Kirkland með + Gerrard ánægður

kirky.JPGSkv. Liverpool Echo í dag er Rafa Benítez að íhuga alvarlega að setja Chris Kirkland í markið gegn Chelsea á sunnudaginn. Kirky er núna búinn að spila þrjá heila varaliðsleiki á tveimur vikum og standa sig vel í þeim öllum, að sögn blaðamanna Echo. Þá virðast vottar af bakmeiðslum hans vera alveg horfnir og hann kennir sér hvergi meins þessa dagana, auk þess sem hann hefur líka æft vel undanfarið.

Þannig að í kjölfar slapprar frammistöðu Jerzy Dudek í undanförnum leikjum (eitthvað sem ég held að flestir eða allir L’pool-stuðningsmenn séu sammála um) þykir núna meira en líklegt að Kirky verði í byrjunarliðinu á sunnudag.

Ég vona innilega að af því verði – ekki af því að ég hef neitt á móti Dudek heldur bara að ég tel Kirkland vera betri markmann. Hann er betri í úthlaupum, sem er nauðsynlegt á móti liðum sem eru sterk í föstum leikatriðum (og Chelsea falla efst í þann flokk!), þá er hann bara á allan hátt traustari og ekki eins hætt við stressvillum eins og þeim pólska. Það mótmælir því til dæmis enginn að ef Kirkland væri búinn að vera meiðslalaus síðustu tvö árin væri hann búinn að spila hvern einasta leik fyrir Liverpool síðan Dudek var settur á bekkinn um jólin 2002/2003 … og Dudek væri sennilega farinn frá félaginu í dag.

Nú – ef Kirky verður í markinu á sunnudag vonum við bara innilega að hann nái að halda sér meiðslalausum í vetur og vera í liðinu til lengri tíma, hann þarf svo á því að halda að ná a.m.k. 20-30 leikjum í röð með liðinu … bara til að auka sjálfstraustið gagnvart meiðslavandræðunum. Þá trúi ég því staðfastlega að endurkoma hans inn í varnarlínuna okkar myndi auka talsvert á sjálfstraust þeirra Jamie Carragher og Sami Hyypiä, sem hafa verið vægast sagt stressaðir á boltanum í undanförnum leikjum.


Þá las ég mjög skemmtilega grein í dag: Why Stevie Has No Regrets Over Turning Down Chelsea.

Hann spilar því miður ekki með okkur gegn þeim á laugardaginn, en hann sleppir samt ekki tækifærinu til að segja okkur (og Mourinho) nákvæmlega af hverju honum finnst hann betur kominn í herbúðum Rauða Hersins en Bláu Seðlanna. Meðal annars lætur fyrirliðinn þessi fleygu orð falla:

>”I decided to stay at Liverpool in the summer because I love the club and I want to play in a red shirt, it’s as simple as that. I did contemplate moving, as I’ve said before, but I’m happy here and that’s the way it is.”

Athugið: Hjá Chelsea er enginn uppalinn leikmaður. Enginn. Sá sem kemst næst því er Þjóðverjinn Robert Huth, sem kom víst til London á unglingsárum til að spila fyrir unglingalið Chelsea, en þar sem hann er ekki enn orðinn fastamaður í aðalliði Chelsea þá er varla hægt að segja að hann teljist með.

Hjá Liverpool: Steven Gerrard, Stephen Warnock, Jamie Carragher, Darren Potter (sem er á svipuðu stigi hjá okkur og Huth hjá Chelsea – við liðið), Michael Owen sem er nýfarinn og Djimi Traoré (sem á svipaða sögu og Huth, kemur til okkar frá meginlandinu sem unglingur til að spila í unglingaliðunum okkar).

En allavega, það sem ég er að reyna að segja með þessu er að orð Steven Gerrard um að ást hans á Rauðu Treyjunni og klúbbnum og allt það sem hann stendur fyrir – þessi orð myndu aldrei heyrast í Brúnni. Ef við hefðum lent í öðru sæti í fyrra, 20 stigum á undan Chelsea, og síðan boðið 35-40 milljónir punda í Frank Lampard … haldið þið að hann hefði hafnað okkur vegna ástar sinnar á Chelsea?

Eða: haldið þið að Mateja Kezman, sem var nærri því búinn að semja við Charlton í vor áður en Abramovich bauð tvöföld laun, hefði neitað öllum stórliðum Evrópu (þ.m.t. Real Madríd, AC Milan og Bayern Munchen) í heil tvö ár af því að hann langaði svo mikið að koma til Chelsea? Örugglega ekki – en það er einmitt það sem Djibril Cissé gerði til að ganga til liðs við okkur!

Chelsea hafa peningana, topp-leikmenn í hverri stöðu, topp-þjálfara, flottan heimavöll og eru á mikilli siglingu í deildinni. En eitt hafa þeir þó ekki, og munu ekki öðlast nema með breyttri stefnu í leikmannamálum og það er þetta stolt, þessi ást og þessi fjölskylduandi sem ríkir innan raða Liverpool FC.

Já, og svo hafa þeir ekki unnið deildina. Úps. 😀

En allavega … hvað svo sem því líður þá gætum við allt eins skíttapað fyrir þeim á sunnudaginn. Við sjáum hvað setur, ég spái betur í spilin fyrir leikinn á morgun … þegar liðsskipan og annað slíkt gæti verið farið að skýrast.

Allavega gott að vita hverja Stevie G styður á morgun … og enn betra að vita að Kirky gæti byrjað inná! 😉

6 Comments

 1. Þetta eru frábærar fréttir. Mér á eftir að líða muuun betur ef að Kirkland verður í markinu. Hann veitir manni mun meiri öryggistilfinningu en Dudek.

 2. Ég er dálítið “nervus” að setja Kirkland í markið á sunnudaginn. Ég hef trú á honum og ég held að það sé rétt sem fræðingarnir á netinu halda fram að hann sé betri markvörður. En hvað ef hann verður skotinn í kaf á sunnudaginn?? Kannski ekki alveg “fair” að láta hann byrja á þessum leik eftir svona langt hlé. Skiljiði hvað ég er að fara?
  Kannski er þetta bara stress hjá mér fyrir þennan leik!!! Ég er nú þegar búinn að útvega mér hauspoka til að hafa við hendina!!! Nei ég segi svona :rolleyes: :biggrin2:

 3. Ekki að það skipti neinu máli en er John Terry ekki svo gott sem uppalinn hjá Chelsea?

 4. Óli – það virðist vera algengur misskilningur að hann hafi verið alinn upp hjá Chelsea. Hann var í barna- og unglingaliðum Manchester United í gegnum sín yngri ár en þegar hann var 18 ára var honum tilkynnt að samningur hans við United yrði ekki endurnýjaður.

  Þá fluttist hann til London og komst að hjá unglingaliði Chelsea í staðinn, og “the rest is history” eins og þeir segja.

  Þannig að nei … ekki uppalinn heimamaður, ekki Chelsea-aðdáandi í æsku, ekki blátt blóð í æðum.

 5. nokkup til í síðasta lagi en við verðum að hugsa um að kirk-land er ekki búinn að spila með aðalliðunu þannig að eru svona 50-50

Lawrenson og Chelsea

Chelsea á morgun!