Zenden og hinir þrír!

Vitiði, þessi sápuópera með fyrirliðann er orðinn gjörsamlega óþolandi. Í dag staðfesti Rafa Benítez fjögur leikmannakaup og sagðist munu kaupa 2-3 í viðbót í þessari viku, sem væru stærstu fréttir sumarsins alla aðra daga! En hvað gerir pressan? Jú, hún slúðrar sig á bólakaf í þessu Gerrard-máli.

Ég nenni þessu ekki lengur. Mig langar að fókusera aðeins á það jákvæða við þennan dag. Sem er: Boudewijn ZENDEN, José REINA, Mark GONZALEZ og Antonio BARRAGAN!

Byrjum á byrjuninni. Fyrsti leikmaðurinn var kynntur á blaðamannafundi í dag. Á þessum blaðamannafundi, sem flestir hafa eflaust horft á á .tv eða Sky í dag, talaði Bolo Zenden um ákvörðun sína að ganga til liðs við Liverpool. Þá tjáði Rafa sig einnig um kaupin á Zenden, staðfesti kaupin á hinum þremur og upplýsti um 2-3 kaup í viðbót áður en vikan er úti. Og jú, hann tjáði sig um Steven Gerrard.

En allavega, á eSeason-svæðinu á .tv-síðunni er að finna u.þ.b. 15-mínútna langt viðtal sem Steve Hunter tók við Bolo Zenden í dag. Ég get ekki mælt nógu sterklega með því að þið tékkið á þessu viðtali! Fyrir utan það að tala langbestu enskuna af öllum útlendingum í ensku Úrvalsdeildinni, þá varð ég bara yfirspenntur að heyra hvað Zenden hafði um Liverpool – og framtíð liðsins undir stjórn Rafa – að segja. Meðal þess sem kom fram var þetta:

1. Hann man eftir Ian Rush og hinum stjörnunum af 9. áratugnum úr sinni æsku (fæddur ’76) en hann þekkti og gat talið upp flestar af stórstjörnum 8. áratugarins. Þá talaði hann um að ganga eftir göngum Anfield og/eða bikarasafninu og sagðist fá gæsahúð þegar hann sæji þessa glæstu sögu þessa klúbbs.

2. Hann skaut á Chelsea, hehe. Tilvitnun: “…and of course, now Chelsea have taken a few steps forward, because they can invest as much as they want in players…” -og svo brosti hann. Sem sagt, fyrsta viðtalið sem Liverpool-maður og hann skaut strax á Chelsea. Það rennur rautt blóð um æðar þessa gæja… 😀

3. Hunter spurði hann hvort Rafa hefði rætt eitthvað við hann um hlutverk hans hjá liðinu. Bolo játti því og sagði að Rafa hefði talað um hann sem miðjumann, með möguleikann á að nota hann á vængnum. Sem sagt, ef Gonzalez er vinstri kantmaður og Zenden er hugsaður sem miðjumaður, tel ég nokkuð skothelt að Rafa ætli að fá hægri kantmann líka. Stelios? Figo?? Hmmm???

4. Hann talaði mjög vel um The Kop og stuðningsmannahóp Liverpool. Hann lýsti í smáatriðum þeirri kvöldstund sem hann átti á hóteli í miðju sumarfríi sínu, þar sem hann sat og horfði á úrslitaleik Meistaradeildarinnar og nánast studdi Liverpool-liðið – þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um það þá að hann myndi semja við það lið sex vikum síðar. 😉

5. Hann talaði um framtíðina, sagðist vera kominn á Anfield til að gera sitt besta til að hjálpa Liverpool að vinna fleiri titla, og einnig lagði hann áherslu á að hann langaði að vinna deildina með Liverpool. Mig grunar að það sé smá hefndarhugur í honum, þar sem hann hrökklaðist frá Chelsea sumarið sem Abramovitch keypti þann klúbb og hefur eflaust hugsað þeim þegjandi þörfina síðan.

Sem sagt, Boudewijn Zenden er kominn til Liverpool og ég held að menn geri sér ekki alveg fyllilega grein fyrir því hversu mikið þessi leikmaður á eftir að styrkja okkur. Gott dæmi til samanburðar gæti verið Robert Pires. Hann lék fyrir nokkur góð lið, s.s. Parma og Marseille, áður en hann gekk til liðs við Arsenal. Hjá þessum góðu liðum var hann jafnan besti leikmaðurinn en svo þegar hann komst loks í rosalega gott lið þá blómstraði hann, og hin liðin nöguðu sig í handarbökin yfir að hafa sleppt honum.

Zenden gæti verið svipuð týpa fyrir okkur – látið ykkur ekki koma á óvart, ef við erum á góðu róli í deildinni næsta vetur, þótt einhverjir Chelsea-aðdáendur fari allt í einu að sjá eftir því að hafa leyft þessum kappa að fara. 😉


Hinir þrír sem við höfum fest kaup á eru svo leikmenn sem fæstir þekkja jafn mikið til og Zenden, en þar sem ég hef fylgst mikið með spænska boltanum ætti ég að geta hjálpað eitthvað til með það. Ég ætti, já, en því miður þá er ég alveg jafn grunlaus og þið hin með tvo þeirra: þar sem Antonio Barragan, hinn 18 ára hægri bakvörður, lék aldrei með aðalliði Sevilla hef ég eðlilega aldrei séð hann spila. Það fer þó víst gott orð af honum og hef ég heyrt honum lýst sem svo að hann sé ekkert ólíkur Ashley Cole á velli. Hann ku vera mjög sókndjarfur bakvörður, en getur þó spilað miðja vörn – sem er nákvæmlega sú lýsing sem ég myndi velja á Josemi okkar. Josemi var í dag orðaður við Villareal, þannig að maður veit ekki alveg hvaða áhrif kaupin á Barragan hafa á framtíð hans hjá Liverpool.

Mark Gonzalez (sjá mynd) er alveg svakalega frægur í Chile – væntanlega vegna fagurs útlits – og hefur verið kallaður Ameríku-Beckham í nokkrum fjölmiðlum erlendis eftir að hann var orðaður við Liverpool. Því miður hef ég ekki séð hann spila en kunnugir líkja honum við leikmenn á borð við José Antonio Reyes og Ricardo Quaresma. Þá ku hann vera alveg fáránlega fljótur, þannig að ég býst við að hann sé okkar næstfljótasti maður í dag … þar sem það er ekki mögulega hægt að hlaupa hraðar í takkaskóm en Djibril Cissé gerir. 🙂

José Manuel Reina er sá þriðji og hann þekki ég vel – það ættu flestir lesendur þessarar síðu líka að gera. Markvörður Villareal síðustu tímabil og nú spænska landsliðsins – Reina er gríðarlega öruggur og góður leikmaður. Hann er aðeins 22ja ára gamall en hefur þó þegar spilað hátt í 200 leiki sem atvinnumaður í efstu deild Spánar, bæði með Barcelona og Villareal. Hann hefur einu sinni áður spilað á Anfield – hann var í marki Barca vorið 2001 (þá aðeins 18 eða 19 ára gamall) þegar við unnum þá spænsku 1-0 í UEFA-keppninni. Gary McAllister tók vítaspyrnu í þeim leik og skoraði sigurmarkið án þess að Reina kæmi nokkrum vörnum við.

Eitthvað hefur hann þó bætt sig í vítaspyrnunum, þar sem hann varði víst 10 af 13 vítaspyrnum sem Villareal-liðið fékk á sig á síðustu leiktíð.

Nú, mér líst stórvel á þessi kaup – fjórir leikmenn komnir inn sem bjóða upp á mikla fjölbreytni og (loksins) stöðugleika í markið, mikilvægustu stöðu liðsins! Við þetta bætist svo að Rafa hálfpartinn lofaði 2-3 leikmönnum til viðbótar áður en vikan er úti, svo nú er bara um að gera að reima á sig grifflurnar og skjóta á nöfn.

Mín spá? Luis Figo, Matthew Upson og Dirk Kuijt! 😀 Sjáum hvort maður hefur rétt fyrir sér í vikulok…

7 Comments

  1. Fínn pistill. Myndin af Gonzales er algjört æði. Ég hló allavegana þegar ég sá hana. 🙂

    Ég legg til að við notum hana í hvert skipti, sem við fjöllum um hann. Ætli það verði þá ekki sér blaðamannafundur fyrir Reina, Gonzales og Barragan?

    Annars, þá tala [YNWA menn um að nöfnin þrjú](http://www.ynwa.tv/forum/index.php?showtopic=68286) séu Crouch, Milito og Figo. Heldur vildi ég sjá þau þrjú, sem að þú nefnir.

    Einnig var ég að [uppfæra](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/07/04/18.40.41/) þráðinn hér á undan, sem fjallar um snoðaða gaurinn, sem spilar á miðjunni hjá okkur. Man ekki nafnið akkúrat núna 🙂

    *In the morning, things will be better*

    Saknar annars einhver gúrkunnar? :biggrin2:

  2. Ég hlakka ekkert lítið til að nota þessa mynd í vetur … aftur, og aftur, og aftur, og aftur.

    Hér með er komin á ný regla á Liverpool Blogginu: bannað að nota raunverulegar myndir af Mark Gonzalez! :biggrin:

  3. Nei, Bjarki, Hobbs er ekki að skrifa undir samning hjá Liverpool, hann er bara til reynslu og við megum bóka að Rafa er ekki að telja hann með þegar hann talar um þessi nöfn. Þegar þú segir aðdáendunum að þú ætlir að kaupa 2-3 leikmenn, þá telur þú ekki 16 ára gamla stráka með. 🙂

    Og jamm, Kristján, þessi regla er samþykkt.

  4. Hmm…Ameríku-Beckham virkar allavega algjört megakrútt af myndinni að dæma 😉

    En hvaðan er Zenden?

  5. Líst vel á það sem Zenden hefur verið að segja. Hann hefur greinilega fallið kylliflatur fyrir klúbbnum, sögu hans, knattspyrnustjóra og stuðningsmönnum. Ég skil hann mjög vel 🙂

Dave Usher um Gerrard málið (uppfært x2)

Brjálaður dagur – að lokum: