Tumi Þumall

Þið verðið að afsaka fjarveru mína síðustu tvo daga, það er einfaldlega búið að vera brjálað að gera hjá mér í vinnu, skóla og persónulega lífinu. Aggi hefur verið duglegur að halda síðunni á floti, og það eru bara einhverjir 11 dagar eða svo í að Einar Örn komi aftur á klakann, en ég vonast til að geta skrifað meira sjálfur héðan í frá.

Allavega, eftir leikinn um helgina þá hefur sennilega ekki verið rætt jafn mikið um neinn leikmann Liverpool og Luis García. Ég hlustaði t.d. á þáttin Mín Skoðun með Valtý Birni á XFM í dag og þar hringdi einn Liverpool-aðdáandinn inn og kallaði Luis García “kellingu” og sagði að hann væri “of aumur fyrir enska boltann.”

Þannig að mig langaði aðeins til að fjalla um hann, og vonandi koma umræðum af stað. Ég veit að García – eins og t.d. Josemi, Riise og nokkrir aðrir leikmenn okkar – nýtur ekki einróma trausts aðdáenda; sumir dýrka hann, aðrir hata hann. Ég hugsa að ég myndi persónulega falla í fyrri flokkinn, þar sem mér finnst García nánast ómissandi fyrir liðið í dag (útskýri það hér á eftir), en tek þó undir það að hann getur enn bætt ýmislegt í leik sínum.

Mark Lawrenson skrifaði grein um García í Daily Post í dag, þar sem hann talaði um það að García hefði spilað illa á laugardaginn af því að hann er ekki vanur þeirri stöðu sem hann var að spila. Þetta er einfaldlega ekki rétt, þar sem García hefur margoft áður spilað í ‘holunni’ fyrir Liverpool, auk þess sem hann spilaði sem framherji hjá Atletico Madríd og lék á tíðum í ‘holunni’ fyrir Rafa Benítez hjá Tenerife.

Ef þið þurfið sönnunargögn um það að García kunni að leika á milli fremsta manns og miðju þá þurfið þið ekki að leita lengra aftur en viku. Hann var frábær gegn Real Betís í síðustu viku og skoraði markið sem réði úrslitum – alveg jafn frábær þar og hann var slappur gegn United. Jú, ég játa að fyrst eftir leikinn fannst mér García hafa leikið vel og fannst hann of harkalega gagnrýndur, en í gærkvöldi horfði ég á leikinn endursýndan á SkjáEnska og gaf leik hans sérstakan gaum.

Það sem ég sá var það sama og ég hef séð allt of oft áður. Við skulum setja þetta upp í jákvætt og neikvætt, því leikur hans á laugardag var ekki alslæmur:

JÁKVÆTT:
García er ekki latur. Hann vinnur vel og gerði það líka á sunnudag. Hann var út um allt á vellinum og það er ekki með nokkru móti hægt að segja að hann hafi ekki gert allt hvað hann gat til að skapa fyrir Liverpool. Þá hef ég ávallt verið reiður þegar svokallaðir aðdáendur kalla hann “kellingu” eða “aumingja” og/eða gefa í skyn að García sé of linur til að spila í ensku Úrvalsdeildinni. Það er einfaldlega ekki satt – sá fjöldi tæklinga og spjalda sem hann fékk í deildinni í fyrra sannar það. Horfið á næsta leik hjá okkur og berið hann í huganum saman við t.d. Freddie Ljungberg eða Arjen Robben. Er hann eitthvað meira “linur” eða meiri “kelling” en þessir, léttleikandi menn? Svar: nei!

NEIKVÆTT:
García er hins vegar lítill. Svo einfalt er það bara. Þegar Gianfranco Zola spilaði fyrir Chelsea þá var nánast pottþétt að hann missti boltann ef varnarmaðurinn náði að króa hann af eða þjarma að honum líkamlega. Galdur Zola fólst í því að hann hafði svo góðar hreyfingar að varnarmenn komust sjaldan eða aldrei nálægt honum. Það sama má segja að gildi um Shaun Wright-Phillips í dag, og García. García er lítill, og því á hann alltaf undir högg að sækja gagnvart stærri og burðarmeiri varnarmönnum, nái þeir að króa hann af, og því er hann háður því að geta notað snöggar hreyfingar sínar til að leika á þá. Það gengur oft, en það kemur fyrir í nánast hverjum einasta leik að hann missir nokkra bolta, eingöngu sökum stærðar (smæðar) sinnar. Það er ekki það sama og að vera latur/aumur/kelling!

Annað neikvætt er að á laugardaginn var García að hlaupa mikið og koma sér í stöður með boltann, stöður til að geta lagt upp færi fyrir samherja sína eða ná skoti á markið. Í þessum leik hins vegar gekk einfaldlega ekkert upp fyrir hann. Skotin hans enduðu nær undantekningarlaust í varnarmönnum United og það virtist sem rétt svo 1 af hverjum 5-6 sendingum hans rataði rétta leið, sem er vægast sagt slöpp tölfræði. Hann reyndi og reyndi en ekkert gekk.

MÍN SKOÐUN / NIÐURSTAÐA:
Það eru í rauninni til tveir Luis García, og þeir leika báðir fyrir Liverpool. Annar þeirra spilar u.þ.b. helming leikja liðsins, en sá García er ótrúlega skapandi, stórhættulegur, getur sótt úr öllum stöðum á vellinum, á heilan haug af stoðsendingum og er sérfræðingur í að skora mikilvæg mörk fyrir Liverpool – ekki síst í Evrópu.
Hinn Luis García spilar líka u.þ.b. helming leikja liðsins – hinn helminginn – en sá García er mistækur, í besta falli. Hann tapar boltanum auðveldlega, reynir of flókna/erfiða hluti á kolröngum stöðum eða vitlausum tíma, á það til að skjóta boltanum svo hátt yfir mark andstæðinganna að boltasækjarinn þarf að sækja hann út á bílastæði og virðist algjörlega fyrirmunað að gefa boltann á samherja.

Með öðrum orðum, þá er aðeins eitt sem háir Luis García: STÖÐUGLEIKI. Þetta eina er hins vegar, því miður, ansi alvarlegt því það þýðir að við vitum aldrei hvort eintakið af Luis García mætir út á völlinn. Verður það sá García sem getur slátrað dýrasta markverði heims, Buffon, eða sá sem lætur Kieran Richardson – sem hefur aldrei leikið bakvörð áður – dekka sig út úr leiknum? Er það sá Luis García sem Chelsea-menn eru skíthræddir við, eða sá Luis García sem Burnley-menn hlæja að?

Eitt skortir García ekki og það er dugnaðurinn og viljinn til að spila fyrir Liverpool, og ná árangri. Það er ástæða fyrir því að hann er nánast sjálfvalinn í byrjunarlið Rafael Benítez – hann er ekki einungis besti kostur okkar á hægri kantinn þessi misserin heldur sá leikmaður okkar sem er hvað mest skapandi. Hann er eini leikmaður liðsins í dag sem lætur sér detta í hug það sem enginn annar myndi þora að reyna. Það er nauðsynlegt að hafa slíka menn í liðinu – þótt hann klúðri 10 hælsendingum þá þarf bara ein að heppnast til að liðið skori dýrmætt mark. En á móti kemur að hann tapar fleiri boltum en nokkur annar miðjumaður í liðinu. Þetta er tvíeggja sverð – ef hann myndi ekkert reyna en aldrei tapa boltanum myndum við saka hann um að vera hugmyndasnauður leikmaður, en þar sem hann reynir helling og tapar nokkrum boltum í leik sökum við hann um að vera kærulausan.

Á meðan García er langmest skapandi leikmaður Liverpool sé ég enga ástæðu til annars en að hann sé í liði Liverpool, og er það vel. Hann var slappur gegn United um helgina, en hann vann Betís fyrir okkur fyrir viku. Fyrir hvern slappan leik sem hann leikur á hann annan þar sem hann er gersamlega ómissandi. Hann þarf að öðlast stöðugleika og læra hvenær er rétti tíminn til að reyna eitthvað óvænt og hvenær ekki. Ef hann lagar þetta verður hann lykilmaður í þessu liði, en þangað til held ég að við getum samt prísað okkur sæla með að hafa hann. Án hans væri þetta lið sem ekki skapar nóg á vængjunum enn minna skapandi, það verður að viðurkennast.

Sem sagt, mín skoðun er sú að García sé ómissandi í þetta lið en megi þó bæta sig helling áður en við getum verið fyllilega sáttir við hann. Þetta er oft spurning um valkosti og eins og staðan er í dag er hann besti kosturinn okkar á hægri kantinn og næstbesti kosturinn í ‘holuna’ á eftir Gerrard. Það er mín skoðun – hver er ykkar skoðun? Og plís, verið málefnaleg(ir) … ekki bara segja mér að hann sé kelling eða glataður glaumgosi, ég þoli ekki svoleiðis rökstuðning.

Hvað finnst mönnum? Eigum við að spila með Gerrard í ‘holunni’ og Pongolle á kantinum, eða er alltaf pláss fyrir García í liðinu?

14 Comments

  1. Ég vill að Benitez noti Pongolle í holunni, Garcia á kantinum og Gerrard á miðjunni. Annars er ég sammála þér, Garcia þarf stöðugleika og þarf að taka betri ákvarðanir hvað skal gera með boltann. Einsog í Chelsea leiknum í meistaradeildinni síðasta vetur þegar Garcia átti að hreinsa frá ákvað hann að reyna klobba John Terry, fáranleg ákvörðun alveg, þetta atvik er alveg límt í minni mínu. Annars er Garcia í miklu uppáhaldi hjá mér.

  2. Góð samantekt Kristján og þörf miðað við umræðuna sem er í gangi varðandi Garcia og já nokkra fleiri leikmenn LFC eins og Riise, Hyypia, Josemi o.s.frv.

    Ég er þér sammála að Garcia er gríðarlega skapandi leikmaður, hann getur skorað, búið til mörk og fleira til uppúr nánast engu. Hins vegar getur hann hitt líka þ.e. spilað hræðilega, líkt og hann gerði gegn Man U á sunnudaginn.

    Hann er í raun ekki senter, ekki kantmaður og ekki framliggjandi miðjumaður en um leið þetta allt saman. Ég vil meina að hans besta staða er í holunni því hann er slappur að “crossa” fyrir markið þegar hann er á kantinum. Vill þá oftast taka varnarmanninn á og fara inná miðjuna og pína sig í skotið.

    Garcia var svona í fyrra… spilað oft illa á útivelli en vel á heimavelli… illa í deildinni og vel í meistaradeildinni… hvað veldur? Óljóst en ég treysti Rafa fyrir því hvort Garcia sé nógu góður fyrir liðið og hvenær honum verður skipt út.

    Vil sjá Gerrard á hægri kantinum í næsta leik, 2 senterar, Garcia á bekknum, Zenden á vinstri kantinum og Alonso og Momo á miðjunni!

  3. Hvað getur maður sagt Dr. Jekyll og Herra Heyde. Kristján stundum spila þeir báðir sama leikinn og er þá öðrum þeirra skipt útaf í hálfleik. Mín skoðun er sú, García er snillingur hann heldur manni á sætisbrúninni þegar maður sér hann spila reynir snildar hluti með tuðruna og er sá leikmaður LFC sem er mest gaman að horfa á í augnablikinu. Einsog þú sagðir Kristján alltaf að allan leikinn, hann gafst aldrei upp á móti muuu og gerir það sjaldan.

    En ég vil sjá okkar menn spila 4 4 2 og García útá kanti því að það vantaði Cissé og hans mikla hraða á móti muuu, sjáið það fyrir ykkur þegar háu boltarnir koma fram og PC nær að skalla í autt svæði og Cissé tætir menn upp. Cissé og PC eiga eftir að ná vel saman þarna frammi bara spurnig um tíma, mér finnst PC vera koma vel á óvart, ég er einsog svo margir hristi hausinn þegar hann var fenginn til liðsins, hugsaði bara þvílíkt metnaðarleysi en hugsaði svo að Rafa er ekki bara að kaupa hann til að kaupa einhvern. Hann var að spá eitthvað og ég er farinn að sjá hvað það er PC heldur bolta vel og vinnur flesta skalla bolta sem hann fer í og þegar Cissé og hann byrja að klikka á hraðinn hjá Cissé eftir að skila PC helling af stoðsendingum :biggrin:

    Niðurlagið er það að García er snillingur og ef einhver er að kalla einhvern leikmann LFC “kellingu” ópinberlega má sá hinn sami far að fylgja einhverju öður liði, því hvað segir Þjóðsöngurinn okkar “You´ll Never Walk Alone” stöndum á bak við okkar menn ALLTAF. 😡

  4. García er vissulega duglegur leikmaður, við þurfum ekki að þræta um það. Það sem er meira vafamál er hvort hann er skapandi leikmaður.

    Hvað er það sem prýðir skapandi leikmann? Það má eflaust tína nokkur einkenni til, en svona í hnotskurn er það leikmaður sem með sendingum sínum og/eða leikni kemur sér og öðrum í ákjósanlegar stöður á vellinum. Dæmi um slíka menn úr herbúðum Liverpool eru Barnes, McManaman, Gerrard, Mölby og ótal fleiri sem betur fer.

    García getur gert óvænta hluti, komið sér og öðrum í ákjósanlegar stöður og skorar við og við falleg mörk. Spurningin sem svara þarf er eiginlega hversu hátt hlutfall af skapandi tilburðum þurfa að ganga upp til að leikmaður teljist skapandi og verðskuldi sæti í liðinu á þeim verðleikum? Fyrir minn smekk er García alltof mistækur til að hægt sé að réttlæta veru hans í liðinu á þeim forsendum að hann sé ómissandi skapandi leikmaður. Okkur sárvantar auðvitað slíka menn, Riise og Pongolle á köntunum, úff…

    Í augnablikinu eigum við líkast til ekki marga aðra möguleika og því er kappinn með betri kostum til að auka sóknarþunga okkar. Hann hefur auðvitað enn tíma til að sanna sig og vonandi fjölgar gáfulegum ákvörðunum hans þegar hann er með boltann í lykilstöðu í sóknarleik okkar.

    Ég held samt sem áður og okkar menn væru sterkari með Gerrard í “holunni” og Sissoko inná á kostnað Pongolle eða Garcia. Og auðvitað verður það heilmikill liðstyrkur að losna við Riise og fá Kewell inn á ný. Vonandi fáum við svo vandaðan hægri vængmann á útsölu í janúar.

  5. allir sem halda því fram að garcia eigi að vera fasta maður í liverpool liðinu eru á rangri braut..strax og ég sá hann leika fyrir liverpool sagði ég við vin minn..guð hvað er nú tetta..og í dag er ég búinn að fá mig full saddann af þessari kellingu..liverpool aðdáendur eru þið blindir..sjáið þið það ekki að það eru garcia crouch og morientes sem eru að draga liverpool niður í kjallarann..að vera með tvo sleða og einn sprellugosa í sókninni leik eftir leik sem býður bara upp á 0-0..rafa hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera í sókninni..

  6. Ég man ekki töluna í augnablikinu en ég veit að Garcia skoraði ótrúlega flott mörk á síðasta keppnistímabili, sérstaklega í meistaradeildinni. Tek undir með Kristjáni og öðrum að hann vantar stöðugleika umfram annað. Hann hefur allt finnst mér á góðum degi. Ég dýrka hann kannski ekki en hann er mjög ofarlega skrifaður hjá mér.

  7. >”búinn að fá mig fullsaddan af þessari kellingu … tvo sleða og einn sprelligosa … rafa hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera í sókninni …”

    MR.DALGLISH ~ þar með hefur þú sýnt að þú hefur ekki vitsmuni til að ræða þetta á skynsamlegum nótum. Takk fyrir það. Blótaðirðu honum líka þegar hann skoraði gegn Juve?

    Þið hinir, takk fyrir góð svör. Ég tek undir það með ykkur að García er mjög mistækur leikmaður, en eins og Baros benti á, þá er þetta spurning um hversu mörg mistök maður á að þola áður en maður kippir honum út úr liðinu. Að mínu mati verður hann að fara að bæta stöðugleikann, en ég vill samt sjá hann áfram inná – þó ekki sé nema bara upp á hið óvænta, hann á það jú til að vinna leiki fyrir okkur.

  8. Ég hef ávallt haldið uppá hann þar sem mér hefur alltaf fundist hvað skemmtilegast að fylgjast með honum enda er ég eflaust eini maðurinn á landinu með nafnið hans á treyjunni minni. :biggrin: En þó ég haldi upp á hann hefur maður oft svekkt sig á honum. Rétt er með fjölda heppnaðra sendinga en þegar þetta heppnast þá er maður á tánum öskrandi “MARK”.
    Ég innilega vona að hann lagi stöðugleikann.

    Eitt sem ég hinsvegar ekki fatta er munurinn á Meistaradeild Evrópu og Úrvalsdeildinni, Er þetta 70% sálrænt ?

    Flestir hérna eru sammála mér með það að hann er Einn Fyrsti maður inn þegar kemur að því að spila í meistaradeildinni?

    Hefur einhver hérna Góða útskýringu á því ? :confused:

  9. Ég ætla ekki að dæma veru Garcia í rauða búningnum, né ákjósanlegustu stöðuna, því hann hefur sýnt það að hann á heima hjá okkur og getur leikið þær stöður sem honum eru ætlaðar stundum vel og stundum ílla, eins og fram hefur komið. Ég vill frekar vekja upp umræður um hvort okkar menn hafi ekki verið of ragir að taka leikinn gegn manure algjörlega í sínar hendur. Mér fannst Rafa mega skifta Cisse inn miklu fyrr og leggja upp með 2 sóknarmenn strax í byrjun seinni hálfleiks. Mér fannst Sinama hafa staðið sig vel á kantinum og því hefði ég viljað sjá Cisse koma inn fyrir Garcia. Mér fannst við mega pressa á fleiri mönnum, því Rio og Silvestre áttu ekki mikið eftir í niðurbrot. Ég hef það á tilfinningunni að Sinama gefði getað valdið enn meiri usla á kantinum þegar Cisse ógnar með hlaupum í holuna milli bakk og center-bakk. Sinama átti víst ekki mikið þrek eftir, þannig að ég hefði vilja skifta Momo inn um miðjan seinni hálfleik (eftir 1 mark ;o) og færa Gerrard út til hægri og þannig haldið pressu með breiðri miðju og 2 öfluga frammi. Hafi Crouch verið búin á því, má færa Gerrard upp, Finnan fram og Josemi inn, eða Carra til hægri og Traore inn. En ok þetta eru vangaveltur sem mér finnst að hefði mátt prufa til að brjóta niður veikt manure lið. Hvað finnst ykkur?

  10. Ég vill bæta því við að mér fannst Garcia lélegur í þessum leik (mistækur) og því átti að skipta honum út fljótt, hann var ekki að bæta sig á kanntinum.

  11. Garcia er þannig leikmaður að annað hvort þola menn hann ekki eða elska hann. Fyrir mitt leiti þá er ég nær því að elska hann. Auðvitað gerir hann mistök, en hver gerir það ekki.

    Er betra að spila með Finnan eða Potter á kantinum. Leikmenn sem eru gjörsamlega fyrirsjáanlegir og gera ekkert nema einhver sé búinn að búa til hlutina fyrir þá. Nei takk.

    Eins og staðan er í dag þá er Garcia besti kostur okkar á hægri kanti og á því að spila þar. Pongolle er númer 2, en munum hann er sóknarmaður að upplagi ekki kantari.

    Og hvernig geta menn sagt að hann sé lélegur, leikmaðurinn er í spænska landsliðinu og var/er einn af lykilmönnum okkar í meistaradeildinni(sem við unnum).

    Nefnið einn leikmann í liði LFC sem fær mann til að segja “vá sástu þetta”.

    Svo er það nú þannig í bolta yfir höfuð að ef þú reynir ekki þá gerist ekkert. Aggi ætti til dæmis að þekkja það úr handboltanum, þeir bestu þar hætta ekki þó að búið sé að verja fyrstu skotin þeirra, nei þeir halda áfram þangað til að tuðran liggur í netinu. Eins á við um körfuna. (Þetta innskot var fyrir Agga)

    Kveðja
    Krizzi

  12. nokkrir leikmenn sem eru afar teknískir (líkt og ég var)… 🙂 Njótið!

    Linkurinn: [http://media.putfile.com/fussball/wide](http://media.putfile.com/fussball/wide)

    Kórrétt Krizzi og maður þarf ekki að vera nálægt þeim bestu til að átta sig á því að ef þú skýtur nógu oft… þá hlýtur það að enda með marki.

    Tek orð Guðjóns Þórðar og geri þau að mínu: Ef þú reynir ekki markskot þá skorar þú ekki!

  13. Luis Garcia er best lýst sem jójó. Ég get samt sem áður ekki séð hann sem mikilvægann leikmann í liðinu í augnablikinu því að fyrir utan hversu oft hann tapar boltanum þá brýtur hann líka oft á sér þegar að hann reynir að bæta fyrir það og gefur frá sér aukaspyrnur á hættulegum stöðum. Vissulega skoraði hann 13 mikilvæg mörk á síðustu leiktíð en þau coveruðu hversu lélegt tímabil hann átti í deildinni í raun og veru, svipað og með Liverpool að þrátt fyrir CL þá var þetta hræðilegt tímabil í deildinni.

    Ef að Garcia fer ekki að líta í eigin garð kæmi mér ekki á óvart að hann yrðir seldur eftir tímabilið ásamt Morientes (sem að kæmi mér ekkert á óvart að færi í janúar) því að Benitez er miskunnarlaus framkvæmdastjóri og er ekki hræddur við að játa eigin mistök, en hans vegna vona ég að hann taki sig saman í andlitinu.

    En talandi um að hafa þetta á málefnanlegum nótum, varst þú (Kristján) svona málefnanlegur fyrir ástæðunum hversvegna þú villdir EKKI fá Peter Crouch til Liverpool? 😯

  14. Ég er algerlega sammála Krizza (og Agga) hér að ofan. Það gerist ekkert nema menn reyna. Þetta fanst mér vera aðal vandamálið á Hullier tímabilinu. Menn voru einfaldlega hættir að þora að reyna.

    Þetta er líka ástæðan fyrir því að ég fíla Kewell en ekki Riise. Riise er löngu hættur að reyna að taka menn á. Sendir boltann lang oftast til baka á bakvörðinn. Það má þó margt gott segja um Riise en ég held að Hullier hafi náð að sterílesera hann eins og Heskey o.fl.

    Kewell eins og Garcia er alltaf að reyna. Vandamálið við þetta er að sá sem reynir að sóla annan leikmann mistekst annsi oft og þá er auðvelt að gagnrína.

    Þessir leikmenn eru samt yfirleitt þeir sem ráða úrslitum leikja og það er skortur á þessum leikmönnum sem aðallega vantar í liðið í dag.

    Frábærar fréttir að Kewell sé að koma til baka.

    Og af því að þið minntust á handboltann þá man ég eftir leik þar sem Patti átti 15 skot og 1 mark. Hætti aldrei að punda á markið. Svo man ég ekki eftir því að Aggi hafi sent boltann þegar hann spilaði með KA hérna um árið. Reyndi alltaf skot á markið þegar hann fékk boltann. Gaf hann aldrei. 😉

Ýmsar vangaveltur um hitt og þetta sem snertir Liverpool.

Benitez bestur í Evrópu og Kewell að verða klár.