Mista í janúar? (uppfært)

benitezandmista.JPG Slúðrið virðist vera að magnast og í raun og veru er hægt að segja að það bendi allar örvar í sömu átt: Miguel Mista gæti verið á leiðinni í janúar!

Þetta á sér margvíslegar ástæður, en bara svo það sé á hreinu er ég búinn að sjá þetta of víða undanfarnar tvær vikur eða svo til að þetta teljist bara slúður. Spænsku netmiðlarnir eru farnir að segja frá þessu og Liverpool-síðurnar eru nánast farnar að tala um þetta sem vitað mál … svipað og það var vitað mál síðasta vetur að Djibril Cissé myndi koma til okkar.

En ástæðurnar fyrir því að þetta er svona déskoti líklegt eru:

*Mista á aðeins 9 mánuði eftir af samningi sínum við Valencia.
*Mista hefur hingað til neitað að skrifa undir nýjan samning við Valencia, sem hefur gert það að verkum að Claudio Ranieri þjálfari hefur hent honum út úr liðinu.
*Mista var ekki einu sinni í hópnum þegar Valencia vann Anderlecht í sínum fyrsta Evrópuleik fyrir tveimur vikum. Það er spennandi að sjá hvort hann verður í hópnum gegn Werder Bremen á miðvikudaginn. Ef hann spilar ekki í Evrópukeppni með Valencia fyrir áramót er hann vænlegri kostur fyrir okkur í janúar, auk þess sem Valencia gætu fengið aðeins meiri pening fyrir hann ef hann er ekki cup-tied.
*Miguel Mista spilaði fyrir Rafael Benítez bæði hjá Tenerife og Valencia. Segja mætti að þar sem Benítez er, þar sé Mista jafnan líka.

Og þannig er nú það. Eftir að Ranieri tók við hjá Valencia í sumar er Marco Di Vaio orðinn fyrsti kostur í framherjastöðuna og Bernardo Corradi er annar valkostur. Hingað til hefur Mista annað hvort setið á bekknum eða verið fyrir utan hópinn. Hann hefur aðeins spilað 18 mínútur í deildinni hingað til og ekkert í Evrópukeppni. Hann fékk að koma inná undir lokin gegn Real Sociedad fyrir rúmri viku síðan … og skoraði mark eftir að hafa verið inná í 3 mínútur. Hefur ekkert fengið að spila síðan þá.

Ég er spenntur fyrir Mista, held að hann væri frábær kostur hjá okkur og myndi eflaust létta mikið af því álagi sem er núna á Cissé og Baros, sem eru báðir frekar ungir og óreyndari en Mista. Mista er örfættur sem myndi bæta enn nýrri vídd við framlínuna okkar, hann er frábær skallamaður og sterkari en bæði Cissé og Baros í loftinu, auk þess sem hann er sérfræðingur í vítaspyrnum, sem virðist vera eitthvað sem Liverpool sárvantar í ár.

Hann er ekki sá fljótasti, en það er Alan Shearer ekki heldur. Mista er algjör refur, virðist alltaf vera á réttum stað til að skalla fyrirgjafirnar inn eða pota boltanum yfir línuna, auk þess sem hann er eins og áður sagði með mjög öflugan vinstri fót. Þá hefur hann síðustu tvö tímabil virkað mjög vel í framlínu Valencía einmitt af því að hann nær rosalega góðu sambandi við leikmennina í kringum sig. Í fyrra var ekkert óeðlilegt að sjá hann senda Baraja eða Vicénte innfyrir með góðum sendingum.

Sem sagt, ef maður á að trúa þessu þá vilja Valencia spara hann í Evrópukeppnum svo að þeir geti selt hann í janúar, frekar en að missa hann frítt næsta sumar. Hann verður 26 ára núna í nóvember og er því enn á besta aldri, þannig að ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu að þetta gætu orðið næstu frábæru kaup Rafa Benítez. Og miðað við þá reynslu sem við höfum hingað til af Josemi, Luis García og Xabi Alonso er engin ástæða til að ætla annað en að hann yrði fljótur að aðlagast enska boltanum. 😉

Miguel Mista – rauður í janúar? Ég vona það eiginlega. Jájá, eigum við ekki að segja það bara? 🙂


**Uppfært (Einar Örn)**: Það er kannski ekki úr vegi að benda á aðrar fréttir, þar sem fréttin, sem Kristján benti á, var ekki mjög ítarleg:

[RED MISTA HITS RANIERI](http://www.sportinglife.com/football/overseas/spain/news/story_get.dor?STORY_NAME=international_feed/04/09/15/SOCCER_Spa-Valencia.html&TEAMHD=spain)
[Canizares urges Mista solution](http://wwiii.sbs.com.au/home/index.php3?id=50110)
[Valencia’s Mista won’t “close door” to Liverpool](http://www.tribalfootball.com/september/spanishnews1100904.html)

3 Comments

  1. Líst vel á Mista.

    En það, sem ég vildi benda á er þetta. Er ekki ástæðan fyrir því að Josemi, Alonso og Garcia spila strax svona vel einfaldlega sú að þeir koma úr sterkri deild.

    Flestir þeir, sem hafa átt erfitt uppdráttar hjá Liverpool, hafa komið úr frönsku deildinni, sem er einfaldlega mun slappari en sú spænska. Einhvern veginn grunar mann að Cisse hafi til dæmis bara ekki vanist svona erfiðum bolta. Alonso og Garcia þekkja hins vegar erfiðan bolta út og inn.

    Er þetta ekki fín kenning hjá mér? 🙂

    Ef hún stenst þá ætti Mista í engum vandræðum með að stimpla sig inní ensku deildina.

  2. Þetta er ágætis kenning og ég er að mörgu leyti sammála þessu. Samt eru alltaf undantekningar. Sami Hyypiä kom til dæmis frá Hollandi, sem er með mikið veikari deild en England. Þá kom John Arne Riise frá Frakklandi, og hann virðist vera að spjara sig vel (þrátt fyrir slappt tímabil í fyrra).

    Ég held í raun að þetta snúist frekar um hugarfar og að menn finni sér stað þar sem þeim líður vel og þeir fá að spila eins og þeir vilja. Thierry Henry fann það ekki hjá Juventus, Dennis Bergkamp fann það ekki hjá Internazionale. Báðir fundu þeir það hjá Arsenal.

    Cheyrou og Diouf og þessir gæjar hafa að mínu mati bara ekki rétt hugarfar í stórlið eins og Liverpool. Til dæmis um það hafa Igor Biscan og Salif Diao mátt húka í varaliðinu jafn lengi eða lengur en þeir tveir … en þú heyrir Diao og Biscan aldrei kvarta yfir því, er það? Enda virðast þeir hafa heillað Benítez með jákvæðu hugarfari sínu og eljusemi.

    Það á svo sem eftir að koma í ljós … en ég held að Djibril Cissé muni aðlagast og verða frábær í ensku deildinni. Hann er nú þegar kominn með þrjú mörk, sem er ágætt en staðreyndin er eins og þú segir Einar, að hann kemur úr veikari deild en þeir García, Alonso og Josemi. Þeir eru vanir þessum gæðum af knattspyrnu og því voru þetta ekki sömu viðbrigðin fyrir þá eins og fyrir Cissé, sem kemur úr talsvert veikari deild.

    Það mun taka strákinn tíma, rétt eins og það tók Milan Baros tíma að finna fæturna í Englandi. Munurinn er bara sá að vegna þess að Owen er farinn þarf Cissé að aðlagast fyrir allra augum, í byrjunarliðinu, á meðan Houllier hafði efni á að hafa Baros í varaliðinu fyrsta hálfa árið sitt á Anfield, á meðan hann lærði tungumálið og vandist nýju lífi.

    Cissé mun standa sig … og það mun Mista líka gera! Hversu nett væri það að geta valið úr Cissé, Baros, Mista og Flo-Po í janúar? Það er talsvert svalara en að geta valið úr Owen, Baros og Heskey, ef þú spyrð mig… 😉

  3. Miguel Mista. Einn spánnverjinn til viðbótar. Hið besta mál. Það væri frábært að fá svona reynslubolta í framlínuna hjá okkur. Góð viðbót og í raun nauðsynleg ef við viljum ná alla leið!!! Hver veit? Kannski er hann hikandi að framlengja samning hjá Valenzia af því að Benites er að biðla til hans?? :confused:

Lið vikunnar

Kewell heill