AGM hluthafafundurinn í gær!

mooresmorgan.jpg

Liverpool FC hélt í gærkvöldi sinn síðasta hluthafafund fyrir árið 2004 og þar voru ýmis tíðindi í gangi. Meðal þess helsta þá var rætt um fyrirhuguð fjárfestingartilboð í klúbbinn, hugsanlega yfirtöku Steve Morgan og líkurnar á sameiginlegum velli með Everton. Þá hélt Rafael Benítez sína fyrstu ræðu fyrir hluthafana, eftir sex mánaða starf sem framkvæmdarstjóri.

Mig langar að byrja á því að fjalla aðeins um ræðuna sem Benítez hélt, en það er hægt að nálgast hana í heild sinni á opinberu síðunni. Það var nú ekkert hneykslandi eða sláandi sem kom fram í ræðu hans; hann þakkaði viðtökurnar sem hann og fjölskylda hans hefur fengið í borginni og ræddi aðeins um framtíðina. Hann sagði þó meðal annars þetta:

>”My idea is to prepare the squad to win trophies and play good football. That means instilling a winning mentality.

>Always we want to do things in the right way. The performance against Arsenal in the first half was a reference point and the atmosphere in the ground incredible. When you do things right, then everyone connected to the club – those who work here and the supporters everywhere are happy.”

Sko, þetta er nefnilega það sem ég er hrifnastur af við Benítez það sem af er af stjórnartíð hans: hann vill ekki bara vinna, heldur vinna rétt. Með öðrum orðum, hann vill frekar að liðið spili sóknarbolta í öllum leikjum og tapi nokkrum þeirra, á meðan það er að venjast breyttum áherslum, heldur en að við festumst í því að spila varnartaktík og treysta á 0-1 sigra. Slíkt gefur góðan árangur til skamms tíma en getur kyrrsett þróun liðsins til framtíðar.

Tökum dæmi. Ég er ekki mikið fyrir að gagnrýna Houllier. Hann hafði sína galla sem stjóri en hann er farinn og við þökkum honum fyrir góðu stundirnar. Engu að síður er gott að líta á það hvernig hann nálgaðist leikina við “stóru liðin” í deildinni á hverju ári, og síðan það hvernig hann nálgaðist leikina við minni liðin.

Á móti stóru liðunum var stefnan ávallt sú sama: Owen var fremstur í hlauparahlutverkinu, Heskey sat fyrir framan miðlínuna og átti að vinna skallabolta, halda boltum og reyna að skila þeim fram á Owen – helst með stungusendingum eða sköllum innfyrir vörn andstæðinganna.

Þar fyrir aftan sátu fjórir miðjumenn og voru það að jafnaði ekki mjög sókndjarfir menn. Á þrennutímabilinu lékum við jafnan með Gerrard, McAllister, Hamann og Barmby á miðjunni. Berið það saman við t.d. García, Gerrard, Alonso og Kewell (sem væri svona kjörmiðjan okkar í dag) og þá sjáið þið hvað ég á við. Þessir fjórir voru í raun bara fremri línan í 8-manna varnarmúr. Stefnan var sett á að halda hreinu, fyrst og fremst, og reyna síðan að ná marki og “stela” sigrinum.

Þetta gafst nokkrum sinnum vel, við unnum Man U þrisvar í röð á Old Trafford (takk Danny Murphy!) og Arsenal einu sinni eða tvisvar á Highbury. Þá var Owen jafnan duglegur að kála Newcastle á St James’ Park. Það voru bara Chelsea sem reyndust of stór biti fyrir okkur á útivelli, en sigur okkar á þeim í janúar var sá fyrsti í einhverja áratugi á Stamford Bridge.

Þetta sem sagt gafst ágætlega, að við unnum stundum útileiki gegn stóru liðunum, en við gerðum það með því að nota varnartaktík. Sem þýddi að það var ansi erfitt fyrir liðið að ætla að söðla um tvisvar-þrisvar á mánuði og eiga allt í einu að spila flæðandi sóknarbolta á Anfield, þar sem minni liðin sluppu iðulega í burtu með jafntefli eða jafnvel “stolinn” sigur … notandi sömu útileikjataktík og við notuðum.

Benítez er að vinna hörðum höndum að breyta þessu. Jú, við höfum tapað fimm leikjum í deildinni hingað til og þar af fjórum á útivelli. En við höfum spilað sömu knattspyrnuna í öllum deildarleikjum hingað til, hvort sem það er gegn Norwich heima eða Manchester United úti þá er sóknarbolti alltaf stefnan. Við stillum upp sóknarliði sem stefnir að því að hafa yfirhöndina í hverjum einasta leik, spila flæðandi sóknarbolta í hverjum einasta leik, og vinna hvern einasta leik sannfærandi.

Auðvitað tekur tíma að aðlagast svona nýjum bolta og því höfum við séð nokkrar slappar frammistöður í haust, þar sem þessi sóknarbolti er ekki að ganga. Bolton og Olympiakos úti eru góð dæmi um það. En með tímanum verða menn öruggari í þessu kerfi og þá förum við að sjá liðið spila með meiri stöðugleika. Eins og er vinnum við nær alla heimaleiki en eigum í erfiðleikum á útivelli. Það getur vel verið að það haldi áfram á morgun gegn Aston Villa, en Benítez er að hugsa til framtíðar og mér þykir ljóst að við munum stórgræða á þessari sóknarhörku hans til lengri tíma litið!


Þá tók Rick Parry einnig til máls á þessum fundi og talaði um atburði liðins árs. Hann tók til umfjöllunar það sem hann kallaði þrjár stærstu fréttir ársins: brottför Houllier, ráðningu Benítez og ákvörðun Steven Gerrard að vera kyrr á Anfield. Hann fjallaði einnig um yfirvofand yfirtökutilboð og minntist síðan á möguleikann á að Liverpool og Everton deili með sér velli í framtíðinni:

>We submitted an application for funding of the Agency, along with the City Council, a year ago and unfortunately the position has still not been resolved. The Agency has, through its Chairman, adopted the position that it would prefer to see a shared stadium.

liverpooleverton.jpgSko, það er alveg ljóst að mikill meirihluti Liverpool-aðdáenda er á móti hugmyndinni um að Liverpool og Everton deili með sér velli. Þá gerði Parry mönnum það ljóst í gær að forráðamenn liðsins eru líka á móti því. Við vitum að Benítez er á móti því, við vitum að Gerrard er á móti því, við vitum að Gérard Houllier var á móti því og nú í gær sagðist Xabi Alonso vera á móti þessu líka.

Það verður ekki mikið skýrara. VIÐ viljum ekki deila velli með Everton! Eina ástæðan fyrir því að Everton-menn vilja endilega fá völl með okkur er sú að þeir eiga ekki pening fyrir nýjum velli uppá eigin spýtur. Og einhverra hluta vegna virðast yfirvöld í Liverpool, sem hafa lokaorðið í þessum málum, vera líka á þeirri skoðun að best sé að liðin deili velli.

Þetta er allt hið skrýtnasta mál og maður verður í raun bara að bíða og sjá hvort Liverpool-menn láta undan og sættast á að deila velli með Everton, eða hvort að við fáum Stanley Park-völlinn í gegn og getum loks byrjað að byggja í janúar eins og gert er ráð fyrir. Ég vona að við fáum bara að halda áfram með okkar völl, sérstaklega ef við fáum fjárfestingu inn í klúbbinn sem gerir uppborgun nýs vallar auðveldari.

Hvern langar að sitja í bláum sætum og styðja Liverpool? Ég bara spyr…


Nú, stóra mál kvöldsins var samt slúður um yfirtökutilboð frá L4, sem er samboð sem Hollywood-framleiðandinn Peter Jeffries og fleiri bandarískra viðskiptajöfra um að fjárfesta allt að 100m punda í klúbbnum, sem myndi nánast borga upp nýjan völl á einu bretti og einnig gefa okkur mikinn pening til leikmannakaupa. Ekki er ljóst nákvæmlega hvers konar tilboð þetta væri, hvort um er að ræða hreina fjárfestingu eða jafnvel yfirtökutilboð, og menn neita að gefa út nánari upplýsingar fyrr en búið er að ræða málin til hlítar. Þannig að við verðum bara að bíða.

Þá tók Steve Morgan til máls í gærkvöld og hreinlega grátbað David Moores, meirihluthafa Liverpool FC, um að sjá að sér og taka tilboði sínu í klúbbinn. Morgan er reiðubúinn að greiða um 70-80m punda, að því er talið er, fyrir þau hlutabréf sem hann þarfnast til að ná meirihluta innan klúbbsins. Þar með yrði hann nýr meirihlutaeigandi Liverpool FC, David Moores myndi stíga niður og í kjölfarið yrði allt í uppnámi. Það veit enginn hvort að hann myndi vilja fá annan framkvæmdarstjóra inn (þótt það sé ólíklegt), hvort hann myndi vilja breyta einhverju innan klúbbsins eða hvað … en það myndi óumflýjanlega kalla á breytingar.

Ein er þó sú breyting sem að er ljós og það er að með yfirtöku Morgan yrði meiri peningur til umráða fyrir leikmannakaup. Þetta staðfesti Moores á fundinum í gær, sem sagði orðrétt: “I cannot compete with Mr Morgan’s money, that is certain.”

Hins vegar ríkir mikill vafi í Liverpool-borg um það hvað vakir í raun fyrir Morgan, hvort hann ætli að viðhalda þeim gildum sem klúbburinn og allir sem að honum koma hafa í hávegum – eins og t.d. hið örugga starfsumhverfi sem framkvæmdarstjórum okkar er boðið uppá í samanburði við aðra toppklúbba – eða hvort hann myndi vilja breyta einhverju slíku og jafnvel gera okkur að öðru “Chelsea”, sem ég myndi í raun hafa óbeit á.

Og svo að ég hafi það á hreinu, þá er ég ekki að tala um leikmannakaup. Við höfum eytt hátt í 200 milljónum punda síðan Houllier tók við ’98, United hafa sennilega eytt rúmum 300 milljónum punda og Arsenal held ég að hafi allavega farið yfir 100 milljónirnar síðan Wenger tók við. Chelsea hafa líka eytt um 250-300 milljónum, einhvers staðar mitt á milli okkar og United, nema hvað þeir hafa gert það á einu og hálfu ári, síðan Roman Abramovitsj tók yfir á Stamford.

Vandamál mín gegn Chelsea hafa því aldrei verið leikmannakaup. Auðvitað getur það verið pirrandi að keppa á þeim markaði við lið sem er með botnlausa vasa en það sem gerir Chelsea að sálarlausu fyrirtæki – en ekki klúbbi og liði – er sú stefna sem þeir notast við:

1: Þeir eru ekki að ala upp unga leikmenn og það skal enginn reyna að segja mér annað. Ef ég væri 17-19 ára og stórefnilegur knattspyrnumaður á mála hjá Chelsea, myndi ég reyna að forða mér þaðan eins hratt og ég gæti. Það er enginn séns á að ungir og efnilegir strákar fái að koma upp í gegnum varaliðið og brjótast inn í aðalliðið þeirra á næstu árum. Ekki á meðan þeir kaupa 5-10 heimsklassaleikmenn á ári. Með öðrum orðum, ef John Terry væri 18 ára núna og að banka á dyrnar hjá aðalliðinu yrði hlegið að honum. Svarið sem hann fengi yrði, “hvers vegna í ósköpunum ættum við að nota þig þegar við getum keypt Ledley King eða jafnvel Lúcio með því einu að smella fingrunum?

2: Sá ótrúlegi stuðningur sem þeir hafa sýnt þeim leikmönnum sínum sem hafa lent í vandræðum [ lesist: Adrian Mutu ] … haldið þið að Gianfranco Zola fengi tvö ár til að aðlagast núna, eins og hann fékk á miðjum síðasta áratug? Nei. Haldið þið að Eiður Smári fengi tvö-þrjú ár til að styrkja sig smám saman og verða að þeim leikmanni sem hann er í dag? Nei, sjáið bara hvernig þeir losuðu sig við Mikael Forsell. Haldið þið að Mourinho fái meira en 1 1/2 – 2 ár til að vinna stóran titil með Chelsea? NEI.

3: Scott Parker. Þeir eru komnir langt með að eyðileggja einn allra besta miðjumann Englendinga, mann sem ég myndi hiklaust líkja við Gerrard og Lampard fyrir svona tveim árum. Og af hverju? Af því að þeir gátu keypt tvo betri leikmenn fjórum mánuðum eftir að þeir keyptu hann. Af hverju gátu þeir ekki bara látið hann vera … hann hefði sómað sér svo miklu betur, t.d., hjá okkur?!?!?

En allavega, nóg um Chelsea. Þeir eru gangandi auglýsing fyrir allt það sem er að í viðskiptadrifnu markaðsumhverfi knattspyrnunnar í dag og miðað við það sem ég hef heyrt, séð og lesið af heimamönnum í Liverpool-borg þá óttast menn víst rosalega að Steve Morgan hafi eitthvað svipað í huga með Liverpool og Abramotítsj hefur gert hjá Chelsea.

En það er eins með Morgan eins og með Liverpool/Everton-dæmið, og velgengni Rafael Benítez í starfi: við verðum bara að bíða og sjá til!

3 Comments

  1. Mjög góð samantekt, Kristján. Ég held þó að Morgan verði ekki svo slæmur. Hann er fyrst og fremst Liverpool aðdáandi, sem vill setja peningana sína inní félagið.

    Hann er aðdáandi, en ekki bara að leita sér að virðingu einsog Roman. Held að það sé mjög ólíklegt að hann vilji skipta sér af rekstrinum. Ég held að menn einsog Moores séu drauma stjórnarformenn, menn sem leyfa bara Parry og Benitez að vinna vinnuna sína en eru ekki að skipta sér af daglegum málum.

  2. Mikið er nú annars fínt að geta fengið samantekt á ylhýra móðurmálinu á svona málum sem tengjast klúbbnum og maður nennir kannski ekki að setja sig mjög djúpt inn í. Með öðrum orðum mikið er gott hvað þið eruð geggjaðir lfc áhangendur að nenna að deila þessu svona með okkur.
    :biggrin2:

  3. Fyrir mér virkar þessi Morgan sem fínn gaur og hann hefur meira að segja sagt að hann ætli sér ekki að róta neitt´mikið í hlutunum nema hvað að hann kemur í staðinn fyrir Moores í stjórnina. Ef svo er þá er það fínt að fá hann plús peningana til að fjárfesta í framtíðinni.

    Annars finnst mér ansi áhugavert hversu mikil skuld LFC er í rauninni (21 m punda) og er hún að mestu tilkomin vegna “Houllier-fyllerísins” eða 11m sem þurfti til að losa okkur við það krabbamein. Skrýtið samt að þessi stóri klúbbur, LFC, sé í svona mikilli skuld þar sem hann er mjög vel rekinn. Annars ef maður pælir í þessu betur þá er væri LFC farið á hausinn ef ekki hefði verið haft hemill á Houllier. En mér líst ágætlega á að fá nýtt fjármagn frá fólki sem sýnir Rafa-revolution-inu virðingu og leyfir því að halda áfram óáreitt. Herra Benitez kom til LFC af því að hann vissi af því að manager-arnir hér fengu sitt svæði til að vinna á og hann væntir þess sjálfur.

Traoré, Josemi og Baros heilir! (+viðbót)

Aston Villa í dag!