Rafa: Carson ætti að velja Liverpool!

Hmmm, þetta eru frekar skrýtnar fréttir. Nú birtist skyndilega á forsíðu LiverpoolFC.tv – opinberu síðunnar – að Rafa Benítez vill að Scott Carson velji Liverpool fram yfir Chelsea.

Það er svo sem ekkert skrýtið að hann vilji það. Við erum jú að eltast við þennan leikmann, skv. því sem mér skilst þá eru bæði lið búin að bjóða það sama í Carson – talið vera um 1 milljón punda, helmingurinn staðgreiddur – og Leeds hafa gefið liðunum leyfi til að tala við Carson. Hann er með tvö samningstilboð á borðinu og virðist í raun bara eiga eftir að velja hvoru liðinu hann vill spila með.

Þá kemur að því sem mér finnst skrýtnast: af hverju myndi Rafa Benítez tjá sig um þessi mál á forsíðu opinberu heimasíðu klúbbsins? Það er vitað mál að ef menn tjá sig um leikmenn á þennan hátt, og þeir síðan koma ekki á endanum, þá lítur maður ansi heimskulega út.

Þannig að mér finnst langlíklegast að annað af tvennu sé satt í stöðunni:

1: Við erum búnir að semja við Carson og Benítez er að “smyrja farveginn” svo að hann geti komið beint inn í byrjunarliðið um næstu helgi fyrir hinn óstöðuga Dudek. Langsótt, en þessi taktík hefur verið notuð áður.

2: Carson er að hugsa sig um hvort liðið hann vill semja við, og Benítez er með þessari yfirlýsingu sinni að reyna að hafa áhrif á hann. Hann er að reyna að koma þeim skilaboðum til Carson að þótt hann sé ungur séu góðar líkur – í ljósi þess markvarðavesens sem við höfum átt í – að hann fái að koma beint inn í byrjunarliðið og spreyta sig með okkur. Það fái hann aldrei hjá Chelsea, þar sem hann verði aldrei annað en þriðji kostur þangað til Cudicini er farinn, og hann muni aldrei velta Cech úr sessi!

Mér finnst kostur #2 vera langlíklegastur, að Benítez sé að reyna að hafa áhrif á ákvörðun Carsons með því að gefa í skyn að hann fái jafnvel að koma beint inn í liðið. Eins og Daily Telegraph tekur fram, þá er Carson uppalinn Liverpool-aðdáandi sem gerir möguleikana á að við fáum hann strax miklu betri, þannig að kannski þessi ummæli Benítez hafi gert útslagið og Carson komi til okkar?

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei séð þennan gæja spila, svo að ég muni. Hann spilaði víst einhverja leiki með Leeds í fyrra á fallári þeirra en ég man ekki eftir að hafa séð hann. Í ár hefur hann setið nær eingöngu á bekknum þar sem hinn gamalreyndi Neil Sullivan er #1 á Elland Road. Þá er stráksi 19 ára, mikið efni, en það er spurning hvort hann sé ekki of ungur til að koma til greina sem markvörður #1 hjá Liverpool?

Samt … Iker Casillas, Gianluigi Buffon, Andreas Isaksson, Petr Cech, Paul Robinson, Victor Valdés … þetta eru allt dæmi um markverði sem fengu tækifærið sitt hjá stórliðum í Evrópu áður en þeir urðu 20 ára (nema Cech, sem var 21s árs þegar hann kom til Chelsea í fyrra) og stóðu sig. Þessir markverðir eru sennilega allir í topp 15 í Evrópu í dag, þrátt fyrir ungan aldur.

Ég ætla ekki að útiloka það að Carson geti gert það sama fyrir okkur. Ef maður er nógu góður þá er maður nógu gamall, segir gamalt máltæki. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu mála í þessari viku – ég geri ráð fyrir að Carson geri kunngjört um hvaða lið hann velur á næstu dögum. Vonandi verður það liðið sem hann hefur stutt alla ævi.

8 Comments

  1. Hefur það ekki sýnt sig að þeir markmenn sem eru hvað bestir í heiminum sýna það yfirleitt strax á unga aldri svo ef Carson kæmi til Liverpool og er the big deal þá bara frábært, annars sakar varla að prófa hann í vetur og ef hann gerir nokkur mistök verður bara að hafa það.

    Málið er bara að það VERÐUR að fá nýjan markmann og það sem fyrst.

  2. Þetta er eflaust hörku markmaður fyrst að Benitez og hans menn hafa svona mikla trú á honum. Samt er eitt sem er að angra mig, þið talið um að Carson muni hugsanlega fara beint í að vera markmaður nr. 1 hjá Liverpool, en hjá Leeds sem er í deild fyrir neðan okkur er hann markamaður nr. 2 á eftir gamlingjanum Sullivan.

    Gæti verið að Benitez sé með hugmyndir um að losa Kirkland og fá sér nýjan framtíðar markmann.
    Hver veit?

    Kveðja
    Krizzi

  3. Já krizzi, það er einmitt það eina sem mér finnst skrýtið við þetta. Ég hef ekki séð hann spila og get því ekki dæmt um það sjálfur … en það er vissulega skrýtið að Liverpool og Chelsea séu að berjast hatrammri baráttu um 19 ára markvörð sem kemst ekki í byrjunarliðið í sínu liði, deild neðar en stórliðin tvö eru.

    En ég treysti engu að síður dómgreind Benítez í þessum málum og ef hann er svona æstur í að fá strákinn til liðs við okkur þá hlýtur bara eitthvað að vera varið í hann. 🙂

  4. Seljum Kirkland og Dudek og fáum Van Der Sar og Carson?
    Hljómar það ekki vel?

  5. Er ekki spurning hvort Leeds hafi hann á bekknum vegna þess að þeir vita að þeir eru að fara að selja hann?

    Svo verð ég bara að segja að Kirkland átti nú að vera næsti landsliðsmarkmaður Englendinga þegar við keyptum hann hér um árið á 6m. punda! Í ár var hann nær því að vera í landsliðinu þegar hann var meiddur en þegar hann spilaði.

    Kaupum Howard frá Man Utd. Hann er góður markmaður þegar hann fær sjálfstraustið aftur!

  6. Sá hann spila, í fyrra, á móti Man. Utd. á Old Trafford. Hann stóð sig mjög vel í þeim leik og virtist bera litla virðingu fyrir Nistelrooy og félögum. Hann er mjög efnilegur, en sennilega ekki tilbúinn til að vera markmaður #1

    Annars vil ég sjá Timo Hildebrand í markinu hjá Liverpool. Hann er gríðarlega góður, ungur og hefur öðlast reynslu í meistaradeildinni og auk þess verið viðloðandi þýska landsliðið.

  7. “Kaupum Howard frá Man Utd. Hann er góður markmaður þegar hann fær sjálfstraustið aftur!”

    hvenær viltu að ég hlæji að þessu :confused: :rolleyes:

  8. æh nei, come on, kaupa einhvern sem er með sjálfstraustið í lagi..

Salif Diao að fara? LOKSINS!

Burnley í kvöld!