæta fyrirgjöfinni. Einfaldlega af því að Gerrard heldur bolta betur og er líklegri til að geta tekið sinn mann á, á meðan García er sérstaklega lunkinn við að opna vörn andstæðinganna upp á gátt með sniðugum þríhyrningssamleik.

Þetta er bara dæmi, en þið sjáið hvað taktískar æfingar geta verið flókið hugtak, og þið getið rétt ímyndað ykkur að ef ég get teiknað upp eitt svona dæmi þá hlýtur Rafa að vera með háþróaðar pælingar í gangi, pælingar sem hann vinnur með leikmönnum sínum að á hverjum einasta degi.

Þetta er eitt það sem mér finnst vera mest misskilið við Rafa og hans aðferðir, það er að honum er allt of oft lýst sem varkárum og/eða varnarsinnuðum þjálfara. Hann er það vissulega, sennilega sá varnarsinnaðasti í Úrvalsdeildinni í dag, en að segja að hann sé ekkert meira en varnarsinnaður er bara bull. Sá þjálfari sem er varnarsinnaður og ekkert annað er þjálfari sem kann ekki að láta sitt lið sækja. Lið slíkra þjálfara eru ekki skemmtileg á að horfa, liggja bara í vörn í 90 mínútur og reyna svo að skora úr hornum og/eða aukaspyrnum, eða með stungusendingum á fljótan framherja (kannist þið við þetta?).

Rafa kann að láta sitt lið sækja. Það fer sérstaklega í taugarnar á mér þegar “sérfræðingarnir” á Skjá Einum og/eða Sýn eru að teikna upp leikkerfi og þeir heimta alltaf að teikna Chelsea og Arsenal upp í 4-3-3 leikkerfi en Liverpool í 4-5-1 kerfi, eins og til að leggja áherslu á hvað Rafa spilar varnarsinnaðan bolta. Öll þessi þrjú lið leika mjög sveigjanlegan bolta þar sem þau geta dottið niður í 4-6-0 nauðvörn og setið framarlega í 2-4-3-1 sóknarstöðu. Það er ekkert til sem heitir “varnarsinnað” eða “sóknarsinnað,” bara gott jafnvægi þar á milli og bestu liðin eru sérfræðingar í báðum endum.

Þetta snýst ekki um að setja liðið upp í 4-5-1 kerfi og láta hvern mann hafa ákveðið marga fermetra á vellinum. Þetta snýst bara um *leikmennina* og hlutverk þeirra innan vallarins, en ekki kerfið. Þótt leikmenn hafi ákveðið hlutverk innan liðsins, þá fær hver leikmaður allan völlinn til að athafna sig, sérstaklega sóknarlega. Hversu oft höfum við ekki séð Gerrard endasendast hliðarlína á milli, hægri-vinstri, til að taka þátt í sókninni? Hversu oft höfum við ekki séð García lauma sér inn í öll óvarin svæði til að fá boltann, og hversu oft höfum við ekki séð Cissé líma sig á hliðarlínuna hægra megin heilan hálfleik? Þessir þrír leikmenn hafa allir spilað sem hægri kantmenn hjá okkur í vetur, en það er alveg ljóst í mínum huga að hlutverk þeirra sem kantmenn eru langt frá því að vera þau sömu. Þetta snýst um *leikmanninn* en ekki *stöðuna sem hann spilar*. Liðið spilar allt öðruvísi sóknarbolta með Kewell og Gerrard á köntunum og Crouch og Cissé frammi en það gerir með Riise og García á köntunum og Morientes og Fowler frammi.

Þetta er það sem er allt of oft misskilið af þessum svokölluðu “sérfræðingum” í dag, ekki bara við Rafa og Liverpool-liðið heldur bara almennt. Thierry Henry er til dæmis jafnan stillt upp sem framherja hjá Arsenal, en hann sækir nær eingöngu upp vinstra megin. Hversu oft hefur maður ekki horft á leik með Arsenal og hugsað með sér, “þeir eru að spila 4-6-0 með sex miðjumenn sem geta sótt hraðar en andskotinn” ? Eða, hversu oft hefur maður horft á Barcelona og fundist þeir vera að spila með fjóra framherja? Hversu oft hefur maður séð Liverpool verjast hátt uppi á vellinum, Momo vinna boltann við vítateig andstæðinganna, og fundist þeir vera að spila meira 2-4-3-1 en 4-5-1 eins og það er jafnan teiknað upp?

Rafa er snillingur í þessu og það er vegna þess *hvernig* Liverpool-liðið spilar að ég er sannfærður um að hann er rétti maðurinn fyrir okkur. Ekki *hversu vel* liðið spilar, því það geta allir leikmenn í heiminum átt misjafna daga, heldur *hvernig*. Þegar liðið á slæman dag á það slæman dag, en leikskipulag og undirbúningur Rafa Benítez hefur miðast að tvennu:

1. Stöðugleika, þannig að leikmennirnir séu nógu vel að sér í sínum hlutverkum til að geta sinnt þeim *rétt*, svo að við stöndum aldrei uppi ráðalausir gagnvart andstæðingi sem hefur unnið heimavinnuna sína betur en við.

2. Óútreiknanleika. Í alvöru, gætuð þið stillt upp liði til að mæta þessu Liverpool-liði og sagt bara: “Hægri bakvörður, þú dekkar Kewell, og miðvörður þú dekkar Crouch, og vinstri bakvörður, þú dekkar García, og miðjumenn þið dekkið Gerrard, Momo og Xabi.” Hvað myndi gerast? Leikmennirnir þínir myndu spyrja, “já en hvað með þegar Kewell fer út að hægri vængnum til að fá boltann í skotstöðu? Hvað með þegar García stingur sér innfyrir varnarlínuna okkar?”

garcia_lobs_wright.jpg
Í þessu lentu Everton-menn um helgina. Vinstri kantmaðurinn Harry Kewell skoraði með skoti frá hægri hlið vallarins, og hægri kantmaðurinn Luis García (hann datt niður í þá stöðu eftir brottvísun SG) skoraði með því að stinga sér innfyrir vörn þeirra. Um daginn gegn Newcastle gaf framherjinn Djibril Cissé fyrirgjöf frá hægri kanti inná fremsta mann vallarins, miðjumanninn Steven Gerrard, sem nýtti sér stöðu sína og skoraði. Cissé fékk boltann eftir hraðaupphlaup miðvarðarins Daniel Agger, sem var staddur á markteig þegar Gerrard skoraði og hefði sennilega orðið fyrstur í frákastið ef boltinn hefði verið varinn.

Óútreiknanleiki. Hver á að dekka miðvörð sem brunar upp völlinn með boltann? Og ef miðjumaður fer í hann og hann gefur þá á Xabi Alonso, sem er óvaldaður, hver á þá að fara í hann? Einhver verður að gera það, og fyrir vikið skilja sinn mann eftir óvaldaðan. Og ef framherji fer út á kantinn til að gefa fyrir, hver á að elta hann? Hver tekur við honum? Ef liðið okkar skilur Crouch einan eftir frammi eina stundina, en er þá næstu skyndilega mætt með Riise og Finnan á kantana og García og Kewell inní teiginn, hverjir eiga þá að dekka García og Kewell? Hvort á bakvörður að láta Kewell vera í hlaupinu inná teiginn og einbeita sér að Riise sem stefnir hraðbyri að honum með boltann, eða láta Riise vera og elta Kewell inn?

Í þessu lenti Tony Hibbert um helgina. Harry Kewell kom niður að hægri hlið vallarins, óáreittur, og fékk þar boltann. Þá kom Tony Hibbert, hægri bakvörður Everton aðvífandi en hætti svo við að fara í hann. Hann hugsaði greinilega með sér, “miðjumennirnir og/eða miðverðirnir eiga að dekka þetta svæði. Þeir verjast honum.” En miðjumennirnir og miðverðirnir hugsuðu greinilega, “hægri bakvörðurinn á að dekka Kewell.” Þannig að enginn fór í hann, og niðurstaðan var mark.

Í þessu er Rafa snillingur. Hann er búinn að búa til lið sem getur varist betur en öll önnur með ellefu leikmönnum, en einnig sótt á þessum sömu ellefu á fjölbreyttari og óútreiknanlegri hátt en flest lið. Þetta lið heitir **Liverpool FC** og ég veit ekki með ykkur, en ég er feginn að hann er að vinna fyrir okkur en ekki einhverja aðra. 🙂

12 Comments

  1. Er ekki bara málið að það er úrelt að hugsa sér að menn séu fastir útá hægri kanti eða vinstri kanti? Menn verða að vera sveigjanlegir til að geta verið hættulegir nú á tímum. Arsenal og Barcelona og jafnvel Chelsea eru bestu dæmi um þetta í dag fyrir utan Liverpool auðvitað.

  2. Besti pistill sem ég hef lesið á þessu blogi. Legg til að menn lesi þetta því það er ótrúlega margt til í þessu.

  3. Frábær lesning. Ein sú allra athyglisverðasta sem ég hef lesið í lengri tíma.

  4. Tek undir með Benna & Guðna. Einfaldlega frábær pistill Kristján, sá langbesti sem ég hef lesið hjá ykkur drengjum.

  5. Sammála þessum að ofan, frábær pistill og skemmtileg og fróðleg lesning.

  6. Það er erfitt að commenta eitthvað sérstaklega á þennan póst, annað en bara; frábær póstur og lítið við hann að bæta 🙂

    Eitt í lokin, þið þyrftuð að koma þessari síðu ykkar betur á framfæra, og þessi póstur ætti að vera skref í rétt átt. Þetta var bara það góður pistill að mér finnst eins og þetta ætti að vera skildulesning fyrir alla stuðningsmenn Liverpool, sem og hina kjúklingana.

    Kær kveðja,

  7. Þakka hrósið. Ég skrifaði hann á hálftíma … :laugh:

    En hef samt verið að hugsa um þetta lengi, hversu víð-misskilið leikaðferða-ruglið virðist vera. Langaði til að tileinka þessu heilan pistil og koma þessu á hreint, og greinin/viðtalið hans Rafa á opinberu síðunni í dag gaf mér pottþétta afsökun til þess. 🙂

  8. Sammála hrósinu.
    Ég vil ekki hljóma sem hrópandi hrokagikkur eða slíkt en það hefur legið í augum uppi nákvæmlega þetta sem Rafa er að segja með leikkerfin. Útskýringarnar eru bara það sem vantaði til að koma þessu betur til skila fyrir þá sem ekki eru að ná þessu. 4-5-1/4-4-2/4-3-3 osfrv eru bara uppstillingar á liði í byrjun leiks sem hefur ekkert að segja með útkomu leiksins. Það sem hefur að segja eru leikmennirnir sem keyptir eru og fengnir til að spila stöðurnar. Við erum að leita að svona utility leikmönnum sem geta spilað fleiri en eina stöðu, þess vegna verður “kantmaðurinn” sem við kaupum í sumar að geta skilað af sér mörgum stöðum eins og Garcia og Kewell gera. Flottur póstur og fínt að lesa upprunalegu greinina sem og pælingar ykkar.

  9. Flottur pistill. Dýpsta pælingin í fótbolta er samt að passa upp á að hafa þetta einfalt. Því á endanum er þetta mjög einfaldur leikur. Nú fyrir skömmu, fyrir fulham leikinn, var maður orðinn hálf vonlaus. Liðið virtist ekkert vera komið neitt lengra en í fyrra. En eftir fulham leikinn sést að liðið er á allt öðrum stað en í fyrra. Miklu meira öryggi og ákveðni í öllum aðgerðum.

  10. Frábær pistill Kristján Atli!!
    Mjög djúpar og góðar pælingar þarna.

    Algjör skyldulesning fyrir alla fótboltaáhugamenn, þarf ekki að segja meira.

  11. Frábær pistill, þið eigið enn og aftur hrós skilið fyrir bloggið ykkar. Ég hef oft verið að spá í þessu hvers vegna Chelsea er alltaf stillt upp af “sérfræðingunum” sem 4-3-3 en ef Liverpool er með samskonar hóp, þá er þeim stillt upp sem 4-5-1. Vonandi koma “sérfræðingarnir” og skoða þetta :biggrin:

  12. Dammitscrammit.

    Afhverju gátuði ekki verið United menn? Sorglegt að þurfa koma á Liverpool síðu til að lesa almennileg fótboltaskrif :biggrin:

Nýr fjárfestir?

Liverpool staðfesta fjárfesta-viðræður