Hversu góður er Chris Kirkland? (uppfært!)

Dudek_Kirkland_Houllier_01.jpgFrá því að Gerard Houllier fékk æðiskast og keypti á einum degi tvo markverði, hef ég ávallt talið að markmannamál hjá Liverpool væru í góðum málum. Í raun höfðu þau verið í molum allt frá því að ég man eftir mér. Bruce Grobbelar var æði, en hann var aldrei öruggasti markvörður í heimi. Og eflaust gat hann leyft sér að gera fleiri mistök vegna þess að bæði var vörnin fyrir framan hann frábær og svo skoraði liðið svo mörg mörk.

Á eftir honum hafa m.a. komið David James, sem var þegar hann kom til Liverpool, án efa efnilegasti markvörður Englands og allir voru sammála að þarna væri kominn framtíðarmarkvörður Englands. En hann virtist ekki hafa nóg sjálfstraust og hann og félagar hans í Liverpool liðinu urðu á endanum frægari fyrir jakkafötin, sem þeir gengu í, heldur en árangur liðsins.

Þegar Houllier keypti Dudek og Kirkland, þá var okkur lofað efnilegasta markmanni Bretlands (og dýrasta markmanni á Englandi, þangað til að Man U keyptu Fabian Barthez) ásamt einum allra besta markmanni í Evrópu. Dudek átti að vera aðalmarkvörðurinn og Kirkland markvörður framtíðarinnar. Við vitum öll hvernig fór með Dudek. Allt þar til að hann gerði mistökin gegn Boro, þá hélt ég því statt og stöðugt fram að hann væri besti markvörður í Úrvalsdeildinni.

En það fór allt í vaskinn og Dudek hefur virkað einsog ein stór taugahrúga þegar hann hefur verið í markinu. Því vorum við Kristján sannfærðir um að í byrjun þessa tímabils yrði Kirkland í markinu og þegar hann náði sér af meiðslunum vildum við sjá hann í stað Dudek.

Við höfum nefnilega trúað öllu hype-inu í kringum Kirkland. Ég meina, hann stóð sig vel í fyrra, hann hefur alla burði til að vera frábær markvörður og blöðin hafa nánast gefið sér það að hann væri framtíðarmarkvörður Englands.

En hingað til á þessu tímabili hefur hann ekki sannfært mig. Eftir leikinn í gær fór ég að hugsa útí það hvenær Kirkland hefði virkilega komið okkur til bjargar á þessu tímabili og einhvern veginn datt mér ekki í hug eitt einasta skipti. Og í raun er það svo að gegn Aston Villa, Olympiakos og Everton hefur hann fengið á sig algjör *aulamörk* úr langskotum, sem allir almennilegir markverðir hefðu átt að verja.

Samt, var það sjokk að lesa þessa tölfræði (sem ég birti með leyfi [Hauks Hagnaðar](http://haukurhauks.blogspot.com/)). Þetta er tölfræði yfir skot og mörk, sem Chris Kirkland hefur fengið á sig í undanförnum leikjum (upprunaleg heimild: [UEFA](http://www.uefa.com/Competitions/UCL/Clubs/Club=7889/index.html) og [Sporting Life](http://www.sportinglife.com/football/premiership/liverpool/reports/)):

Everton – Liverpool: 2 skot fengin á sig, 1 mark.
Liverpool – Olympiacos: 2 skot fengin á sig, 1 mark.
Aston Villa – Liverpool: 2 skot fengin á sig, 1 mark.
Liverpool – Arsenal: 2 skot fengin á sig, 1 mark.
Monaco – Liverpool: 2 skot fengin á sig, 1 mark.
Mboro – Liverpool: 6 skot fengin á sig, 2 mörk.
Liverpool – Crystal P: 4 skot fengin á sig, 2 mörk.
Liverpool – Birmingham: 1 skot fengið á sig, 1 mark.

Samtals:
8 leikir.
21 skot fengið á sig.
10 mörk fengin á sig.

Þetta er í raun með hreinum ólíkindum. Það er með öðrum orðum tæplega **50% líkur á því að ef að lið ná skoti á mark gegn Liverpool, þá skori þau**. Þetta er ótrúleg tölfræði. Og gleymum því ekki að sum þessara skota hafa verið arfaslök. Ég efast um að það sé markvörður í ensku deildinni með jafn hræðilega tölfræði og Kirkland í þessu tilfelli.

En spurningin er þá, hvað skal gera? Liverpool stuðningsmenn hafa skipst í tvo hópa, þá sem vilja fá Dudek (og muna sennilega bara eftir góða Dudek, en ekki hinum taugaveiklaða Dudek, sem hefur spilað með Liverpool síðustu tvö ár) og þeir, sem vilja sjá Kirkland (og trúa enn að hann sé framtíð Liverpool).

Ég ætla að gerast svo djarfur að mæla fyrir hönd þriðja hópsins. Við þurfum einfaldlega nýjan markvörð. Dudek er ekki nógu góður, og Kirkland er ekki nógu góður, þrátt fyrir að ég vilji ekki alveg gefast uppá honum strax. Ég held að Benitez muni alvarlega íhuga markvarðarkaup í janúar. Persónulega hefði ég ekkert á móti því að sjá gamla markvörðinn hans Benitez hjá Valencia, Santiago Canizares í Liverpool búningi í janúar.

Það verður hins vegar býsna athyglisvert að sjá hvað Benitez geri fyrir Portsmouth leikinn á þriðjudag. Kirkland hefur verið arfaslakur, en Dudek lék vel gegn Tottenham og var án efa maður leiksins í þeim leik.

Ég þori eiginlega að veðja þúsundkalli á það að Jerzy verði í markinu á þriðjudaginn.


Jæja, þessu var fljótsvarað: SCOTT CARSON kemur í janúar!

Carson þessi er U21s-árs landsliðsmarkvörður Englendinga og almennt talinn mikið efni, eins og þeir Kirkland og Paul Robinson voru hérna fyrir 3-4 árum. Hann er hafður í miklum metum hjá Leeds skilst mér og þeir eru, að sögn félaga míns sem er Leedsari, mjög pirraðir yfir því að hann sé að fara.

Hann er samt bara 20 ára þannig að það er ekki alveg víst hvort hann sé að koma beint inn í liðið hjá okkur, eða hvort þetta sé meira hugsað til framtíðar. Finnst það líklegt…

11 Comments

  1. Vá, þvílík tölfræði !!! Ég held að ég fylgi þínul þriðja hóp og kjósi nýjann markvörð. Ég kannski mætti gerast svo djarfur og segja að Liverpool ætti ð kaupa Cudicini ? Held að hann mundi vilja koma þar sem að hann er ekki á næstunni að fara að ýta Petr Cech úr markinu, hann er frábær markvörður í þokkabót. Annars væri Tomas Sörensen, markvörður Aston Villa, frábær kostur en efast um að hann færi ódýrt frá Villa PArk.

  2. Ég tek heilshugar undir það sem þú segir Einar. Kirkland hefur ekki verið upp á sitt besta í síðustu leikjum og því tel ég að það sé rétt skammtímalausn að setja Dudek inn í markið í næstu leiki. Dudek hefur átt sín slæm tímabil eins og allir vita, en það vita samt allir að Dudek er frábær markvörður. Hann minnti okkur Einar svo sannarlega á það gegn Tottenham um daginn, þar sem hann hélt okkur á lífi.

    Hins vegar, þótt Dudek gæti komið inn í leikina á næstunni og gefið Kirkland góða hvíld til að ná sér á strik aftur þá svarar það ekki varanlegu spurningunni: þurfum við nýjan markvörð?

    United eiga í sömu vandræðum með Carrol og Howard, Arsenal eiga í þessum vandræðum með Lehmann og Almunia og í raun eiga öll lið nema Chelsea í þessum vandræðum. Þar situr Cudicini, einn besti markvörður deildarinnar síðustu ár á bekknum og Petr Cech, einn besti ungi markvörður í heimi er í liðinu.

    Ég veit eiginlega ekki hvort maður á að svara þessu. Eða hvort rétt sé að svara þessu strax öllu heldur. Dudek getur unnið gott starf fyrir okkur í næstu leikjum og þótt Kirkland hafi átt slæma daga undanfarið er alls ekki þar með sagt að hann sé búinn að vera. Hann er enn bara 24 ára gamall og mjög góður markvörður, þótt hann eigi enn eftir að bæta sig á ýmsum sviðum (sérstaklega fótavinnuna, sem brást honum gegn Everton og Villa). Hann er ungur, hann hefur alla burði til að verða frábær markvörður og við megum ekki gefast upp á honum strax.

    Því tel ég að besta lausnin fyrir okkur væri að setja Dudek inn í næstu leiki, sjá hvort hann stendur sig ekki bara vel og ef það er raunin þá þurfum við ekki að kaupa í janúar. Þá gæti Kirkland komið aftur inn þegar líður á tímabilið og vonandi verið búinn að fá sjálfstraustið aftur.

    Hins vegar, ef Dudek kemur inn í næstu leikjum og virkar eins og taugahrúgan sem við erum allir skíthræddir við … þá er spurning um að hringja í Canizares á nýársnótt!

  3. Hvað með að setja bara Henchos í markið? Nota hann í eitthvað :biggrin:

  4. Dudek er ekki nægilega góður og við ættum að selja hann í janúar. Fáum þennan Carson frá Leeds og gefum Kirkland út seasonið…

    Eftir það metum við hvernig hann hefur staðið sig og ef þetta heldur áfram svona þá seljum við hann og kaupum toppklassa markvörð og með Carson á bekknum.

  5. Síðan í leiknum á móti Bolton hérna um árið hefur markvarsla Liverpool verið tómt vesen. Eftir þann leik panikkaði Houllier algjörlega og ákvað að henda Sander Westerveld í ruslið eftir ein slæm mistök. Westervel hafði þá oft á tíðum bjargað okkur með frábærri markvörslu í gegnum árin. Houllier ákvað þá að kaupa tvo markmenn. Christopher Kirkland og Jerzy Dudek. Kirkland hafði þá um langt skeið verið orðaður við Liverpool. En hinn tvítugi Kirkland hafði þá þegar slegið Magnus Hedman sænskan landsliðsmann útúr liði Coventry. Allir sáu það sem vildu sjá að í honum var mikið efni. Hann var sagður framtíðar A-landsliðsmarkmaður en einnig hafði hann slegið Paul Robinson útúr U21 liði Englendinga. Paul Robinson þessi var þá þegar búnað sanna sig í úrvalsdeildinni í forföllum Nigels Martyn.

    Hinn var Jerzy Dudek. Hann átti að verða byrjunarliðsmaður. Jerzy sem kom frá Feyenoord var þekktur sem maðurinn sem gerði ekki mistök. Gott ef hann var ekki líka kallaður vélmennið eða eikkva svoless. Þennan dag kom Houllier með þau fleygu orð að gæði markmanna færu ekki eftir því hvað þeir næðu að verja mörg skot heldur hversu mörg mistök þeir gerðu. Jerzy Dudek var ekki lengi að vinna traust stuðningsmanna Liverpool. Hann varði oft ágætlega, og jú hann gerði aldrei mistök! Síðan gerðist það ótrúlega! Jerzy Dudek gerði mistök! Þetta var maðurinn sem átti ekki að geta gert mistök. Hann var keyptur á þeim forsendum og markmanninum á undan hent vegna þess að hann hafði gert mistök.

    Var furðulegt þó Dudek hefði panikkað? Búið var að setja á hann ofurmannlega pressu og á endanum hlaut hann að brotna. Eftir fylgdu enn fleiri mistök hjá Dudek. Houllier hélt þó tryggð við hann aðeins lengur en það hlaut að koma að því á endanum. Kirkland fór í markið. Yfirleitt þegar Kirkland hefur verið settur í markið hjá Liverpoll hefur hann meiðst(hva tvisvar – þrisvar?), og þegar hann hefur spilað hefur hann hreint út sagt verið lélegur. Ekkert örlar á þeim miklu hæfileikum sem hann sýndi hjá Coventry.

    En við verðum að taka það með í reikninginn að hann hefur verið óeðlilega mikið meiddur seinustu ár. Auðvitað hefur það sín áhrif á sjálfstraustið. Annað sem hefur gífurlega áhrif á sjálfstraustið er þetta gífurlega rót sem verið hefur á markmannasysteminu á Anfield seinustu ár.

    Það sem ég held að sé gáfulegast í þessari stöðu er að treysta Kirkland. Við vitum að hann hefur hæfileikana, við vitum að enginn markmaður er fullkominn og við vitum það líka að sjálfstraustið hans er í núlli og myndi langt í frá batna ef einhver tvítugur markmaður yrði keyptur. Þessi Scott Carson yrði líklega framtíðarmarkvörður. Hann myndi ekki leysa vandann hann myndi bara auka vandann ef eitthvað væri. Einhverjir komu með þá hugmynd að setja Dudek í markið, til hvers? Varla mun sjálfstraust og reynsla Kirkland aukast í varaliðinu. Ef Kirkland heldur síendurtekið áfram að kúka á sig finndist mér kannski í lagi að opna budduna. En þá þyrftum við líka einhvern með hæfileika en ekki eikkern efnilegan sem kemur okkur aftur á byrjunarreit. Þá er ég að tala um einhvern eins og Canisares, Cudicini, Howard. Einhvern sem við þyrftum ekki að byrja á því að ala upp. Síðan eftir svona eitt til tvö ár myndum við meta það hvort Kirkland væri tilbúinn eða hvort við þyrftum að huga að framtíðarmanni.

  6. Hvað með Finnann fljúgandi… þennan Jaskalænen (kann ekki að skrifa þetta, alltof margir sérhljóðar).

    Vill hann ekki komast í burtu?

    Það myndi líka opna nýjar víddir í öllum finna/Finnan bröndurum.

    Ég sé fyrir mér: Finninn kastar út á hinn finnann, sem finnur Finnan á kantinum.

    Svona gæti maður skemmt sér konunglega yfir leiðinlegum leikjum.

  7. Jamm, þetta Finna/Finnan dæmi gæti svo sannarlega verið skemmtilegt 🙂

    En annars, þá hef ég enga þolinmæði til að bíða í eitt til tvö ár einsog Kiddi leggur til. Við þurfum almennilegan markmönn núna. Ég er búinn að missa þolinmæði með Dudek og þetta gengur ekki lengur með Kirkland.

    Canizares eða Cudicini í janúar. Við getum ekki leyft okkur þetta rugl í markmannamálum stundinni lengur. Og hananú 🙂

  8. Skrítið!

    Mér finnst þessi umræða skrítin, að þegar menn eru ekki að standa sig og eiga slæma leiki/tíma þá eigi að selja þá og kaupa nýja right away!

    Svei mér þá en ég held að markmannaþjálfunin sé ekki góð, var viss um það með tímið hans GH en nýja spænska þjálfaraliðið virðist ekkert vera að gera betur.

    Ég trúi því að hægt sé að búa til góðan markmann úr Kirkland!

    Varðandi Scott Carsson þá finnst mér fínt að strákurinn fái að spila svona ungur, Casillas hjá Real Madrid var 18 þegar hann byrjaði á milli stanganna hjá þeim.

    Það er ekki alltaf lausnin að kaupa nýja leikmenn.

  9. Svavar, þetta er náttúrulega ekki fyndið hvernig frammistaða Kirkland hefur verið.

    Punkturinn hjá mér er sá að ansi margir stuðningsmenn hafa hreinlega gert ráð fyrir því að Kirkland yrði góður, jafnvel þótt menn hefðu aldrei séð hann brillera. Núna er hann orðinn 24 ára og ekki enn búinn að sanna sig almennilega. Ef hann væri ekki enskur, þá værum við ábyggilega ekki jafn spenntir fyrir honum.

    Frammistaða hans á þessu tímabili hefur náttúrulega verið hneyksli.

  10. Kirkland er ofmetinn og allir sem höfðu trú á honum höfðu einfaldlega rangt fyrir sér, Dudek er ennþá einn besti markmaður í deildinni en var með litið sjálfstraust og Húlli, sumir aðdáendur og fjölmiðlar hjálpuðu honum ekki með það… en það er ekki orðið of seint… guð blessi dudek

Everton 1 – Liverpool 0

Dudek inn, Kirkland “meiddur”