Owen til Real Madrid fyrir 8 milljónir punda

[BBC fullyrða](http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/teams/l/liverpool/3560542.stm) að Real Madrid og Liverpool hafi komist að samkomulagi.

Samkvæmt BBC, þá fer Michael Owen, einn besti framherji í Evrópu, til Real Madrid fyrir **8 milljónir punda** og [Núñez](http://www.realmadrid.com/web_realmadrid/templates/minisite/fichajugador.jsp?idpersona=2818).


Þannig að St. Michael er að fara. Auðvitað á maður að vera dapur yfir þessu öllu saman og að vissu leyti er ég það. En í fyrsta skipti í mörg ár, þá þurfum við ekki að treysta jafn rosalega mikið á Owen. Við erum með 3 frábæra framherja í Cisse, Baros og Sinama Pongolle og sá fjórði, Anthony Le Tallec er í láni.

Þegar allt kemur til alls, þá er mikið vit í þessu fyrir Liverpool einsog staðan er í dag. Liðið á greinilega enga peninga til að eyða í leikmenn, en það er öllum augljóst að það vantar miðjumann og hægri kantmann. Það var líka öllum augljóst að það hefði aldrei verið hægt að halda Cisse, Baros og Owen ánægðum.

Því er nokkuð vit í að láta Owen fara, því við eigum nóg af framherjum og nota peningana til að kaupa miðjumann, sem okkur vantar sárlega. Peningarnir, sem við fáum fyrir Owen og Murphy geta sennilega dugað til að kaupa FRÁBÆRAN, ungan miðjumann í Xabi Alonso og hægri kantmann í Luis Garcia.

Ef við gefum okkur að Liverpool hafi ekki átt neina peninga, þá eftir öll þessi skipti, misstum við Murphy og Owen en fáum í stað þeirra Xabi Alonso og Luis Garcia. Það eru, miðað við stöðu liðsins og styrkleika þess, góð skipti.

Auðvitað er það sorglegt að missa vinsælasta leikmann okkar (og þann, sem auðveldast er að markaðssetja), en samt er þetta ekki nærri því jafn svakalegt og ef að við hefðum misst Gerrard. Við náum okkur eftir Owen, alveg einsog þegar Fowler fór, eða Rush fór. Það kemur alltaf maður í manns stað og núna er komið að Milan Baros og Djibril Cisse.

Ég er samt ekki reiður útí Owen og vona virkilega að honum gangi vel hjá Madrid. Hann er búinn að gefa okkur óteljandi ánægjustundir. Við óskum honum alls hins besta. Vonandi tekst honum að slá Ronaldo eða Raúl útúr liðinu. Takist honum það eru honum allir vegir færir. Takist honum það ekki, verður ávallt litið á þessi skipti sem mistök. Ég mun þá allavegana bjóða Michael velkomin aftur til Liverpool og vona að aðrir Liverpool geri það líka, en falli ekki í þá gryfju að rakka Owen niður.

Michael Owen hefur verið uppáhals knattspyrnumaðurinn minn í 3-4 ár. Hefði einhver sagt mér fyrir viku að hann væri á leið frá Liverpool þá hefði ég aldrei trúað því. En svona gerist þetta í fótbolta. Því miður mun álit mitt á Owen breytast, þar sem ég er Barcelona aðdáandi og get ekki stutt Real Madrid leikmann. En samt, þá verður Owen alltaf í uppáhaldi hjá mér.

Það er ekki hægt að gleyma mörkunum gegn Arsenal, öllum mörkunum gegn Newcastle og öllum þeim óteljandi skiptum, sem hann bar þetta lið á herðum sér.

Ég legg til að menn sleppi því að úthúða Owen fyrir að hafa ekki gert eitthvað í samningamálunum eða fyrir að vilja meiri peninga eða allt slíkt.

Sleppum því og rifjum frekar upp öll þau skipti, sem hann bjargaði deginum fyrir okkur. Rifjum upp öll skiptin, sem hann vann leikina fyrir okkur, öll glæsilegu mörkin og öll tilþrifin. Það hefur ekki verið neitt sérstaklega gaman að vera Liverpool aðdáandi undanfarin ár, en Owen hefur þó ávallt gefið okkur ástæðu til að vera bjartsýn.


Spurningin núna fyrir Liverpool er: Hver á eiginlega að taka vítin? 🙂

6 Comments

  1. Owen mun verða sárt saknað en engin er ómissandi eins og þessi hrókering mun sýna.

    En þeir þrír sem efitir eru munu sýna að engin “þörf” er á Owen og þeir sem á eftir munu fylgja muna stympla sig ærlega inn,

  2. Ég óska Owen alls hins besta í framtíðinni og vona að honum gangi vel hjá Real Madrid en það er samt ekki laust við að maður sé með smá óbragð í munninum á þessu öllu saman því Owen er á vissan máta búin að draga okkur á eyrunum í eitt ár með þessi samninga mál. Fyrst var ráðgjafinn hans í fríi í nokkra mánuði, svo var það óvissan með CL, svo var með óvissan með Houllier, svo var það EM og núna þurfti hann að athuga það væri eitthvað vit í Rafa og öll þessi bið eftir svarinu hefur gert það að verkum að verðgildið hans er fallið um rúm 50%. Ef menn vilja virkilega skrifa undir nýjan samning þá það gert á no time.

  3. Ég er sáttur og vel það! Nú er bara að Herra Benitez fái Le Tallec aftur til baka úr láni…EÐA… við kaupum Mista!

  4. Og það er eitt sem við megum heldur ekki gleyma með Owen er að hann hafði það þó í sér að fara ekki á Bosman sem hefði getað tryggt honum miklu hærri laun fyrir vikið og núna getum við allavega “náð” okkur með 8 millur og hægri kantmann sem Benitez er víst búinn að vera að skoða í nokkurn tíma.

    En fyrst að Diof er kominn með númer gæti þá ekki bara vel verið að hann ætli að nota hann sem þriðja, fjórða senter í vetur ?? (hann er jú striker!)

  5. Frábært hjá honum, til hamingu Owen og gangi honum allt í haginn. Áfram Real og áfram LIVERPOOL!

Tveir Spánverjar á dag koma skapinu í lag (Uppfært!)

Benítez staðfestir söluna á Owen!