L’pool 0 – Betis 0 (uppfært x2)

VIÐ ERUM KOMNIR Í 16 LIÐA ÚRSLIT
MEISTARADEILDAR EVRÓPU 2005-2006!

crouchy-betir.jpgJæja, í kvöld náðum við stiginu sem þurfti til að tryggja okkur farmiðann í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar, en við gerðum markalaust jafntefli við Real Betís á Anfield.

Í hnotskurn, þá er augljóslega jákvætt að halda hreinu fimmta leikinn í röð en um leið er ekkert annað en drullusvekkjandi að hafa átt tæplega 30 marktilraunir í þessum leik, en ekkert náð að skora.

Rafa tókst að pirra mig í upphafi leiks með því að stilla upp eftirfarandi byrjunarliði:

Reina

Finnan – Hyypiä – Carragher – Riise

Gerrard – Sissoko – Hamann – Zenden

Morientes – Crouch

BEKKUR: Dudek, Josemi, Warnock, Traore, Potter, Kewell, Cissé.

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af baráttu tveggja liða sem ætluðu greinilega ekkert að gefa eftir. Okkar menn fengu töluvert fleiri færi, og þá sérstaklega var Peter Crouch mikið í eldlínunni, en inn vildi knötturinn ekki. Þá var dauðafæri hjá Betís-mönnum ranglega dæmt ólöglegt vegna rangstöðu, þannig að segja má að markaleysið í hálfleik hafi verið nokkuð sanngjarnt.

Í síðari hálfleik tóku okkar menn hins vegar öll völd á vellinum, lágu í sókn og sköpuðu slatta af dauðafærum. Það segir sína sögu að þegar leik lauk voru okkar menn búnir að eiga u.þ.b. 30 marktilraunir en Betís-liðið átti bara 5 skot að marki. Reyndar var smá órói í mönnum undir lokin, þegar Betís fengu hornspyrnu á síðustu andartökum leiksins, en Reina kýldi hornið frá og leikurinn endaði 0-0.

Svona á heildina litið þá finnst mér erfitt að dæma þennan leik. Okkar menn voru eiginlega ekkert í vandræðum varnarlega, með yfirburði á miðjunni, og hefðu skv. gangi leiksins átt að vinna þetta auðveldlega … en á sama tíma þá er ekki hægt að kvarta. Menn uppskera eins og þeir sá:

PETER CROUCH: Ellefu marktilraunir, ekkert mark. Spilaði frábærlega, enn og aftur, en gæti ekki keypt sér mark með íbúðaláni þessa dagana. Vantar bara allt bit inní teignum og á meðan hann ekki skorar er hreinlega bara spurning hvort hann þurfi ekki að hvíla sig á bekknum í 2-3 leiki, ná áttum og losa pressuna aðeins, og koma svo aftur inn í þetta. Eins vel og hann er að spila, þá er bara ekki rétt að hann sé alltaf í liðinu á meðan hann getur ekki skorað.

FERNANDO MORIENTES: Vann rosalega vel úti á velli, sem væri fínt ef hann væri miðjumaður. En þar sem hann er framherjinn sem á að spila við hliðina á hinum gaddfreðna Crouch, þá verður hann að taka það að sér að skora mörkin. Sem gerðist ekki í kvöld.

RAFA BENÍTEZ: Rafa minn, þú alveg jafnt og leikmennirnir þínir uppskerð eins og þú sáir. Í kvöld hafðir þú mann sem hefur skorað 11 mörk í 22 leikjum á bekknum og settir tvo menn sem eru samtals búnir að skora 4 mörk í um 40 leikjum í byrjunarliðið í hans stað. Þegar þú virðist velja framherjana í liðið eftir því hverjir eru EKKI að skora … þá er ekkert annað í spilunum en markaleysi.

Já, ég er pirraður … og ljái mér það hver sem vill. Cissé náði reyndar ekki að skora á þessum 25 mínútum sem hann fékk, en hann skapaði sér og Crouch góð færi á þeim tíma sem hann var inná og ógnaði markinu sennilega meira á 25 mínútum en Morientes gerði á 65. Mér líður eins og ég hafi misst af einhverri stefnubreytingu í knattspyrnuþjálfun eða eitthvað, því þetta er svo mikið grundvallaratriði sem ég hélt að væri bara ofur einfalt en Rafa virðist sjá öðruvísi: EF FRAMHERJI ER AÐ SKORA MÖRK Á HANN AÐ FÁ AÐ BYRJA INNÁ. EF HANN ER EKKI AÐ SKORA MÖRK Á HANN EKKI AÐ FÁ AÐ BYRJA INNÁ.

Það meikar bara nákvæmlega ekkert helvítis sens að hafa ellefu marka mann á bekknum og núll marka mann með fjögurra marka manni í byrjunarliðinu. Það bara meikar ekkert sens. Og svo þegar Cissé kom inná … var hann settur á helvítis kantinn!

Rafa, hvað er það sem ég skil ekki ?!?!?

MAÐUR LEIKSINS: Það spilaði enginn neitt illa í kvöld, en það spilaði heldur enginn neitt sérlega vel. Reina hafði lítið að gera en kláraði sitt, vörnin hélt og þá sérstaklega stóð Riise sig sæmilega gegn Joaquín – missti hann bara einu sinni framhjá sér – og við réðum lögum og logum á miðjunni eftir svona fyrsta kortérið eða svo. Frammi sköpuðum við okkur heilsárskvóta af færum en náðum ekki að skora.

Þannig að ég ætla bara að sleppa því að velja mann leiksins í kvöld. Þið getið kosið ykkar eigin í ummælunum ef þið viljið, en ég er ekki í stuði til að verðlauna neinn. Það stóð enginn uppúr í kvöld. Hins vegar langar mig til að velja Crouch og Morientes antí-menn leiksins í kvöld. Ég hef fulla þolinmæði fyrir mönnum sem eru að reyna allt sem þeir geta og gefa sig allt í leikinn … eins lengi og maðurinn sem er að raða mörkum inn fær að spila við hliðina á þeim.

Sumir munu eflaust kalla mig Cissé-aðdáanda og fýlupúka og eitthvað slíkt, en það er ekki málið hérna. Ég er sáttur við stigið, vissulega, og ég er feginn að við séum komnir í 16-liða úrslitin áður en við þurfum að fara til Stamford Bridge (mikill plús), og liðið hélt aftur hreinu í dag og dómineraði þetta lið. En á móti kemur að ég bara skil ekki hvers vegna Rafa kaus að velja Crouch og Morientes í liðið í kvöld, og svo að setja Cissé inná kantinn á 65. mínútu. Bara skil það ekki.

En jæja, nóg um það. Við erum komnir í 16-liða úrslitin og getum farið að láta okkur hlakka til að mæta þar einhverju sterku liði. Spurningin er bara, hvort verðum við þar sem sigurvegarar eða lið í öðru sæti? Það hefur nefnilega töluverð áhrif … viljum við mæta Barcelona, eða Schalke? Við erum stigi á undan Chelsea fyrir síðasta leikinn og nú er bara um að gera að fara á Stamford Bridge og klára dæmið, tryggja sigurinn og góða stöðu fyrir vormánuðina!

Liverpool, Evrópumeistarar tvö ár í röð? Það skyldi þó aldrei vera … 🙂


**Viðbót (Einar Örn)**: Úff, ég er nú ekki eins neikvæður og Kristján, enda ekki jafnmikill Cisse aðdáandi og hann. Vissulega er það gaman að við séum komnir áfram og einstaklega gaman að nota “stríðsfyrirsagnaletrið” okkar, sem við notum bara þegar við komumst áfram í Meistaradeildinni. 🙂

Bara svona til að halda þessu til haga, þá áttum við **25 skot í leiknum**. Það er hreinlega alveg með ólíkindum. Og ég er óssamála því að vera að kenna Moro og Crouch um allt þetta, því að Steven Gerrard klúðraði sennilega tveim af þrem bestu færunum í leiknum (skallinn hjá Crouch var einnig frábært færi).

En ég er nokkuð sammála um að Crouch þurfi núna smá hvíld. Hann lék algjörlega **frábærlega** í kvöld, vann gjörsamlega alla bolta og gerði allt rétt NEMA AÐ SKORA. Auðvitað er það samt aðalmálið. En Liverpool þarf hvíld frá þessari markaleit Crouchy og hann hefði gott af því að vera á bekknum í næsta leik. Það er enginn áfellisdómur yfir leik hans, því hann er að leika virkilega vel, en hann þarf bara að losa sig við þennan markadraug.

Ég meina ok, stór partur af því er að Crouch er ekki að nýta dauðafærin, en ég meina come on, varnarmaður Betis ver eitt skotið hans með hendi. Það er hreinlega ekki vottur af heppni, sem fylgir Crouch þessa dagana.


Ég get valið nokkra menn leiksins. Ef Crouch hefði skorað, hefði hann án efa verið maður leiksins. Fyrir utan hann, þá fannst mér Sissoko spila sinn besta leik, sem ég hef séð hann spila (ég missti af mörgum leikjum í byrjun tímabilsins. Einnig var Hamann sterkur á miðjunni.

Real Betis, liðið sem lenti í þriðja sæti í spænsku deildinni kom á Anfield og þurfti að sigra en *áttu aldrei sjens* í okkar menn. Ekki glætu. Við yfirspiluðum þá, sérstaklega í seinni hálfleik og ef menn hefðu haft smá heppni með sér eða verið aðeins grimmari upp við markið, þá hefði þetta farið inn. Og þetta gerðum við án Luis Garcia og Xabi Alonso.

Ég veit að einhverjir eiga eftir að bölva og vera fullir af neikvæðni. En staðreyndirnar eru einfaldlega þær að við erum búnir að tryggja okkur sæti í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar án þess að riðlakeppnin sé búin. Við höfum núna leikið 13 leiki í röð í Meistaradeildinni án þess að tapa. Reina hefur haldið hreinu í á áttunda klukkutíma og við erum að skapa okkur haug af færum.

Njótum þess í stað þess að halda áfram þessu eilífðar þrasi um Peter Crouch. Þetta er skemmtilegur tími fyrir Liverpool og svo miklu fleiri jákvæðir hlutir að gerast en neikvæðir.


**Viðbót (Aggi)**: Við áttum að vinna þennan leik og það stórt. Við erum nokkrum númerum of stórir fyrir þetta Betis lið, það er ljóst eftir leik kvöldsins.

Neikvætt: Að við náum ekki að snúa svona rosalegum yfirburðum í mörk í leiknum er ótrúlega pirrandi. Skítt með Crouch (átti hvort eð er ekki von á hann skoraði) en að Moro eða Gerrard skyldu ekki ná að skora… djöfulsins!!! Að setja Cisse á hægri kantinn er vont… sérstaklega þegar við getum sett fullt af öðrum mönnum þangað. Að hafa Crouch einan frammi í 4-5-1 er vont.

Jákvætt: Fara í mikilvægan leik í meistaradeildinni og yfirspila andstæðinginn. Spila að köflum klassa knattspyrnu og jákvæða einnig. Búa til urmull af færum. Vera komnir aftur í hóp 16 bestu liða í heimi og samt er eftir ein umferð (höfum við gert það áður?).

Minn maður leiksins: Momo Sissoko… rosalega er ég hrifinn af þessum leikmanni. Gefst aldrei upp, vinnur vel, góður tæklari og er með tækni.

21 Comments

 1. Sissoko fær mitt atkvæði sem maður leiksins, þvílíkt form á einum manni,barðist allan tíman og vann flestar tæklíngar,

  Annars spái ég því að við fáum Lyon í 16 liða úrslitum

 2. >Liverpool, Evrópumeistarar tvö ár í röð? Það skyldi þó aldrei vera

  Þori að veðja að Páfinn biðji þess heitt að það gerist ekki!

 3. Mér fannst Crouch brillera. Hann barðist eins og ljón, hljóp eins og tígur en það er eins og í markinu standi nakin kona og hann verði feiminn.

  Annars hin fínasta trygging.

 4. Ég er sammála Hólmari að Sissoko hafi verið maður leiksins. Þvílík yfirferð á drengnum, var út um allan völl og vann nánast allar tæklingar sem hann fór í. Hann ásamt Hamann gjörsamlega yfirspiluðu miðjumenn Betis að það hálfa væri nóg.

  Mikið er ég líka sammála Kristjáni með framherjamálin, algjörlega óskiljanlegt að láta cisse ekki byrja inn á. Ég er næsta öruggur að ef hann og Crough fá nokkra leiki saman í röð þá gætu þeir smollið saman og myndað stórhættulegt par.

 5. Alltaf gaman þegar menn missa sig í reiði. Annars fannst mér Crouchinio standa sig vel.

  Ætli hann hefði tekið vítið, ef það hefði verið dæmt? :confused:

 6. Kannski vert að benda á það að það skipti ekki nokkru máli hvort við hefðum unnið leikinn eða gert jafntefli. Það hefði engu breytt um stöðu okkar í riðlinum (sjá [hér](http://www.uefa.com/competitions/ucl/Standings/index.html)).

  Við erum með 11 stig, en Chelsea með 10 stig. Þess vegna dugir okkur jafntefli í síðasta leiknum, en ef Chelsea vinnur, þá verða þeir í efsta sæti.

  Ef við hefðum unnið leikinn, hefðum við verið með 13 stig og Chelsea 10. Okkur hefði eftir sem áður dugað jafntefli, en Chelsea hefði líka orðið í efsta sætinu ef við hefðum tapað því að ef að lið eru jöfn að stigum, þá gilda innbyrðis viðureignir fyrst.

 7. Og að líkja Crouch saman við Heskey, Kristján, er grín. Sérstaklega ef þú ert að miða við tímabilið þar sem Heskey hélt Baros útúr liðinu. Heskey spilaði á þeim tíma aldrei jafnvel og Crouch spilaði í kvöld.

 8. Ég er ekki að tapa mér í neikvæðni, bara svo að það sé á hreinu. Ég er hörkusáttur við að við séum öruggir áfram með einn leik til góða, og ég er sammála ykkur í því að það er margt jákvætt.

  Hins vegar fannst mér alveg þess virði að gefa því líka gaum að ég kom hér inn um leið og byrjunarliðið var tilkynnt og nánast spáði markaleysinu. Sem varð svo raunin. Þetta var bara svo augljóst, hvort sem það er Crouchie að kenna eða bara “óheppni,” að hann og Morientes myndu ekki skora í kvöld.

  Æji ég veit það ekki, vonandi skorar Crouch strax í næsta leik svo við getum hætt að tala um þessa byrði á öxlum hans … því fyrr sem það gerist, liðsins vegna, því betra.

  En við erum komnir áfram, sem er flott. 🙂

 9. Cissé átti að vera í byrjunarliðinu án vafa.

  En Steven Gerrard klúðarði gullfæri þarna í lokin og það var ansi mikið diss á hann að strax eftir það var honum skipt út af fyrir grínarann Potter (sem klúðraði sinni einu snertingu í leiknum mjög illa)

 10. Glæsilegt að vera komnir áfram….

  En ég er svo hjartanlega sammála honum nafna mínum Kristjáni. Ég varð virkilega fúll þegar ég sá byrjunarliðið. Það sem skiptir máli er að Cisse skorar þegar hann fær að spila. Skiptir ekki máli hvernig, hvort sem það sé heppni eða færni, mark er mark og þau koma frá Cisse….

  En jákvætt að vörnin er að standa sig með prýði. Ég var ekki alveg sáttur við sjálfstraustið hjá Reina í byrjun tímabilsins en er ánægður með hvernig málin hafa þróast hjá honum.

  Hefði viljað sjá Kewell fyrr inn og þá fyrir Zenden en halda Cisse og Crouch frammi.

  Maður leiksins Sissoko.

  Kv. Kristján

 11. Óli Kristjáns hitti naglann svo sannarlega á höfuðið í lýsingunni á Sýn í kvöld, þetta er munurinn á heimsklassaframherja eins og Andryi Shevchenko og Peter Crouch. Báðir koma sér í fullt af færum og vinna vel fyrir liðið, annar skorar fjögur, hinn ekki neitt…..

 12. Til hamingju Púlarar að vera komnir áfram í 16 liða úrslit meistaradeildarinnar. Það var enginn glæsileiki yfir þessu, en maður getur tekið þetta á jákvæðum og neikvæðum nótum. Sjálfur hef ég gagnrýnt Crouch og ég er fyrsti maður í línu til að segja að Owen ætti að vera þarna frekar en Crouch … EN … jákvæði Doddi segir mér að þetta hafi bara verið einn besti leikur Crouch fyrir Liverpool.

  Auðvitað á framherji að skora mörk, en það sem Crouch gerir samt svo frábærlega er að skapa fyrir aðra. Crouch átti 11 skot (hálfskot sum) og mér er sama hvað hver segir – dauðafærið sem hann fékk… hann var með mann svo fast í sér að hver sem er hefði getað truflast og klúðrað svona dauðafæri. Cissé hefur sjálfur sagt að hann elski að spila og sé sáttari við kantinn en bekkinn. Það kom hreinlega ekki mikið úr honum þessar 25 mínútur, en frá byrjun nokkurn veginn var Crouch alltaf hættulegur í þessum leik.

  Jákvæði Doddi ætlar því að velja Crouch sem mann leiksins, en neikvæði Doddi ætlar að velja Sissoko sem mann leiksins. Gerrard á mistök leiksins 🙂

  Ég á örugglega eftir að grenja yfir markaþurrð Crouch, en ég ætla samt í líki jákvæða Dodda koma með ábendingu: síðasta síson (skv. anfield stats page) kom Baros við sögu í 42 leikjum, byrjaði í 34. Hann skoraði 13 mörk. Ef ég man/skildi Sýnarmennina rétt þá var þetta 16. leikur Crouch með Pool… hann hefur því 26 leiki til að gera 14 mörk eða fleiri til að teljast vera framför miðað við Baros. Og það er eitt sem mér finnst hann strax hafa fram yfir hann: hin stöðuga hætta (í lofti og láði) og sendingargetan til að spila samherja sína uppi.

  Ég sé mun meiri hættu í Crouch inni á vellinum heldur en Morientes. Með því að hafa Crouch/Cisse saman í 2-3 fulla leiki þá tel ég Crouch mega fara á bekkinn ef hann skorar ekki.

  Ég man ekki hvaða íslenskur framherji (Andri Fannar?) sagði það, en þegar hann var spurður hvort hann vildi gefa 2 sendingar sem gefa mörk, eða skora 1 mark, sagði hann: Skora eitt mark. Nú spyr ég ykkur hér: hvort vilduð þið að Crouch skoraði 1 mark eða legði upp 2? (svona hypothetical question sko…)

  Basic matter: Við erum komnir áfram – woo hoo!

 13. Góðan daginn og til hamingju allir saman með að vera komnir upp úr riðlinum.

  Ég get með engu móti verið sammála í að gagnrína Rafa fyrir liðsvalið í kvöld, þó ég sé nú sammt á því að Cisse sé okkar hættulegasti leikmaður þessa stundina og hef ekki haft mikið álit á Crouch(sem fer nú sammt batnandi miðað við virkilega góðan leik hanns í kvöld). Þannig er það bara að Rafa kemur alltaf með eitthvað óvænt í liðsuppstillinguni fyirir meistaradeildarleiki(gott dæmi fyrri leikurinn á móti Betis). Hann hefur pottþétt sínar skíringar fyrir því að hann áhvað að hafa Cisse á bekknum í kvöld(hvíld, Crouch heldur betur bolta en Cisse sem hann gæti hafa talið mikinn kost fyirir leik sem þennan þar sem nó var að halda jafntefli, eða eitthað annað??) en það er nú bara einu sinni þannig að þessar óvæntu breitingar eru að virka aftur og aftur og aftur með það að gefa okkur rétt úrslit í þessari keppni. Svo ég er á því að Rafa sé algörlega búin að vinna vinnuna sína fyrir hvern einasta leik í þessari keppni og þess vegna sé liðið svona rosalega misjafnt miðað við hverja við keppum við. Svo þó að ég sé CisseFAN í botn þá virði ég algörlega þessa áhvörðun því hún færði okkur þau úrslit sem eru ásættanleg.

  Annars af leiknum sjálfum þá var Sissoko frábær, Arnar Björns lísti hanns leik vel þegar hann sagði að hann væri eins og Naut í flægi þarna á miðjuni gjörsamlega barðist og barðis eftir hverjum einasta bolta, tvímannalaust maður leiksins að mínu mati.

  Svo tek ég líka hattinn ofan fyrir Crouch fyrir virkilega fínan leik, ég er ekki helsti aðdáandi hanns en ég er að verða æ vissari um það að hann á eftir að reynast okkur vel í frammtíðini þessi leikmaður. Hamann spilaði mjög vel og Hyypia er virkilega búin að ná sér á strik undanfarið eftir leikinn gegn Chelsea og er að spila núna eins og þegar hann var upp á sitt besta.

  Hlakka til leiksinns á laugardaginn gegn Man City á útivelli sem verður gríðarlega erfiður og ef við náum að vinna hann má Chelsea fara að passa sig að fara að missa ekki mikið fleiri stig því að við erum að verða óstöðvandi. Frábært…

 14. Það er ekki spurning að Crouch stóð sig vel í kvöld og einnig barðist hann mjög vel. Annað mál er jú að hann skorar aldrei… hann er framherji og á að skora.

  Morientes og Crouch saman frammi finnst mér alger brandari. Þeir eru svo svakalega líkir leikmenn. Svo kemur Cisse inn og fer á kantinn!

  Cisse er reyndar þannig leikmaður að hann er ekki alltaf að gera góða hluti en skorar samt mikið. Crouch gerir oft mjög góða hluti en skorar ekki. Morientes finnst mér mjög oft slakur. Þannig að það er ekki spurning að mínu mati að Crouch og Cisse vega hvorn annan upp og eru það ólíkir leikmenn að þeir ættu að spila flesta leiki saman frammi.

  Frábært að komast áfram og vonum að við klárum riðilinn á Brúnni með sigri.

 15. >Góðan daginn og til hamingju allir saman með að vera komnir upp úr riðlinum.

  Hvenær vaknar þú eiginlega á morgnana, Andri? 🙂

  Mér heyrist menn vera svona þokkalega jákvæðir í garð Crouch, allavegana mun jákvæðari en fyrir leikinn.

  Varðandi Morientes, þá fannst mér margt vera jákvætt í hans leik. Hann klúðraði færunum, en Fernando Morientes verður ekki allt í einu lélegur “finisher” og ég hef engar sérstakar áhyggjur af því.

  En hann var að vinna gríðarlega vel fyrir liðið. Vann nokkrar tæklingar og hjálpaði miðjumönnunum okkar við að ná boltanum, sem var mikilvægt þar sem Gerrard var oft mjög framarlega á vellinum.

 16. eina framherjaparið sem ég vil ekki sjá eru þeir tveir sem byrjuðu í gær. með þá inná saman er enginn hraði í framlínunni. en það er svo frábært þegar maður kemur heim hundfúll eftir svona leik. skárra en að verða fúll yfir því að tapa og detta útúr keppnum. en eins góður og Crouch var í gær þá er kominn tími til að skella honum á bekkinn. svo má hann koma inná á 70 mín. pressan á hann er orðinn svo mikil að það er farið að trufla allt í kringum liðið. Cisse á að vera alltaf inná.

 17. Ég var hrifinn af frammistöðu Crouch í leiknum. Bresku þulirnir komu með þá réttmætu athugasemd að það væri eins og Morientes tryði því ekki að Crouch gæti unnið sum skallaeinvígin sem hann fór í. Því byrjaði Morientes hlaupin aðeins of seint og missti af tækifærinu. Þetta batnaði þó í seinni hálfleik. Hann hefur fengið tiltal í leikhléi, 🙂

  Þulirnir töldu að Liverpool yrði enn öflugra þegar framherjarinr væru orðnir vanari hver öðrum.

  Já, ég er sammála mönnum um að Sissoko er búinn að standa sig ótrúlega vel. Hann gæti hæglega orðið stórstjarna hjá liðinu.

  P.H.

 18. Jammm, sammála með Sissoko. Maður þreytist reyndar fljótt á því að það sé verið að líkja mönnum saman við stórstjörnur, en mikið djöfull getur hann svipað til Patrick Vieira á góðum degi einsog í gær. Vieira var talsvert eldri þegar hannf fór virkilega að slá í gegn.

 19. Ég verð að viðurkenna að ég er hæstánægður með Livperpool liðið þessa dagana. Allt liðið er að spila vel og svo virðist sem menn séu sáttir við stöðu sína og hvern annan.

  Þá virðist einnig sem Rafa sé á réttri leið með liðið. Við erum að fikra okkur framar á völlinn og sköpum okkur mun fleiri færi en áður. Mörkin fara að detta inn. Sanniði til.

  Ég vil reyndar meina að það sé tilkomu Zendan að miklu leiti að þakka. Það að vera með sókndjarfan baráttujaxla á kanntinum gerir allt liðið massívara og heilsteyptara. Svo er staðan hans Gerrard á kanntinum og hvergi annarsstaðar.

  Í dag myndi ég helst vilja sjá nýja heimsklassa bakverði í liðið okkar. Þeir sem fyrir eru eru reyndar ágætir en ekki nógu góðir til að fleyta liðinu í fyrsta sæti í úrvalsdeildinni.

  Lið sem spilar svona vel og er með menn eins og Kewell, Alonso , Cisse og Garcia á bekknum hlýtur bara að vera ansi magnað.

  Reyndar hef ég á tilfinningunni að Crouch sé metinn út frá einhverjum öðrum mælikvarða en aðriri leikmenn. Það eru annsi margir senterar í heiminum í dag sem ég myndi frekar vilja hafa í Liver heldur en hann.

  Svo að lokum þyrftum við helst að vinna Chelsea í úrslitaleiknum í riðlinum. Nú þarf bara að koma smá sigurtilfinningu í liðið þannig að það fari að blómstra.

  En eins og ég segi – allt á réttri leið hjá Rafa.

 20. Já Einar svo ég svari þér þá vinn ég á næturnar svo það er kominn nýr dagur hjá mér strax eftir miðnætti….

 21. :biggrin: :laugh: :biggrin2: 😉 🙂 :blush: :tongue: :rolleyes: 😯 :confused: 🙁 😡

Cissé á bekknum …

16 liða úrslitin