Kaunas 1 – L’pool 3

Ókei, þannig að okkar menn fengu smá selbit í kinnina í kvöld en unnu samt 3-1 á útivelli. Eftir frekar rólega byrjun á leiknum virtust okkar menn detta í gírinn á ca 15. mínútu, en það dugði aðeins skammt því að Kaunas-menn komust yfir á 20. mínútu, nær algjörlega gegn gangi leiksins.

Það var Sami Hyypiä sem lét grípa sig kaldan á vængnum hægra megin og kantmaður þeirra, sem fór auðveldlega framhjá honum með boltann, lék inní teiginn og gaf svo fyrir á nærstöngina, þar sem Barevicius kom aðvífandi á undan Reina og setti boltann í netið. 1-0 fyrir Kaunas og maður spurði sig hvort maður ætti að örvænta? Svarið var einfalt: nei nei, hvaða vitleysa er þetta eiginlega…

Liðið sem hóf leikinn í kvöld var eftirfarandi:

Reina

Josemi – Carra – Hyypiä – Riise

Potter – Gerrard – Alonso – Zenden

Crouch – Cissé

Finnan er enn eitthvað smá veikur, Traoré er enn frá vegna smá hnjasks og þeir Kewell, Pongolle og Mellor verða frá í a.m.k. mánuð í viðbót. Í seinni hálfleik kom Momo Sissoko inn fyrir Gerrard, Morientes inn fyrir Crouch og García inn fyrir Potter.

Allavega, eftir að lenda undir var eins og okkar menn vöknuðu almennilega. Eftir 20. mínútuna fór leikurinn nær eingöngu fram á síðasta þriðjungi vallarins, Kaunas-megin. Okkar menn fengu mikið af færum og sérstaklega mikið af fyrirgjöfum, og voru fljótri að refsa.

Á 27. mínútu barst boltinn út til vinstri á Zenden, sem leit upp og sendi svo háan og flottan bolta inní teiginn. Boltinn datt niður úr loftinu á – óvænt! óvænt! – Peter Crouch sem vann skallaeinvígi sitt og skallaði boltann fyrir fætur Cissé, sem þakkaði pent fyrir sig og negldi boltanum inn við nærstöng. 1-1, og stuðningsmenn Liverpool búnir að fá sýnikennslu í því hvers vegna Crouch var keyptur. Ég spái því að hann eigi eftir að búa til a.m.k. 10-15 svona mörk í viðbót, með því að skalla á samherja sem skorar úr góðu færi.

Nú, enn hertu okkar menn tökin á leiknum þar sem þeir Alonso og Gerrard voru kóngar í ríki sínu á miðjunni, Josemi og Riise pressuðu upp vængina með þeim Zenden og Potter sem nýttu sér frelsið og dældu boltunum fyrir. Crouch var í tvígang nálægt því að skora eftir góðan undirbúning Zenden og Riise og Potter hefðu einnig getað skorað ef þeir hefðu ekki báðir átt slappa fyrstu snertingu. Þá hefði Cissé getað skorað þrennu í þessum leik, ef hann hefði klárað restina af færum sínum jafn vel og hann kláraði það fyrsta.

Markið sem kom okkur yfir kom í raun úr ólíklegustu átt – Gerrard tók hornspyrnu frá vinstri á 29. mínútu og boltinn rataði beint á kollinn á JAMIE CARRAGHER … já, Jamie Carragher … utarlega í teignum. Carra skallaði kröftuglega að marki og fór boltinn yfir línuna, þó með viðkomu í tá Kaunas-leikmanns. 2-1 fyrir Liverpool og Carra að skora fyrsta mark sitt fyrir Liverpool í átta ár held ég. 🙂 Megi þau verða sem flest!

Þannig var staðan í hálfleik, og í seinni hálfleik bættum við við einu marki þrátt fyrir nær stanslausa sókn. Á 54. mínútu átti Gerrard gott hlaup upp að vinstra horni vítateigs Kaunas, þar sem hann var felldur og vítaspyrna dæmd. Gerrard tók vítið sjálfur og skoraði sitt sjötta mark í þremur alvöruleikjum á þessu tímabili. Hann skoraði þrettán mörk fyrir Liverpool á síðustu leiktíð en er nú þegar kominn með helminginn af þeirri tölu – og júlí er ekki búinn!

3-1 og þrátt fyrir stórsókn í lokin þar sem m.a. Cissé, Zenden, García og Morientes fengu allir góð færi þá náðum við ekki að bæta við marki. Ekki þarf þó að örvænta mikið, þetta Kaunas-lið er betra en T.N.S. en ekki svo að við þurfum að hafa áhyggjur af seinni leiknum, 3-1 forysta er alveg feykinóg veganesti fyrir leikinn á Anfield. Ég geri ráð fyrir öruggum sigri þar, og þá erum við loksins komnir þangað sem við áttum að vera í upphafi: í 3. umferðina (það verður einmitt dregið í 3. umferðina á föstudag – það verður spennandi að sjá hverja við fáum þá).

MAÐUR LEIKSINS: Mér fannst liðið í heild spila vel; reyndar var vörnin frekar lengi í gang en eftir það var ekki feilnótu að finna á liðinu. Josemi og Riise, sem voru frekar daprir gegn Olympiakos á laugardag, voru með betri mönnum í kvöld og spiluðu vel. Sérstaklega fannst mér gott mál að sjá Josemi spila 90 mínútur af fullum krafti í fyrsta sinn í einhverja átta mánuði, og það er ljóst að ef hann heldur svona áfram og bætir við sig smá sjálfstrausti (maður bókstaflega sjá hann fá meiri trú á sjálfum sér eftir því sem leið á leik í kvöld) þá gæti það orðið mikilvægt fyrir okkur að fá hann sterkan inn. Við þurfum alla þá breidd sem við getum þegið hægra megin.

Þá ber að nefna framherjana tvo, Cissé og Crouch, sem spiluðu mjög vel í kvöld. Zenden var okkar hættulegasti maður í fyrri hálfleik og dældi boltum inní teiginn – mikið svakalega líst mér vel á þau ‘kaup’ okkar – og García átti mjög góða innkomu síðustu 20 mínútur leiksins.

Maður leiksins var þó aðeins einn: XABI ALONSO. Þótt það sé freistandi að gefa Carra heiðurinn vegna marksins þá var Alonso út um allt í dag. Hann hefði sennilega getað unnið Kaunas-liðið einn síns liðs í kvöld, hann var heilinn í sóknarleik okkar og sinnti varnarhlutverkinu það vel að sjálfur Didi Hamann hefði verið stoltur af. Alonso og Gerrard hafa nú drottnað yfir T.N.S. og Kaunas í Meistaradeildinni í sumar og vonandi verða fórnarlömb þeirra fleiri er líður á tímabilið!

e.s.
GABRIEL MILITO KEMUR EKKI TIL OKKAR – hann framlengdi í dag samning sinn við Real Zaragoza. Þannig að við erum enn að leita að miðverði til að létta á álaginu hjá Sami & Carra. Sjáum hvað setur næstu daga.

7 Comments

  1. Er þá ekki málið bara að snúa sér aftur að Upson, en annars góður sigur hjá okkar mönnum og fyrsta Carra í sex ár held ég las það eihverstaðar áðan en gleði gleði gleði :biggrin:

  2. Já góður sigur og til hamingju Carra með frábært mark.

    Eftir þennan leik er nokkuð ljóst að Liverpool þarf á öðrum miðverði að halda. Miðverði í gæðaflokki Gallar, Upson eða King. Hyypia er traustur en úthaldið og hraðinn bíður ekki upp á 70 leikja tímabil.

    Og hægri katmanni, þó harry potter sé ágætur gegn T.N.S og Kaunas þá vantar mikið upp á til að hægt sé að tefla honum fram gegn betri liðum deildarinnar og meistaradeildarinnar.

    Þetta reyndar veit hann Benitez enda erum við að leita að mönnum í þessar stöður.

    Annars var ég mjög ánægður með leik Zenden. Þarna eru við komnir með eitt stikki frábæran mann á vinstri kantinn. Vonandi helst hann heill og heldur áfram að dæla boltanum inn í teig andstæðinganna.

    Eftir þessa fyrstu leiki er ég með smá efasemdir um einn leikmann. Morientes, hann er ekki alveg að slá í gegn, þó þetta séu leikir á (æfingatímabili)þá finnst mér að hann ætti að geta sýnt meira. Vantar smá hörku í kallinn, en vonandi kemur þetta fyrr en síðar.

    Þarna er kominn ástæða til að halda Baros, því EF moro finnur sig ekki í vetur þá eigum við bara tvo strækera sem verða að sjá um alla markaskorun frammi.

    Kveðja
    Krizzi

  3. Að mínu mati má alveg segja nokkur orð um frammistöðu Sissoko. Þó að drengurinn hafi kannski ekki átt stórleik þá sá maður rosalega margt jákvætt í honum og með smá reynslu gæti hann orðið rosalega öflugur fyrir Liverpool. Þó að frammistaða hans hafi óneitanlega fallið í skuggann á frammistöðu Xabi 😉

  4. Er einhver annar þarna úti ekkert hissa á að Rafa skuli vera að leita að einum hægri bakverði í viðbót, það er bara mín skoðun að því miður að þá er Josemi ekki að virka í hægri bakverðinum, hann einfaldlega ekki nógu sterkur varnarlega séð og þaðan af síður sóknarlega að mínu viti. Ég veit að þú Kristján Atli heldur aðeins uppá hann en ég sé bara ekki þessa hæfileika hans sem þú sérð, því miður, bara í markinu í gær að þá er Potter nær því að koma í varadekkninguna á sóknarmanninum en Josemi sem ætti að hafa gaurinn í vasanum.

    Annars verður að taka þessa leiki aðeins með smá fyrirvara, þó að þeir séu í “meistaradeildinni” að þá eru þetta bara eiginlega preseason leikir og maður sér það alveg greinilega að okkar menn eru ekki komnir á 100% skrið, þeir eru varla komnir á 80%, svo þetta er allt á réttri leið finnst mér, 3 leikmenn í viðbót og við gerum atlögu að öllum bikurum í vetur, þar á meðal í bikarkeppninni 🙂

    Kv Stjáni

  5. Einar og Kristján eru búnir að skamma mig svo mikið fyrir ummæli mín um Josemi að núna segi ég bara “no comment!” :tongue:

Liðið gegn Kaunas komið

Figo til Inter? Bleeeeeh (uppfært)