Mónakó í kvöld: tryggjum við okkur áfram?

champsleague.JPG

Olympiakos – 7 stig
Liverpool – 7 stig
Mónakó – 6 stig
Deportivo – 2 stig

Þetta er ekkert flókið. Það eru tveir leikir eftir, 6 stig í pottinum. Ef við vinnum Mónakó í kvöld þá erum við með tryggt sæti í 16-liða úrslitum, sama hvernig leikur Olympiakos og Deportivo fer. Einfaldlega, af því að ef við vinnum Mónakó þá erum við komnir með fjögurra stiga forskot á þá og aðeins einn leikur eftir.

Nú, ef við gerum jafntefli erum við enn í kjörstöðu til að fara áfram, þar sem við verðum þá í fyrsta eða öðru sæti fyrir lokaleikinn, sem er gegn Olympiakos á Anfield. Og ef svo skyldi fara í kvöld að við töpum, þá er ekki öll nótt úti þar sem Olympiakos geta aldrei náð meira en þriggja stiga forskoti á okkur í kvöld og þá væri nóg að vinna þá með tveggja marka mun á Anfield í lokaumferðinni, til að fara upp fyrir þá á markatölu og þar af leiðandi enda í allavega öðru sæti.

Í hnotskurn: Það er sama hvernig leikur Liverpool og Mónakó fer í kvöld, tveggja marka sigur gegn Olympiakos á Anfield í lokaleiknum tryggir okkur sæti í 16-liða úrslitunum, no matter what.

Það er ansi gott að geta sagt þetta, að vita að það er ekki að duga eða drepast í kvöld. Það er góð tilfinning að hafa fyrir svona mikilvægan leik, og vonandi losar það um einhvern taugatitring hjá okkar mönnum í kvöld og þeir ná að spila eins og þeir eiga að sér.

Auðvitað munu menn samt stefna að sigri í kvöld. Mónakó-liðinu hefur gengið afleitlega uppá síðkastið og eru sigranlegir í kvöld. Sigur hlýtur að vera stefnan.

Byrjunarliðið er svolítið erfitt. Ef ég myndi skjóta hér á byrjunarlið eins og ég vill sjá það í kvöld yrði það allt öðruvísi en það sem ég er að fara að hripa niður. Þess í stað ætla ég hér að deila með ykkur því hvernig ég held að Rafa Benítez muni kjósa að stilla upp í kvöld. Ég held að hann muni stilla upp þessu hérna byrjunarliði:

Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

Gerrard – Hamann – Alonso

<---García - Kewell - Riise--->

Í hnotskurn, þá er þetta 4-5-1 liðsuppstilling sem getur auðveldlega orðið að 4-3-3 með þá García og Riise pressandi upp vængina í stórsóknum. Ég þekki þessa leikaðferð vel sem FH-ingur, en mínir menn unnu deildina hér heimafyrir í sumar með því að spila svona.

Og það ættu í raun allir lesendur þessarar síðu að þekkja hana. Rafa Benítez notaði hana langmest allra leikaðferða hjá Valencía og Tenerífe.

Ruglist ekki, hafið það á hreinu, að þetta er EKKI varnaruppstilling. Þetta er liðsuppstilling sem hefur rosalega mikla fjölbreytni innan leiksins. Þessi uppstilling getur í raun dottið niður í 9-manna vörn, þar sem García og Riise detta djúpt og vernda svæðin fyrir framan Josemi og Traoré, auk þess sem Hamann myndi þá væntanlega detta alla leið niður í þriðja miðvörðinn og Gerrard og Alonso myndu sitja þar fyrir framan, skiljandi Kewell einan eftir í að loka svæðum við miðlínuna okkar og elta stungubolta.

En þessi sama uppstilling gæti einnig virkað þannig að við værum stöðugt að keyra sóknir okkar fram með þá García/Josemi og Riise/Traoré í samvinnu upp vængina, og þá Alonso og Gerrard með sprengikraft inn á miðjunni (þeir myndu t.d. vera duglegir að stinga sér inn í framherjastöðuna til skiptis, sérstaklega Gerrard) en það góða við þessa taktík er að jafnvel þótt þeir myndu báðir taka löng sóknarhlaup fram á sama tíma, myndum við aldrei skilja vörnina eftir óvarða því Hamann myndi sitja eftir.

Við höfum séð þessa taktík tvisvar á þessari leiktíð, í þessari mynd. Hún virkaði ömurlega gegn Bolton á útivelli, aðallega af því að Alonso og García voru að spila sinn fyrsta leik fyrir Liverpool og þurftu tíma til að komast í gang og finna sig innan um nýja samherja sína. Í þeim leik sá maður Hamann, Gerrard og Alonso hreinlega þvælast fyrir hvor öðrum inná miðjunni, svo að sárt var á að horfa, og García reyndi og reyndi en lítið kom út úr því sem hann var að gera á vængnum (fyrir utan löglega markið sem hann skoraði).

Nú, með mann eins og García á vængnum hægra megin og Gerrard einn af þremur miðjumönnum opnast annar möguleiki innan þessa kerfis, og það er það að García hefur dálæti á að yfirgefa kantinn og taka hlaupin inná miðjuna, gerast framherji í smá tíma eða koma sér fyrir í holunni fyrir aftan fremsta mann, sem í þessu tilfelli væri Harry Kewell. Í þessu kerfi er hægt að hvetja García til að gera þetta þar sem Gerrard hefur oft virkað mjög vel á hægri kantinum og gæti kóverað það svæði mjög vel ef García færi fram, kerfið yrði þá eiginlega svona tímabundið 4-4-2 á meðan, og Hamann og Alonso væru enn inná miðjunni.

Þannig að þetta kerfi býður upp á sterka varnarlínu, ósigrandi miðjuuppstillingu og marga möguleika á óvæntum sóknarlínum, sem erfitt væri fyrir Mónakó að verjast.

Þetta er allt saman að því gefnu að menn spili vel í kvöld, að sjálfsögðu. Ef við spilum eins illa og menn verða eins andlausir í kvöld og við vorum á laugardag gegn Middlesbrough, þá getum við gleymt þessu strax. Það er ekkert leikkerfi í heiminum sem hjálpar okkur að vinna útileik í Meistaradeild Evrópu ef menn verða jafn lélegir og á laugardaginn. Þannig að ég er að sjálfsögðu að velta þessu fyrir mér út frá því gefnu að menn eigi a.m.k. skítsæmilegan leik í kvöld.

Nú, í hitt skiptið sem við sáum þessa taktík notuðum við hana í síðasta leik í Meistaradeildinni, gegn Deportivo. Þá var Baros einn frammi, með þá Kewell og Finnan á vængjunum og García nánast sem miðjumann, ásamt Hamann og Biscan. Það kvöld lék Hamann óaðfinnanlega sem aftasti maður í þriggja-manna-miðju og þeir García og Biscan pyntuðu vörn Deportivo með útsjónarsemi, flottum sendingum inná Baros og útá vængina, og skæðum einleiksköflum. Við unnum þann leik 1-0 og voru Deportivo-menn hreinlega heppnir að tapa ekki stærra. Sem segir allt um það hversu gott þetta kerfi getur verið, þegar menn spila vel.

Þannig að ég held að þetta verði kerfið okkar í kvöld. Jú, ég myndi stilla upp 4-4-2 með Pongolle frammi en ég tel bara ekki að það sé að fara að gerast. Fyrst Benítez treysti Pongolle og Mellor ekki til að spila gegn Boro í deildinni á laugardag treystir hann þeim ekki til að spila á útivelli gegn Mónakó í Meistaradeildinni. Svo einfalt er það bara.

Mín spá: Ég veit það ekki. Ef við spilum eins og á laugardaginn skíttöpum við í kvöld. Savíola, Kallon og Chévanton rífa jafn kærulausa vörn og þá sem við höfðum á laugardag í sig eins og forrétt … en ef við getum náð sömu stemningu og sömu spilamennsku eins og gegn Deportivo þá er engin ástæða til að ætla annað en að við vinnum í kvöld!

En svo ég skjóti á úrslit, þá hafa heimaleikir Mónakó í Meistaradeildinni gjarnan verið markaleikir – þar sem þeir eru með góða sókn en slaka vörn. Þá verða okkar menn væntanlega miklu, miklu, miklu grimmari upp við mark andstæðinganna en þeir voru á laugardag. Lokastaða: 3-1 fyrir Liverpool og Kewell skorar tvö!

3 Comments

  1. Nei. Og þegar ég hef tíma mun ég skrifa ítarlega grein sem útskýrir af hverju. Sú tilhugsun að Finnan sé betri en Josemi í bakverðinum er asnaleg, viti menn út frá hverju ber að dæma bakverði…

  2. ég er sammála því að Josemi eigi ekki að spila í kvöld. Raunar má hann bara fara aftur til Spánar, ég er ekki hrifin af Finnan heldur en hann er skárri kostur en Josemi. Síðan hef ég trú á að Pongolle muni byrja, það hlýtur að geta reynst vel að hafa jafn fljótan leikmann þarna frammi, þá sérstaklega á útivelli.

Vandræði hjá Mónakó…

Naaauuujjj! Mellor byrjar inná!