Everton 1 – L’pool 3

crouch_goodison.jpg **NEMA HVAÐ!?!?**

Í kvöld skelltu okkar menn sér í langferð yfir til Goodison Park, þar sem þeir tóku botnlið Everton létt. Lokatölur urðu 1-3 fyrir *Evrópumeisturum Liverpool* og Everton-liðið endaði leikinn tveimur færri; yngri Neville-systirin og Mikel Arteta fengu báðir rautt eftir sitt seinna gula spjald. Mörk okkar manna skoruðu þeir Peter Crouch (sjötta í vetur), Steven Gerrard (þrettánda í vetur) og Djibril Cissé (tólfta í vetur), á meðan James Beattie skoraði mark Everton sem þýðir að átta-og-hálfs leikjahrina Liverpool án þess að fá á sig mark er á enda runnin. Eftir þennan leik eru Everton *í sautjánda sæti* með 17 stig, á meðan okkar menn eru í þriðja sætinu með tuttugu stigum meira, 37 stig, og hafa núna unnið *níu leiki í röð* í deildinni!

Og það sem gerir þetta ennþá betra er að Tottenham töpuðu í kvöld og Man U gerðu jafntefli á útivelli við Birmingham, þannig að nú erum við bara fjórum stigum á eftir þeim og eigum tvo leiki til góða. Þetta er allt að gerast, gott fólk! 🙂

Allavega, Rafa Benítez gerði þrjár breytingar á liði sínu í kvöld og stillti upp eftirfarandi mönnum:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Gerrard – Sissoko – Alonso – Kewell

Cissé – Crouch

BEKKUR: Dudek, Riise, Josemi, García, Morientes.

Það varð strax ljóst í hvað stefndi; eins og venjulega var ekki hægt að búast við fallegri knattspyrnu í þessum leik, þar sem Everton eru með leiðinlegri liðum í deildinni. Þar að auki er ávallt hart barist í nágrannaslag sem þessum og því var augljóst frá byrjun hvernig þessi leikur yrði. Miðjumoð, mikið um háa bolta og stungusendingar í eyður. Þó varð einnig strax ljóst hvort liðið væri líklegra í þessum leik, og eftir aðeins sautján mínútna leik voru okkar menn komnir yfir. David Weir skallaði háan bolta frá vörn Everton en Momo Sissoko hirti annan boltann á miðjunni og skallaði beint aftur að Weir. Þar skallaði Djibril Cissé hann vel niður fyrir Steven Gerrard, sem var fljótur að átta sig og skallaði hann beint aftur innfyrir vörnina á bak við Weir, þar sem **Peter Crouch** kom á sprettinum innfyrir, renndi sér í kringum Nigel Martyn í marki Everton og skoraði. 1-0 og þeir skrá þetta sko ekki sem sjálfsmark á neinn annan!

Aðeins fimm mínútum síðar vorum við komnir í 2-0. Eftir harða sókn okkar manna barst boltinn út úr teignum, þar sem **Steven Gerrard** tók hann niður, lék framhjá Phil Neville og negldi að marki. Boltinn hafði viðkomu í baki Joseph Yobo og fór þaðan í bláhornið, óverjandi fyrir Martyn. 2-0 fyrir okkar mönnum og hreinlega allt útlit fyrir stórsigur.

Eftir þetta tók við hálfgerð deyfð í leiknum; Everton-menn voru felmtri slegnir og áttu erfitt með að átta sig á því sem var að gerast, á meðan okkar menn settust að mínu mati einum of aftarlega og ætluðu bara að halda forskotinu. Það bar ekki tilætlaðan árangur, því þegar Everton-menn fóru að jafna sig og gerast ágengari endaði það bara á einn veg; tveimur mínútum fyrir hálfleik minnkaði **James Beattie** muninn eftir góða sókn þeirra bláu.

David Moyes hefur sennilega eytt öllu hléinu í að berja kjark í sína menn, segja þeim að þeir gætu jafnað þetta og svoleiðis. Sú ræða hans var orðin úrelt og gagnslaus innan við mínútu eftir að síðari hálfleikur hófst. **Djibril Cissé** pressaði Yobo sem gaf boltann frá sér, beint á Stephen Warnock. Warnock tók hann niður beint á Kewell sem var fljótur að átta sig og gaf boltann beint upp í hornið, bak við Hibbert bakvörð Everton. Þar var Cissé einn á auðum sjó, keyrði að David Weir og lék svo á hann og lagði boltann snyrtilega í fjærhornið. 3-1 fyrir okkar mönnum og nú var þetta eiginlega komið!

Það sem eftir lifði síðari hálfleiks voru okkar menn með alla stjórn á leiknum. Everton ógnuðu lítið og Liverpool voru nær því að bæta við ef eitthvað var, en þó var þetta aðallega hið týpíska miðjumoð sem einkennir nágrannaslagina jafnan. Um miðjan hálfleikinn var svo Phil Neville rekinn útaf eftir klaufalegt brot á Momo Sissoko, og þá var kraftur Everton-manna endanlega úti. Undir lokin var svo Mikel Arteta rekinn útaf fyrir pirringsbrot á Luis García, þannig að Everton enduðu eins og áður sagði tveimur færri, sem er ekki á bætandi fyrir David Moyes, sem á við næg vandamál að glíma þessa dagana.

Fernando Morientes kom inná fyrir Peter Crouch þegar um 20 mínútur voru til leiksloka og John Arne Riise kom inná um tíu mínútum síðar fyrir Harry Kewell, og svo loks kom Luis García inná fyrir Steven Gerrard. Sumir myndu segja að Rafa hafi hreinlega verið að gera lítið úr Everton-liðinu með síðustu skiptingunni, eins og hann væri að segja, “sko, við hvílum leikmenn *gegn ykkur* fyrir erfiðari leiki!” 🙂

**MAÐUR LEIKSINS:** Þótt liðið hafi varla leikið fallega knattspyrnu í kvöld var það að leika vel sem ein heild. Ég var ekki sáttur við hvað Everton-menn unnu marga skallabolta í teig okkar manna, en að öðru leyti vorum við með yfirburði á vellinum. Í hjarta þess alls var hinn ótrúlegi **Xabi Alonso**, klárlega maður leiksins að mínu mati. Xabi er vanur að vinna sér inn hrós fyrir að dreifa spilinu og sýna afburða sendingargetu, en frammistaða hans í kvöld minnti mig meira á útileikinn gegn Juventus en nokkuð annað. Hann fékk lítið pláss til að senda sína bolta út um víðan völl, þannig að hann beit bara á jaxlinn og henti sér af fullum krafti út í baráttuna um yfirráð við þá Cahill, Arteta og Neville. Og vann þá baráttu nánast einsamall – Sissoko var öflugur að vanda og Gerrard var ógnandi fram á við, en Alonso hélt utan um þetta allt saman og spilaði eins og sannur leiðtogi fyrir framan vörnina okkar. Frábær leikur hjá honum og það ætti hverjum manni að vera ljóst að þótt hann sé einn besti spyrnumaður í Evrópu í dag, sendingarlega séð, þá er honum ýmislegt fleira til lista lagt.

Jæja … nú fá okkar menn tveggja daga frí áður en þeir mæta í næsta leik, gegn W.B.A. á Anfield á laugardaginn. Ef við vinnum þann leik þá höfum við unnið **tíu leiki í röð**, en sumum þótti það ansi langsótt þegar þessi hugmynd var fyrst rædd á þessari síðu fyrir tveimur mánuðum (finn ekki tengilinn á færsluna, en mig minnir að Einar hafi spáð þessu eftir Fulham-tapið – **uppfært (EÖE): Færslan er [hér](http://www.kop.is/gamalt/2005/11/06/15.46.11/) :-)). Tíu sigurleikir í röð í ensku Úrvalsdeildinni væri vissulega glæsilegur árangur! Chelsea hvað, segi ég nú bara?!? 😉

Frábært kvöld. Góða nótt Liverpool-aðdáendur … **dreymi ykkur vel** 😀

29 Comments

 1. Frábær sigur! Létum ekki þessu sífellu brot Everton manna koma okkur úr jafnvægi. Frábært, yndislegt og allt það.

  En þetta var erfiðasti leikurinn af þessum 9 sigurleikjum í röð.

  Og Man U tapar stigi!

  En þetta blessaða Chelsea lið heldur áfram að grísast til að sigra. Gjörsamlega óþolandi. Deyðu, Joe Cole! DEYÐU!

 2. Það er ótrúlega erfitt að sjá Chelsea tapa nógu mörgum stigum til að við getum náð þeim en þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið!

  Frábær sigur í kvöld og Steven Gerrard að mínu mati yfirburðarmaður á vellinum. Taumlaus barátta og áræðni auk þess að leggja upp mark og skora annað.

  Reyndar væri það eftir öllu að einhverjir vilji skrá þetta sem sjálfsmark hjá Yobo eftir bæði Crouch fíaskóin!!

  En níu leikir í röð og með þessu áframhaldi völtum við vonandi yfir WBA næst en þeir gerðu okkur greiða í kvöld með því að vinna Tottenham :biggrin2:

 3. Glatað að fá á sig mark og það sérstaklega í þessum leik. Fannst vörnin ekki vera í sínu besta formi í dag, tala þá sérstaklega um Hyp. Gerrard stóð sig frábærlega á meðan aðrir stóðu sig skikkanlega og þareftir.

  Alltaf gott að slá þá bláu…

  Og Einar Örn…Joe Cole er töff, hann er bara í vitlausu liði. Hans mesti galli er að hann skorar of mikið fyrir þá.

 4. Frábær sigur og góð úrslit í öðrum leikjum, nema Chelsea :confused:
  Annars verð ég að taka undir með Einari í sambandi við vörnina og þá aðallega í föstum leikatriðum Everton manna þar sem við virkuðum óöruggir.
  Annars bara happy happy joy joy ! 🙂

 5. Góður sigur.

  Ég held að boltinn hafi strokist við hárin á lærum Nigel Martyn þannig að markið hans Crouch verður því miður dæmt sem sjálfsmark :laugh:

 6. Ussss.. Flottur sigur og ég hef sjaldan verið svona rólegur þegar liðið okkar er að spila á Goodison Park. Maður hefur einhvern veginn tröllatrú á því að við vinnum alla leiki núna!

  Mér gæti ekki staðið meira sama með þetta mark hjá Everton, ég persónulega vil vinna leiki 3-1 frekar en að gera jafntefli.

  Crouchinn kominn á skrið og að þessu sinni var ekkert hægt að skrá markið sem hann skoraði á einhvern annan.

  Það eina sem skyggir á kvöldið var heppnis sigur chelskí á mancity en þeir skoruðu skítamark og voru drulluheppnir að fá 3stig í manchester. Trúi ekki öðru en að eitthvað fari að láta undan hjá þeim. Það hlýtur að fara að gerast.. :rolleyes:

 7. Ég var klárlega einn af þeim sem efuðust feitt þegar menn voru að spá því að liverpool gæti nú bara unnið alla leiki fram að áramótum. Það var svona álíka líklegt og að vinna AC Milan eftir að lenda 3-0 undir.

  Ég er að segja ykkur það drengir þetta liverpool lið sem við erum að verða vitni að þessa dagana er eitthvað sérstakt og maður er með mjög góða tilfinningu fyrir þessu.

  Alonso er gull

  Gerrard er hjartað í þessu liði

  Vantaði bara að Kewell setti eitt fyrir sjálfstraustið

  Og ég tek undir með Einari :
  “Deyður Joe Cole deyðu… ”

  :biggrin: :biggrin: :biggrin:

 8. Kewell á hrós skilið fyrir leikinn í kvöld, mér fannst hann frábær eins og síðasta leik, ef að hann fer að komast í sitt gamla form þá erum við með einn besta vinstri kantmann í deilidinni.
  En annars góður sigur, vörning ekki kannski uppá sitt besta en ekkert að því að vinna 3-1, personulega þá vill ég frekar vinna 3-1 heldur en
  2-0 þessi met skipta engu, ara skemmtilegra að horfa á markaleiki. :tongue:

 9. get ég ekki verið meira sammála Kristni J … þetta er eitthvað sérstakt að gerast með liðið hjá Rafa og það lítur vel út … loksins hehe

  ég hef alltaf verið hrifin af Joe Cole … hjá West Ham og síðustu tímabil með Chelski … væri til í að hafa hann í okkar liði.

 10. hehe … ekki miskilja, ég hef haldið með LFC í 17 ár frá 9 ára aldri … en sem áhugamaður um knattspyrnu þá er ekki annað en hægt að dást af nokkrum leikmönnum í deildinni … sama í hvaða liði þeir eru :biggrin2:

  áfram LFC

 11. Geggjað, þvílíkt skrið á þessu liði. Og einn punktur: Crouch er búin að skora 6 mörk í 7 leikjum. Og einn af þessum leikjum var Sao Paulo þar sem hann var inná í 5 mín.

  Rosalega er geðveikt að vera að fylgjast með liðinu þessa stundina, það er einhvernveginn allt að ganga upp.

  Ein leiðrétting Kristján Atli. Við skoruðum fyrsta markið á 11 mínútu, svo við vorum komnir í 2-0 ekki 1-0 eftir 17 mínútur. Sem er frábær byrjun á svona leik.

  Algjör snilld að Man Utd gerði jafntefli á móti Birmingham, samt ömurlegt að sjá Chelsea rétt vinna 1-0 enn einu sinni. Og þið sem voruð að tala um að það verði erfitt að ná í þá, þá er ég nú ekkert alveg sannfærður um það ef þeir ætla að halda áfram að spila eins og þeir eru búnir að gera. Ég hef verið að horfa á undanfarna leiki hjá þeim, og þeir eru búnir að vera að spila langt frá því sannfærandi. Við erum að spila svo mun betri bolta en Chelsea núna, það er bara staðreynd. Ég væri sko alveg meira en til í að næsti leikur okkar í deildinni væri á móti þeim á Brúnni. Ég myndi vera jafn sannfærður um að við myndum klára hann eins og ég er um West Brom leikinn um helgina.

  Sælir félagar, og látum okkur bara dreyma um titilinn því það er ekki eins fjarstæðukennt og margir vilja meina.

 12. Til hamingju Púllarar með enn einn öruggan sigur. Ég var með smá í maganum fyrir leikinn í kvöld en það var óþarfi. Þó svo að markaþurrð andstæðinga okkar hafi verið skemmtileg, þá er ég pínu-feginn að þessi “pressa” um að halda hreinu svo og svo lengi, sé frá. Held seriously að Reina og Czech verði í mikilli keppni um hver muni fá fæstu mörkin á sig.

  Trúi því líka sem Svavar og Andri komu inn á að Chelsea er ekki að spila rosalega vel þessa dagana. Þeir eru að vinna heppnissigra, og ég hef meiri trú á því að þeim fari að fatast eitthvað flugið. Er algjörlega sannfærður um góðan og öruggan sigur Barca á þeim í CL!

  En Man U tapar stigum og við erum í góðum málum. Cisse, Crouch og Gerrard skora… maður er bara innilega happy 🙂 … getur samt ekki verið skemmtilegur partíleikur að finna út úr því hvernig við getum skrifað mark Crouch sem sjálfsmark? :biggrin:

 13. Ekki það að það skipti miklu máli en …

  Ekki fannst mér Crouch verðskulda gult spjald fyrir sína saklausu athugasemd, hversu oft sér leikmenn drulla svoleiðis yfir dómara og fá ekki einusinni tiltal.

  Áfram Liverpool. :biggrin2:

 14. Alls ekki sammála þér elsku litli Kristján minn..

  Gerrard var klassa ofar en allir á vellinum, tjah nema cArra sem var þarna aðeins fyrir neðan

  Superman: 9
  Carra: 8.5

 15. Gleymdi því áðan, en mér fannst Cisse eiga einn sinn besta leik í dag, og þá er ég að tala um það sem er búinn að vera hanns heldsti veikleiki og það sem Rafa er ábbiggilega búinn að vera að tugga í honum aftur og aftur býst ég við. VINNSLA FYRIR LIÐIÐ! Þetta er aðalsmerki í því sem Benítez er að innleiða til okkar sóknarmanna og hefur Cisse verið hvað slakastur í þessum eiginleika. Enn mér fannst hann sína mikla bót á því í kvöld, sá að hann var að hlaupa meira án bolta þarna frammi og reyna að loka einhverjum svæðum þegar Everton var með boltan, sá hann meira að sega taka eina tæklingu þarna til að reyna að ná til boltans. Þetta var ég mjög ánægður að sjá og greynilega er að hann er ekki alveg tómur í hausnum því hann virðist vera að aðlaga sinn leik að hugmyndum Rafa meir og meir. Átti t.d fínan leik í síðasta leik sem hann byrjaði inná á móti Saprissa, og svo núna. Þetta er mjög jáhvætt og held ég að þetta sé lykillinn að því hvort hann muni vera áfram eða ekki. Þ.e.a.s hversu mikilli varnarvinnu mun hann nenna að skila.

  Mjög sammála þeim sem skrifaði hér fyrir ofann undir nafninu Kewell, að nafni hanns virðist vera að fara að sýna okkur loksinns hvers hann er megnugur, vona og held svo innilega að sá gamli Kewell sem var í Leeds sé loksinns að byrja að spila fyrir okkur, sem eru gríðarlega góðar fréttir, og gerir okkar lið mikið sóknarbeyttara eins og er búið að vera að sína sig í þessum undanförnu 9 leikjum í deild, þar sem við höfum skorað 20 mörk og fengið á okkur 1. FRÁBÆRT.

 16. Alveg hreint stórkostlegt…… :biggrin2:

  Brosið fer ekki af mér þessa dagana, það er svo geggjað að vera púllari núna.

  Gerrard er barasta stórkostlegur….Alonso er magnaður…Carra er ótrúlegur…..allir hinir eru frábærir. Sjá Kewell vera að koma upp er náttúrulega yndislegt…þvílíkt góður kantmaður þarna á ferð..hann þarf bara að setja hann fljótlega til að “bústa” sjálftraustið ennþá meira.

  Sissoko er þvílíkt efni að það fer um mann fiðringur að hugsa um þennan strák sem framtíðarmiðjumann fyrir Liverpool… Hann verður aðeins betri…og betri…ég er pottþéttur á því.

  Ég er hálft í hvoru fegin að okkar menn geta hent þessu “halda hreinu meti” aftur fyrir sig…setur óþarfa pressu á menn.

  Við verðum í toppbaráttunni í vetur og það er það sem skiptir máli…

  Nú er bara næsti leikur …..vinna WBA…

  Áfram Liverpool

 17. Sannarlega gleðileg jól hjá okkar mönnum.

  Breska pressan er farin að átta sig á hlutunum. Þessa dagana les maður t.d. svona víða á netinu:

  It is probably too late to make any difference to the outcome of this season’s title race, but Liverpool are definitely becoming a major Premiership force under Benitez.

  Menn eru farnir að átta sig að Benitez er kraftaverkamaður og við getum treyst honum. Það voru ekki margir sem töldu Crouch geta eitthvað – nema Benitez. Snillingur.

  Yndislegt að vera Liverpoolmaður í dag.
  🙂

 18. Jamm, maður hefur séð mikla breytingu á leikskýrslum bresku blaðanna einsog t.d. Guardian, sem þú vitnar í. Menn eru núna farnir að tala um Liverpool sem eina raunhæfa keppinaut Chelsea.

  Það getur í raun tvennt gerst með Chelsea. Þeir fara að líða fyrir það að leika svona illa og byrja að tapa stigum.

  Eeeeeða, þeir fara að spila virkilega einsog þeir ættu að geta spilað miðað við þennan mannskap.

 19. getur e-r sagt aftur hvaða leiki skjár einn sýnir og jafnvel hvenar????

 20. Ég get nú ekki með neinu móti verið sammála ykkur sem haldið því fram að það hafi í raun verið ágætt að fá loksinns á okkur mark núna. Losað “pressu” af liðinu, ég er algörlega ósammála, og skil í raun ekki hvað þið eruð að tala um. Að fá ekki á okkur mark í 8 deildarleikjum í röð gefur öftustu línuni og öllu liðinu gríðarlegt sjálfstraust, ég get ekki séð að menn séu undir pressu fyrir þetta afrek vegna einhverra meta ef þeir halda hreynu í þetta og þetta marga leiki í viðbót. Alla vega er þetta mín skoðun.

 21. Ekki sá ég leikinn, en þetta var fullkomlega löglegt mark sem hann skoraði hann Beattie og var dæmt af. Þar með hefði staðan væntanlega orðið 2-2. Ekki það að leikurinn hefði þá endað 2-2 endilega, en það hefði væntanlega breytt einhverju.

 22. Bíddu halló?!?
  Staðan var 0-2 þegar Arteta sendir fyrir og Beattie skorar með skalla(dæmt af). Hann hefði því minnkað muninn í 1-2 líkt og gerðist í leiknum seinna. Ekki skoruðu Everton menn aftur eftir það fyrir hálfleik.

  [i]”Þar með hefði staðan væntanlega orðið 2-2.”[/i] er því ekki rétt fullyrðing. Varnarmenn hefðu poppþétt vaknað eftir markið og ekki hleypt meiru inn.

  Svo varðandi að halda hreinu þá skapar það vissulega sjálfstraust að fá ekki á sig mark (liðið virðist ósigrandi) en hefði getað komið í bakið á okkur ef Liverpool hefði misst einhver leik niður í 0-0 jafntefli eða leikur liðsins orðið stirður vegna þess að þeir ætluðu sér að setja met. Til að ná Chelsea má það ekki gerast því öll 2-3 stig skipta máli. Mér finnst því ágætt að fá þetta mark á okkur, vörnin verður núna bara enn mótíveraðri og heldur hreinu næstu 8-9 leiki!
  😉

 23. Hugsið ykkur hvað yngri Neville-systirinn er mikið hötuð hjá LFC. Hann kemur frá scums og fer yfir til Everton. Hversu miklu meira er hægt að hata hann en það! :laugh:

  Everton átti aldrei séns í þennan leik sama þótt þeir hefðu skorað þetta löglega mark sem dæmt var af þeim í stöðunni 0-2. Jafnvel þótt þeir hefðu síðan jafnað 2-2 að þá hefði LFC alltaf unnið því getumunurinn á liðunum er hrikalega mikill! Ég er ENNÞÁ að jafna mig á því að Everton hafi endað í 4.sætinu þarna forðum en við í því fimmta! 😯

 24. Þetta er nú að verða alveg magnað hjá þér Sverrir minn. 2-2? Ertu pottþéttur á að leikurinn hefði þróast alveg eins ef það hefði verið dæmt gott og gilt? Heldur þú að leikurinn hefði ekkert breyst við það mark? Hann hefði alveg getað farið 1-7 vegna þess að mann hafi þurft að spýta í lófana. Hann hefði líka getað farið 10-2 vegna mikils sjálfstrausts bláu vibbanna. En að tala um að staðan hefði væntanlega orðið 2-2 er hreinn brandari, hlýtur að sjá það sjálfur þrátt fyrir blint hatur þitt á rauðliðunum.

 25. Svona meira um þetta, þá segist þú ekki hafa séð leikinn, en engu að síður hafi þetta verið fullkomlega löglegt mark. Ég reikna þá fastlega með því að þú hafir séð markið í fréttum eða eitthvað álíka. Mér sýndist í endursýningum að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá línuverðinum, þ.e. að boltinn hafi verið farinn aftur fyrir línuna þegar hann sendi fyrir.

  Línuvörðurinn flaggar strax og það sjá varnarmenn Liverpool og markvörðurinn og þá hættu menn og réðust ekkert á þennan bolta. Eftir að hafa séð nokkrar endursýningar á þessu í útsendingunni þá var ég ennþá meira sannfærður um að línuvörðurinn hafi dæmt hárrétt, enda boltinn við jörðina og auðvelt um að dæma fyrir línuvörðinn í þeirri góðu aðstöðu sem hann var til að sjá þetta.

  Það var nú dæmt mark af okkur á HM félagsliða, og þá meira að segja var boltinn í einhverri 10-20 metra hæð, og nánast vonlaust um að segja með vissu hvort útaf hefði farið eða ekki.

 26. Mín skoðun er sú að það skiptir engu hvort þetta mark Beatties hefði verið dæmt löglegt eða ekki. Þeir hefðu þá bara minnkað muninn í 2-1 fimm mínútum fyrr en þeir gerðu. Það hefði, að mínu mati, litlu breytt um lokastöðuna, þótt maður viti auðvitað aldrei.

  Málið var það að það var kominn ákveðinn sofandi í leik Liverpool-liðsins þegar Beattie skoraði. Everton-markið lá nánast í loftinu þegar þar var komið sögu, en um leið og þeir skoruðu var eins og okkar menn vöknuðu af værum blundi og fóru að spila aftur eins og menn, kláruðu þetta bara í seinni hálfleik og málið er dautt.

  Þannig að þótt Beattie-markið hið fyrra hefði verið dæmt löglegt hefði það litlu breytt að mínu mati. Okkar menn hefðu þá bara vaknað fyrr og farið að spila sinn bolta aftur, og hefðu samt sem áður innbyrt þetta. Það sáu það líka allir sem horfðu á leikinn að getumunurinn á liðunum var það mikill að þessi leikur var nær því að enda 5-1 fyrir okkur en 2-2. Fyrir utan einn skalla í fyrri hálfleik og svo markið hans Beattie sem var dæmt af gerðu þeir lítið af viti upp við mark Pepe Reina, á meðan Cissé (tvisvar), Kewell, Gerrard og Steve Warnock klúðruðu allir í góðum færum. Þannig að við hefðum frekar átt að vinna stærra, ef eitthvað er.

Liðið á móti Everton komið

Árangur Liverpool og Chelsea