L’pool 2 – Kaunas 0

Jæja, okkar menn kláruðu dæmið í kvöld og eru komnir á sama stig og Everton & Man U eftir síðbúinn 2-0 sigur á Kaunas á Anfield í kvöld. Ég missti af fyrri hálfleiknum en skilst á þeim sem sáu hann fyrir mig að það hafi nákvæmlega ekki neitt markvert gerst á þeim 45 mínútum. Eins og Einar kom inná hér áðan, þá voru Crouch og Morientes frammi saman og höfðu víst báðir hægt um sig. Að sögn þeirra sem sáu leikinn var Sissoko sennilega bestur í daufu liði Liverpool í fyrri hálfleik.

Í hálfleik tók svo Rafa Morientes útaf og setti Cissé inná – hvort það var útaf meiðslum eða slöppum leik veit ég ekki, en leikur liðsins var allavega allt, allt, allt annar eftir að Cissé kom inná. Hann var nákvæmlega eina ógnin í seinni hálfleik og átti markið sem hann skoraði undir lok leiksins fyllilega skilið. Hefði getað skorað tvö í viðbót með smá heppni.

Eins og venjulega þá var ekkert að gerast þangað til Steven Gerrard kom inná, þegar 17 mínútur voru eftir. Þegar 14 mínútur voru eftir vorum við svo komnir í 1-0, boltinn lak á milli fóta markvarðar Kaunas eftir fast skot Gerrard. Cissé innsiglaði þetta svo.

MAÐUR LEIKSINS: Djibril Cissé og Mohammed Sissoko fá þennan heiður saman, og Gerrard fær Óskarsverðlaun fyrir besta aukahlutverk. Sissoko var víst góður í síðari hálfleik og studdi það sem ég sá til hans í síðari hálfleiknum alveg fyllilega undir þá tilgátu, á meðan Cissé sýndi enn og aftur að hann er langbeittasti sóknarmaður okkar um þessar mundir. Mér er einfaldlega spurn; þurfum við Michael Owen eins og hann er að spila? Hann er nú kominn með 3 mörk í 4 alvöru leikjum á þessu tímabili, en Stevie Wonder er kominn með 7 mörk í þessum 4 leikjum. Gott hjá þeim.

Annars er Milan Baros til í að fara til Everton, sem þýðir að honum er nákvæmlega skítsama um það hvernig Rauðir Púllarar munu hugsa til hans að honum förnum. Gott hjá honum, svekkjandi fyrir þá okkar sem hafa reynt að verja hann í gegnum tíðina. Þá vill ég frekar sjá hann fara til Aston Villa.

Jamm. CSKA Sofia frá Búlgaríu skilst mér eftir viku, vonandi verða engin slys þá. Við erum skrefi nær því að komast inn í Meistaradeildina, þar sem titilvörnin mun fá fullt stými áfram, og næsti leikur þar á eftir er gegn Middlesbrough í 1. umferð Úrvalsdeildarinnar. Þetta er allt að skella á! 🙂

10 Comments

  1. Mér fannst Sissoko og Whitbread vera menn leiksins – Cisse og Gerrard komu sterkir inn, en yfir heildina Sissoko og Whitbread.

  2. Whitbread var vissulega góður, og ég verð að segja eftir að hafa horft á fyrri hálfleikinn á spólu að Morientes & Crouch voru ekki næstum því eins slappir og mitt fólk var að gefa í skyn. Morientes var út um allan völl að reyna, náði upp góðu spili á köflum við García og var nálægt því að skora mark á 14. mínútu. Það gekk bara einfaldlega ekkert upp af því sem hann var að reyna í þessum leik, en hann var þó að reyna og var mjög virkur í spilinu.

  3. Þurfum við semsagt ekkert að kaupa nýjan miðvörð? Er Whitbread bara málið? 🙂

  4. ég veit ekki hvort hann sé nogugóður til að spila í úrvalsdeildinni eða a móti liðum í meistaradeildinni einsog AC Milan eða Lyon.

  5. Whitbread er vissulega góður og mun verða notaður, ef þörf er á, gegn stærri liðunum í vetur. Af því læra þessir ungu leikmenn, þannig fá þeir reynsluna.

    Það breytir því samt ekki að okkur vantar ennþá einn miðvörð – ef við teljum Whitbread með erum við bara með 3 miðverði í 2 miðvarðastöður, og þurfum því fjórða manninn til að vera með “tvo menn í hverri stöðu” eins og Rafa segir oft.

  6. Mejani er farin að láni til Metz að ég held.

    Annars verð ég að viðurkenna að ég hef alltaf haft meiri trú á Medjani heldur en Zak, þó svo að ég hafi aðeins séð fáeina leiki með þeim. Zak átti þó góðan leik í gær en að mínu mati er hann alls ekki maður til þess að valda því að vera 3-4 miðvörður á þessari leiktíð.

    En í sambandi við leikinn í gær þá fannst mér innkoma Cissé mjög góð. Mikið lítur strákurinn vel út á vellinum. Hann er eins og eldflaug í allar áttir. Ég er farinn að hlakka verulega til að sjá hann í vetur. Momo var einnig öflugur og barðist vel inná miðjunni. Annars held ég að það sé ekki á neinn hallað þegar maður segir að leikurinn var fremur slakur.

    Liðið á þó eftir að spila sig betur saman og það verður gaman að fylgjast með framvindu mála…

  7. Zak var góður í þessum leik. Hann var mjög yfirvegaður í öllum sínum aðgerðum og það fannst mér mjög gaman að sjá. Við þurfum vissulega einn miðvörð til viðbótar en ég held að Zak muni fá 5-10 leiki í vetur.

Liðið gegn Kaunas

Crouch frá í þjár vikur