Leikmannaglugginn lokar!

Frá og með miðnætti í gærkveldi lokaði leikmannamarkaðnum í Evrópu … og verður hann lokaður þangað til 1. janúar 2005. Það var talað um að Liverpool ætluðu að kaupa David Cortes frá Real Mallorca fyrir lokun gluggans en ekkert varð af því, hvernig svo sem á því stendur.

Og því er nú ljóst hvernig leikmannahópur Liverpool FC veturinn 2004 lítur út … eða í það minnsta þangað til í janúar 2005. Kannski Benítez selji/kaupi þá, en þangað til eru þetta þeir leikmenn sem eiga að vera sendiherrar Liverpool FC í ensku Úrvalsdeildinni, Deildarbikarnum og Meistaradeildinni:

Markmenn: Jerzy Dudek, Chris Kirkland, Paul Harrison og Patrice Luzi.

Bakverðir: Josemi, Steve Finnan, John Arne Riise, Stephen Warnock, Jon Otsemobor.

Miðverðir: Sami Hyypiä, Stephane Henchoz, Jamie Carragher, Djimi Traoré, Zak Whitbread.

Miðjumenn: Steven Gerrard, Xabi Alonso, Dietmar Hamann, Igor Biscan, Salif Diao, Darren Potter, John Welsh.

Vængmenn: Harry Kewell, Luis García, Antonio Núnez, Richie Partridge, Vladimir Smicer.

Framherjar: Djibril Cissé, Milan Baros, Florent Sinama-Pongolle, Neil Mellor.

Þetta er fínn hópur, að mínu mati. Auðvitað á Benítez eftir að gera frekari leikmannabreytingar eftir hálft ár eða á næsta sumri, þegar hann er búinn að sjá frekar hvernig þessir leikmenn sem við höfum núna standast álag leiktíðarinnar.

Ég nefndi til menn eftir því sem eru almennt taldar vera þeirra bestu stöður, þótt augljóslega séu menn þarna sem geta spilað fleiri en eina stöðu. Carragher getur t.d. spilað allar stöður í vörn, Warnock getur spilað bæði bakvörð og kant vinstra megin, Luis García og Harry Kewell geta spilað frammi auk þess að vera vængmenn og svo framvegis.

Þetta er að mínu mati fínn hópur. Ef það er eitthvað sem ég persónulega myndi vilja breyta við þennan hóp þá væri það að fá nýjan miðvörð inn. Ég hef trú á Sami Hyypiä og Jamie Carragher í miðverðinum en eins og sást gegn Bolton þá eru varamennirnir okkar ekki í sama klassa og þeir. Djimi Traoré er fljótur, sterkur og frábær tæklari en hann vantar þann leikskilning og þá sendingargetu sem Sami og Carra hafa. Stephane Henchoz var öruggur byrjunarmaður fyrir tveimur árum en nú er hann að mínu mati orðinn aðeins of gamall og of hægur til að geta stöðvað leikmenn á borð við Thierry Henry eða Craig Bellamy. Engu að síður kemur hann líklega með dýrmæta reynslu í þessa stöðu.

Ég persónulega hefði samt viljað sjá leikmann á borð við Gabriel Milito hjá Real Zaragoza, eða Olof Mellberg hjá Aston Villa, koma inn í þennan hóp. Eða Fabricio Coloccini, eða Samuel Kuffour. Bara svo að einhver dæmi séu nefnd.

En það gerðist ekki í bili og má aðeins lesa úr því að Benítez vilji gefa ungu miðvörðunum Zak Whitbread og Djimi Traoré séns á að sanna sig með liðinu áður en hann ákveður að láta öxina falla. Allt gott og blessað með það.

Eins og ég hef sagt áður þá er þetta tímabil umskiptinga hjá klúbbnum. Auðvitað setur Liverpool alltaf stefnuna á sigur í öllum keppnum/deildum sem klúbburinn keppir í en svo að ég noti heimsspeki Rafa Benítez þá á liðið bara að hugsa um einn leik í einu. Það eina sem skiptir máli er að vinna næsta leik.

Eftir á er síðan hægt að líta yfir farinn veg og sjá hverjir hafa spilað nógu vel til að geta áfram verið leikmenn toppliðs í Evrópu. Ég efast ekki um að einhverjir af þessum leikmönnum munu valda vonbrigðum, eiga slappa leiki og jafnvel verða seldir í janúar eða næsta sumar. Ég myndi veðja á Djimi Traoré, Steve Finnan eða Salif Diao sjálfur … en það sem skiptir máli núna er að Benítez geti myndað sér skoðun á þessum hópi næstu fjóra mánuðina.

Síðan hef ég fulla trú á að hann geri þær breytingar sem eru nauðsynlegar – annað hvort í janúar eða næsta sumar – til að liðið megi halda áfram að bæta sig. Öðruvísi komumst við aldrei í hóp “þeirra bestu”.

5 Comments

  1. Minn draumaleikmaður inn í þetta lið hefur lengi verið Pavel Nedved!

    Ég verð að lýsa yfir áhyggjum mínum yfir Steven Gerrard. Nárameiðsli geta verið langþráð og ég vona að hann verði ekki látinn spila með landsliðinu um helgina.

  2. hvaðahvaða, ekkert búið að koma hér í nokkra daga :O

    annars er ég sammála ykkur að mestu leiti

  3. Já Bjarki … það er landsleikjahelgi, sem þýðir algjört núll og nix hvað varðar Liverpool-fréttir. Ef einhver leikmaður klúbbsins myndi meiðast í landsleik myndi ég eflaust segja frá því, en ég nenni ekki að fara að skrifa einhverja samantekt um hverjir léku hvar. :confused:

    Þannig að fyrir mér er þetta ósköp eðlileg fréttaþurrð og í raun fínn tími fyrir mig að taka mér smá “frí” frá síðunni. Kem svo endurnærður inn í næstu viku um leið og við förum að telja niður að W.B.A.-leiknum… :biggrin:

  4. Gott mál, var farinn að svitna..

    Mjög flott síða sem ég kíki á í hverri netferð. Sehr gut

Ok, time to panic?

Vikufríi lokið!