Mat okkar á hópnum á fyrri hluta tímabilsins! (þjálfarinn)

Jæja, þá er það síðasti hlutinn í umfjöllun okkar um hópinn á fyrri hluta tímabilsins. Sjá áður.

[Sóknin](http://www.kop.is/gamalt/2005/01/03/19.50.41/)
[Miðjan](http://www.kop.is/gamalt/2004/12/30/14.35.00/)
[Vörnin og markmenn](http://www.kop.is/gamalt/2004/12/29/22.49.47/)

Síðasti hlutinn fjallar um þjálfarann, Rafael Benitez:


RAFAEL BENÍTEZ: Þvílíkur rússíbani hefur þetta fyrsta hálfa ár hjá Benítez verið. Hann byrjaði strax að taka til og lánaði óþarfa leikmenn út í stórum stíl. Þá tók hann gríðarlega erfiða ákvörðun þegar hann seldi Owen til Real en eftir á að hyggja var það rétt mat hjá honum. Það var augljóst í hvað stefndi, Owen ætlaði að fara frá okkur á frjálsri sölu eins og Steve McManaman gerði og það þoldi Benítez ekki.

Þá hefur Benítez sýnt okkur að hann hefur það aðdráttarafl sem til þarf til að laða toppmenn til klúbbsins. Xabi Alonso, Luis García, Antonio Núnez (sem yfirgaf Real Madríd) og Fernando Morientes eru góð dæmi um þetta, en yfirlýsingar Morientes um að vilja spila fyrir Liverpool eru að miklu leyti tilkomnar vegna þeirrar virðingar sem Rafa nýtur í Evrópu.

Taktískt séð hefur Benítez umbylt liðinu. Við spilum flæðandi sóknarbolta, nýtum vængina vel og það virðast nær allir leikmenn liðsins færir um að skora mörk úr opnum færum. Þá hefur hann sýnt mikla taktíska snilli í einstöku leikjum, eins og þegar hann setti Biscan inn til að jarða Deportivo í Meistaradeildinni og svo þegar hann setti Gerrard í holuna fyrir aftan fremsta mann sem virkaði ótrúlega vel gegn Arsenal. Hann hefur vissulega gert ein og ein mistök en það sem jákvæðast er er það að hann hefur lært af þeim og endurtekur sjaldan sömu mistökin tvisvar.

Þá á hann hrós skilið fyrir það hvernig hann meðhöndlar fjölmiðla. Hann neitar að tala um einstaka leikmenn ? hvorki sína eigin leikmenn né þá sem hann er orðaður við ? og þá neitar hann jafnframt alfarið að tala um tímabilið í heild sinni. Hann vill alltaf bara einbeita sér að næsta leik sem ég tel að hafi hjálpað liðinu að halda einbeitningunni í lagi.

Liðið hefur vissulega skort stöðugleika en ég tel að það hafi farið batnandi eftir því sem líður á tímabilið og muni síðan komast endanlega í lag eftir áramót. Eins og er erum við komnir í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar, undanúrslit Deildarbikarsins og erum í sjötta sæti Úrvalsdeildarinnar með góða möguleika á að ná a.m.k. fjórða sætinu. Framtíðin hjá Liverpool er björt og framundan er janúarmánuður uppfullur af leikmannakaupum, mikilvægum leikjum í deild og bikarkeppnum auk þess sem við fáum enn einn leikmanninn, Vladimir Smicer, inn úr meiðslum. Ég tel Rafael Benítez vera manninn sem getur gert okkur að toppliði á ný og ég hef fulla trú á honum. Þetta mun taka tíma þar sem hann er að endurbyggja liðið, hann mun losa sig við fleiri leikmenn á árinu 2005 og fá enn fleiri til liðs við sig og ég hugsa að eftir svona ár verði liðið orðið frekar mikið breytt frá því sem það er í dag. En það er í lagi, breytinga er þörf ef liðið á að ná lengra og undir stjórn Rafael Benítez sé ég enga ástæðu til annars en að horfa fram á veginn með bros á vör.

2005 verður gott ár.

**Rafa á sannarlega hrós skilið, bæði fyrir að endurlífga skemmtilegan fótbolta á Anfield og hvernig hann hefur tekist á við öll þessi gríðarlegu vandamál, sem hafa fylgt liðinu eftir að hann byrjaði, án þess að kvarta.**

**Hann hefur þess í stað einbeitt sér að gera það besta úr því, sem hann hefur. Þegar maður horfir rólegur á stöðuna í dag og það hvernig liðið hefur spilað, miðað við allt, sem hefur dunið á, þá getur maður ekki annað en hrósað Benitez fyrir frábært starf. Hann hefur keypt rétta leikmenn og endurvakið menn einsog Traore og Riise. Það er bara óskandi að það hægist eitthvað á þessum meiðslavandræðum og dómararugli á seinni hluta tímabilsins. Ef það gerist, þá er ég mjög bjartsýnn. Umfram allt er ég 100% viss um að Rafa Benitez er rétti maðurinn í þetta starf. 9/10**

Ein athugasemd

  1. Ég dýrka að ef að Lverpool tapar leik eða gerir jafntefli og dómarar hafi sýnt heimsku sýna í leiknum, þá neitar hann alfarið að kenna dómurum um úrslit leikja og hann hefur ALDREI notað á tímabilinu meiðsli leikmanna sem afsökun á lélegum úrslitum. Anfield er næstum því orðið að virki aftur, lið eru vikrilega farin að óttast Anfield og eru í skýjunum ef að þau ná stigi þaðan (sem að er mjög sjaldgæft). Það eina sem að vantar upp á þetta er það að Rafa segir í fjölmiðlum: I’m gona make Anfield a bastion of invincability! 😉

    Bjartir tímar framundan og get ekki beðið eftir því að sjá lið Rafa spila, því að í augnablikinu erum við að sjá lið Houlliers spila, bara undir öðrum framkvæmdastjóra. Get ýmindað mér í framtíðinni Alonso og Gerrard sem “the most fearsome midfield partnership in the world,” en mður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér en ég get ekki beðið. 🙂

Enn versnar meiðslavandinn

Hvar er Fernando Morientes?