Er Baros búinn að fá nóg? (Uppfært: NEI!)

baros rúlar!Úff…

Eins og það sé ekki nóg að við skyldum tapa þessum skaðræðis úrslitaleik á sunnudaginn, þá virðist vera sem það sé einhver sannleikur í versta slúðri helgarinnar, því sem ég óttaðist mest. Strax á laugardag birtist þessi spjallþráður á RAWK þar sem einhver gaur sagðist hafa fengið símtal frá föður sínum sem var staddur í Cardiff. Sá sagði að aðalslúðrið í Cardiff það kvöldið væri það að Milan Baros hefði stormað út af hóteli liðsins eftir fundinn þar sem Rafa tilkynnti leikmönnunum byrjunarliðið fyrir sunnudaginn. Þessum gaur var ekki trúað á þessum spjallþræði, en þeir sem lásu hann svitnuðu eflaust þegar sunnudagurinn rann upp og í ljós kom að kauði hafði rétt fyrir sér með liðsuppstillinguna. 4-5-1 skyldi það vera, Baros á bekknum og gaurinn hafði spáð fyrir um hárréttan leikmann í hverri einustu stöðu.

Nú, í leiknum sjálfum þá setti Rafa Igor og Antonio inn áður en hann setti Baros inn, sem mér fannst skrýtið þar sem það var farið að draga verulega af Morientes eftir 50 mínútna leik, en hann hékk inná þangað til á 75. mínútu og var þá orðinn örþreyttur. Baros kemur inná og byrjar nærri því strax að hengja haus, að mínu mati. Það var bara eitthvað við hann, sérstaklega eftir að Chelsea komust yfir, sem sýndi að hann vildi ekkert berjast fyrir þessu.

Nú, eftir leik hafa þessar óstaðfestu fregnir af meintu rifrildi milli Baros og Benítez fengið aukinn mótbyr og nú í dag birtist grein í Daily Mirror um málið, þar sem fullyrt er að Baros sé alvarlega að spá í að yfirgefa Liverpool í sumar, sé orðinn fullsaddur á þessu. Gef ekki mikið fyrir þessa fullyrðingu, en ljóst er að eitthvað er til í þessum orðrómi ef marka má gaurinn á RAWK-spjallþræðinum strax á laugardagskvöldið.


Það er öllum lesendum þessarar síðu fullljóst að við Einar erum gríðarlegir Baros-aðdáendur. Það gengur svo langt að við héldum því báðir fram að hann ætti jafnvel að vera framherji #1 síðasta sumar, áður en Owen fór og Cissé meiddist, sem gerði hann sjálfkrafa að bjargvættinum í framlínunni okkar. Nú, síðan þá hefur Baros farið mikinn og var fyrir jól þegar kominn með 11 mörk í öllum keppnum, í innan við 20 leikjum ef ég man rétt. En í janúar breyttust framherjamálin talsvert með tilkomu stórmeistarans Fernando Morientes. Það gefur augaleið að Morientes er framherji #1 í augum Benítez, þar sem hann hentar langbest af framherjum okkar í leikkerfi því sem Rafa aðhyllist. Þá verðum við, aðdáendurnir, að kyngja því fyrir hönd Baros að vissulega er Morientes honum fremri, bæði hvað varðar reynslu og það að vinna vel fyrir liðið. Hvað einstaklingsgetu varðar er Baros að mínu mati langnæstbesti framherjinn í Úrvalsdeildinni í dag – aðeins Thierry Henry er hæfileikaríkari. Cissé væri þó fyllilega í þeim hópi ef hann væri heill.

En allavega, hvað finnst okkur Einari um þetta mál? Einar bætir örugglega sínum skoðunum við þessa frétt, en að mínu mati þá verð ég að segja að ég skil Milan rosalega vel! Ef hann væri “bara” einn af okkar fjölmörgu leikmönnum þá hefði það verið fyllilega eðlilegt að hann væri á bekknum. En hann er það ekki:

1. Hann er okkar markahæsti maður í vetur og án hans værum við ekki einu sinni í 5. sætinu. Hann hefur aðeins skorað 1 mark síðan Moro kom inní liðið, sem veldur mér áhyggjum því ég vill að þeir nái að vinna vel saman, en er engu að síður okkar helsti markaskorari þangað til annað kemur í ljós.

2. Hann tjáði sig mikið um það í síðustu viku hversu erfitt það var fyrir hann að vera “niðurlægður” af Houllier í síðasta bikarúrslitaleik sínum fyrir 2 árum síðan. Að setja hann óvænt á bekkinn eftir þessi ummæli hans voru í raun önnur niðurlæging fyrir hann.

3. Hann hefur unnið baki brotnu fyrir þetta lið, bæði undir stjórn Houllier og síðan í vetur. Ég er handviss um að það hefur enginn hlaupið og djöflast jafn mikið inná fótboltavelli fyrir Liverpool í vetur og Milan og mörk hans hafa jafnan verið það sem skildi á milli sigurs og jafnteflis/taps.

Þannig að ég er algjörlega sammála Milan í því að það var gríðarlega ósanngjarnt af Rafa að setja hann á bekkinn fyrir þennan stórleik. Hann átti stóran þátt í að koma okkur þangað (2 mörk gegn Millwall, lagði upp sigurmarkið gegn Watford) og átti einfaldlega skilið að fá að leiða línuna gegn Chelsea. Við þetta bætist svo að í hans stað valdi Rafa Harry Kewell, sem hefur verið slappur í mestallan vetur og meiddur síðustu 2-3 mánuðina og þar af leiðandi í litlu sem engu leikformi, fram yfir Milan í byrjunarliðið.

En skoðum aðeins hvaða rök Rafa hefur í þessu máli:

1. Hann hefur eins og staðan er í dag aðeins úr tveimur toppframherjum að ráða. Morientes má ekki spila í Meistaradeildinni og því er Milan sjálfvalinn til að leiða sóknir liðsins í þeim leikjum. Því er eðlilegt að Rafa noti Moro meira í leikjum heima fyrir, til að reyna að halda þeim báðum ferskum (og heilum) fyrir þá mikilvægu leiki sem eru eftir, bæði í Evrópukeppni og í ensku keppnunum.

2. 4-5-1 var þrátt fyrir allt þetta hárrétt uppstilling gegn Chelsea. Án þriðja miðjumannsins hefðu Lampard, Makelele og Jarosik vaðið yfir okkur, það efast ég ekki um. Við þurftum þriðja miðjumanninn, á því lék enginn vafi.

3. Milan klúðraði tveimur ótrúlegum dauðafærum gegn Leverkusen í síðustu viku og, eins og ég sagði, hefur ekki verið í neinu sérstöku stuði síðustu tvo mánuðina – aðeins eitt mark það sem af er á árinu 2005.

Þannig að það er ljóst að Rafa var í erfiðri aðstöðu á hvorn veginn sem er. Það er að mínu mati fyllilega réttlætanlegt af Rafa að hafa stillt liðinu upp eins og hann gerði, en á sama tíma var það gríðarlega ósanngjarnt í garð Milan Baros að þurfa að byrja þennan leik á bekknum.

Ég vona bara að þetta reynist vera lítið annað en það er í dag – slúður – en það virðist bara allt benda til þess að þetta sé satt. Ég væri hreinlega hissa ef í ljós kæmi að Baros hefði ekki orðið brjálaður yfir því að vera á bekknum.

Æji ég veit það ekki. Maður er nánast búinn að venja sig á tilhugsunina um að Gerrard fari í sumar og ég tel mig nokkuð tilbúinn til að kyngja því – en ef Baros fer líka þá verð ég örugglega aðeins daprari en flestir aðdáendur Liverpool. Mér fannst fínt að Heskey skyldi fara, sárt að missa Owen en ég yrði gjörsamlega eyðilagður ef Milan færi. Hann, öðrum framherjum fremur, átti alltaf að vera framtíð þessa félagags næstu 10 árin.

Hvað finnst ykkur hinum? EF Baros fer í sumar … og við fengjum þá væntanlega annan framherja í staðinn … myndi það veikja liðið, þar sem hann er ótrúlega góður leikmaður, eða styrkja það, þar sem við fengjum væntanlega inn mann sem ætti auðveldara með að falla inn að leikskipulagi Rafa Benítez?


UPPFÆRT (Kristján Atli): Ókei, Sky Sports eru búnir að birta frétt þar sem Baros blæs á allar sögur um ósætti og segist ekkert vera að íhuga brottför í sumar. Það var nú gott. 😀 Ég hefði átt afskaplega erfiða mánuði framundan ef hann hefði verið á förum frá félaginu…

14 Comments

  1. Sælir,

    ég skal ekki segja, hefur maður ekki oft heyrt að enginn sé stærri en klúbburinn!! Það er náttúrulega galli á leik Milans hvað hann setur oft undir sig hausinn og veður af stað, stundum tekst það hjá honum og hann eða einhver annar fær færi, þ.e. ef að hann gefur hann þá á annað borð, en mér finnst bara í lang flestum tilfellum að þá missir hann bara boltann eða hreinlega hleypur með hann útaf vellinum.

    Milan og Nando myndu hugsanlega virka vel saman frammi hjá okkur en einhverja hluta vegna að þá vill Rafa nota frekar 4-5-1 en 4-4-2, en að mínu mati að þá eigum við ekki leikmann til að spila í holunni á bak við framherjann svo ég hallast frekar að 4-4-2 kerfinu, það hentar okkur mun betur finnst mér, ef að við fáum Eið Smára í dílnum við Chelski fyrir Stevie, að þá getum við farið í 4-5-1 🙂

    Kv Stjáni

  2. ef baros fer þá verð ég ótrúlega sad þar sem baros er uppáhalds leikmaðurinn minn, hann er einmitt aftaná liverpool búningnum mínum. Vonandi er þetta bara rugl :confused:

  3. Ætli maður verði ekki bara að treysta Benitez fyrir þessu, þó að ég hafi mikið álit á Baros.

  4. Þegar við opnuðum Liverpool bloggið þá skrifaði ég þetta í [prófílinn minn](http://www.eoe.is/liverpool/einarorn.php)

    >Þeir leikmenn hjá Liverpool, sem ég held mest uppá, eru **Gerrard, Baros og Owen**. Ef við lítum lengra aftur í tímann, þá eru Barnes, Rush og Fowler í miklu uppáhaldi hjá mér.

    Ætli ég hafi lagt einhverja bölvun á þessa menn?

    Skrifa eflaust meira seinna.

  5. Milan Baros framherji Liverpool segir að ekkert sé til í þeim fréttum Dailky Mirror í dag að hann hafi átt í deilum við þjálfara félagsins. Baros byrjaði á bekknum í úrslitaleik Carling Cup á sunnudag og segist hafa veirð vonsvikinn yfir því en Daily Mirror sagði að í kjölfarið hafi leikmaðurinn óskað eftir að fara frá félaginu í sumar.

    Tekið af Fótbolti.Net :biggrin: :biggrin:

  6. Þetta er það ALLRA SÍÐASTA sem ég vill sjá með framtíð Liverpool, Baros má ekki fara!!!!

    Vona að þetta sé ekkert annað en slúður.

  7. Ok, ágætt ef þetta er bara rugl. En ég skil vel að Baros gæti verið frústreraður við að hafa verið á bekknum gegn Chelsea.

    En ef hann væri með eitthvað svona bull viku fyrir úrslitaleik í Meistaradeildinni, þar sem hann verður pottþétt í fremstu víglínu væri náttúrulega bilun.

    Baros er minn maður, framherji númer 1 hjá Liverpool og einn af 5 bestu framherjum í ensku deildinni. Þeir, [sem halda því fram](http://www.liverpool.is/forum/tm.asp?m=153817) að það sé í fínu lagi að Baros fari, eru ekki með öllum mjalla. 🙂

  8. Það kæmi mér nú eiginlega ekkert á óvart ef við sæum á eftir leikmönnum eins og Milan Baros, Steven Gerrard, Didi Hamann og Igor Biscan þar sem það hefur legið í loftinu blaðafyrirsagnir um þá alla. Gerrard hefur mest verið á milli tannanna á blöðunum (réttilega) eftir síðasta sumar og það liggur ljóst fyrir að Hamann og Biscan eru með samninga sem verða lausir í vor.

    En ég ætla mér að giska á að þessir allir fari frá LFC í sumar.

  9. “ef að við fáum Eið Smára í dílnum við Chelski fyrir Stevie, ……………..”

    Ja, ef það myndi gerast þá myndi ég stökkva hæð mína í loft upp af gleði….. 🙂

    Ég er ekki þessi hrikalegi Baros aðdáandi eins og margir púllarar. Engu að síður þá vil ég ekki missa hann. Baros er markamaskína af guðs náð og það þarf dálítið að byggja upp framlínuna í kringum hann til að hlutirnir gangi upp. Spurningin er hvort hann passar með Morientes??
    Ég hef samt meiri trú á Morientes og Baros saman en Baros og Cisse saman. Eitt er víst að það vantar ekki hæfileikana hjá þessum frábæru knattspyrnumönnum.

  10. Fyrir jól þá var hann kannski með 11 mörk í innan við 20 leikjum, en núna hefur hann spilað í 26 leiki og skorað 12 mörk. Ekki góður árangur það árið 2005. Persónulega eru þetta samt topp 5 strikerar á Englandi að mínu mati:
    1. Thierry Henry (23 mörk)
    2. Ruud van Nistelrooy (12 mörk)
    3. Jermaine Defoe (20 mörk)
    4. Wayne Rooney (15 mörk)
    5. Ayegbeni Yakubu (14 mörk)

    Svo er Alan Shearer líka enn seigur (kominn með 15 mörk í ár),

    Málið með Baros, er það að hann er ekki nógu góður team-player, getur spilað boltanum mjög illa. Það sem hann er mjög góður í, er að sigta út markið, fá boltann, og svo hlaupa að markinu og skora (veit að þetta hljómar eins og maður lýsir því sem allir framherjar gera, en ég vona að þið vitið hvað ég meina). Maður sá samt t.d. þegar hann lenti líka á móti góðri vörn Man Utd núna í janúar… að þeir leyfðu honum alltaf bara að taka sín hlaup með boltann, en lokuðu á allar leiðir inn að marki, og því endaði hann oftar en ekki í sjálfheldu í horninu og missti boltann.

  11. Drengir!

    Það yrði ævintýralegt klúður að missa þennan magnaða leikmann frá liðinu. Við höfum ekki hugmynd um hvernig Cisse og Morientes koma til með að spjara sig. Menn tala mikið um að Baros setji yndir sig hausinn og spila ekki vel fyrir liðið, en það er ekki eins og hann sé fullmótaður. Þvílíkur efniviður til að vinna úr.

Áfram um Chelsea (+ viðbót)

Mourinho sleppur, Carson gæti spilað