Liverpool 2 – Everton 1

_40945959_gerrard.jpgÍ dag er ég **stoltur** Liverpool aðdáandi.

Liverpool vann í dag Everton 2-1 í leik, þar sem ALLT gekk gegn Liverpool liðinu. Fjórir leikmenn [meiddust](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N148213050320-1840.htm) og Milan Baros fékk rautt spjald, en SAMT börðust okkar menn fram á síðustu mínútu og náðu að vinna leikinn. Þetta var frábært. Við vorum miklu betri og áttum þetta svo sannarlega skilið.

Ég sagði það fyrir leikinn að ég yrði brjálaður ef menn myndu ekki berjast fram á síðustu mínútu og sem betur fer, þá ullu okkar menn mér ekki vonbrigðum í dag. Í raun var Liverpool með ólíkindum óheppnir í þessum leik. Stephen Warnock, Didi Hamann og Fernando Morientes meiddust allir í *fyrri hálfleik* og í stað þeirra komu Smicer, Nunez og Biscan. Ekki nóg með það, heldur meiddist Luis Garcia líka í lok fyrri hálfleiks og hann var greinilega bara hálfur maður í seinni hálfleik. Til að bæta ofan á það, þá fékk Milan Baros rautt spjald fyrir að vera of seinn í tæklingu. Að mínu mati strangur dómur, sérstaklega þar sem Liverpool liðið hafði nánast ekki brotið af sér í leiknum, en Everton menn voru sífellt að toga okkar leikmenn niður. Þannig að síðasta hálftímann lék Liverpool nánast með 9 mönnum, þar sem Garcia gat augljóslega ekki beitt sér.

En allavegana, Benitez stillti liðinu svona upp í byrjun leiks.

Dudek

Finnan – Carragher – Pellegrino – Warnock

Garcia – Gerrard – Hamann – Riise

Baros – Morientes

Liverpool liðið lék frábærlega alveg frá fyrstu mínútu í fyrri hálfleik og uppskáru loksins eitthvað þegar brotið var á Luis Garcia fyrir utan teig. Didi Hamann gaf á Steven Gerrard, sem skoraði með föstu skoti. Stuttu seinna barst boltinn til Fernando Morientes, sem tók hann á lofti og skaut að marki af lööööngu færi. Martyn lenti í erfiðleikum með boltann og Luis Garcia skallaði í markið. Staðan 2-0 og Liverpool liðið stjórnaði öllu á vellinum.

En stuttu fyrir hálfleik meiddust Didi, Fernando og Luis Garcia. Þeir tveir fyrrnefndu fóru útaf, en Garcia varð að harka þetta af sér og hann spilaði allan tímann og á svo sannarlega hrós skilið fyrir það!

Í seinni hálfleik fóru Everton menn framar á völlinn en sköpuðu engar alvarlegar hættur. Milan Baros komst tvisvar inn fyrir í dauðafæri, en klúðraði í bæði skiptin. Í seinna skiptið gabbaði hann Martyn á frábæran hátt, þannig að hann lagðist niður, en á óskiljanlegan hátt tókst honum að klúðra. Til að bæta gráu ofan á svart var Baros svo rekinn af velli. Hann fór í tæklingu við Hibbert, sem náði að sparka boltanum frá og því lenti Milan á Hibbert. Þetta var að mínu mati strangur dómur, sérstaklega þar sem Everton menn hefðu örugglega átt að vera búnir að fá þrjú-fjögur gul spjöld í viðbót. Auk þess var brot Hibberts á Luis Garcia, sem mark Liverpool kom uppúr, að mínu mati alveg jafn alvarlegt. Hibbert fékk hins vegar ekki einu sinni gult fyrir það brot.

Þetta varð til þess að síðustu mínúturnar voru hriiiikalega spennandi. Tim Cahill minnkaði muninn, en Liverpool tókst að halda þessu. Ég var alltaf að búast við því að Duncan Ferguson myndi skora, en Carra og Pellegrino héldu honum niðri. Okkar menn börðust einsog ljón allan tímann, alveg fram á síðustu mínútu og það gerði útslagið í þessum leik.


**Maður leiksins**: Það er orðið alltof langt síðan, en maður leiksins var **Steven Gerrard**. Gerrard var algjörlega frábær í þessum leik. Hann barðist einsog ljón og var útum allan völl. Hann stöðvaði ófáar sóknir, var grimmur í tæklingum og hættulegur fram á við. Frábær leikur hjá Gerrard. Hann fagnaði markinum með því að kyssa Liverpool merkið (eða bíta það :-)) og það var frábært að sjá allt liðið fagna þessum sigri saman. Ef einhver hefur efast um heilindi Steven Gerrard, þá ættu þeir að þagna eftir þennan leik.

Aðrir, sem koma til greina eru til dæmis Pellegrino og Carra, sem voru frábærir í vörninni og svo á Luis Garcia hrós skilið fyrir að klára leikinn. Það er augljóst að sjálfstraustið hjá Milan Baros er ekki uppá það besta, en við þurfum svo sannarlega á honum að halda á næstunni og það er vonandi að hann nái sér uppúr þessu. Hann þarf stuðning okkar núna, því ALLIR FRAMHERJAR Í HEIMINUM fara í gegnum svona tímabil, þar sem þeir geta ekki fyrir sitt litla líf skorað mark. Við munum til dæmis eftir ófáum tímabilum hjá Michael Owen, þar sem hann gat ekki skorað. En Baros mun koma aftur, sanniði til!


Núna eru því 8 leikir eftir og við erum 4 stigum á eftir Everton og einu stigi á undan Bolton og með mun betri markatölu en bæði liðin. Næsti leikur er eftir tvær vikur, gegn einmitt Bolton á Anfield þann 2.apríl. Þannig að Fernando Morientes og Hamann verða vonandi búnir að ná sér. Hins vegar þá er Milan Baros kominn í *þriggja leikja bann*, það eru gríðarleg vonbrigði. Ef að Garcia og Morientes verða ekki með í næsta leik, þá erum við í verulegum vandræðum og í raun væri þá Tony Le Tallec besti kosturinn í skókninni. Milan missir af Bolton, Man City og Tottenham, þannig að Morientes má hreinlega ekki vera meiddur.

Það er alveg ljóst að það vinnur allt gegn þessu liði. Núna þarf Benitez einfaldlega að nýta sér allt þetta mótlæti og ná upp viðlíka baráttu í næstu leikjum. Ef liðið berst saman í næstu leikjum einsog þeir gerðu í þessum leik, þá hræðist ég ekki framhaldið, sama þótt að allt virðist vinna gegn þessu liði. Þetta verður erfitt, en við getum þetta. **Áfram Liverpool!**

31 Comments

  1. Jamm, nice-ee nice-ee. Sagði akkúrat eftir 5mín. leik “loksins er Gerrard í baráttuhug”. enda uppskárum við eftir því.

  2. Ég held að ummæli Sky um Baros segi allt sem segja þarf “Woeful” og þá fær hann 4 í einkunn fyrir frammistöðu sína í leiknum.

    Síðan á nú ekki að skipta máli hversu oft Liverpool liðið hafði brotið af sér, þetta var klárt rautt spjald, hann fer með sólann á undan sér í hnéð á honum.

    Síðan sá maður líka hvernig hlutunum er stundum hagrætt fyrir stóru liðin þegar einungis þremur mínútum var bætt við í lok venjulegs leiktíma, þegar a.m.k. 4, og gott ef ekki 5 mínútum hefði átt að vera bætt við. Maður sér þetta æ oftar að þegar Man Utd, Chelsea og núna Liverpool eru yfir að þá er aldrei meira en í mesta lagi 3 mínútum bætt við, en ef þau eru undir oft 5 mínútum.

    Og talandi um að Milan Baros þurfi að koma aftur… þá hefur hann aldrei horfið… hann hefur bara aldrei verið það sérstakur, og alls ekki einn af 10-15 framherjum heims.

  3. Ég vona svo sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér Einar með Baros, ég skal glaður éta þessa neikvæðni mína í hans garð ef hann springur út…

    Alveg sammála þér með Gerrard, það gerir mig alveg brjálaðan þegar menn eru að efast um hollustu hans til Liverpool…. Þessir strákur gæti ekki verið meiri liverpool maður heldur en hann er.. Auðvitað ekkert hægt að bera hann saman við Carragher sem ég held að hafi fæðst syngjandi YOU’LL NEVER WALK ALONE… Þvílíkur púlari þar á ferð…

    Núna er bara að gíra sig upp fyrir Bolton og minnka forskot þeirra bláu í 1 stig…

    Kv. Stjani

  4. >”þetta var klárt rautt spjald, hann fer með sólann á undan sér í hnéð á honum.”

    Er það ekki nákvæmlega það sama og gerðist í brotinu á Luis Garcia? Þá voru Everton menn brjálaðir og sökuðu Garcia um leikaraskap.

    Annars þurfa menn auðvitað ekki að vera neitt “sérstakir” til að vera markakóngar EM. Þú getur eflaust fundið leiðir til að gera lítið úr þeim árangri.

    En ég ætla ekki að láta stuðningsmenn annarra liða pirra mig í dag. 🙂 Við unnum Everton í dag og það er allt sem skiptir máli í dag. :biggrin2:

  5. Sanngjarn sigur og sammála flestu NEMA að þetta hafi verið harður dómur á Baros. Eitt er að vera seinn í tæklingu og annað að fara með sólann í hnéhæð tæplega, á fullu skriði. Bara so sorry en svona verknaður er bara beint rautt spjald – útrætt mál.

    Ég veit að þið eruð miklir Baros-menn en ef þessi maður væri í mínu liði þá væri ég löngu búinn að afneita manninum. Þvílíkur talent en maður spyr sig hvort hann hafi hreinlega vitsmuni til þess að nýta alla þessa hæfileika. Að svona góður leikmaður geti ekki beðið eftir að leikurinn komi til sín og dreifi auðnum/boltanum með sér er mikill löstur á hans leik. Hann berst að vísu vel en brotið hans í dag hefur alvarlega afleiðingar því ekki er framlínan beysinn með Morientes tæpan og ekki má gleyma að hann stefndi sigrinum í hættu í leik dagsins.

    Annars endurtek ég að sigurinn var sanngjarn og Liverpool lék vel í dag.

  6. Mér finnst Hibbert-brotið ekki sambærilegt við rauða spjald Baros. Reyndar var furðulegt að gefa Hibbert ekki gult spjald en þar var hann nánast grafkyrr og lítill kraftur í tæklingunni hans. Á meðan kom Baros á fleygiferð og það var ekki honum að þakka að Stubbs slasaðist ekki.

  7. Þetta var í fyrsta skipti í sögu Liverpool þar sem framkvæmdastjórinn þarf að skipta útaf þremur mönnum í fyrri hálfleik. (Vináttuleikir ekki taldir með).

    Annars var þetta hreint og klárt rautt spjald. Stubbs er búin að sparka boltanum útaf og það var nákvæmlega ENGINN ástæða fyrir Baros að fara svona hart í hann. En svona er hann Baros, hann hugsar mest um sjálfan sig og ekki liðið.

  8. Ánægjulegt að sjá að það séu fleiri þarna úti sem eru ekkert sérstaklega hrifnir af honum Baros. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað Rafa gerir í sumar.

    Kv. Stjani

  9. >En svona er hann Baros, hann hugsar mest um sjálfan sig og ekki liðið.

    Come on! Hvernig á þetta við brotið? Var það bara af eigingirni, sem hann ákvað að brjóta af sér? Við megum ekki tapa okkur alveg í þessu Baros kjaftæði. En þetta hlaut svosem að gerast víst að Josemi og Kewell eru meiddir.

    Djöfull verðum við Kristján Atli þokkalega óþolandi á þessari síðu þegar að Baros skorar sigurmarkið á Delle Alpi :biggrin2:

  10. En annars, athyglisverð tölfræði, Mummi. Ég var einmitt að spá í því að ég hefði aldrei séð annað eins í enska boltanum.

  11. Ég elska Baros minn, en mér fannst rauða spjaldið sanngjarnt. Þetta var rosalega gróft, hvort sem þetta var viljandi eða ekki.

  12. Frábær leikur, ég er gjörsamlega búinn að éta neglurnar á mér upp að olnbogum ! Ég er á því að Baros hafi unnið fyrir rauða spjaldinu, hann var greinilega orðinn mjög frústiveraður á því að hafa tvisvar klúðrað dauðafærum á óskiljanlegan hátt.
    Góðu fréttirnar eftir þessa meiðsla hrinu í fyrri hálfleik eru þær að Warnock er ekki illa meiddur, hann bólgnaði víst bara mikið um ökklann og þess vegna var farið með hann á spítala til frekari rannsóknar.
    Hræðilegt hinsvegar að missa Baros í 3 leikja bann, við munum finna fyrir því :confused:

  13. Mig langar að byrja á að óska Liverpool til hamingju með sanngjarnan sigur. Hins vegar langar mig að taka undir gagnrýni þess sem setti út á viðbótartímann. Mér finnst þetta orðið allt of algengt, þ.e.a.s. að það er alveg augljóslega of litlum tíma bætt við.

    Fyrir nokkrum dögum bitnaði það á mínum mönnum (Tottenham) gegn Charlton, sem tóku Bolton taktíkina á þetta og lágu í jörðinni í svona 15-20 mínútur. Þar að auki voru framkvæmdar 6 skiptingar. Það var 4 mínútum bætt við. Í gær var þessu öfugt farið og mínir menn nutu góðs af því hve litlu var bætt við – 3 mínútum eftir talsverðar tafir, slagsmál og skiptingar.

    Ætli það sé eitthvað hámark sem hægt er að bæta við leik? Mér finnst ég aldrei sjá 6-7 mínútum bætt við, þó það sé algjörlega augljóst að það sé lágmark. Hvaða skilaboð sendir það til leikmanna? Þessi þróun verður vonandi ekki til þess að menn fara að apa upp eftir Sam Allardyce sem gerir út á það að láta lið sitt ekki spila fótbolta í meira en 70 mínútur í leik.

    ATH: Ekkert af þessu tengist beint leiknum í dag 🙂 En svo ég minnist aðeins á hann, þá liggur við að maður sé hættur að tala um óheppni Liverpool manna. Þetta ótrúlega magn meiðsla (fyrir utan augljós beinbrot og ljótar tæklingar) á formi tognana og þess háttar hlýtur á einn eða annan hátt að vera hægt að rekja aftur til sjúkraþjálfara/þjálfara liðsins. Ef ykkur tekst að laga ástandið með mannabreytingum eða e-u í sumar, þá jafnast það á við 2-3 góð leikmannakaup.

  14. Jamm, þetta með uppbótartímann kom mér á óvart. Everton áttu hins vegar nánast engin skot á markið fyrir utan sjálft markið, þannig að mér fannst þetta væl í David Moyes vera slappt. En vissulega hefði mátt bæta meiri tíma við leikinn.

    En svo að ég komi að þessu með brotið hans Baros, þá er vissulega hægt að gefa rautt spjald fyrir það, en minn punktur var bara að dómarinn var búinn að sleppa verulega mörgum brotum Everton manna án þess að gefa þeim gult. Ég er þannig sammála gagnrýninni, sem Rafa setti fram eftir leikinn. Ég er frekar fúll yfir því að Baros sé komin í þriggja leikja bann.

    Annars er hérna [viðtalið hans Rafa eftir leikinn](http://news.bbc.co.uk/media/sport_web/video/40946000/bb/40946167_bb_16x9.asx), þar sem hann talar um möguleika að Didi og Fernando verið frá í allt að þrjár vikur. Vonandi að það verði ekki svo lengi.

  15. Ef ég man rétt var einhverjum 7 mínútum bætt við Juventus-Real núna nýlega (gott ef það var ekki í framlengingunni). Og ekki var nú miklu bætt við fyrri hálfleikinn þegar Liverpool menn lágu nú mikið í grasinu og skiptu bara 3 mönnum inná og skoruðu 2 mörk, afhverju átti þá að bæta meira við seinni hálfleikinn þegar Everton skiptu 2 mönnum inná (einn kom beint inn eftir hlé) og skoruðu 1 mark?

    Afhverju fengu ekki fleiri leikmenn Everton gul spjöld gæti verið góð spurning sem Moyes hefði átt að spyrja, en auðvitað gerir hann það ekki (frekar en að Benitez játi það greiðlega að Baros hafi átt rauða spjaldið skilið, stjórar tala bara um það sem þeir hefðu viljað fá meira í sinn hag og nefna ekkert það sem féll þeim í hag). Ég hefði alveg viljað sjá Pistone útaf (með 2 gul) eftir að hann keyrði Nunez niður, ekki var mikill vilji í boltan hjá honum þar.

  16. Það sést að ég náði ekki að horfa á allann leikinn, var að átta mig á því núna þegar ég les leikskýrslu að Pistone var ekki með gult spjald :blush:

  17. Annars þurfa menn auðvitað ekki að vera neitt ?sérstakir? til að vera markakóngar EM. Þú getur eflaust fundið leiðir til að gera lítið úr þeim árangri.

    Þó svo að Milan Baros sé ekki alveg jafn slakur og sá sem ég er að fara að nefna, þá var Oleg Salenko markahæsti maður HM 1994… aldrei gat hann nú neitt samt. Eins má nefna að El Hadji Diouf var nú keyptur á sínum tíma á 10m punda eftir að hann hafði verið mjög góður á HM 2002… aldrei gat hann nú neitt með Liverpool samt.

    Annars var nú sigur Liverpool alveg verðskuldaður, ég ætla ekki að reyna að mótmæla því… mér finnst bara Baros ekki vera það góður.

  18. Það sem stendur eftir er þetta:
    Sigur á Everton – Frábært
    Barátta allan leikinn – Frábært (þyrfti ávallt að vera þannig)
    Gerrard var frábær – Besti leikmaður LFC frá upphafi.
    Carragher og Pellegrino solid – Frábært.

    Baros ömurlegur – Er viss um að hann lærir mikið af þessu mistökum. Kemur sterkari tilbaka.
    Meiðslin hjá Hamann, Morientes og Warnock – vonandi eru þau ekki of alvarleg.

    Í dag þekkti ég Liverpool og loksins náði liðið að spila eins í deildinni og í CL!

  19. Geggjaður leikur og nauðsynlegur sigur.

    En maður spyr sig. Hvað í helvítinu er í gangi með þessi meiðsli öll??!!?? Þetta er gjörsamlega orðið óþolandi ástand og versnar með hverjum leiknum!

    Getur það virkilega verið að Benitez sé með of þungar æfingar? Tilviljanir eða óheppni? Hversu viðbjóðslega óheppnir þurfum við að vera á þessu tímabili?!

  20. Þvílíkur leikur og þvílík umræða hér. Keyrði frá Eyjafirðinum og heim í Hafnarfjörðinn strax eftir leik og hef því ekkert getað skrifað hér fyrr en nú. Í kjölfar umræðunnar hér á ummælakerfinu vill ég týna til eftirfarandi punkta:

    1. Þessi sigur var eins sanngjarn og snjórinn er hvítur. Ég vona að menn geti hætt að plata sjálfan sig og segja að Everton sé betra lið en Liverpool. Þeir eru stöðugri en við að því leyti að Moyes er búinn að vera með þá í nokkur ár og þegar búinn að móta sitt lið, auk þess sem þeir hafa varla lent í teljandi meiðslum í vetur. En hvað varðar gæði? Plís!

    2. Milan átti klárlega að fá rautt spjald enda gróft brot hjá honum, hárréttur dómur þar. En það breytir því ekki að Hibbert átti að fá a.m.k. gult spjald fyrir brotið á García í fyrri hálfleik, og það var algjör skandall að spjaldið fór ekki á loft. Þá fékk Everton-vörnin að narta í Baros allan helvítis leikinn og Stiles dómari gerði lítið sem ekkert í því, þannig að eðlilega var hann orðinn pirraður undir það síðasta. En svona brot eru aldrei verjanleg og Baros olli mér enn og aftur vonbrigðum í dag. Er þó sammála Einari í því að hann snýr pottþétt tvíefldur aftur! 🙂

    3. Þetta helvítis væl í David Moyes er bara rugl. Ég þekki pabba hans, hef hitt manninn í eigin persónu og hef gríðarlegt álit á honum sem framkvæmdarstjóra … en hann á að eyða púðrinu í að skamma sína menn fyrir getuleysi og hræðslu eftir þennan seinni hálfleik. Þeir vissu að við vorum búnir með skiptingarnar, þeir sáu að García var bara hálfur maður og þeir voru 2-0 undir … Everton höfðu einfaldlega engu að tapa í síðari hálfleik, og Moyes kynti undir það með því að setja tvo framherja inná snemma eftir hlé. Og hvað gerðu þeir bláu? Lágu til baka, skíthræddir um að fá þriðja markið á sig … og svo vogar Moyes sér að kenna Stiles dómara um að hafa “rænt okkur jafnteflinu” ??? Rugl og kjaftæði, hann á að horfa í eigin barm og taka leikmennina sína í gegn, ekki dómarann.

    Og til að útskýra: 3 skiptingar í seinni hálfleik, 30 sek. bætt við fyrir hverja skiptingu: 1 og 1/2 mínúta. Eitt mark skorað í seinni hálfleik, 30 sek. bætt við fyrir markið: 2 mínútur komnar. Einn leikmaður meiddur að einhverju ráði (Stubbs eftir Baros-brotið), bætt við mínútu fyrir það: 3 mínútur. Ekkert fleira sem hægt er að telja til. Ég sat við hliðina á Everton-manni útí Hrísey yfir þessum leik og hann spurði mig spenntur á 88. mínútu hversu miklu ég héldi að yrði bætt við. Ég sagði 3 mínútur, útskýrði það með ofantöldum rökum og það stóðst, kom hvorugum okkar á óvart og hann kvartaði ekki heldur óskaði mér til hamingju að leik loknum.

    Það hefði David Moyes líka átt að gera, í stað þess að væla yfir dómaraskandal.

    4. Ókei, nú er nóg komið. Hver gerði samning við Kölska? Var það Wenger? Sir Alex? José? Moyes, eða Souness? Játiði bara … þessi meiðslasaga okkar er orðin tú möts!!! Ég man ekki eftir öðru eins og ég lýg því ekki, ég verð þeirri stundu fegnastur þegar tímabilinu lýkur … af því að þá geta ekki fleiri leikmenn meiðst í allavega þrjá mánuði. Þetta er hætt að vera fyndið!

    Og að lokum…

    5. Fjögurra stiga munur … come on you Reds! Þetta er ennþá bullandi séns!!!!!

    Góða nótt.

  21. Einnig:

    Vonandi tóku menn eftir því hvernig Luis García, Antonio Núnez, Fernando Morientes og Mauricio Pellegrino léku í dag. Hmmmm?

    Um Morientes efast enginn, en hinir þrír hafa allir verið gagnrýndir mikið í vetur … og að mínu mati allir þrír á mjög ósanngjarnan hátt. Pellegrino var frábær í dag og hefur verið í síðustu 3-4 leikjum sínum fyrir liðið, Antonio Núnez átti frábæra innkomu og hreinlega pyntaði vitleysinginn Pistone, sem var orðinn svo pirraður á eigin getuleysi undir það síðasta að hann fór að rífast við Púllarana í stúkunni.

    Og Luis García? 6 milljónir punda geta keypt góðan fótboltamann, en ekki það hugrekki sem hann sýndi í dag! Hann skoraði frábært og mikilvægt mark, vann aukaspyrnuna sem fyrra markið kom úr og var einn af svona 2-3 bestu mönnum vallarins áður en hann meiddist. Og eftir meiðslin? Haltraði í 50 mínútur og gaf gjörsamlega, bókstaflega allt sem hann átti í þennan leik.

    Það, gott fólk, kallast að spila með hjartanu. Ég get ekki með nokkru móti ímyndað mér að einn einasti Liverpool-aðdáandi í heiminum vogi sér að efast um Luis García lengur. Það á einfaldlega ekki að vera hægt!

    Skyndilega virðast 6m punda ekkert svo mikill peningur fyrir hann. Og Morientes. Svo komu Pellegrino og Núnez frítt, eða því sem næst … þannig að þessir fjórir leikmenn kostuðu okkur 12 milljón pund. Er það góður díll eða hvað?

    Í kjölfar dagsins í dag ætla ég að gerast svo djarfur að segja að Josemi verði næsti leikmaður Liverpool sem láti gagnrýnendur sína éta orð sín. You heard it here first! 🙂

  22. Af öllum leikmönnum vallarins þá held ég nú samt líka að James Beattie hafi verið lélegastur. Ég sá hann ekki snerta boltann allan leikinn. Sá hann í rauninni bara einu sinni í leiknum, og það var þegar hann var næstum því fyrir skotinu hjá Cahill þegar skoraði.

  23. Ég las það í gærkvöldi hjá Benitez að Riise spilaði seinni hálfleikinn meiddur, var með verki í ökklanum. Þannig að við spiluðum í raun seinni hálfleik með 9 til 10 leikmönnum.

  24. Var að muna eftir einu núna, ætli Pistone fái einhverjar sektir eða bönn fyrir að slá til aðdáanda Liverpool? Fékk ekki Carra rautt spjald og 3 leikja bann fyrir að skila týndum pening og Diouf 3 leikja bann fyrir að skiptast á munnvatni við aðdáanda? Pistone atvikið var reyndar aldrei endursýnt svo ég áttaði mig ekki nógu vel á því hversu alvarlegt það var.

  25. Mögnuð tölfræði, Sindri. Ótrúlega magnað að sjá Chelsea. Það er aðeins einn maður meiddur hjá þeim (Bridge)!!

  26. Jamm, og þeir hjá PhysioRoom gleyma að setja Josemi inn á listann, þannig að í raun erum við með 11 leikmenn úti (12 ef þú telur Hyypiä undanfarið með, 13 ef menn nenna að taka Richie Partridge inn í þessa umræðu) og þar af leiðandi með 3ja stiga forskot á Boro í deildinni.

    Væri samt til í að vera í fallslagnum þarna…

  27. Það mér finnst best með Garcia í þessum leik er það að Rafa ætlaði að taka hann útaf í hálfleik en hann vildi ekki fara útaf.

  28. Ég segi eins og Alan Hansen að ég vona að Liverpool mæti með “A” liðið sitt með réttu hugarfari eins og í leiknum gegn Everton það sem eftir er af “sísoninu” og þá náum við þessu blessaða 4.sæti (þótt það sé slakur árangur).
    Nú er að fara í varaliðið og ná í leikmenn til að fylla upp í hópinn þar sem hann virðist ekkert stækka vegna meiðsla.

Liðið gegn Everton komið

Leikskýrsla Tomkins