Hvað er málið með SkjáEinn?

s1.gif Ég íhugaði það vandlega um síðustu helgi hvort að ég ætti að fjalla eitthvað um þetta mál hér á síðunni en ákvað svo að bíða með það þangað til ég gæti rætt málið við Einar. Nú höfum við rætt málið og ákveðið að setja það hér inn sem grein.

Nú er Skjár Einn búinn að vera með Ensku Knattspyrnuna til sýninga það sem af er liðið vetri og þykir víst ganga vel, þeir eru að auglýsa metáhorf á boltann í haust.

Hvað um það, ég fór á Players á laugardaginn en þar horfðu Liverpool-menn á Liverpool
gegn Birmingham
í beinni á Skjá Einum.

Liðin sem voru að leika í beinni hétu: Liverpool og Birmingham.

Fyrir leikinn var “upphitun” með Snorra Má. Þar var Sveppi,
Chelsea-aðdáandi sem játaði að fylgjast ekkert með boltanum nema bara
þegar Eiður skorar, og svo einhver tappi sem var Man Utd-aðdáandi.
Þeir spjölluðu í 25 mínútur um gengi Chelsea og leikinn þeirra á
laugardeginum, gegn Everton, og gengi United og leik þeirra á
sunnudeginum gegn City.

Aftur: liðin sem voru í beinni á laugardag voru Liverpool og Birmingham.

Svo, kl. 14:59 er skipt yfir á Snorra Sturlu og Þórhall Dan sem eru að
lýsa leik Liverpool og Birmingham í beinni og þá fyrst er
minnst á liðin Liverpool og Birmingham.

Nú, við slökum á með drykki í hönd og hlökkum til að fara að horfa á
leik Liverpool og Birmingham í beinni, eins og hafði verið
auglýst alla vikuna á Skjá Einum.

Það eru liðnar svona 20 mínútur af leiknum þegar þeir skipta í fyrsta
skiptið yfir á Stamford Bridge, af því að Robben var í góðu færi en
skaut yfir. Já, það er víst svo slæmt mál að missa af EINUM
Chelsea-leik þarna á S1 að þeir urðu að fá að svissa af leik
Liverpool og Birmingham um leið og Chelsea áttu skot að marki.

Þetta gerðu þeir í hvert einasta sinn sem Chelsea áttu skot að marki.
Og það versta var að stundum var eitthvað spennandi að gerast í leik
Liverpool og Birmingham (sem var jú í beinni), eins og hröð sókn upp
kantinn eða eitthvað, og maður beið eftir markskotinu eða sendingunni
innfyrir eða eitthvað, og þá … og þá … var skipt yfir á
Chelsea-Everton þar sem við fengum að sjá Eið Smára skalla boltann
hátt yfir úr hornspyrnu.

Þetta kom sér líka mjög illa fyrir þá Snorra Sturlu og Þórhall Dan sem
þurftu að reyna að lýsa þessari hringavitleysu. Þeim þótti greinilega
óþægilegt að vera alltaf kippt svona úr öðrum leiknum og yfir í
Chelsea-leikinn, enda sagði Þórhallur oft hluti eins og: “maður veit
nú ekki hvort Chelsea hafa verið með yfirburði eða hvað í þessum leik
en af þessu færi að dæma gætu þeir alveg verið komnir yfir.”

Síðan eitt skiptið þá áttu Liverpool-menn skot framhjá í þeim leik og
um leið og dómarinn hafði flautað á markspyrnu skiptu þeir yfir á hinn
leikinn til að horfa á Chelsea-færi endursýnt. Þegar síðan var skipt
yfir á L’pool-leikinn aftur var Steve Finnan allt í einu kominn inná
völlinn. Þeir höfðu misst af skiptingu. Það tók Snorra Sturlu og
Þórhall Dan nokkrar mínútur að átta sig á því hver hafði farið útaf
… og það var frekar neyðarlegt að hlusta á þá telja upp hverjir voru
ennþá inná. Svona vinnubrögð eru náttúrulega til skammar, en manni
dytti ekki í hug að skamma þá Snorra og Þórhall. Þeir ráða því ekki
hvenær er svissað á milli leikja, þeir eru bara þeir sem þurfa að gera
sig að fífli út af þessari Chelsea-dýrkun á S1.

Versta atvikið átti sér síðan stað þegar svona kortér var eftir af
leikjunum. Þá voru Birmingham-menn nýbúnir að skora gegn Liverpool (í
leiknum sem var auglýstur í beinni, nota bene) og menn orðnir
þokkalega pirraðir, bæði á því að vera undir gegn Birmingham og vegna
þess að það að horfa á Liverpool-leik á Skjá Einum þegar Chelsea eru
að spila á sama tíma er álíka gefandi og að reyna að horfa á tvær
kvikmyndir í einu. Á sama sjónvarpinu.

Allavega, það er um kortér eftir og García sleppur upp hægri kantinn
hjá okkur. Menn rísa upp úr sætunum, það er stórsókn í gangi og þegar
García nær að endalínunni – fyrir framan The Kop – þá gefur hann
flotta sendingu fyrir.

Boltinn er bókstaflega í loftinu og á leið inní
Birmingham-teiginn
þegar … þegar … þegar … það er skipt yfir
á leik Chelsea og Everton af því að Kezman eða einhver átti skot yfir
mark Everton.

Og eins og það sé ekki nóg að skipta á þessu augnabliki, af öllum, þá
endursýna þeir skot Kezmans ÞRISVAR. Fokking ÞRISVAR!!!! Einar,
þú getur ímyndað þér Players fullan af Púllurum, það var ÞUNGT
andrúmsloft þarna inni. Menn spörkuðu í stóla og lömdu í borð, slíkur var pirringurinn. Það er náttúrulega ekki hægt að bjóða nokkrum fótboltaaðdáanda upp á þetta, sama þótt Chelsea eigi í hlut.

Nú, þegar loksins er búið að svala Chelsea-fíkn þessara gæja er skipt
aftur yfir á Liverpool-leikinn. Þar var markvörður Birmingham nýbúinn
að grípa bolta eftir hornspyrnu Liverpool og okkar menn skokkuðu aftur
í vörnina. Hvort að ég missti þarna af besta marktækifæri allra tíma
eða þreföldu stangarskoti hef ég ekki hugmynd um.

Málið er að ef það er svona erfitt fyrir Skjá Einn að sleppa því að
sýna einn Chelsea-leik þá áttu þeir bara að drullast til að sýna
Chelsea klukkan 15:00 á laugardag. Þá hefðu þeir á Players bara getað
reddað erlendri stöð eins og þeir eru vanir og við hefðum getað horft
í friði á okkar leik. Þeir áttu ekki að auglýsa leik Liverpool og
Birmingham
í beinni og vera síðan alltaf að skipta yfir á
fáránlegustu augnablikum til að horfa á endursýningar af færum sem
þeir vissu þegar að voru ekki mörk heldur bara skot framhjá – og
sleppa í staðinn að sýna sóknir og fyrirgjafir og marktækifæri sem
hefðu getað orðið að mörkum.

Hvað hefðu þeir gert ef Liverpool hefðu t.d. skorað á meðan þeir voru
að sýna endursýnt færi hjá Kezman, Robben eða Eiði Smára? Það hefði
allt orðið vitlaust ef við hefðum misst af marki.

Jújú, þeir sýndu líka markið sem Robben skoraði en það er sama. Þeir
áttu þá að auglýsa að þeir myndu skipta á milli, eða bara hafa
Chelsea-leikinn í beinni. Það er sama hvaða lið eiga í hlut, svona
koma menn ekki fram í auglýstum sjónvarpsleik. En auðvitað er þetta
skiljanlegt, þar sem Chelsea er sssssvvvvvvvoooooooooooo ómissandi.


AÐ lokum: hvernig stendur á því að ég hef bara einu sinni séð
Liverpool-gest í sjónvarpssal hjá Snorra Má fyrir Liverpool-leikina? Það var Magnús Pétursson dómari og eigandi Jóa Útherja sem var gestur, að mig minnir fyrir leik Liverpool og Charlton fyrir rúmum tveim vikum. Annars man ég ekki eftir að hafa séð Liverpool-aðdáanda fyrir Liverpool-leiki hjá þeim á Skjá Einum.

Þeir virðast alltaf bjóða Arsenal-mönnum, United-mönnum eða Sveppa
þegar Liverpool eiga að spila. Hvaða mál var það??? Þegar Liverpool
eru að fara að spila í beinni má reikna með að meirihluti áhorfenda sé
Liverpool-aðdáendur, sem vilji þar af leiðandi örugglega heyra
vangaveltur um væntanlegan leik síns liðs í UPPHITUN FYRIR ÞANN
LEIK?!?

En neinei, við fengum Sveppa með skemmtisögur af Eiði og hvernig það
sé að horfa á æfingarnar hjá Mourinho … og svo einhvern United-gæja
að tala um Utd-City slaginn á sunnudeginum. Það var ekki minnst á
Liverpool eða Birmingham í upphitun fyrir leik Liverpool og
Birmingham.

Er ekki allt í lagi með þessa menn?

Nú, ég gerði það eina rétta eftir leikinn. Þegar ég kom heim af
Players tók ég mig til og sendi Snorra Má tölvupóst. Þar sagði ég
honum að ég væri sérlegur Liverpool-stuðningsmaður sem hefði unnið
mikið með Liverpoolklúbbnum á Íslandi og væri annar tveggja sem sæju
um Liverpoolbloggsíðuna á Íslandi.

Ég bauð honum hvort það væri ekki sniðugt að ég myndi mæta í
sjónvarpssal daginn eftir, í Upphitunina fyrir Manchester-slaginn, til
að ræða um Liverpool og gengi míns liðs undanfarið? Ég sagði honum að
það væri bara sanngjarnt, þar sem United-City leikurinn hefði verið
ræddur fyrir Liverpool-leikinn.

Snorri Már hefur ekki enn svarað mér þannig að ég geri ráð fyrir að
hann hafi ekki viljað fá mig í sjónvarpssal síðasta sunnudag.


Ég veit ekki hversu mikið var kvartað inná Skjá Einn eftir
leikinn á laugardag en það ætlaði meirihluti þeirra sem ég ræddi við á
Players að annað hvort hringja eða senda kvörtunarbréf. Þannig að
vonandi lagast þetta á næstunni og þeir fara að sýna Liverpoolklúbbnum
og þeim fótboltaunnendum sem halda ekki með Chelsea smá kurteisi.

Vonandi.

7 Comments

  1. Ég spyr bara hvað er í gangi? Ég hef aldrei séð Liverpool-fan þarna á SkjáEinum heldur bara þessa man/arsenal/chelsea/sveppa pakk. Halda ekki 30% ÍSLENDINGA með Liverpool ef ég man rétt af síðustu könnun???? (20% man utd., 10-20% arsenal, 11% chelsea). Þetta er náttúrlega ekki hægt.

  2. Algerlega sammála. Þessi Chelsea-sleikjuskapur er orðinn fullkomlega óþolandi. Fyrst þeir þurftu endilega að sýna öll færin úr hinum leiknum hefði þá alla vega verið hægt að reyna að sýna þau þegar ekkert var að gerast í leiknum sem var í beinni eða þá á split screen. Hef séð slíkt gert á enskum sjónvarpsstöðvum án þess að það trufli leikinn sem er í gangi allt of mikið.

    Annars er Skjár einn bara einfaldlega búinn að vera hörmulegur með enska boltann í vetur. Tímasetningar hafa verið kolvitlausar, þulirnir mjög slappir flestir og svo er þessi laugardagsumfjöllun einfaldlega sorgleg. Hvað er t.d. málið með að fylgja laugardagsleikjunum ekkert eftir? Af hverju er ekki farið yfir úrslit og spáð í spilin í hálfleik í þriðja leiknum? Nei, það er bara sýnt úr vikugömlum leikjum þegar LEIKIR DAGSINS eru það sem allir eru að spá í? (til að fyrirbyggja misskilning, ég er ekki að biðja um að sýnt verði úr leikjum dagsins, sem er væntanlega ekki hægt nema að litlu leyti – heldur bara segja frá úrslitum, birta stöðu og annað slíkt).

  3. Já skv. könnuninni sem fotbolti.net gerði kom fram að Chelsea aðdáendur eru ekki nema ca 5%, en Liverpool aðdáendur voru flestir 30%+. (ég nenni ekki að leita að könnuninni, en þetta var ca. svona). Ætli skjár1 hafi gert sína eigin könnun, spurt Sveppa og einhvern einn anna með hvaða liðum þeir halda?

  4. Ég get nú lítið viðrað skoðanir mínar á frammistöðu S1 heima þar sem ég er búsettur erlendis um þessar mundir. En eitt er ljóst, að það er hvergi sýnt eins mikið frá enska boltanum og á Íslandi beint og það FRÍTT! T.d. virðist vera meiri áhugi á spænska boltanum hérna í DK en á þeim enska (ótrúlegt) og fæstir af félögum mína eiga einu sinni enskt uppáhaldslið en spænskt eða ítalskt eiga þeir… stórfurðulegt!

    Fyrri leikurinn á laguardögum er sýndur beint – búið! Til þess að sjá fleiri leiki þarf ég að greiða formúgu eða fara á pubbinn í von eða óvon um að LFC leikur er sýndur.
    Bara svona til að fá annan vinkill þótt ég sé með engu móti að reyna að verja S1 á nokkurn hátt.
    Ennfremur les ég þessa síðu reglulega til að fá greinagóða lýsingu á leikjunum þegar ég get ekki séð þá. Keep up the good work lads!

    Vi snakkes

  5. Mér er skítsama um skoðanakannanir um hvað margir halda með LFC eða öðrum liðum í enska boltanum. Það sem mér liggur á brjósti er það að mér hefur fundist enski boltinn fara illa af stað ef mið er tekið af því sem talað er um hann í kringum mann. Mér finnst eins og að enski boltinn sé bara ekki í gangi oft á tíðum. Ég fékk mér SKY+ Digital fyrir rúmum mánuði síðan og ég er að segja ykkur það að það er bara ALLT ANNAÐ og mun betra en NOKKURN TÍMANN SEM MUN VERA Á ÍSLANDI hvort sem SÝN, S1 eða annað fyrirtæki er að ræða. Ekki að ég sé að kenna S1 fyrir að skemma þetta eða slíkt, en það er bara spurning um hvort byrjunaröðruleikar þeirra verði til lengdar. Ég tala nú ekki um þegar þeir fara í áskrift á næsta ári 😡

  6. Chelsea dýrkunin á Íslandi er svipað öfgakennd og á Beckham ef ekki verri 😡 Persónulega þá veit ég ekki um neinn sem hélt með Chelsea áður en ESG fór þangað. Af hverju eru síðan íslenskir íþróttamenn svo allt of hlutdrægir þegar Íslendingar eru að keppa í útlöndum og þá skiptir engu hvaða grein þeir stunda 🙁

  7. alveg sammála þér, ég sá leikinn, og var orðinn nett pirraður á þessum skiptingum yfir á chelsea leikinn, og þá sérstaklega þegar snorri og hinn misstu af útafskiptingunni þegar finnan kom inná, það var svolítið neyðarlegt fyrir þá, en ekki þeim að kenna líklega. hvað er annars málið með að hafa Sveppa í þessum þætti, bara af því að hann er vinur Eiðs Smára og eitthvað bull? maður er nú að verða ansi þreyttur á honum “sveppa”, hann er allstaðar. Og svo málið með hinn gestir sem ég man ekkert hvað heitir, hann heldur með man.utd, hefur engan áhuga á þessum leik sem var verið að sýna, HAFA LIVERPOOL MANN Í STAÐINN FYRIR ÞENNAN MAN.UTD GAUR. ég er mjög sáttur við að hafa enskuþulina og þeir íslensku sem hafa verið að lýsa leikjunum eru að vaxa með hverjum leiknum, en ég er samt farin að sakna þess pínu að enski boltinn sé farin frá norðurljósum, þá svo að Hörður Magnússon er alveg glataður gaur og kann ekkert að lýsa leikjunum, maður lækkar bara í sjónvarpinu og finnur lýsinguna á netinu og hlustar á hana á ensku 🙂

    kveðja
    atli

Old Trafford dagbók

L’pool 2 – M’boro 0