Tíðindalítil vika…

lfc_anfield.jpgJæja, þá er ég búinn að slaka aðeins á þessa vikuna. Það er einfaldlega ekki hægt að fá nóg af Liverpool FC, þetta er svo yndislegt knattspyrnulið … en hafi verið hægt að komast nálægt því, þá tókst mér það um helgina. Þegar ég var búinn að skila af mér ferðasögunni á mánudaginn þá langaði mig bara að gera nánast hvað sem er, eins lengi og það væri ekki Liverpool-tengt. Þannig að ég horfði á spólu af leik helgarinnar… 😉

En í fullri alvöru, þá ákvað ég að taka mér örlítið frí frá Liverpool og því skrifaði ég ekkert hér inn í gær. Enda var svo sem ekki mikið að gerast, þannig séð. Einar var fljótur að benda á grein Paul Tomkins sem ætti að vera skyldulesning fyrir alla þá sem hafa verið pirraðir yfir framvindu mála í vetur. Jú, og í dag reyndi Alan Hansen að klóra í bakkann, sem mér fannst bara fyndið. Hann hefur sennilega séð að hann gekk of langt í gagnrýni sinni (skemmdarverkum öllu nær… ) eftir Southampton-leikinn og er að reyna að draga í land með því að “biðjast afsökunar” í nýju greininni. Ætli hann hafi lesið það sem Tomkins hafði um skrif hans að segja? Ég vona það, mér finnst alltaf leiðinlegt þegar fyrrverandi leikmenn Liverpool – sér í lagi goðsagnir eins og Hansen og Souness – hrapa af stalli sínum með óþarflega leiðinlegum ummælum um klúbbinn sem ann þeim svo mjög.

Svo tók ég eftir því í gær að við eigum leik næsta laugardag gegn Birmingham í deildinni, en eftir það eigum við bara tvo leiki eftir í febrúar: gegn Bayer Leverkusen á Anfield þriðjudaginn 22. febrúar, og svo úrslitaleik Deildarbikarsins gegn Chelsea sunnudaginn 27. febrúar.

Við fáum sem sagt 10 daga frí frá deildarleiknum á laugardag og þangað til við mætum Bayer Leverkusen. Ég er ekki alveg viss hvort það sé jákvætt eða neikvætt – á annan bóginn þá verða okkar menn vel, vel, vel úthvíldir gegn Leverkusen en á hinn bóginn gætum við fyrir vikið komið kaldir inn á Anfield þann 22. Vonandi verður þetta okkur þó til tekna.

Það dylst samt engum að þetta eru þrír gríðarlega, ofboðslega mikilvægir leikir fyrir klúbbinn. Sennilega er langt síðan við höfum spilað þrjá jafn mikilvæga leiki í röð; útileikur í deildinni sem verður að vinnast til að draga enn frekar á Everton, 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar á Anfield og loks úrslitaleikur í bikarkeppni gegn besta liði Englands um þessar mundir. Þótt þetta séu “aðeins” þrír leikir á 15 dögum þá er ljóst að febrúarmánuður verður ofboðslega spennandi. Vonum bara að þetta reynist vera happamánuðurinn okkar, við höfum þegar unnið báða deildarleiki okkar í febrúar og því gætum við endað með 5 leiki, 5 sigra eftir þrjár vikur. Það yrði ekki leiðinlegt. 🙂


riise_super.jpg Annars langar mig að lokum að minnast á eitt atriði, eða öllu heldur einn leikmann. Ég skrifaði leikskýrsluna þarna á mánudaginn mitt í allri ferðasögulengjunni og hrósaði sérstaklega Djimi Traoré fyrir vasklega framgöngu á vinstri hlið vallarins. En svo horfði ég á leikinn aftur á spólu og þá tók ég eftir svolitlu öðru: velgengni Traoré á vinstri vængnum er að mjög miklu leyti John Arne Riise að þakka. Í raun hefði ég átt að telja þá báða til, því það er fyrst og fremst samvinna þeirra tveggja sem gerir vinstri vænginn okkar svo öflugan þessa dagana, bæði í vörn og í sókn.

Það hefur verið mjög altalað í vetur að í fjarveru Harry Kewell sé Riise í raun bara vinstri bakvörður beðinn um að spila kantinn, ég hef meira að segja haldið því sjálfur fram. En nú finnst mér ég verða að viðurkenna að ég hef einfaldlega haft rangt fyrir mér: Riise er búinn að skora 8 mörk og eiga 8 stoðsendingar í vetur í öllum keppnum – og öll þessi mörk hans hafa komið eftir að hann færði sig fram á kantinn. Hann er kannski ekki jafn leikinn með boltann og Kewell en hann er alveg jafn fljótur, líkamlega sterkari og betri skotmaður. Þá er Riise í vetur búinn að bæta sig rosalega í staðsetningum sem kantmaður og fyrirgjöfum, sem sést best í því að hann hefur verið að búa til mörk í öllum regnbogans litum fyrir okkur síðustu tvo-þrjá mánuðina. Hann er einfaldlega orðinn einn af öflugri vinstri kantmönnum deildarinnar – berið bara saman frammistöðu þeirra Reyes og Pires annars vegar og Riise hins vegar síðustu tvo mánuði í deildinni. Stuart Downing hjá Middlesbrough og Shaun Wright-Phillips hjá Man City eru svona þeir tveir ungu kantmenn í deildinni sem hafa fengið hvað mest lof í vetur, en Riise er engu að síður búinn að skora meira en þeir báðir og eiga fleiri stoðsendingar en þeir báðir líka. Það er nokkuð góð frammistaða hjá “bakverði í vitlausri stöðu”.

Það sem mér finnst vera forvitnilegast við framgöngu Riise á kantinum í vetur er það hvað verður um Harry Kewell þegar hann loks jafnar sig af meiðslum sínum? Traoré er að brillera í bakverðinum sem og Riise á kantinum, auk þess sem Stephen Warnock hefur verið að eiga góðar innkomur í báðar þessar stöður og er vafalítið framtíðarmaður hjá LFC. Ég geri fastlega ráð fyrir því að Kewell snúi aftur endurnærður og hungraður eftir langa hvíld vegna meiðsla, en getur hann gengið að sæti sínu á kantinum vísu nú eins og hann hefði getað gert fyrir hálfu ári? Ég held ekki, hann þarf sennilega bara að komast á bekkinn og vinna sér inn stöðuna á ný eins og hver annar leikmaður … þökk sé Riise.

Þetta er allavega gott vandamál: á meðan Traoré, Riise og Warnock eru að standa sig vel á vinstri kantinum og Kewell er að jafna sig úr meiðslum þá getum við allavega andað rólega og vitað að vinstri vængur liðsins er í mjög góðum málum. Fyrir tveimur árum, áður en við keyptum Kewell, var hrópað ansi hátt á betri valkosti vinstra megin og það var almennt talin veikasta staðan í hópnum okkar. Þá var Berger nýfarinn og í raun áttum við bara Riise sem vinstri bakvörð í öllum hópnum okkar – fleiri vinstrimenn áttum við ekki. En nú eigum við a.m.k. fjóra slíka og jafnvel fleiri, þar sem Luis García getur spilað vinstra megin ef þörf er á. Það eru góðar fréttir.

Og bara svo það sé á hreinu, eftir veturinn í vetur er ég farinn að líta á Riise sem einn af lykilmönnum Liverpool. Ég hef oft talað um Carragher, Hyypiä, Gerrard, Alonso, Baros og Cissé sem kjarna liðsins en nú held ég að við getum með fullri vissu bætt Riise – og augljóslega Morientes – við þann hóp. Það er ekki slæmur kjarni. 🙂

2 Comments

  1. Riise er einn þeirra leikmanna sem hafa hækkað hvað mest í áliti hjá mér á tímabilinu. Hinsvegar er ég með óbeit á einu sem hann gerir. Hann þarf alltaf að fá boltann lagðan til hliðar þegar það er aukaspyrna :rolleyes:

Sigurgleði

Myndirnar frá Liverpool!