John Terry leikmaður ársins! (uppfært)

John Terry var í kvöld valinn leikmaður ársins af leikmönnum Úrvalsdeildarinnar fyrir veturinn 2004/05. Hann hafði betur í kosningu en hinir útnefndu leikmennirnir: Petr Cech og Frank Lampard hjá Chelsea, Thierry Henry hjá Arsenal, Andy Johnson hjá Crystal Palace og okkar eigin Steven Gerrard.

Hvað getum við Púllarar annað gert en óskað Terry og Chelsea-stuðningsmönnum til hamingju? Þeir eru margir leikmenn Chelsea sem hafa blómstrað í vetur og þetta er vissulega þeirra ár – allavega hingað til, við breytum því vonandi á miðvikudag 🙂 – en ég held það geti enginn mótmælt því að John Terry hefur einfaldlega staðið upp úr. Hann er sennilega búinn að vera besti varnarmaður í Evrópu í vetur, í fullri alvöru, og er leitun að öðrum eins leiðtoga á velli og honum. Vissulega gæti fyrirliðinn okkar, sem einnig var tilnefndur, lært eitthvað af því að sjá hvernig Terry og Jamie Carragher, sem hefði frekar átt að vera tilnefndur en SG að mínu mati, leiða lið sín á vellinum í orði og verki. En allavega, réttur maður vann þetta í ár og var það verðskuldað.

Í öllu furðulegra vali var Wayne Rooney valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar í sömu kosningum í kvöld. Það skil ég ekki. Ég hefði valið Arjen Robben eða Shaun Wright-Phillips fram yfir hann hvenær sem er – jafnvel Jermain Defoe. Þessir þrír hafa allir verið miklu, miklu betri en Rooney í vetur að mínu mati og ef Robben hefði ekki misst úr mikinn hluta í vetur vegna meiðsla hefði hann örugglega tekið þessi verðlaun. En svona getur þetta verið skrýtið.

Þá langaði mig fyrir háttinn að benda á góða grein um Andy Johnson, sem einnig var tilnefndur í kvöld og skoraði sitt 20. mark í deildinni gegn okkur í gær: AJ leads the way.

Þarna fjallar The Insider, góður penni hjá SoccerNet, um frammistöðu AJ gegn Liverpool í gær og veltir því fyrir sér hvort hann sé nógu góður fyrir stóru liðin.

Hvað finnst ykkur? AJ var títtnefndur í sambandi við Liverpool í janúar og sumir vilja meina að hann komi pottþétt til okkar í sumar ef CP falla. Eftir leikinn í gær, þar sem hann skoraði flott mark og var að mínu mati gríðarlega öflugur og gerði varnarmönnum okkar mjög erfitt fyrir, finnst mönnum Andy Johnson vera leikmaður sem gæti bætt framlínuna okkar?


**Uppfært (Einar Örn)** Hérna er [lið ársins](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/eng_prem/3569808.stm) og á miðjunni með Frank Lampard er Steven Gerrard. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er Rio Ferdinand með Terry í vörninni. Það þykir mér skrítið val. Var Rio ekki í banni stóran hluta leiktíðarinnar?

Í liði leiktíðarinnar eru 4 Chelsea menn, 2 Man U, 2 Arsenal menn og einn frá Manchester City, Liverpool og Crystal Palace.

Einnig þá er ég sammála Kristjáni varðandi Wayne Rooney. Held að hann hafi að stóru leyti verið að njóta árangursins af EM í þessu vali. Ef að byggt væri á frammistöðu leikmanna í deildinni, þá hefði ég valið einhvern af hinum, sem voru tilnefndir.

10 Comments

  1. Mér hefði nú þótt réttlátt að Jamie Carragher hefði verið valinn í Lið Ársins í stað Rio Ferdinands.

  2. Það verður nú seint sagt að Rio sé ekki vel að því kominn að vera þarna – hann er einfaldlega frábær miðvörður og er búinn að vera mjög góður í vetur, og Einar, því ver og miður kom Rio úr banni og beint inn í liðið í fyrri leiknum gegn liverpool – sá leikur var í september svo það er nú varla hægt að tala um að hann hafi misst af stórum hluta tímabilsins.

    Við megum hins vegar alveg vera svekktir yfir því að Carragher sé ekki í liðinu í stað Rio vegna þess að hann er einfaldlega búinn að vera frábær í miðverðinum og án vafa besti leikmaður liðsins í vetur.

  3. Eru þið ekki bara að falla í þann pytt sem þið hafið svo oft talað um í vetur að taka frammistöðu SG sem sjálfsögðum hlut?

    Vissulega hefur JC verið góður á tímabilinu en sá sem hefur verið bestur er þó Gerrard, kannski ekki besti fyrirliði í heimi, en sennilega einn besti miðjumaður í heimi og mjög sennilega besti leikmaður Liverpool í vetur!

    Þetta lið ársins er að mínu viti mjög vel valið og fyllilega réttmætanlegt.

  4. Já, kannski má túlka ummæli mín um Rio á aðeins of dómharðan hátt. vildi í raun bara velta því upp hvort hann ætti að vera þarna. Ég hef ekki séð nógu marga leiki með Man U til að dæma hann. Rio kom víst inn í lok september, þannig að hann missti af um mánuð af tímabilinu.

    Í þeim leikjum, sem ég hef séð, hefur mér þó fundist Carra standa sig betur en Ferdinand. Þannig að mér hefði ekki fundist það óeðlilegt að sjá Carra þarna tilnefndan. Ef þú spyrðir mig líka hvorn ég vildi hafa í mínu liðið, Carra eða Ferdinand, þá væri ég ekki lengi að ákveða mig. En sennilega er Ferdinand líka vel að þessu kominn, þrátt fyrir að hann spili með Man U og hafi ekki getað gubbast til að stoppa Duncan Ferguson frá því að skora í síðustu viku 🙂

    Annasr skil ég ekki þessi ummæli hjá “Hlutlausum”

    >Eru þið ekki bara að falla í þann pytt sem þið hafið svo oft talað um í vetur að taka frammistöðu SG sem sjálfsögðum hlut?

    Hvar kemur fram eitthvað neikvætt um Stevie G í þessari grein hjá okkur. Við erum á því að Carra eigi alveg skilið að vera þarna. Það að segja að Carra eigi frekar skilið að vera tilnefndur er ekki að gera lítið úr hlutverki Gerrards, frekar en að Chelsea aðdáandi segi að Terry eigi skilið tilnefningu frekar en Lampard.

  5. Rio Ferdinand er búinn að spila 37 deildarleiki, og er búinn að vera betri en Carragher. Man Utd liðið er lamað varnarlega séð án Rio…. það sást bara hvað vörnin gjörbreyttist eftir að hann kom aftur.

    En fyrst að Arjen Robben er þarna þrátt fyrir að hafa bara leikið 17 leiki í ár, þá finnst mér Thomas Gravesen (sem spilaði 21 leik fyrir Everton) eiga skilið að vera þarna frekar en Steven Gerrard. Hann átti stóran þátt í því að liðið var svona ofarlega, enda hefur Everton ekki leikið jafnvel án hans (liðið var t.a.m. í 3.sæti í þegar hann fór að mig minnir og með nokkuð örugga forystu á Liverpool/Bolton)

  6. Mér er alveg sama hvað þeir eru búnir að spila marga deildarleiki eða hvað, Rio hefur átt nokkur betri tímabil en það sem nú er yfirstandandi, á meðan Carra hefur aldrei verið betri og drifið lið sitt inn í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

    Finnst það bara asnalegt, eins og Rio eigi bara að hafa áskrif fram yfir menn eins og Carra og Ledley King (annar sem hefur brillerað í vetur) af því að þetta er Rio.

    Og ég meina, við getum þá alveg eins snúið þessu við og spurt af hverju það er enginn Everton-maður þarna en TVEIR United-menn? Hafa Everton-menn ekkert gert af viti í vetur? Mætti ekki alveg tilnefna menn eins og Alan Stubbs, Nigel Martyn eða Tim Cahill? Og af hverju var Leon Osman ekki tilnefndur sem efnilegasti leikmaður?

    Finnst bara eins og ákveðin lið hafi áskrift að þessum tilnefningum, í fyrra var gengið framhjá Stevie og í ár er gengið framhjá Carra. Það sökkar!

  7. Menn vilja oft rugla saman góðum tímabilum einstakra manna og það að þeir eigi að vera í úrvalsliði.

    Mér finnst ekkert athugavert við að enginn maður úr Everton sé í úrvalsliði deildarinnar. Nigel Martyn. Alan Stubbs og Kevin Kilbane hafa átt frábært tímabil en þeir hafa ekki staðið sig betur en Petr Cech, Rio Ferdinand eða Steven Gerrard. Þetta er bara enn eitt merki um hið frábæra starf sem David Moyes hefur unnið á Goodison Park; enginn leikmaður er stærri en klúbburinn og allir vinna þeir saman að settu marki. Ég mun glaður skipta á svoleiðis hugsun og einhverjum einstaklingsverðlaunum sem engu máli skipta.

    Sama má segja um Jaime Carragher, eins frábært tímabil og hann er búinn að eiga þá finnst mér Rio Ferdinand einfaldlega búinn að vera betri. Rio hefur sett standardinn sinn hærra og er því auðveldara að pikka út ein og ein mistök hjá honum á meðan allir einblína á hversu vel Jaime hefur aðlagast miðvarðarstöðunni og fær hann hálfpartinn free-ride í þeirri litlu krítík sem hann á skilið.

    Wayne Rooney er búinn að setja standardinn ansi hátt eftir Evrópukeppnina síðasta sumar og það er því auðvelt að taka það sem down-tímabil hjá honum þegar hann er ekki að skora í hverjum leik. Eins mikið og hann er í ónáðinni hjá mér þá hefur hann oft á tíðum verið eini maðurinn með lífsmarki í framlínu Man Utd í vetur – hann er og verður aldrei markaskorari en mikil ógn stafar af honum og hefur afburða auga fyrir spili.

  8. Ég skil hvað þú meinar Makkari, en ég er einfaldlega ósammála. Mér finnst Rio hafa verið ágætur samkvæmt eigin stöðlum í vetur, en Carra farið langt fram úr björtustu vonum. Þetta stafar náttúrulega af því að fyrir tímabilið hefði ég hiklaust sagt að Rio væri miklu, miklu betri miðvörður en Carra og því er það til marks um frammistöðu Carra að við skulum yfir höfuð vera að ræða þetta.

    Hins vegar finnst mér, algjörlega hlutlaust séð, erfitt að skilja af hverju Rio Ferdinand sé búinn að vera betri en Jamie Carragher í vetur. Ég hef horft á marga leiki með báðum liðum og ég hef séð Carragher vera ljósið í myrkrinu hjá Liverpool, á meðan mér þykir Mikael Silvestre oft hafa leikið betur en Rio Ferdinand hjá United. Vissulega er erfitt að bera frammistöður þeirra saman sem einstaklinga, þar sem vörn United í heild sinni hefur verið miklu betri en vörn Liverpool í vetur, en ég er samt á þeirri skoðun að Carra hafi verið betri en Rio í vetur, einfaldlega af því að hann hefur leikið jafn vel og raun ber vitni í verri vörn en þeirri sem Rio er studdur af.

    Einnig – þú sem Everton-maður getur ekki mögulega sagt mér að þú sért sáttur við að Gary Neville sé í hægri bakverði þessa liðs? Tony Hibbert, Steve Finnan og Lauren hjá Arsenal hafa allir verið betri en Gary Neville í vetur. Hann hefur einfaldlega átt hrikalega slappa leiki inn á milli og ég hefði frekar viljað sjá Hibbert eða Lauren inní liðinu – eða Steve Finnan.

    Menn mega ekki taka þessu sem einhverjum antí-United áróðri hjá mér, mér bara finnst einfaldlega rangir menn hafa verið tilnefndir úr sterkri United-vörninni, einfaldlega af því að þeir eru enskir. Ég hefði getað sætt mig auðveldar við það að Silvestre hefði verið í liðinu, fram yfir Carra … og mér finnst það jaðra við glæp að velja Ashley Cole fram yfir Gabriel Heinze í vinstri bakvarðarstöðuna. Heinze hefur verið besti bakvörður sem ég hef séð í nokkru liði í Evrópuboltanum í vetur, ekkert minna. En hann og Silvestre eru ekki enskir, Neville og Rio eru það… alas! þeir eru í liðinu.

  9. Og hvernig var gengið framhjá Gerrard í fyrra? Ertu virkilega að reyna að segja að hann hefði átt að vera valinn leikmaður ársins?

    Af þeim sem voru tilnefndir í ár, þá átti hann síst skilið að fá verðlaunin.

    Og eins og Henry var góður í ár, þá var hann m.a.s. betri í fyrra.

Dagurinn eftir Crystal Palace

KEWELL og Baros í hópnum (uppfært)