Viltu koma aftur, Michael? (uppfært)

Það er kannski of snemmt að dæma um kaup Real Madrid á Michael Owen, en það er alveg ljóst að Owen hefur ekki skemmt sér vel hingað til. Gærdagurinn hefur sennilega ekkert verið neitt sérstaklega skemmtilegur fyrir Owen.

Á meðan að Liverpool var í Grikklandi (þar sem við hefðum nú alveg getað notað krafta Owen) og Wayne Rooney var að slá í gegn með þrennu fyrir Man U, þá sat Owen á bekknum allan tímann gegn Roma. Owen hefur aðeins byrjað einu sinni inná fyrir Real Madrid og segja sumir að ein af ástæðunum fyrir að Camacho hafi hætt hafi verið sú að hann lét Owen spila þann leik í stað Raúl.

Rakst á þessa [ágætis grein](http://www.squarefootball.net/content/article/article.asp?aid=1085) um Owen og félagaskipti hans til Real. Ég er ekki sammála öllu í greininni, enda finnst mér greinarhöfundur gera full lítið úr hæfileikum Owen (ekki að það sé eitthvað nýtt meðal blaðamanna).

Í mínum huga er Owen alltaf velkominn aftur til Liverpool. Helst vildi ég fá hann strax aftur. Þeir Liverpool aðdáendur, sem halda því fram að við gætum ekki notað krafta Owen, hafa greinilega ekki horft á liðið undanfarin 5-6 ár.

En það eru þó litlar líkur á að hann gefist upp strax. Þó er svo sem ekkert útilokað að ef þetta haldi áfram einsog þetta er hjá Owen núna, að hann hugsi sér til hreyfings næsta sumar. Kannski að hann feti í fótspor Ian Rush og snúi aftur til Liverpool eftir eitt ár utan Englands.


Uppfært (Kristján Atli): Auðvitað var missirinn mikill í Michael Owen, hann hélt okkur gjörsamlega á floti síðustu fjögur árin … eða eftir að Robbie Fowler hætti að geta skorað. En það breytir því ekki að hann sagði aðdáendum liðsins eitt og gerði annað … hann sveik lit og flúði til Madríd til að sitja á bekknum og hirða launin. Eflaust hefur hann talið sig eiga góðan séns á að vinna sér inn sæti í liðinu með tímanum – og það er ekki útséð með það enn – en það er hálf skrýtið að hann hafi haldið að hann gæti slegið Ronaldo og Raul út, þar sem þeir eru nánast ósnertanlegir í Madríd.

Hins vegar, ef hann vill koma aftur næsta sumar eða eftir eitt og hálft ár – eins og Rush gerði – þá vona ég að dyrnar til Anfield standi honum opnar þar sem að hann er frábær leikmaður og einhver sem aðdáendum Liverpool þykir mjög vænt um. Það yrði vissulega frábær sjón ef það myndi gerast, þótt ég efi það.

Ég er í raun spenntari fyrir öðrum möguleika. Í kvöld SPILAÐI MIGUEL MISTA EKKI þegar Valencía töpuðu fyrir Werder Bremen, 2-1 í Þýskalandi.

Mista var ekki einu sinni á bekknum og ferðaðist víst ekki einu sinni með 22-manna hópnum til Þýskalands, þar sem það var augljóst fyrir leikinn að hann myndi ekki spila.

Ég spyr: er verið að spara hann til að geta selt hann á betra verði til liðs sem er í Meistaradeildinni? Svar: auðvitað!

Og hvaða lið skyldi vilja fá Mista? Benítez var með hann hjá unglingaliði Real Madríd, svo hjá Tenerife og svo loks hjá Valencía. Ég þori að veðja jólabónusnum að hann skrifar undir hjá okkur strax í janúar!

2 Comments

  1. Þið segið það. Ég er alveg sammála þessu með Owen. Hann hefði verið frábær í þessu liði sem Benites er að byggja upp. Þetta er eiginlega synd og skömm að hann skuli hafa valið að fara á þessum tímapunkti. Vonandi kemur hann aftur!! En það þýðir ekki að gráta Jón bónda. Hvernig lýst ykkur á Chelsea leikinn? Svei mér þá. Þeir virðast vera á grenjandi siglingu þessa dagana? Ég er með hjartað í lúkunum fyrir þennan leik. Vonandi verðum við ekki rassskeltir?! Miðað við gengi okkar á útivelli undanfarið þá er kannski best að búa sig undir það versta -eða hvað????

  2. þeir eru búnnir að vera í vandræðum með að skora undanfarið… vonandi að þeir finni ekki taktinn í þessum leik og varnarlínan okkar verði sér til sóma…
    við erum með rosalega sterkt lið núna og það er bara vonandi að þeir fari að smella almennilega saman og spili þessa “stóru” leiki eins og þeir hafa verið að spila við minni liðinn (w.b.a. og norwich…)

Olympiakos 1 – L’pool 0

Pako vill hraðari bolta