Milan og Stevie G á meðal þeirra bestu í heimi!

FIFA gaf í gær út lista yfir þá 35 leikmenn sem koma til greina í vali FIFA á besta leikmanni Heimsins fyrir árið 2004. Í þeim hópi eru þrír Liverpool-menn, þótt aðeins tveir þeirra leiki fyrir Liverpool í dag.

Þeir eru: Milan Baros, Steven Gerrard … og Michael Owen.

Ég man hvað við Einar Örn vorum að gaspra um hvað eftir annað í pistlum okkar hérna í vor. Það getur hvaða lesandi síðunnar sem er farið aftur í pistla okkar frá því í maí og júní og þá myndu menn sjá greinilega að við vorum handvissir um að Milan Baros myndi eiga EM 2004 skuldlaust!

Og hvað gerðist? Hann skoraði 5 mörk í 5 leikjum í keppninni, eini leikurinn sem hann náði ekki að skora í var þegar Tékkar töpuðu fyrir Grikkjum, 1-0, í undanúrslitum keppninnar. Engu að síður var Milan markakóngur Evrópukeppninnar og í kjölfar hennar var hann orðaður við bæði Real Madríd og Barcelona.

Ekki slæmt hjá strák sem hóf árið á hliðarlínunni, eftir að hafa misst úr fyrri helming síðasta tímabils vegna ökklabrots. Í janúar var maður hreint ekki viss hvort að Milan Baros myndi nokkurn tímann aftur ná að spila knattspyrnu af fullum styrk, hvort hann yrði aðeins skugginn af sjálfum sér þegar hann sneri aftur og hvort meiðslin hefðu gert það að verkum að hann missti af sæti í EM-liði Tékka.

Við þurftum ekki að hafa áhyggjur. Milan Baros kom inná gegn Portsmouth á útivelli í 1-0 tapleik í deildinni í janúarlok, og var laaaangbesti maður vallarins. Hann hélt uppteknum hætti í flestum leikjum sem hann fékk að spila fram á vorið og margir vilja meina að ef Gérard Houllier hefði hætt að berja hausnum við steininn hvað varðar Emile Heskey og bara leyft Milan Baros að spila þessa leiki á vormánuðunum (þar sem hann þurfti oft að sitja á bekknum) þá hefðum við náð í fleiri stig en 60 þegar yfir lauk.

Þeir okkar sem vildu meina að Milan Baros væri einn hættulegasti leikmaður í Evrópu – að því gefnu að hann fengi að spila – fengu síðan heldur betur uppreisn æru í Evrópukeppninni! Þvílíkur leikmaður sem hann reyndist vera þar fyrir Tékka og að mínu mati gjörsamlega yfirburðaframherji í þeirri keppni – hvað svo sem Wayne Rooney-aðdáendur kunna að segja!

Nú, Milan hélt tryggð við Rauða Herinn þrátt fyrir að hafa getað farið til stærri liða á Spáni og hefur byrjað tímabilið vel, það sem af er. Þrjú mörk í 10 leikjum er ekki slæmt, sér í lagi ef litið er til þess að hann hefur ekki byrjað inná í þeim öllum. Ekki gleyma að á milli sín hafa hann og Djibril Cissé skorað 6 mörk, sem með tveimur mörkum Luis García gerir 8 mörk í 10 leikjum frá framherjaþrennunni okkar. Framherjaþrennan hjá Chelsea: Eiður Smári, Drogba og Kezman hafa aðeins skorað 6 mörk á milli sín í 10 leikjum. Þetta vill oft gleymast þegar menn tapa sér í gagnrýninni á Milan Baros og Djibril Cissé.

Staðreyndin er þessi: Milan Baros er að mínu mati pottþétt einn af 10 bestu framherjum í Evrópu í dag, ef ekki heiminum, og á þessa viðurkenningu fyrir frammistöðu sína fyllilega skilið! Til hamingju Mílan, og ég vona að þú gerir nóg fyrir okkur til að fá þessa tilnefningu aftur að ári!


Næstur kemur fyrirliðinn sjálfur, Steven Gerrard. Gerrard skoraði mark og lék sæmilega með Englandi í sumar en það er samt augljóslega ekki ástæðan fyrir því að hann sé tilnefndur.

Neibb, fyrirliðinn okkar er tilnefndur fyrir að vera Besti Miðjumaður Á Englandi á síðasta tímabili, segi ég og skrifa. Sú staðreynd að hann hafi ekki verið á meðal þeirra 5 sem tilnefndir voru í kjöri á leikmanni ársins í deildinni sl. vor er glæpsamleg, svo ekki sé meira sagt! Við enduðum í 4. sæti í deildinni í fyrra með Gerrard innanborðs, án hans hefðum við verið í vandræðum með að halda okkur í efri hluta deildarinnar.

Þá hefur fyrirliðinn byrjað þetta tímabil vel: 3 mörk í einhverjum 6 leikjum áður en hann varð óheppinn og meiddist í leiknum gegn United. Og þótt þeim hjá Knattspyrnusambandi Englands, FA, þyki meira til Frank Lampard koma og hafi litið framhjá Gerrard í kjörinu í fyrra þá eru þeir hjá FIFA greinilega á öðru máli.

Steven Gerrard fær tilnefningu fyrir að vera einfaldlega besti miðjumaður í Englandi og einn af þremur-fjórum bestu miðjumönnum í Evrópu. Ég myndi setja hann í hóp með Ronaldinho, Pavel Nedved, Deco og Patrick Vieira sem 5 bestu miðjumenn í Evrópu árið 2004. Hiklaust.


Michael Owen fær tilnefningu fyrir að vera Michael Owen. Hann skoraði eitt mark í fjórum leikjum á EM, skoraði einhver 10 mörk fyrir okkur eftir áramót í deildinni og hefur mátt þola algjöra martraðabyrjun á ferli sínum hjá Real Madríd.

Michael Owen er alveg frábær leikmaður og vel að því kominn að vera talinn einn af 35 bestu leikmönnum í heimi, en staðreyndin er samt sú að, að mínu mati hefur hann lítið gert á árinu 2004 sem réttlætir tilnefningu hans. Mann grunar eiginlega að hann sé þarna á listanum af því að það væri of umdeilt að skilja hann útundan.

Frábær leikmaður, en þá kem ég frekar til með að vona að Baros eða Gerrard verði á meðal þeirra þriggja sem tilnefndir verða í toppsætin.


MÍN SPÁ: Þótt mér þyki Milan Baros hafa hvað besta möguleika á að komast í hóp þriggja efstu í desember þá efast ég um að hann komist svo langt. Ég spái því að eftirfarandi leikmenn verði valdir, í þessari röð, bestu leikmenn í Heimi árið 2004:

1. Ronaldinho
2. Adriano / Henrik Larsson
3. Pavel Nedved


ronaldinho.jpg Eitt: Ronaldinho er búinn að vera besti leikmaður í heimi árið 2004. Hann skoraði eitthvert mesta undramark sem sést hefur gegn Haití með Brasilíu í sumar og leiddi Barcelona-liðið á seinni hluta tímabilsins í vor og það sem af er tímabilinu í haust. Barcelona hefur ekki tapað einum einasta leik í deildarkeppni árið 2004, sem eru núna orðnir rúmlega 20 leikir. Þá hafa þeir aðeins tapað einum leik í öllum keppnum, en það var 1-0 tap fyrir Henke Larsson og Celtic í UEFA-keppninni í vor.

Tvö: Að Ronaldinho undanskildum hefur Adriano verið yfirburðamaður í heiminum að mínu mati. Hann skoraði átta mörk fyrir Brasilíu í Copa America í sumar og leiddi liðið til sigurs í keppninni, auk þess sem hann var í banastuði fyrir Internazionale á síðustu leiktíð. Þá hefur hann byrjað af krafti í haust og er þegar búinn að skora 4 mörk í 4 leikjum fyrir Inter.

Það eina sem gæti komið í veg fyrir að hann komist á lista hérna er ef að þeir hjá FIFA eru tregir til að leyfa tveim Brössum að komast í topp 3. Ef þeir vilja það ekki þá myndi ég gera ráð fyrir að Henrik Larsson komi inn í staðinn fyrir hann. Larsson varð, enn og aftur, markakóngur með yfirburðum og vann deild og bikar með Celtic á síðustu leiktíðinni. Þá sneri hann aftur með stæl fyrir sænska landsliðið í sumar og skoraði nokkur og spilaði þrusuvel á EM. Nú, í haust hefur hann síðan farið á kostum með stórliði Barcelona, sem er alvarlega eitt það flottasta í bransanum í dag. Larsson gæti vel verið á meðal þriggja efstu.

Þrjú: Pavel Nedved var yndislegur í sumar. Það segir meira en mörg orð að Milan Baros var ekki besti leikmaður Tékka í Evrópukeppninni og ef Nedved hefði ekki meiðst í síðasta leiknum í riðlakeppninni hefðu Tékkar sennilega farið alla leið. Þá spilaði hann frábærlega með Juventus í deildarkeppninni á síðustu leiktíð og hefur byrjað frábærlega með þeim í haust. Nedved vann þennan virta titil fyrir árið 2003 og ef ekki væri fyrir Ronaldinho gæti ég vel séð hann fyrir mér vinna þetta aftur.


Af hinum sem kæmu til greina finnst mér Thierry Henry og Samuel Eto’o líklegastir, en þar sem Eto’o er þegar búinn að vera kosinn Knattspyrnumaður Afríku 2004 og Henry olli stórkostlegum vonbrigðum á EM 2004 þá finnst mér þeir ekki aaalveg hafa það sem þarf til að komast í hóp þriggja efstu.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég stoltur af því að sjá Milan Baros og Steven Gerrard í þessum hópi og þeir eru vel að því komnir. Þá verð ég hreinlega brjálaður, snælduvitlaus, ef RONALDINHO vinnur þessi verðlaun ekki. Ég man sjaldan eftir því að nokkur leikmaður hafi verið jafn mikill yfirburðamaður í heimsknattspyrnunni á einu ári og hann hefur verið í ár.

12 Comments

  1. Af hverju fær Baros ekki að spila meira en hann gerir með Liverpool??? Ef hann er óumdeilanlega betri framherji en Cisse, af hverju erum við ekki að nota hann meira? Er ekki spurning að hafa þá bara alltaf saman í framlínunni??

  2. Ég sagði aldrei að hann væri betri framherji en Cissé. Ég sagði að hann væri einn af 10 bestu framherjum í Evrópu í dag.

    Að mínu mati er Cissé einnig í þeim hópi. :blush:

  3. >Ronaldinho er búinn að vera besti leikmaður í heimi árið 2004. Hann skoraði eitthvert mesta undramark sem sést hefur gegn Haití með Brasilíu í sumar og leiddi Barcelona-liðið á seinni hluta tímabilsins í vor og það sem af er tímabilinu í haust.

    Fyrirgefðu Kristján Atli, en veist þú um einhvern link á netinu af markinu sem Ronaldinho skoraði gegn Haití? Ef svo er ekki þá er það í fínu máli þar sem mér liggur ekkert rosalega á að sjá þetta mark. 😉

    Áfram L’pool!

  4. Til Kristjáns Atla:
    Já já. Ég meinti spurninguna bara svona eins og hún kemur fyrir….. Ég tók því ekkert endilega þannig að þú værir að halda því fram að Baros væri betri en Cissé. Það er meira bara “fullyrðing” frá mér. En ég hefði gagn og gaman að fá þína skoðun á því af hverju Benites er ekki að nota Baros meira. Og eins hvað þér finnst um það að stilla þeim meira upp saman. Nú hefur það virkað vel heimaleikjum. Af hverju ekki oftar?
    Kveðja, JónH

  5. Ahhh… þetta var margsýnt í Olís-Sporti á Sýn hér í ágúst eða júlí, minnir mig. Ég hef ekki séð link á þetta á vefnum, en það væri gaman að reyna að finna link yfir þetta.

    Annars hefur Einar alltaf verið duglegri en ég að finna svona linka á netinu…

  6. Takk fyrir það Garon. Frábært mark, verst að vídjóið sem þú linkar á skuli bara sýna seinni helminginn af því. Hann var búinn að leika á fjóra aðra áður en hann tekur hringsnúninginn sem opnar vörnina upp á gátt.

    Yndislegt mark. Yndislegur leikmaður. Bestur í heimi. Svo einfalt er það bara.

  7. Vá, þetta var snilld.

    Pæliði í því að Man U ákváðu að kaupa ekki Ronaldinho vegna peningamála. PÆLIÐÍÞVÍ! Guði sé lof að hann endaði hjá Barca en ekki hjá Man U 🙂

  8. Jamm. Það var sumarið 2003 og það voru ALLIR með þráhyggju yfir sölu David Beckhams til Real Madríd… sem mér var nokk sama um. Ég hins vegar lá nánast andvaka við tilhugsunina um Ronaldinho fyrir framan Roy Keane og fyrir aftan Ruud van Nistelrooy á Old Trafford.

    Sem betur fer þá fór hann ekki þangað. Dagurinn sem tilkynnt væri að hann hefði samið við Barca var mikill gleðidagur fyrir mig – Barcelona aðdáanda í hjáverkum – og eflaust flesta í Barcelona.

    Yndislegt.

  9. Takk fyrir.

    Glæsilegt mark það sem ég sá af þessu, frábært mark!

Hlé (uppfært!)

Harry Kewell: 2. hluti