Dregið í riðla í dag!

Liverpool-aðdáendur: verið velkomnir í Meistaradeild Evrópu veturinn 2004-05. 🙂

Þar sem liðið frá Bítlaborginni komst í gegnum forkeppnina og inn í riðlakeppnina verða augu okkar allra á UEFA á morgun (í dag, þar sem ég er að skrifa þetta eftir miðnætti). Þá verður dregið í riðla í Meistaradeild Evrópu og þau lið sem koma til greina eru sem hér segir:

1. flokkur: Porto (ríkjandi meistarar), Real Madríd, Valencía, Barcelona, Manchester United, Bayern Munchen, Deportivo la Coruna, Arsenal

2. flokkur: AC Milan, Liverpool, Juventus, Inter Milan, Roma, Lyon, Chelsea, Panathinaikos

3. flokkur: PSV Eindhoven, Bayer Leverkusen, Glasgow Celtic, Sparta Prag, Mónakó, Anderlecht, Ajax Amsterdan, París St Germain

4. flokkur: Rosenborg, Dinamo Kiev, Olympiakos, Werder Bremen, Shaktar Donetsk, Fenerbache, Maccabi Tel-Aviv, CSKA Moskva

Þetta verður rrrrrrosalega spennandi! Auðvitað er hver einasti leikur í svona keppni ótrúlega erfiður, en þó verður að viðurkenna að þarna eru sum lið erfiðari en önnur. Til að mynda gætum við lent í svokölluðum dauðariðli, þar sem við fengjum t.d. tvö heimsklassalið og síðan lið frá Austur-Evrópu. Dæmi:

Real Madríd – Liverpool – Ajax Amsterdam – Dynamo Kiev

Hins vegar gætum við orðið “heppnir” með dráttinn og fengið öllu þægilegri riðil, t.d. hvað varðar ferðalög (Austur Evrópa: slæm!, Skandinavía: góð! ) og getu liða. Dæmi:

Deportivo la Coruna – Liverpool – Anderlecht – Rosenborg

Það verður spennandi að sjá hvernig drátturinn verður. Skv. reglum UEFA mega lið frá sama landi ekki dragast saman í riðla þannig að við getum ekki mætt Arsenal eða ManU úr fyrsta styrkleikaflokki, auk þess sem Chelsea eru í sama styrkleikaflokki og við og mæta okkur því ekki í riðlum.

Hins vegar … þá eru mörg lið þarna sem við vildum eflaust forðast, en samt er það nú alltaf svo að maður mætir einmitt þeim liðum sem væri mest kaldhæðni í að þurfa að mæta. Dæmi um slík lið:

Real Madríd: Eitt nafn útskýrir af hverju við viljum helst sleppa við þetta lið í vetur: Michael Owen. Liverpool-aðdáendur eru með stórt hjarta en það er búið að berja svolítið á því í ágústmánuði. Það var erfitt að kveðja eftirlætissoninn … myndu menn ráða við það ef hann færi að skora gegn okkur? Ég held ekki!

Valencía: Rafa Benítez yfirgaf þá og kom til okkar í sumar og við erum búnir að styrkja okkur talsvert í leikmannamálum … en það skal ekki farið í neinar grafgötur með það að Valencía eru ennþá með talsvert öflugra lið en við. Auk þess er sjálfur Claudio Ranieri núverandi þjálfari Valencia og af öllum þjálfurunum í Meistaradeildinni – fyrir utan þjálfara ensku liðanna – þá þekkir enginn okkur betur en Ranieri. Þannig að þetta gætu orðið skelfilega erfiðir leikir.

Glasgow Celtic: Síðast þegar við mættum þeim unnu þeir okkur á Anfield. Martin O’Neill er farinn að gera það að vana að sigra Liverpool, bæði sem stjóri hjá Leicester og nú Celtic. Það er alltaf viss rómantík sem fylgir því að Liverpool og Celtic mætist en við höfum oft farið illa út úr þessum viðureignum. Þetta er lið sem ég vill helst forðast, allavega þar til komið er í útsláttarfyrirkomulagið eftir áramót.

Dynamo Kiev: Við höfum ekki mætt þeim áður í Evrópukeppni, allavega ekki síðasta áratuginn eða svo, en riddararnir frá Kænugarði elska fátt meira en að sigra ensk lið í Meistaradeildinni. Og það sem meira er – þeir eru virkilega góðir í að sigra ensk lið í Meistaradeildinni. Spyrjið bara Newcastle og ManU! Forðist eins og heitan eldinn!

Þannig er nú það. Þetta verður rrrrrosalega spennandi dráttur og ég vona að við verðum heppin með mótherja! Við þurfum svo á því að halda að komast upp úr riðlinum … það hlýtur að vera lágmarkstakmark liðsins!

Það er dregið í riðla kl. 16:00 að mið-Evrópskum tíma, sem útleggst sem 14:00 eða 2 eftir hádegi að okkar tíma. Ég mæli með að fólk hlusti á dráttinn í beinni á UEFA.com eftir hádegið á morgun, auk þess sem allir helstu fréttamiðlarnir munu uppfæra fréttir af þessu jafnóðum! Ég mun svo skrifa um riðilinn sem við fáum annað kvöld og spá í spilin. Þetta er svo spennandi að ég er að deeeyja! 😉

5 Comments

  1. Manni líður svona svipað og þegar maður var pjakkur að bíða eftir jólunum :biggrin:

    Annars verð ég að endurtaka hrifningu mína á þessari síðu. Algjör snilld!!

  2. Takk fyrir það, við leggjum okkur fram um að hafa þessa síðu ferska og opinskáa. Gaman að fá hrós fyrir vinnuna. :biggrin:

    Annars eru bara 2-3 tímar í útdráttinn núna … og ég er að faaarast úr spennu! Þetta er eins og að bíða eftir bikarúrslitaleik. Ef við lendum í svokölluðum dauðariðli þá verð ég svartsýnn á þessa riðlakeppni, tel það algjörlega nauðsynlegt að við verðum heppin með dráttinn!

    Oh, ég ætla bara að leggjast undir feld eða eitthvað þangað til búið er að draga. :blush:

  3. Ósammála. Held að Liverpool standi sig betur í sterkum riðli frekar en að þurfa að takast á við óþekktar stærðir rétt eins og basel um árið (gæsahúð!). Vona að við fáum Madrid strax!! Vinnum þá heima 2-0 og 1-1 úti :rolleyes:

  4. 26.09.2001 1 – 0 Dynamo Kiev Anfield Champions L. 1st Group Ph.

    16.10.2001 2 – 1 Dynamo Kiev Dynamo St. Champions L. 1st Group Ph.

    við höfum mætt Kiev tvisvar a.m.k. í sögunni

García og Alonso kynntir í dag! (uppfært)

Riðill A: