Chelsea á morgun! (uppfært)

chelsea1.jpg Úff, á morgun nýársdag munu okkar menn í Liverpool FC mæta toppliði Chelsea í því sem ég myndi sennilega kalla erfiðasta heimaleik okkar í allan vetur. Það getur vel verið að við eigum eftir að mæta sterkari liðum en Bayer Leverkusen í Meistaradeildinni á Anfield í vor en ég efast um að nokkurt þeirra verði okkur jafn erfiður ljár í þúfu og Chelsea.

Ástæðurnar fyrir því hvað þessi leikur er mikilvægur – og er fyrir vikið ofboðslega erfiður fyrir okkar menn – eru margar. Til að byrja með þá þarf bara að benda á töfluna, þar sem Chelsea tróna á toppnum með 49 stig í 20 leikjum en við erum í sjötta sæti með 34 stig í jafnmörgum leikjum. Þetta er 15 stiga munur sem við viljum að sjálfsögðu ólmir minnka og við fáum aldrei jafn góðan séns á því og á morgun!

Nú, í öðru lagi þá þarf ég bara að nefna eitt nafn: Gerrard. Saga þessa drengs síðustu sjö-átta mánuðina hefur orðið náskyld nafni Roman Abramovich og Chelsea en þeir hafa verið þrálátlega orðaðir við kaup á fyrirliðanum okkar og það gekk svo langt í sumar að hann átti víst bara eftir að skrifa undir til að klára málin. En hann skipti um skoðun sem þaggaði niður í fjölmiðlunum … í tvo mánuði. Síðan byrjaði þetta á fullu aftur og hann þurfti að gjöra svo vel og taka af allan vafa í viðtölum um daginn að hann væri ekki að fara frá okkur í janúar, til að slúðrið þagnaði á ný. En ég spái því að það muni ekki vera lengi að byrja vangavelturnar um að hann fari til þeirra næsta sumar, enda þarf engan snilling til að sjá það fyrir.

chelsea2.jpg Þriðja ástæðan fyrir mikilvægi og erfiðleikum þessa leiks fyrir okkar menn er einföld. Chelsea-liðið hefur leikið rúmlega 30 leiki í öllum keppnum í vetur, rétt eins og við. Liðið er komið í undanúrslit Deildarbikarsins, eins og við, og 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar, eins og við. Munurinn er hins vegar sá að af þessum rúmlega þrjátíu leikjum í vetur hafa Chelsea aðeins tapað tvisvar. Í fyrra skiptið var það á útivelli í deildinni gegn Manchester City, þar sem Chelsea-menn voru furðulega slappir og City komust upp með að skora eitt mark snemma leiks og leggjast svo í vörn í 75 mínútur – á heimavelli.

Hitt tapið kom síðan í síðustu umferð riðlakeppninnar í Meistaradeildinni þar sem Chelsea voru öruggir áfram, hvíldu menn og voru komnir yfir gegn Porto sem voru að berjast fyrir lífi sínu í keppninni. Porto skoruðu tvö mörk á síðasta kortérinu til að “stela” sigrinum, eins og sagt er.

Þannig að þessi tvö töp Chelsea eiga sér fullkomlega eðlilegar skýringar. Liðið er að leika þrusuvel í öllum sínum leikjum og þessi tvö töp hafa engin áhrif haft á þá.

Sem sagt, það að vinna Chelsea á morgun verður yfirnáttúrulega erfitt. Okkar menn þurfa að vera gjörsamlega upp á sitt besta til að ætla að ná að leggja toppliðið – og deildarinnar vegna þá bara verðum við að vinna þá. Það myndi vera okkur mikil lyftistöng og setja okkur í nánd við toppbaráttuna og um leið myndi það opna möguleika fyrir United og Arsenal að draga verulega á Chelsea á morgun. Við gætum gert titilbaráttuna spennandi á nýjan leik eftir að Chelsea hefur haft yfirburði í rúma tvo mánuði núna.

Spurningin er bara: hvernig förum við að þessu? Til að mynda, hvernig mun Rafael Benítez stilla liðinu upp gegn Chelsea? Nú er gjörsamlega ómögulegt að spá í byrjunarliðið þar sem við vitum fyrir það fyrsta ekkert hverjir eru heilir og hverjir ekki. En við getum spáð í leikskipulagið og reynt að sjá fyrir okkur hvernig Rafa mun reyna að gera lítið úr sóknarhættu Chelsea.

Í fyrsta lagi þá eru Chelsea-menn bara með einn framherja, en í rauninni þrjá. Þetta virkar þannig að Eiður Smári eða Drogba mun sitja á toppnum og síðan suða Robben og Duff eins og býflugur þar fyrir aftan, valdandi gríðarlegum usla sérstaklega af því að þeir hafa engar fastar stöður og því er svo erfitt að dekka þá.

Annars þori ég nokkuð örugglega að skjóta á þetta byrjunarlið hjá Chelsea á morgun:

Cech

Ferreira – Carvalho – Terry – Gallas
Makelele
Tiago – Lampard
<-----Duff - Robben ----->
Eiður Smári

Ótrúlega sterk fjögurra manna baklína, varin af einum besta varnarsinnaða miðjumanni Evrópu. Þetta kannast Liverpool-aðdáendur við frá þrennutímabilinu þar sem Hamann varði frábæra vörn okkar. Þar fyrir framan sitja Tiago og Lampard sem heyja styrjöldina í hverjum leik um yfirráð á miðjum vellinum. Þar fyrir framan eins og áður sagði eru Duff og Robben í sköpunarhlutverkinu og Eiður Smári í því að klára dæmið.

Það eina sem mér finnst vera vafamál er það hvort Drogba spili frekar en Eiður Smári. Eiður hefur jafnan verið dapur gegn okkur undanfarin ár á meðan Drogba jarðaði okkur bæði á Anfield og í Frakklandi í Evrópukeppni Félagsliða í vor. Hann hefur andlega yfirburði gagnvart varnarmönnum okkar, það verður að segjast, og því held ég að hann gæti alveg spilað.

Hvernig ætlum við að stöðva þetta? Auðvitað gæti Benítez ákveðið að hafa engar áhyggjur af Chelsea, einbeita sér að sínum sóknarleik og stilla þessu upp svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García/Núnez – Gerrard – Alonso – Riise

Pongolle – Baros/Mellor

Hér eru tvö spurningarmerki, annars vegar hvorn Spánverjann Benítez velur á hægri kantinn og síðan það hvort að Baros verður heill á morgun eða ekki. Að öðru leyti er þetta lið nokkurn veginn sjálfvalið, EF Benítez ákveður að spila 4-4-2 sóknarbolta á morgun.

Hins vegar er að mínu mati á þessu stór galli. Eins góðir og þeir eru, þá verður nánast ómögulegt fyrir Alonso og Gerrard að ætla sér að vinna Makelele, Lampard og Tiago í miðjubaráttunni. Að mínu mati er bara Lampard af þeim þremur í sama klassa og okkar tveir miðjumenn, en að ætla þeim að hafa betur gegn þremur klassagóðum miðjumönnum er mjög tæpt. Þá myndu þeir líka aldrei geta beitt sér að fullu í sóknarspilinu okkar, og við vitum að við munum þurfa á bæði sendingargetu Alonso og krafti Gerrard að halda í sköpuninni á morgun.

Því finnst mér persónulega líklegra að Benítez noti þetta kerfi á morgun:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Nún/Gar – Gerrard – Hamann – Alonso – Riise

Baros/Pongolle

Hér kæmi Hamann að frábærum notum að mínu mati, þar sem hann er svo góður í að stöðva miðjumenn andstæðinganna í að geta keyrt óhindrað að vörninni okkar. Þar með myndum við með nærveru hans fara langleiðina með það að stöðva þá Lampard og Tiago, um leið og við myndum loka verulega á það pláss sem Duff og Robben myndu hafa til að athafna sig á miðjum vellinum, sem myndi fyrir vikið neyða þá út á kantana þar sem við höfum betri séns á að ná að halda aftur af þeim.

Þá myndi þetta líka gera Alonso og Gerrard lífið mikið auðveldara þar sem þeir gætu tekið þátt í miðjustyrjöldinni en jafnframt lagt sitt af mörkum í sóknarleik okkar.

Þessi liðsuppstilling svínvirkaði gegn Arsenal og það án Baros frammi og því sé ég enga ástæðu til annars en að halda að hún geti hjálpað okkur að gera Chelsea-liðið óvirkt á morgun.


MÍN SPÁ: Ekki séns að ég ætli að spá um úrslitin í þessum leik. Þegar tvö svona góð lið mætast á fótboltavellinum við bestu mögulegu aðstæður þá er gjörsamlega ógerlegt að vera viss um úrslit. Þeir gætu alveg gengið til leiks á morgun og valtað yfir okkur en við gætum líka valtað yfir þá. Sennilega mun þetta velta mikið á því hvort það kemur mark snemma í leikinn, og þá hvorum megin það mark muni detta. Ég persónulega sé fyrir mér dramatík í hámarki þar sem bæði lið spila varlega og berjast um hvern einasta bolta, og persónulega kæmi mér ekkert á óvart þótt annað hvort liðið myndi “stela” 1-0 sigri á síðustu fimmtán mínútunum.

Það verður bara að koma í ljós hvernig þessi leikur fer en ég er ekkert kvíðinn fyrir þennan leik, né er ég sigurviss. Ég bara hlakka til að horfa á þessa knattspyrnuveislu og vona innilega að úrslitin verði okkar mönnum hagstæð. Miðað við hvernig Chelsea hefur gengið undanfarið (9 sigrar og 2 jafntefli í síðustu 11 deildarleikjum!!!) þá tel ég persónulega að jafntefli sé ekkert hræðileg úrslit, eins lengi og við liggjum ekki í vörn allan leikinn.

En auðvitað viljum við sigur, hann myndi vera okkur svo mikils virði og lyftistöng fyrir félagið um leið og við myndum galopna titilbaráttuna á nýjan leik og hleypa spennu í þetta. Vonandi vinnum við, þótt það sé engin leið að vera viss.

Þetta verður allavega frábær dagur og skemmtileg og athyglisverð byrjun á árinu 2005. ÁFRAM LIVERPOOL!!!


**Uppfært (Einar Örn)**: Það er semsagt staðfest að [Milan Baros verður ekki með á morgun vegna meiðsla](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N147288041231-1450.htm) Ég er nokkuð viss um að Benitez mun fara aftur í 4-5-1 í þessum leik og ekki mun fjarvera Baros vera til að auka líkurnar á því að við verðum með tveim sóknarmönnum.

Þess vegna býst ég við að uppstillingin verði svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García- Gerrard – Hamann – Alonso – Riise

Pongolle

Ég hefði viljað sjá Pongolle þarna frammi, þar sem hann er mun betri í að halda boltanum. Þetta ætti að vera leikur sniðinn að þörfum Didi Hamann. Hann er pottþét maðurinn í að reyna að stoppa miðjuspil Chelsea. Ég spái því að hann og Alonso muni liggja mjög aftarlega og leyfa svo Gerrard að sækja með Garcia og Riise.

Það er vissulega ferlegt að Baros skuli vera meiddur og makalaust að þurfa að spila við bæði Chelsea og Arsenal án okkar tveggja bestu framherja.

En einsog Rafa, þá ætla ég sko ekki að kvarta. Við erum með leikmenn, sem geta klárað þetta og ég treysti Pongolle fyllilega þarna í framlínunni. Í fyrri leiknum á móti Chelsea þá léku Chelsea ekki vel og unnu með heppnismarki. Núna erum við að leika miklu betur sem lið og við getum svo sannarlega unnið þetta!

Áfram Liverpool!

Henchoz gagnrýnir Benitez

Ó Nei! Milan ekki með!